Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Díana Ósk Óskarsdóttir

Megi líf mitt vera vitnisburður um kærleika þinn

19. apríl 2016

Eitt það fallegasta sem ég sé er þegar vonin fæðist í lífi fólks. Ég hef í gegnum árin leitt þó nokkrar konur í gegnum sporin og við það hef ég fengið að sjá vonarblik kvikna í augum þeirra og svo þegar fram í sækir hef ég fengið að fylgjast með þessum sömu konum gjörbreytast. Það reynist þeim flestum sárt að horfast í augu við eigin vanmátt og að upplifa stjórnleysi sitt þegar þær skoða sig í fyrsta sporinu. Mörgum verður að orði að þau upplifi aumkunarverða niðurlægingu við það að segja frá birtingarmynd eigin stjórnleysis. Að segja frá enn einu fylleríinu, enn einu fallinu, loforðinu sem var svikið, skapofsaköstum og ítrekuðum tilraunum til að breyta útkomunni. Þetta á líka við um aðstandendur. Það er ekki sjálfgefið að komast frá fyrsta spori yfir á það þriðja, að fara frá vanmætti yfir í von. Það krefst trúar og trausts.

Flest allt fólk sem fer þá leið er á þeim tíma, þegar kemur að þriðja sporinu, á þeim stað að skilja ekki hvernig sporin geta mögulega hjálpað til við að endurreisa þá brotnu mannveru sem það upplifir sig vera. Það má segja að á þessu stigi kvíði flestir fyrir fjórða, fimmta og níunda sporinu. En þau fara samt með bænina, þessa fallegu bæn sem hljómar svona: Guð, ég fel mig þér á vald svo að þú getir mótað mig og gert við mig það sem þér þóknast. Leystu mig úr fjötrum sjálfshyggjunnar svo að ég megni betur að gera vilja þinn. Taktu frá mér erfiðleikana svo að sigurinn yfir þeim geti orðið þeim sem ég vil hjálpa vitnisburður um mátt þinn, kærleika og lífið með þér. Hjálpaðu mér að fara ævinlega að vilja þínum.

Þar sem ég þarf að einfalda allt þá hljómar bænin svona í mínum huga: Guð, ég er þín, leiddu mig þinn veg. Megi sigurinn yfir erfiðleikum mínum vera vitnisburður um kærleika þinn og verði þinn vilji í mínu lífi.
Það er yfirleitt eftir að fólk hefur farið með þessa bæn sem hlutirnir fara að gerast. Þá fær fólk hugrekk til að fara í fjórða og fimmta sporið. Dómharkan í eigin garð dvínar eftir flutning fimmta sporsins. Það má segja að það gerist um leið og manneskjan lítur í augu þess sem hún treystir fyrir sér og sínu og sér fordómalaus augu mæta sér. Sjálfsþekkingin verður dýpri í sjötta sporinu með því að skoða lista yfir eiginleika og bresti. Traustið til Guðs eykst í sjöunda sporinu sem gerir fólki kleift að skrifa listann í því áttunda.

Mín reynsla er sú að strax eftir níunda sporið öðlast persónan nýtt frelsi. Hin upplitsdjarfa manneskja styrkist í hinu nýja lífi í hverju spori eftir það. Nú gæti verið að þið veltið því fyrir ykkur hvort ég sé að flytja ykkur sporafyrirlestur eða prédikun. En þessi orð mín eiga vel við þar sem vers vikunnar er úr 2. Korintubréfi 5. kafla og hljómar svona: „Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.
Mörgum þykir síður en svo auðvelt að trúa þessu og of margir eiga erfitt með að meðtaka þetta nýja. Það hafa heyrst sögur af upplifun alkóhólista sem sjá edrúmennskuna sem frekar leiðinlegt líf. Nýja lífið er of rólegt, of fyrirsjáanlegt og í of miklum skorðum. Spennuleysið veldur því að alkóhólistarnir vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Aðstandendur eiga fullt í fangi með að taka á móti hinni nýju manneskju og fylgja breytingunum eftir. Þetta reynist þeim þung byrði ef þau ná ekki að sinna sér, fara á sporafundi eða finna aðra leið til að vinna með sig. Á meðan þau einbeita sér ekki að eigin breytingum eða eigin vexti þá ríghalda þau í gamla manninn eða gömlu konuna, gömlu viðhorfin og gömlu taktana. Þetta getur oft valdið misklíð og særindum. Stundum falli.

Þegar við iðrumst og viljum bæta fyrir brot okkar og þegar við biðjum Guð að fyrirgefa okkur þá gerir Guð það. Einn daginn heyrði ég því slegið fram að þegar Guð fyrirgefur þá hendir hann öllu í gleymskunnar haf. Þessari setningu fylgdi svo önnur: „Og hver dirfist að fara að veiða þar?“ Ég hef hugsað þessar setningar þar sem að í fyrstu fannst mér þær alveg smellpassa en svo átti ég tíma þar sem mér fannst þær alls ekki passa.
Þegar ég hugsa um lærdóminn sem við fáum í gegnum reynsluna og vaxandi ábyrgðarkennd, oft í kjölfar mjög sárra minninga og þegar ég hugsa um mikilvægi þess að gangast við sér. Eða þegar ég hugsa um mörk í samskiptum þá finnst mér þessar setningar ekki passa.

En þegar ég hugsa um allt sem við höfum borið með okkur í gegnum tíðina, allt sem við höfum notað til þess að halda okkur niðri og öll minningarbrotin sem við höfum notað til þess að minna okkur á að við séum ekki nógu góð og að við eigum ekkert gott skilið þá finnst mér setningarnar smellpassa.

Þegar við höldum okkur niðri vegna þess að við fyrirgefum okkur ekki þá förum við mörg í gamla áður þekkta örvæntingu. Þá er mikilvægt að muna að einmitt þegar myrkrið er hvað mest getur það ekki orðið myrkara, heldur er fullvíst að það mun fara að birta á ný. Gefumst ekki upp þótt við sjáum ekki hvað bíður handan við hornið og þótt við skiljum ekki hvað er framundan. Rétt eins og lærisveinarnir sem skildu ekki hvað Jesús átti við þegar hann sagði þeim að þeir myndu gráta, kveina og hryggjast áður en þeir myndu fagna. Hann líkti aðstæðunum við kvalafullar hríðar móðurinnar rétt áður en hún upplifir eitt dásamlegasta andartak lífs síns og fær barn sitt í hendurnar.

Við heyrum því miður allt of oft af fólki sem hefur tekið eigið líf, fólki sem hefur gefist upp og ekki komist yfir myrkasta tímann og hefur því misst af því að sjá birtuna læðast fram. Núna verður mér hugsað til góðs félaga, hann var ungur, fallegur og hæfileikaríkur. Við sem þekktum hann vissum öll að hann ætti framtíðina fyrir sér. En hann sá það ekki sjálfur. Blessuð sé minning hans.
Guð hefur fyrirgefið og þess vegna segi ég að við eigum ekki að búa við eigin fordæmingu. Að veiða í gleymskunnar hafi. Við erum ný sköpun, hið gamla varð að engu, nýtt er orðið til. Við höfum þar með ný viðhorf, nýjan styrk og höfum upprætt gömul mynstur. Það ber að þakka.

Sum okkar hafa litla þakkarbók til þess að skrá öll þakkarefnin í, önnur okkar stunda reglulega þakkarbæn. Þar sem við rifjum upp allt það sem er gott, elskuvert og jákvætt í lífi okkar og þeirra sem okkur er umhugað um. Þegar við förum af stað inn í þakkarbæn getur verið að við séum gröm, í uppnámi eða teljum okkur ekki hafa neitt til að þakka fyrir. Þó geta flest okkar þakkað fyrir sjón, heyrn, fætur sem koma þeim á milli staða eða aðra virkni líkamans, við getum þakkað fyrir að hafa skjól, sum geta þakkað fyrir heimili og fjölskyldu og svo má lengi telja. Á meðan á upptalningunni stendur þá finnum við fljótt hvernig sáttin kemur yfir okkur.
Áhyggjur hverfa, óttinn víkur og við fyllumst vellíðan. Sátt og gleði. Það er gott að dvelja í nærveru Guðs, við fætur Jesú, eins og segir í guðspjalli dagsins: „… á þeim degi munið þið ekki spyrja mig neins.“ Lærisveinarnir voru þá að njóta þess að fagna á sama hátt og við erum að njóta friðar, sáttar og gleði í bæninni.

Það er mín hvatning til okkar allra: Iðkum þakkarbæn, leitum Guðs í öllum aðstæðum, þrengjum okkur nær föðurhjarta Guðs. Gefum okkur tíma fyrir bæn og hugleiðslu. Njótum þess að dvelja í nærveru þess sem umlykur okkur kærleika sínum. Sá sem gaf son sinn til þess að við gætum átt eilíft líf. Í því felst vonarboðskapurinn.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4172.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar