Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Stígur Reynisson

Veisluhöld í víðum skilningi

10. júlí 2016

Náð sé með yður og friður í Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Veislur eru dásamlegar. Það er fátt betra en að eiga gott samfélag með góðu fólki yfir góðum mat. Eiga uppbyggilegar og skemmtilegar samræður sem geta verið jafn mikil veisla fyrir sálina eins og maturinn er fyrir líkamann. Orðið veisla hefur að geyma víða merkingu. Veisla eða boð, hátíð, teiti, partí, samkvæmi eða einhver annar samnefnari yfir svona gleðskap er reglulega notaður við ýmiss tilefni. Við heyrum orðið veisla reglulega í auglýsingum þar reynt er að sannfæra okkur um ágæti einhvers hlutar. Við tölum líka um að eitthvað hafi verið algjör veisla þegar við upplifum eitthvað fjörugt og skemmtilegt. Hinir ýmsu viðburðir eru sagðir vera veislur og í því tilliti má segja að sumarið í ár sé algjör veisla fyrir íþróttaáhugamanninn. Nú undanfarin mánuð hefur Evrópumótið í knattspyrnu verið í Frakklandi þar sem veisluborðið hefur verið hlaðið góðgæti í skilningi knattspyrnunnar. Veisluborðið mun svo svigna í ágúst þegar Ólympíuleikarnir fara fram í Ríó þar sem meira en 10.000 keppendur frá um 200 löndum munu keppa í 28 íþróttagreinum.

Hinsvegar mætti skilja Lexíu dagsins þannig að Guð láti sér fátt um finnast um þessa gerð af veislu, en þar segir: „Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins, hrífst ekki af fráum fótum mannsins.“ Þessi texti virðist segja okkur að Guð samfagni ekki með íþróttamönnum og -konum. Gleðst hann þá ekki yfir styrk íþróttafólksins, þeim viljastyrk sem þau sýna til að ná árangri og mikilvægi þess að vera öðrum góð fyrirmynd í lífinu? Jú, hann gerir það svo sannarlega. En hann setur íþróttirnar ekki í forgang. Ef lesið sé áfram í lexíunni má sjá hverjir það eru sem eiga forgang hjá Guði. Lesum aftur og nú aðeins lengra: „Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins, hrífst ekki af fráum fótum mannsins. Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann, þeim sem setja von sína á miskunn hans.“

Já þeir sem óttast Guð eða trúa á hann eru í fyrsta sæti hjá honum óháð hver íþróttaafrek þeirra séu. Þeir setja von sína á miskunn hans. Já þegar kemur að því að við mætum Guði þá getum við ekkert annað en vonað. Við getum haft okkar skoðanir á lífisins gagni og nauðsynjum en þegar kemur að efsta degi þá fáum við engu ráðið. Hann einn dæmir lifendur og dauða. En eitt þurfum við ekki að óttast og getum verið viss um, en það er að hann dæmir okkur útfrá kærleika. Hann horfir djúpt í augu okkar, hann sér hjarta okkar, það skiptir hann engu máli hvort við getum hlaupið hundrað metrana undir 10 sekúndum líkt og Usain Bolt eða sigrað Evrópukeppnina í knattspyrnu. Svo lengi sem við sýnum kærleika og trúum, þá erum við hólpin. En það að trúa á Guð eiga ekki að vera innantóm orð. Við sem trúum á Guð eigum að fara eftir því sem hann hefur kennt okkur. Það að segjast trúa á Guð en fara ekki eftir því sem hann hefur boðað, elsku hans á manninnum og umhverfi er ekki hin sanna trú á Guð. Fyrirmynd okkar að heilbrigðri trú á Guð er að finna í honum sem hefur unnið stærsta sigur sögunnar. Þá er ég ekki að tala um Mohammad Ali eða Diego Armando Maradona. Sigur Jesú Krists á dauðanum með upprisu sinni er stærsti sigur sem unnist hefur á jörðinni. Jesús er því sannur Heimsmeistari, heimsmeistari sem sýnir okkur hver Guð er og hvað hann getur gert. Frásagnir um Guð er hægt að finna í Nýja testamentinu í gegnum Jesú Krist. Guð sem vann kærleiksverk, sýndi enga fordóma, brást illa við órétti en stóð með sannleikanum. Guð sem tók sér stöðu fyrir framan hina fordæmdu og þá sem litið var niður á. Fólk sem allajafna var ekki boðið í dýrar og flottar veislur.

En veislur þurfa heldur ekki að vera dýrar og flottar. Það fór allavega ekki mikið fyrir flottheitunum í guðspjalli dagsins. Guðspjallstextinn þennan sunnudag er síðari mettunarfrásögnin í Markúsarguðspjalli en nokkru áður hafði Jesús mettað 5000 karlmenn, þannig að það er ekki óvarlega athugað að fjöldinn þar hafi verið, með konum og börnum, hátt í keppandafjöldi Ólympíuleikanna eða um 10.000 manns.

Í þessari frásögn er talað um 4000 manns, sem er um það bil sami fjöldi og býr í Vestmannaeyjum. Hafði sjá fjöldi komið saman til að hlýða á orð Jesú og vera vitni af kraftaverkum hans. Þetta fólk, sem var á öllum aldri og báðum kynjum, var ekki með mikinn mat meðferðis og þegar Jesús sér matarskortinn kennir hann í brjóst um þau. Hann sér þjáningarnar, upplifir hungrið með þeim og hann spyr lærisveina sína hversu mörg brauð þeir séu með. Svarið, sem eflaust var sagt í frekar lágum og hikandi tón, var sjö. Sjö brauð, það myndi aldrei duga fyrir 4000 manns, það vissu lærisveinarnir og það vitum við. En Jesús bað þá og hina 4000 að fá sér sæti. Hann steig fram til þeirra, tók fram brauðin sjö og einnig fáeina fiska. Hann braut brauðin, gerði þakkir og gaf lærisveinum sínum til að þeir bæru fram matinn til mannfjöldans. Þó að þetta hafi ekki verið merkilegur matur, per se, þá eflaust leit hungraður mannfjöldinn á þetta sem veislu. Já veislur hafa ekki endilega að geyma fjöldann allan af mismunandi mat og drykk. Nei það sem gerir góða veislu eru þeir sem sitja með okkur meðan við borðum.

Þegar gengið er til altaris á sunnudögum er verið að bjóða í veislu og veisluhaldarinn er Jesús Kristur. Hann tekur móti okkur og vísar okkur til sætis. Líkt og í guðspjalli dagsins þá færir hann okkur mat og drykk. Meðan við dveljum við borð Drottins er hann tilbúinn að hlusta á hvað við höfum að segja. Og ekki bara þar heldur allsstaðar þegar við þurfum og viljum ræða við hann. Hann er alltaf til staðar fyrir okkur.

Fyrir um 2000 árum þá steig Jesús fram og mætti þörfum fólksins. Hann sá þarfir þess og þjáningu og vildi aðstoða það. Hann steig inn í aðstæðurnar og mætti fólkinu. Hann fór ekki að spyrja sig né aðra ástæðuna af hverju hlutirnir höfðu æxlast á þennan hátt, hann kenndi engum um matarskortinn. Hann bara framkvæmdi. Hann sá fólkinu fyrir næringu en það var svo undir því komið hvort það þáði hana eða ekki.

Það sama á við okkur, í dag. Jesús sér þarfir okkar og upplifir aðstæðurnar. Hann er tilbúinn að hjálpa okkur ef við óskum eftir því. Hann spyr okkur ekki af hverju við erum búin að koma okkur í þær aðstæður sem við erum í. Það skiptir hann heldur engu máli er af hvoru kyninu við erum, af hvaða kynþætti eða hvort við séum afreksfólk í íþróttum. Svo lengi sem við trúum á hann og trúum því að hann geti aðstoðað okkur þá mun hann gera það.

Þegar við göngum til altaris á eftir skulum við eiga þar stund. Við skulum njóta næringarinnar sem Jesús færir okkur og við skulum eiga stund með Jesú, nærumst á líkama og sál. Opnum hjarta okkar og leyfum honum að aðstoða okkur í þeim verkefnum sem framundan eru því með Jesú okkur við hlið er sigurinn vís.

Amen.

Sálm 147.1-11
2. Kor. 9.8-12
Mark 8.1-9
Útvarpsmessa frá 10.07.2016

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2389.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar