Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Eitt er nauðsynlegt

24. september 2017

Ég heilsa ykkur öllum í Jesú nafni. Amen.
Hver manneskja á sér sögu. Hvað það er sem mótar hana í gegnum lífið, hvað hefur áhrif á hana, uppeldi, umhverfi og aðstæður. Hver manneskja á sér líka sinn persónuleika. Eiginleikar sem koma jafnvel í ljós strax við fæðingu og geta verið mjög ólíkir hjá fólki. Mismunandi skapgerð, lundarfar, mismunandi þörf fyrir félagsskap, mismunandi virkni o.s.frv. Saga okkar mótar síðan persónuleika okkar, en persónuleiki okkar mótar ekki síður sögu okkar. Við höfum nefnilega sjálf heilmikið val um það hvernig við vinnum með okkar ytra umhverfi, hvort við leyfum því sem kemur fyrir okkur að hafa áhrif á okkur til góðs eða ills.
Við vitum að í systkinahópi getum við fundið mjög ólíkar manngerðir. Systkini sem alast upp við sömu aðstæður geta verið gerólík. Enda vil ég leyfa mér að segja að ekkert systkini elst upp við nákvæmlega sömu aðstæður og hin systkinin. Bara það í hvaða röð manneskja er í systkinahópnum hefur áhrif á uppeldisaðstæður hennar.

Í guðspjallstexta dagsins, um systurnar Mörtu og Maríu, sjáum við glögglega ólíka persónuleika innan systkinahópsins. Við fáum aðeins að kynnast þessari fjölskyldu í guðspjöllunum, þær systur koma einnig fyrir í Jóhannesarguðspjalli, ásamt bróður þeirra, Lasarusi, sem Jesús reisir upp frá dauðum, auk þess sem María er þar sögð sú sem smyr Jesú með dýrum smyrslum sem eins konar greftrunarathöfn. Í öllum þessum frásögnum er það Marta sem er hin jarðbundna, drífandi, praktíska driffjöður. (og ég ætla að leyfa mér að giska á að hún sé eldri systirin) Hún þjónar til borðs, hún kemur út á móti Jesú þegar hann kemur til Betaníu til að reisa Lazarus upp frá dauðum, og eins praktísk og hún nú er, þá finnur hún öll tormerki á því að gröf Lazarusar sé opnuð, þegar Jesús skipar svo fyrir, því að það sé komin nálykt af honum. Og Marta hefur mjög ríka réttlætiskennd, og hikar ekki við að hafa orð á því við Jesú, þegar henni finnst María svíkjast um. Orðaskipti Jesú við Mörtu einkennast af skynsemishyggju hennar og því hversu jarðbundin hún er, á meðan samskipti Jesú við Maríu einkennast af því að María er hæglát, tillfinninganæm og íhugul. Þannig grætur Jesús með Maríu við gröf Lazarusar, en við Mörtu ræðir hann guðfræði upprisunnar.

Já, þær eru ólíkar systurnar, Marta og María, en það kemur skýrt fram í guðspjöllunum að Jesús elskaði þær báðar. ( Jóh. 11:5).
Sagan af samskiptum Mörtu við Jesú í texta dagsins hefur verið misjafnlega túlkuð í gegnum tíðina. Margt fólk hefur skilið hana þannig að Jesús líti með meiri velþóknun á það að sitja og íhuga Guðs orð, heldur en að vera virkur í lífinu og koma hlutunum í verk, það má leiða að því getum að þessi saga hafi m.a. styrkt þá hugmynd að klausturlíf kvenna væri æðra hjónabandi og fjölskyldulífi, eins og varð raunin á miðöldum og lengur, og eru orð Jesú um að María hafi valið góða hlutann þá túlkuð á þann veg.

Aðrar manneskjur hafa bent á að sagan af Mörtu og Maríu sé kannski ein af þeim sögum sem gagnast konum hvað best í þeirra frelsisbaráttu undan staðalmyndum kynjanna. Þarna er Marta hin týpíska húsmóðir, hún gengur um beina og fárast yfir systur sinni, sem tekur ekki þá ábyrgð sem henni ber sem kona. En Jesús samþykkir það undanbragðalaust að María setjist við fætur sér og taki sér þannig stöðu með karlkyns lærisveinum hans. Hvílík frelsun það er fyrir konur að eiga svona sögu í Biblíunni! Og reyndar eru þær fleiri, sögurnar þar sem Jesús sýnir það svart á hvítu að hann samþykkir þær sem jafningja og jafnoka karlmanna og brýtur þar með upp ævafornar hugmyndir fólks um stöðu og hlutverk kvenna. Og þá eru orð Jesú um að María hafi valið sér góða hlutskiptið túlkuð á þann veg að konur hafi val, þær geti sjálfar valið sér hlutskipti. - En verðum við þá ekki að túlka orð Jesú þannig að það sé betra hlutskipti að sitja við fætur Jesú og íhuga, heldur en að sinna hinum hefðbundnu kvennastörfum, sem eru þrátt fyrir allt enn þann dag í dag hlutskipti flestra kvenna?
Vinkona mín sagði einu sinni við mig að hún ætti erfitt með að skilja orð Jesú til Mörtu, og bætti því við að eiginlega ætti hún erfitt með að fyrirgefa honum þessi orð, því henni fannst Jesús með þessu gera upp á milli systranna, og gera minna úr hlutskipti Mörtu. Ég get alveg fallist á það að við fyrstu sýn lítur það þannig út. En ég held að það sé dýpri merking að baki. Merking sem tengist ólíkum persónuleikum Maríu og Mörtu, persónuleikum sem eru óvenju skýrt dregnir upp í guðspjöllunum.
Lykilinn tel ég að finna í orðum Jesú: Marta, Marta. Þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu.

Jesús þekkir Mörtu. Hann veit að hún er dugleg, jarðbundin og umhyggjusöm. En hann veit líka að hún er stjórnsöm. Hún telur sig vita betur en aðrir og hún hefur sterkar skoðanir á því hvernig aðrir eiga að lifa lífi sínu. Alla vega María systir hennar. Og kannski er hún svo mikill besserwisser að hún þröngvar upp á Jesú umstangi sínu og þjónustu án þess að hann kæri sig nokkuð um það. Kannski vildi Jesús ekki þessa fyrirhöfn. Kannski var Marta að sýna honum umhyggju á sínum eigin forsendum, í stað þess að setjast niður og hlusta, hlusta eftir því hvað það var eiginlega sem lá Jesú á hjarta.

Eitt er nauðsynlegt, segir Jesús. Hvað ætli það sé? Þessi setning er svolítið torræð, því Jesús útskýrir ekki beint hvað hann á við. En ég held að hann hafi átt við það að Mörtu sé nauðsynlegt að staldra aðeins við, láta af stjórninni og hætta að skipta sér af því hvernig aðrir lifa lífinu. Góða hlutskiptið sem María valdi sér var ekki það að snúa baki við heimilisstörfunum og taka sér stöðu með lærisveinum Jesú. Góða hlutskiptið var að hún leyfði sér að vera sú sem hún var, án þess að vera með samviskubit yfir því, og án þess að hægt væri að taka það frá henni.

Jesús þekkti bæði Mörtu og Maríu. Hann vissi hvers þær þörfnuðust, og hann virti þær báðar. Hann reyndi ekki að breyta Mörtu, heldur mætti henni á hennar eigin forsendum, um það ber frásögnin af samskiptum þeirra við gröf Lazarusar vitni. En hann benti Mörtu á, að þrátt fyrir allar hennar áhyggjur og mæðu, þá yrði hún að sleppa stjórninni, leyfa öðrum að lifa sínu lífi, og hefjast frekar handa við að fylla sitt eigið líf af góðum og jákvæðum hlutum. Jesús ætlaðist ekki til að Marta skipti um persónuleika, og hann vissi hvað hafði mótað hana, en hann benti henni á að það væri í hennar valdi að velja sér hlutskipti í lífinu, en lengra næði það ekki, María systir hennar hafði sjálf þetta vald í sínu lífi.

Og við höfum öll þetta vald í okkar eigin lífi. Hvaða hlutskipti viljum við velja okkur? Viljum við setjast við fætur Jesú, nota lífið til að byggja okkur upp, leyfa ekki áhyggjum og mæðu að ná tökum á okkur og taka Pál postula okkur til fyrirmyndar þegar hann segir í pistli dagsins,„allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir”. Eða viljum við eyða lífinu í það að hafa skoðanir á því hvernig aðrir lifa lífinu, hafa áhyggjur og mæðast yfir hlutum sem okkur koma ekki við og við höfum enga stjórn á?
Hvað er það eina sem er nauðsynlegt í þínu lífi? Leyfir þú þér að taka frá tíma í erli dagsins til að setjast niður og safna þér saman, endurnærast af anda Guðs, og þiggja styrk frá honum? Veldu góða hlutskiptið, hlutskipti frelsis, gleði og samfélags í kærleika við Guð og náungann.
Dýrð sé Guði, amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1919.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar