Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Sáttin um ógeðsleikann

1. maí 2016

Er það ekki með þig eins og mig þegar birtan vex og vorið er á næsta leiti að hugurinn leitar á vissa staði? Ég á mér ýmsa uppáhalds sumarstaði sem ég samfagna á vorin. Bústaður stórfjölskyldunnar í Svínadal kemur upp í hugann með sínu kræklótta sjálfsprotna birki. Ég held með íslenska birkinu. Jökulfirðirnir fyrir vestan sem brátt losna úr vetrarviðjum og heilsa sumri eru mér hugfólgnir, líka Heimaey þar sem vorið kemur með ilmi af hafi og farfuglasöng og eins æðarvarpið í Laufási við Eyjafjörð þar sem ég hef í nokkur skipti á ævinni fengið að koma að vori þegar kollurnar liggja á eggjum sáttar við hlutskipti sitt í dúnmjúkum hreiðrum í skjóli gamalla hjólbarða. Undarleg og áleitin þessi ólgandi værð sem vorinu fylgir þegar lífið vaknar og byltir sér í sátt og unaði.
- Og nú er aftur vor, áttunda vorið frá því reiðin hóf innreið sína í íslenskt samfélag. Hugsaðu þér það; núna er að vaxa upp kynslóð sem ekki man tímann áður en reiðin hófst. Fyrstu þrír bekkir grunnskólanna; sex ára, sjö ára og átta ára krakkar eru allt börn sem fæddust inn í þjóðfélagið eftir að reiðin varð almenningseign. Reiðin grúfir yfir samfélagi okkar líkt og skýjaklakki yfir Esjunni í þrálátri norðanátt.

Reiðin hrundi inn fyrir átta árum en all nokkru fyrr kom hótunin. Hótunin!? Já, mörg okkar muna þá tíð þegar hótunin var bara í höndum tveggja aðila. Vestan megin stóðu Bandaríkin, austan megin Sovétríkin og í símaskráinni sem lá undir borði í forstofum landsmanna voru leiðbeiningar hvernig bregðast skyldi við ef kjarnorkusprengjunni yrði varpað. Hótunin var ekki í höndum annarra en þessara tveggja stórvelda. Og nú þegar múrinn milli austurs og vesturs er fallinn en alnetið komið í gagnið, þegar tími aðgreiningarinnar er liðinn en tími altengingarinnar tekinn við, - hvað höfum við þá? Við höfum ekki lengur forseta Bandaríkjanna og Rússlands hvorn á sínum enda línunnar með lífið í lúkunum. Nú eru bara allir á netinu og enginn við stjórnvölinn, auk þess sem margar stærstu valdablokkir heimsins eru ekki lengur ríki heldur andlistlausar samsteypur. Andlitslausar samsteypur iðka nafnlaus viðskipti án tillits til almannahags eða hagsmuna vistkerfisins og frá 11. september 2001 eru andlitslaus hryðjuverk orðin hluti af veruleikanum. Hótunin sem áður var tveggja turna tal og mafían undantekningin sem sannaði regluna birtist okkur nú í formi margslunginnar handrukkaramenningar og leyndarviðskipta sem orðin eru siður í landi svo að vísasta leiðin til að missa æruna er ekki lengur drykkja og svall, heldur viðskipti og stjórnmálaþátttaka. Í þessu öllu upplifir almenningur sig líkt og æðarfuglinn í Laufáshólmum, - lífið er bara alveg sæmilegt hjá flestum en það kemur alltaf einhver og hirðir dúninn.

Það segir mikla sögu að þegar virtur fjölmiðlamaður kominn að starfslokum hrópar út þá staðhæfingu að þetta sé ógeðslegt samfélag, þá vekur það enga umhugsun heldur taka menn því sem gagnlegri greiningu á veruleikanum. Þótt enginn skilji samfélagið skilja allir að það muni vera ógeðslegt. Og flökkusagan um pípulagningamanninn sem á dögunum neitaði að taka verk fyrst ekki væri borgað undir borðið en sást síðan í fremstu víglínu á Austurvelli að mótmæla spillingu, fer um netið líkt og neftópaksdós á réttarballi. Við erum ógeðslegt samfélag, um það má sameinast og á það sættast. Eru ekki allir hvort eð er bara að reyna að græða? Eru ekki öll samkipti bara viðskipti þegar upp er staðið? Er ekki hver maður í rauninni einn, alein í vondum heimi þar sem eina boðorðið er jafnræðisreglan sem alltaf er jafnharðan brotin og skásta þjóðfélagsástandið væri það ef allir fengju bara að vera ólíkir í einrúmi?

„Þetta er mitt boðorð, að þið elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur.“ heyrðum við lesið hér áðan. Þvert á tíðarandann, þvert á alla ómöguleika skipar leiðtogi kristinnar kirkju okkur að elska hvert annað eins og hann elskar. „Þetta er mitt boðorð, að þið elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur.“

En þegar þeir höggva sem hlífa skyldu? Þegar umsjónarmenn almannahags og handhafar almannavalds koma sjálfir og hirða dúninn? Þegar ofan á tilfinninguna fyrir því að vera hlunnfarin og svikin af bönkum og viðskiptablokkum bætist vitneskjan um að lýðkjörnir forsvarsmenn almennings og aðrir þeim tengdir hafi stundað aflandsviðskipti sem eru í eðli sínu andstæð hagsmunum ríkisins. Hvað gerum við þá? Þá gerum við ekki neitt. Tökum eftir því og gleymum því ekki að fyrstu tvær vikurnar eftir að okkur var ljóst að forsætisráðherrahjónin ættu í aflandsviðskiptum var það engin stórfrétt í hugum almennings. En þegar við svo sáum sjónvarpsþátt með spennuþrunginni tónlist og uppljóstrunarstemmningu vöknuðum við til heilagrar reiði. Það voru ekki aflandsviðskiptin sem hleyptu í okkur illu blóði, við vissum af þeim fyrir. En þegar við fengum sýningu á mennskum veikleikum forsætisráðherrans og sáum hann engjast í óvissu og ótta þá vaknaði reiðin. Hvað er það?

Þegar ég verð reiður sem stundum gerist, reyni ég nú orðið að spyrja mig sem svo: Að hve miklu leyti er reiði mín knúin af viljanum til að koma málum á hreint og að hve miklu leyti er það viljinn til að vera sjálfur hreinn sem knýr reiði mína? Þegar ég er reiður og finn ríka þörf til að vera sjálfur hreinn vil ég að einhver skammist sín. En þegar ég er reiður og finn ríka þörf til að koma málum á hreint vil ég að einhver hryggist og hugsi sinn gang. Á þessu tvennu er eðlismunur. Tærandi reiði annars vegar sem leitast við að vekja skömm, hins vegar nærandi reiði sem þráir að vekja hryggð.

„Nú er ég glaður,“ skrifar Páll postuli í síðara bréfi sínu til Korintumanna. Hann hafði gangrýnt söfnuðinn í bréfi og það hafði sorfið til stáls í samskiptum milli hans og þeirra. „Nú er ég glaður, ekki yfir því að þið urðuð hrygg heldur yfir því að hryggð ykkar leiddi til þess að þið bættuð ráð ykkar. Þið urðuð hrygg Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón svo að ég varð ykkur ekki að meini.10 Sú hryggð sem er Guði að skapi leiðir til þess að menn taki sinnaskiptum, sem engan iðrar.“ (2 Kor. 7: 8-10) Í stað þess að vekja skömm og tjón hafði reiði Páls vakið hryggð og bót. Sjálfur er hann því líka orðinn glaður að nýju.

Munurinn á skömm og hryggð er sá að skömmin lamar en hryggðin eflir. Skömm snýr að persónunni allri og segir henni að hún sé óhrein í einhverjum skilningi en hryggð snýr að hjartanu þegar einstaklingur vaknar til ábyrgðar á eigin gjörðum. Andstæða hryggðar er gleði en hroki er andstæða skammar.

Sigmundur Davíð heldur áfram að þjóna þjóðinni. Hún hóf hann upp af því að hann bauð henni uppá að stokka spilin án þess að breyta leiknum. Áfram skyldum við fá að vera ógeðsleg, ekkert þyrfti að breytast, allt væri tryggt. Og nú þegar hann er búinn að leika sitt hlutverk með ágætum njótum við þess að hæða hann, grínast með útliti hans í skoplegum myndasyrpum og hlæja að óförum hans í léttum spjallþáttum. Maðurinn sem við höfum lagt traust okkar á nýtur þess fyllilega enn. Við höldum áfram að nota hann, neyta hans og njóta í fullu trausti. Fögnuðurinn yfir niðurlægingu Sigmundar Davíðs er jafn fölskvalaus og viljinn til að upphefja hann á sínum tíma, því þetta er sami fagnandi viljinn, sama þráin, einhugur þjóðar sem orðin er ásátt um ógeðsleikann. Nei, Sigmundur Davíð skal bera skömmina á líkama sínum og sál, hann skal bera blygðunina á brott svo að við getum haldið áfram að vera ógeðsleg. Og svo höfum við líka nokkra fræga fanga með öklabönd. Þeir eru hinn nýi þjóðarunaður, kitlandi leikföng okkar sadómasókíska þjóðarlíkama sem veit að allir eru með í leiknum, - hver hefði ekki gert nákvæmlega það sem þessir menn gerðu í þeirra sporum?

Næsti þáttur í hinum íslenska bindi- og drottnunarleik mun fara fram hér í sókninni í kvöld kl. 20. Þá skulum við öll sameinast tímanlega við heimil Bjarna Benediktssonar og hver veit nema andúðargleði okkar nái þar nýjum hæðum svo að enginn þurfi að hugsa sinn gang, ekki þurfi neinu að breyta, heldur megi stokka spilin eina ferðina enn til þess að halda áfram að vera ógeðsleg. Fjölmiðlarnir sjá um að hóta, á netinu ríkir reiðin og aldrei að vita nema eitthvað nýtt og spennandi berist inn í boxhring stjórnmálanna með haustinu. Það er lengi von á einum.

„Þetta er mitt boðorð, að þið elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur.“ - kjaftæði!
Í íslenskri þjóðarvitund er kærleikur kjaftæði. Fórnirnar sem íslenskur verkalýður færði á fyrstu árum síðustu aldar þegar hann barðist fyrir því að hafa í sig og á, vinna eðlilega vinnuviku, eiga frídaga, njóta heilsugæslu, lifa eins og manneskjur en ekki eins og æðarkollur - ekkert af þessu skiptir lengur máli því það er ekkert heilagt. Það er allt ógeðslegt. 1. maí er kjaftæði rétt eins og guðspjöllin.

Freka kynslóðin er komin á aldur. Ógeðslega kynslóðin er við völd.

Nú bjarmar af degi nýrrar kynslóðar sem er ekki að kaupa neitt af því sem við höfum sagt og gert. Vitið þið það? Um þessar mundir er að fæðast nýu hugsun með nýrri kynslóð. Þetta unga fólk horfir ekki á sig sem Íslendinga einvörðungu heldur ekki síður sem jarðarbúa. Þau sjá sig ekki bara sem hluta af mannkyni heldur sem hluta af vistkerfi. Þau horfa til framtíðar fyrir hönd barnanna sinna sem nú eru að byrja að fæðast og það fyrsta sem þau gera um leið og þau komast til valda verður að taka skömmina og hrokann úr sambandi. Þessi kynslóð hefur ríkari ástæðu en nokkur önnur kynslóð til að vera öskrandi reið og hún er það. En hún mun setja reiði sína í farveg umhyggjunnar til þess að koma málum á hreint. Hún mun kenna börnum sínum að horfa með skilningsríkri aumkun til okkar sem fengum allt nema getuna og viljann til að höndla það. Þessi kynslóð mun nýta sér öll form mannlegrar þekkingar, listir, vísindi, trúarbrögð, sagnir og hefðir því hún veit að allt er innbyrðis tengt og eina rétta svarið við skömm og hroka er skilningur og ást. Líkt og staðföst manneskja sem drepur á bifreið og tekur með sér lykilinn af því að bílstjórinn er drukkinn undir stýri þannig er þetta fólk í þann mund að ná af okkur stjórnartaumum í því skyni að koma málum á hreint áður en við endanlega eyðileggjum jörðina og landið sem Guð gaf okkur með skeytingarleysi.

Krækklótta íslenska birkið mun fagna nýju vori, Jökulfirðir munu losna úr klakaböndum, sumarið heilsa Heimaey og kollurnar úa við Eyjafjörð og það munu fæðast börn í þessu landi sem læra að elska og treysta.

Ritningarorð:

2 Kor. 7: 8- 10
8Að vísu hef ég hryggt ykkur með bréfinu en ég iðrast þess ekki nú þótt ég iðraðist þess áður þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt ykkur þótt ekki væri nema um stund. 9Nú er ég glaður, ekki yfir því að þið urðuð hrygg heldur yfir því að hryggð ykkar leiddi til þess að þið bættuð ráð ykkar. Þið urðuð hrygg Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón svo að ég varð ykkur ekki að meini. 10Sú hryggð sem er Guði að skapi leiðir til þess að menn taki sinnaskiptum, sem engan iðrar, og frelsist en þegar menn hryggjast að hætti heimsins leiðir það til dauða.

Jóh. 15. 11-17
11Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. 12Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. 13Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. 14Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. 15Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. 16Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. 17Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3515.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar