Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Eiríkur Jóhannsson

Burt með vondar venjur, bætum siðinn.

29. október 2017

Prédikun 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Guðspjall Matt.21:28-32.

Í dag er víða um land minnst siðbótar Lúters en þann 31. október þ.e.a.s. á þriðjudaginn kemur, þá munu vera liðin 500 ár frá því að Lúter negldi blað á kirkjudyrnar í hallarkirkjunni í Wittenberg. Á blaði þessu taldi hann upp 95 atriði sem hann taldi að þyrftu endurskoðunar við í kirkju þeirri sem hann lifði og hrærðist í og elskaði og hafði hann helgað líf sitt þjónustu við hana.
Venjur sem sitja fastar.
Við þekkjum það án efa flest að það er auðvelt að verða samdauna því sem gerist og gengur í manns nánasta umhverfi. Það liggur við að megi kalla það í eðli okkar að finnast eigin siðir og venjur góðir og gildir og tökum því oftast illa ef einhver fer að gagnrýna það sem við erum vön að ástunda. Þetta gildir eiginlega í bæði stóru sem smáu.
Hvað tengist hinu smáa þá má benda á og taka sem dæmi þann sið sem áður var að nota saltpétur eða nítrit þegar kjöt var saltað, þetta gerði það að verkum að kjötið varð fallega rautt, hvort heldur það var reykt eða bara saltað. Síðan kom í ljós að þetta efni var alls ekki heilsusamlegt, raunar eiginlega hálfgert eitur. Samt sem áður viljum við mörg hver enn nota það því að viljum halda í þennan fallega rauða lit á kjötinu. -Venja sem haldið er í jafnvel þótt hún sé í fullkominni andstöðu við heilbrigða skynsemi.
Í hinu stóra samhengi þar, sem meira er í húfi, má benda á viðhorf sem erfitt hefur reynst víða að breyta. Má þar nefna viðhorf til þrælahalds í mörgum löndum alveg fram undir nútíma. Sömuleiðis enn í dag, flokkun fólks eftir litarhætti og mismunun eftir kynjum og margt fleira mætti upp telja. Viðhorf sem sitja föst eins og lýs í hársverði í viðhorfum heilla þjóða. Jafnvel þótt öll heilbrigð skynsemi bendi í aðrar áttir. Byggjast oftast nær á þeirri ranghugmynd sem lýsa má með orðunum „við og hinir“. -Siðir og venjur sitja fastar í menningunni.

Niðurstaða fengin með fræðum.
Lúter hafði í sinni trúariðkun og fræðistörfum á sviði trúarinnar komist að ákveðnum niðurstöðum sem stönguðust á við afstöðu og túlkun stjórnenda kirkjustofnunarinnar. Þetta orkaði svo sterkt á hann að honum fannst hann ekki geta látið kyrrt liggja. Við skulum líka veita þvi eftirtekt að þetta var sannarlega ekki einfalt eða auðvelt mál. Það gat sem best kostað mann lífið að voga sér að gagnrýna yfirvöld, hvort heldur þau voru veraldlega eða andleg. Fordæmin voru þá þegar fyrir því að menn væru brenndir á báli fyrir það sem kallað var trúvilla. Þannig að þegar Lúter lætur til skarar skríða þá er hann um leið eiginlega að leggja líf sitt að veði.
Síðan kom í ljós að þessi sjónarmið sem Lúter varpaði þarna fram áttu mikinn hljómgrunn. Þarna hjálpaði mikið til og var kannski úrslitaatriði að prentlistin var nýlega til komin og þannig var strax farið að prenta smárit og snepla sem dreift var vítt og breitt. Það var því nánast eins og kveikt hafi verið í púðurtunnu. En stofnunin sjálf var svifasein og stirð í hreyfingum og heldur ekki vön því að þurfa að hlusta á gagnrýni, hafði ekki lagt mikla stund á það að horfa í eigin barm. Því fór sem fór að klofningur varð staðreynd, nokkuð sem ekki var ætlun upphafsmannsins. En þó fókus okkar sé á þann merkilega mann sem Martenn Lúter var þá liggur í augum uppi að hann var ekki einn í verki, margir merkir menn og konur líka lögðu þessari hugsjón lið að færa kirkjuna nær uppruna sínum.
Guðspjall dagsins á sömu nótum
Þegar við lesum og hugleiðum guðspjall dagsins þá sjáum við að það sem þar er verið að fjalla um er eiginlega algerlega á sömu slóðum og þessi hugleiðing okkar um siði og venjur og barátta Lúters við sína íhaldssömu trúarstofnun. Jesús leggur fyrir viðmælendur sína kunnuglega líkingu, í henni felst spurningin hvort sé heiðarlegra að segjast ætla að gera eitthvað en gera það svo ekki eða mögla og andmæla en drattast svo af stað og gera það sem maður er beðinn um að gera. Jú það er meira um vert að láta verkin tala. Sinna störfum sínum og skyldum þótt með tregðu sé það gert.
En þá kemur Jesús með sitt útspil gegn hinum sjálfbirgingslegu og fastheldnu valdamönnum. Þið heyrðuð sannleikann og mikilvægan boðskap sem Jóhannes bar fram, innsti inni vissuð þið að það sem hann sagði var rétt en þið völduð að láta það sem vindum eyru þjóta vegna þess að það hefði kallað á breytingu á lífsháttum ykkar og viðhorfum. Utangarðsfólkið sem engu hafði að tapa skildi og meðtók meðan þið elskuðuð meira ykkar þægilega líf.

Merking siðbótarinnar
Þannig er það að þessi litla dæmisaga Jesú er eins og sniðin fyrir þennan dag og þetta samhengi sem er minning siðbótarinnar.
Því hvað var siðbótin nema það að hugsa hluti upp á nýtt. Hafa kjark til að skoða það sem mótar tilveru manns með gagnrýnu auga og horfast í augu við það sem farið hefur úrskeiðis. Það sem fjarlægst hefur upprunann og er etv farið að þjóna sjálfu sér í stað þess að þjóna hugsjóninni sem í upphafi var lagt af stað með.
Hver er staðan í dag?
Er þetta ekki einmitt það sem við stöndum frammi fyrir nú, varðandi framtíð jarðarinnar? Sá lífsstíll sem við höfum tileinkað okkur er nú farinn að ógna öllu lífi og jafnvægi á jörðinni. Efnishyggja og sjúkleg eftirsókn í hvers kyns tæki og tól er gengin fram úr öllu hófi. Samt er það svo að við viljum ekki breyta, við tregðumst við gagnvart öllu sem máli skiptir. Friðum samviskuna með smáskammtalækningum. Það er í raun þessi íhaldssemi og tregða til breytinga sem er helsta hindrunin.
Það er alls ekki víst að hófsamara og einfaldara líf verði nokkuð verra, kannski bara miklu betra. Kannski myndi það draga úr spennu og togstreitu í samfélaginu ef hin sterka krafa um sýnilega velgengni yrði ekki eins sterk.
Siðbót enn á ný
Sú siðbót sem við þurfum nú er að þora að sleppa takinu á lífsháttum og hugsunarhætti sem við þekkjum og höfum vanist og stíga inn í nýja siði og venjur. Stíga inn í heim skapandi hugsunar og kærleika þar sem Jesús Kristur vísar veg. Þegar við höfum lagt þennan tilvistarlega grunn í nafni Jesú Krists þá munu hinar praktísku lausnir spretta fram, lausnir sem laða fram nýja og bjartari framtíð fyrir menn og skepnur í þessum heimi.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 991.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar