Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Susan Christine Johnson

Trúin læknar

6. nóvember 2016

Matt. 9.18-26

Náð sé með ykkur og friður í nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Það er mér heiður að vera með ykkur í dag og ég færi ykkur kveðjur frá systrum og bræðrum í Kristi tilheyrandi þeim hluta fjölskyldu Guðs sem ég þjóna, þ.e. evangelísk-lúthersku kirkjunni í Kanada.

Í guðspjalli þessa dags heyrum við texta sem kalla mætti lækningasamloku. Það sem ég á við er að þessi texti Matteusarguðspjalls hefst á því að forstöðumaður samkunduhússins biður um lækningu fyrir dóttur sína. Er Jesús er á leiðinni til þess að verða við beiðni mannsins, stígur kona nokkur fram og snertir klæðfald Jesú í von um lækningu. Og að lokum heldur Jesús ferð sinni áfram og læknar ungu stúlkuna.

Stundum eigum við í kirkjunni í erfiðleikum með lækningafrásagnir á borð við þessar. Við köllum slíkar lækningar kraftaverk, og við þökkum fyrir undursamleg inngrip Guðs. En vandinn hefst þegar fólk er veikt og horfist í augu við dauðann, biður um lækningu en kraftaverkið lætur á sér standa. Þá erum við skilin eftir með þá tilfinningu að Guð sé býsna vandfýsinn á það hvenær og hvernig Guð kýs að svara bænum með kraftaverkum. En í slíkum þankagangi hvílir áherslan öll á verkum Guðs og það kann að virðast sem Guð bregðist við með tilviljanakenndum hætti eða þá að við sitjum eftir með þá hugmynd að Guð hafi af eigin ásetningi kosið að verða ekki við beiðni um lækningu. Slíkt er ekki mjög gefandi og í sannleika sagt er sambandi okkar við og trausti á Guð stefnt í hættu.

Annar vandi sem slík hugsun orsakar felst í því að einblína á trú þess einstaklings sem biður um lækningu. Svo vikið sé að texta dagsins, þá búa forstöðumaðurinn og konan með blóðlátin augljóslega yfir mikilli trú og á þeim grunni var orðið við beiðni þeirra um lækningu. En ég veit um fólk sem bjó yfir mikilli trú en þjáðist samt og dó af völdum sjúkdóma eða hefur þurft að sætta sig við að ekki hafi verið brugðist við bænum þeirra, að því er virðist. Og þegar slíkt gerist getur fólk lent í trúarkrísu og farið að hugsa sem svo að hefði það aðeins beðið af meiri krafti eða trúað heitar, þá hefði fengist var við bón þeirra um lækningu.

Ég mun ekki kynna neina lausn á þessum þungu þrautum hér í dag. Persónulega þá held ég áfram að biðja fyrir lækningu einstaklinga og heimsins alls og treysti á gæsku Guðs óháð tímasetningu eða útkomunni hverju sinni.

Í staðinn langar mig að beina sjónum að hugrekki forstöðumannsins og konunnar með blóðlátin sem gerði þeim kleift að viðurkenna að þau væru líknar þurfi og biðja um hjálp. Hugsið ykkur hugrekki samkunduleiðtogans sem flýtti sér á fund Jesú til þess að biðja um lækningu fyrir dóttur sína, þó hún væri dáin – fólk hlýtur að hafa talið hann brjálaðan. Hugsið ykkur hugrekki konunnar sem hafði þjáðst af blóðlátum um ára skeið. Hún rétti fram höndina til að snerta Jesú og vogaði sér að brjóta hreinleikareglur Gyðinga í þrá sinni eftir lækningu.

Ég held að stundum þurfi mikið hugrekki til þess að viðurkenna þörf okkar fyrir lækningu. Þrátt fyrir að umræða um líkamleg mein hafi aukist og opnast á síðustu árum þá grúfir oft meiri þögn yfir annars konar þörf á lækningu. Enn í dag eru geðræn vandamál of oft tengd skömm. Og enn
eru ýmiss konar samskiptamein, einkum þegar kemur að heimilisofbeldi, hulin leyndarhjúpi, stundum af ótta við frekara ofbeldi.

Stundum hugsum við ekki á nægilega breiðum grunni um það sem þarfnast líknar í kringum okkur. Lofið mér að deila með ykkur nokkrum atriðum sem í mínum huga eru lækningar þurfi.

Í síðustu viku komu Lútherska heimssambandið og rómversk-kaþólska kirkjan saman í dómkirkjunni í Lundi til sameiginlegs bænahalds. Við gengumst við ágreiningi liðinna tíma og viðurkenndum þá lækningu sem átt hefur sér stað og þá einingu milli kirknanna tveggja sem við stefnum að. Það er stóreflis skref í átt að fullum sáttum, en það eru enn fletir á sambandi kirkna okkar sem eru í þörf fyrir lækningu.

Í Sýrlandi, Írak, Suður Súdan, Jemen og víða annars staðar, erum við í þörf fyrir líkn frá ofbeldi og bardaga.

Á sama tíma og heimurinn býr sig undir næsta fund aðildarríkjanna, minnumst við þess að umhverfið er í þörf fyrir lækningu og að binda þurfi enda á umhverfisspjöll.

Í mínu eigin heimalandi, Kanada, höfum við viðurkennt þörfina fyrir lækningu í samskiptum okkar við innfædda – þörfina fyrir lausn frá nýlendustefnu og kerfislægum kynþáttafordómum.

Í minni eigin kirkju erum við knúin til að takast á við þær áskoranir sem minnkandi umsvif valda okkur, bæði hvað snertir fjárráð og fjölda starfsfólks. Við þurfum að læknast af sjálfsánægju og losa okkur frá ósjálfbærum kerfum og í stað þess að vera upptekin af okkur sjálfum ættum við að fagna hlutverki okkar í boðunarstarfi Guðs í heiminum.

Stundum er fyrsta skrefið í átt að lækningu fólgið í hugrekkinu sem það tekur að viðurkenna að við séum líknar þurfi, og hluti af því er að blása auknu lífi í bænir okkar fyrir sjálfum okkur, hverju öðru og heiminum okkar. Stundum uppgötvum við það hlutverk sem Guð ætlar okkur þegar við göngumst við þörfinni fyrir lækningu í kringum okkur – í baráttunni fyrir samúð, réttlæti og friði. Og stundum njótum við þeirrar blessunar að sjá kraftaverk miskunnarinnar og tákn um kærleika Guðs á vegferð okkar, jafnvel þó þau birtist okkur ekki alltaf í þeirri mynd sem við bjuggumst við er við leituðum lækningar fyrst.

Hvar ert þú lækningar þurfi? Í lífi þínu? Samböndum þínum við aðra? Í nærsamfélagi þínu? Í kirkjunni þinni?

Biðjum:
Líknarinnar Guð, við berum fram fyrir þig þörf okkar fyrir lækningu. Lækninguna sem við vitum að við þurfum á að halda og lækninguna sem við óafvitandi þörfnumst. Hjálpaðu okkur að stuðla að lækningu fólksins í kringum okkur og vera staðföst í bænum okkar fyrir okkur sjálfum, fjölskyldum okkar, kirkjunni okkar og heiminum okkar. Amen.

Þýðing: Haraldur Hreinsson

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1847.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar