Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Já, Kain!

22. ágúst 2016

Ég á tvo syni, sem eru fæddir með tveggja og hálfs árs millibili. Þeim kemur saman eins og gengur, stundum eru þeir bestu vinir, stundum rífast þeir eins og hundur og köttur, og stundum einfaldlega hatast þeir. Orð eins og„Ég vildi að þú værir ekki bróðir minn!” eða„Ég vildi að ég ætti engan bróður” heyrast stundum, og þá fæ ég sting í hjartað. Því að það er ekkert sem ég þrái heitar en að þeir tveir verði nánir félagar og vinir í framtíðinni. Að þeir geti treyst hvor á annan og muni deila lífi sínu hvor með öðrum. (og að sjálfsögðu eldri bróður sínum, sem er 20 árum eldri). Því að það er ekki sjálfgefið að systkini eigi gott samband á fullorðinsárum, það hef ég oft séð. Stundum verða algjör vinslit og jafnvel fjandskapur og það er einhvern veginn miklu sárara að horfa upp á það en fjandskap milli ótengds fólks.

Oftast er hægt að kenna einhvers konar óheilbrigðri samkeppni um það þegar systkinarígur verður óbærilegur. Samkeppni um hylli foreldranna, samkeppni um viðurkenningu og hrós, og samkeppni um gæði. Hvor fær stærri hluta af kökunni. Ég gekk einu sinni út úr Hagkaup með tvær 17. Júní rellur, nákvæmlega eins, nema það að ég áttaði mig á því þegar ég var komin út í bíl, að önnur var með gulu skafti en hin grænu. Ég fór inn og skipti, því ég vissi að annars yrði rifrildi.

Það er engin tilviljun að í textum dagsins skuli tveimur af þekktustu sögum Biblíunnar vera stefnt saman. Annars vegar af bræðrum sem berjast. Berjast um hylli Guðs, berjast um viðurkenningu, og annar fer með sigur af hólmi, en tapar í leiðinni lífi sínu. Hins vegar sagan af miskunnsama samverjanum, útlendingnum, sem þegar allt kemur til alls, reynist meiri náungi en þeir sem ættu að standa nauðstadda manninum næst. Þessar sögur túlka nefnilega hvor aðra.

Um daginn fylgdumst við með mótmælum á Austurvelli. Kannski tóku einhver ykkar þátt, ég veit það ekki. En þarna voru tveir hópar á ferð. Annars vegar þögul mótmæli Þjóðfylkingarinnar gegn nýjum útlendingalögum, sem þau telja að opni leið fyrir enn fleiri útlendinga að setjast að á Íslandi. Hins vegar samstöðumótmæli með útlendingum og flóttamönnum sem samtökin No Borders stóðu fyrir. Og um leið andmæltu þau mótmælum hinnar fylkingarinnar. Þarna stóðu þessir hópar andspænis hvor öðrum, áttu einhver orðaskipti, og það kom til einhverra smávægilegra átaka. Bræður að berjast. Samlanda bræður og systur, sem ekki eru sammála. Annar hópurinn hræddur um kjör sín og aðstæður ef fjölgar í landinu, hræddur um að aðrar skoðanir en þeirra eigin verði ofan á, njóti meiri hylli, hræddur við breytingar, hræddur við það sem er framandi. Hinn hópurinn, óttast málflutning Þjóðfylkingarinnar, er honum andvígur og vill standa gegn honum, vill deila kjörum með útlendingum, vill benda á að ekki sé hægt að beina óttanum að heilum hópi fólks, sem ekkert hefur til saka unnið nema vera fórnarlömb stríðs.

Sögurnar um Kain og Abel, og miskunnsama Samverjann túlka hvor aðra. Fáir þekkjast eins vel og bræður. Bræður sem hafa deilt móðurkviði, uppvexti, kjörum, ást og umhyggju foreldra sinna. Og samt berjast bræður. Og systur. Um allan heim. Líka á Íslandi. Berjast um gæði, viðurkenningu, berjast um réttmæti ákveðinna skoðana, og stundum endar þessi slagur með að annar drepur hinn.

Jesús segir dæmisöguna um miskunnsama Samverjann til að minna áheyrendur sína á að það að vera útlendingur, það að vera framandi, það að hafa annan uppruna, aðra trú, aðrar skoðanir, annan húðlit, er ekki í sjálfu sér ástæða til að óttast. Illskan felst ekki í sjálfu sér í því sem er framandi, við finnum illskuna líka heima hjá okkur, því að illskan er hluti af mannlegri tilveru, mannlegum kjörum og raunveruleikanum sem við lifum við. Við erum í sífelldri samkeppni. Samkeppni um lífsgæði, samkeppni um hylli skoðana okkar, samkeppni um viðurkenningu. Og þegar þessi samkeppni verður óheilbrigð, þegar tortryggni og fjandskapur ná yfirhöndinni, berjast bræður og systur. Berjast heilu þjóðirnar jafnvel innbyrðis. Því að það að hafa einsleitt samfélag, það að ætla að útiloka hið framandi frá samfélaginu okkar, er engin trygging fyrir friði og velmegun. Það að ætla að útiloka hið framandi frá samfélaginu okkar bendir einmitt til ótta og sjálfselsku, sem ein og sér er hættuleg og eyðileggjandi.

Á ég að gæta bróður míns? spyr Kain. Já, Kain, þú átt að gæta bróður þíns. Jafnvel þegar bróðir þinn fær meira en þú. Jafnvel þegar hann nýtur meiri hylli en þú. Jafnvel þegar þér finnst þú verða útundan. Jafnvel þegar þú ert svo gegnsýrður af afbrýðisemi að þig langar helst að drepa bróður þinn. Þá áttu að gæta hans. Og bróðir þinn, hver er það? Það er hver sú manneskja sem þú mætir og þarf á hjálp að halda. Það er gamla fólkið okkar. Öryrkjarnir okkar. Veika fólkið okkar. En líka hver sú manneskja sem liggur óvíg eftir árás ræningja, er í sárum vegna stríðs, hefur verið rænd, heimili, ástvinum, öryggi, Það er systir þín, það er bróðir þinn. Hvort sem þú þekkir þau eða ekki. Hvort sem þú hefur sömu skoðanir, sömu trú. Þú átt einfaldlega að gæta bróður þíns.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1801.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar