Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Verið glöð!

20. september 2015

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Ritað er í síðara bréfi Páls til Korintumanna.(2.Kor 13. 11.) : Að öðru leyti, bræður mínir og systur, verið glöð. Verið fullkomin, áminnið hvert annað, verið samhuga, lifið saman í friði. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með ykkur.

Verið glöð!

Gleðilega hátíð, kæru vígsluþegar, gleðilega hátíð kæru vígsluvottar , gleðilega hátíð kæri söfnuður.
Í dag er stór dagur í lífi ykkar sem verðið vígðar til þjónustu í kirkjunni og stór dagur í lífi kirkjunnar sem tekur á móti ykkur til þeirrar þjónustu.

Það er 16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, og guðspjallið eftir annarri textaröð segir frá þegar Jesús vitjaði Maríu og Mörtu eftir að Lasarus bróðir þeirra var dáinn. Við höfum nýskeð hugleitt þessar sömu systur, þegar Marta kepptist við að sinna gestum meðan María sat við fætur Jesú og fræddist af honum, og það er svolítið hefðbundið að hrósa Maríu en horfa skakkt til Mörtu, sem var bara gröm yfir því að systir hennar hjálpaði henni ekki og Jesús talaði sjálfur um góða hlutann sem María hefði valið. Nú snýst dæmið alveg við. María situr heima í sorg og hefst ekki að, en Marta kemur þjótandi á móti Jesú af því að hún trúir á hann og trúir því að hann geti gert hið ótrúlega. Og Jesús staðfestir það.

Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Hún (það er Marta, sem mæðist í mörgu,) segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ (Jóhs. 11.19-27)
Þetta eru orð sem kallast á við játningu Péturs í Matt. 16.16. Þú ert Kristur sonur hins lifanda Guðs.

Við sem kölluð erum til þjónustu erum kölluð til að bera vitni; kölluð til játningar, í orðum og í gjörðum. Við stöndum í langri röð þeirra sem frá fyrstu dögum lærisveina Jesú Krists sinna þjónustu í nafni hans. Einn tekur við af öðrum.

Það er er notalegur styrkur í því, sérstaklega á þeim dögum þegar verkefnin vaxa manni yfir höfuð, að geta sagt við sjálfa(n) sig: Áður en ég kom voru aðrir, eftir að ég fer verða enn aðrir. Maður hvílist við að minnast þeirra sem fóru á undan.

Þessi biskupskápa er sú sem séra Bolli Gústavsson bar á Hólum. Ég ber hana í dag til þess að minnast hans og þakka fyrir þjónustu hans. Á þessu hausti eru liðin 80 ár frá fæðingu hans. Sonur hans og nafni hefur skrifað bókina Kveikjur sem í kjarna sínum er safn af dæmum þess sem drífur á dagana í þjónustunni. Það eru mörg dæmi og ólík. Af því að allt litróf mannlífsins mætir þeim sem í alvöru tekst á hendur helga þjónustu í kirkju Krists og þar er aldrei neitt sem þú getur sagt að komi þér ekki við ef til þín er leitað í alvöru og einlægni. En um leið verður þú að vita vel um þau mörk sem þér eru sett, til dæmis gagnvart þeim sem alls ekki vilja þína þjónustu, eða vilja láta bendla sig við kristinn sið og trú. Við sýnum þeim þá virðingu að láta öðrum eftir að þjóna þeim. Eða engum.

Ritað er: Ég segi: Verið glöð.
Ein stærsta krafan sem gerð er til okkar í þjónustunni er sú að við varðveitum gleðina. Líka þegar allir virðast vera mjög fúlir í kringum okkur, rétt eins og samfélagið sem við þjónum og störfum í, virðist oft leitast við að vera, helst alltaf, og hafa allt á hornum sér og sjá helst aldrei ljósan punkt í tilverunni. Það er bara allt ómögulegt!
Erfiðast verður samt að halda gleði sinni andspænis þeim, jafnvel úr nánasta vinahóp okkar, sem sjá ekkert gott við kirkju eða kristindóm, og finnst við jafnvel bara dálítið biluð að vera í þeim flokki.

Verið glöð, ég segi aftur verið glöð. (Fil. 4.4). Það er köllun okkar andspænis heiminum sem er ekkert glaður. Að tala gleðina inn í heim ógleðinnar. Annars myndi erindi Guðs til heimsins, og sem við þjónum, tæpast vera kallað fagnaðarerindi! Og kjarni þess er þetta:
Ég er upprisan og lífið, segir Jesús við Mörtu.

Veldu lífið segir Drottin Guð.(5.Móse. 30. 19-20)
Blessið en bölvið ekki.

Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.

Og Drottin, hinn sami, fól Móse að leggja blessun sína yfir fólkið.

Að leggja blessunina yfir er líkt því að leggja mjúka,hlýja sæng yfir þau sem er kalt. Sannarlega, en líka eins og nýjan kraft til að fljúga upp eins og örninn, og gera arnsúg ofar tindum…!
En fyrst og fremst er það til þess að Guð megi þannig leggja auglit sitt yfir fólk. Yfir fólk sem lifir í gleði Guðs og blessun eða er búið týna blessuninni og gleðinni, eða hefur jafnvel aldrei átt hana.
Auglit Guðs. Það er auglit Guðs sem sér.
Þannig er ykkar nýja, sérstaka hlutskipti. Að sjá fólk. Að taka eftir því með nýjum hætti. Að sjá með nýjum augum, að reyna að sjá með augum Guðs.

„Systir góð! sérðu það sem ég sé?“
Það var eitt kvöld um vorið, við komum af stekknum, að ég sagði þetta við systur mína, fimmtán vetra gamla, og klappaði saman lófunum af gleði.
Þannig skrifar Jónas Hallgrímsson í Grasaferð.
„Systir góð! sérðu það sem ég sé?“

Barnið þitt stendur upp á stól og segir við þig: Sérðu mig? Sérðu hvað ég get?
Barnið í vöggunni sér andlit sem það þekkir og elskar með sínum hætti, lúta yfir það og það brosir. Þess vegna.
Við manneskjurnar komust aldrei lengra en þetta, og við þurfum heldur ekki lengra, en við þurfum að geta verið þau sem sjá, ekki aðeins þau sem eru séð.
Það er kannski stærsti sendingarefni hinnar vígðu þjónustu. Við erum send til að sjá, til að sjá með þeim hætti sem Guð kennir okkur að sjá. Hann sem leggur blessun yfir fólk með augliti sínu. Með því að sjá. Guð horfir ekki á. Með hlutlausum augum. Hann sér.
Og þegar Guð sér, þá verður það sem hann vill, og blessun hans breiðist þar yfir.

Við erum send með blessun Guðs. Helst þangað sem engin blessun finnst og enga að fá.
Kæru vígsluþegar. Þið standið í langri röð þeirra sem sinna þjónustu og þiggja þjónustu í kirkjunni.
Nú er langt um liðið síðan við stóðum hér á þessum stað þrjú vígslusystkin árið 1974. Það er mér dýrmætt að hugsa um að áður en sá dagur rann upp höfðu bara verið til vígslubræður í kirkjunni.
Þetta bar upp á sama sunnudag kirkjuársins og í dag, þann 16. eftir þrenningarhátíð, þótt mánaðardagurinn væri annar. Við sem stóðum forðum gátum í fyrra fagnað fjórum áratugum þjónustunnar og vígslunnar: Auður Eir Vilhálmsdóttir, Jón Þorsteinsson og sá sem hér stendur. Séra Auður Eir predikaði í messunni. Þannig var það samkvæmt gömlu handbókinni. Ég játa að ég man mjög lítið eftir þeirri predikun, og afsaka það með því að ég var dálítið eins og í öðrum heimi hérna í kór Dómkirkjunnar, þar sem í áranna rás hafa fæðst svo margir prestar og síðar einnig djáknar. Þetta er helgidómur með mikla sérstöðu í kirkju okkar og kirkjusögu og við sem sitjum hér kór í dag skynjum það. Vígsluþegarnir alveg með sérstökum hætti. Við erum hluti af heild. Við erum hlekkir í langri keðju hinnar vígðu þjónustu allt frá þeim tíma þegar Jesús sjálfur sendi lærisveina sína út til þjónustu og boðunar.

Og við syngjum á latínu, þegar við áköllum heilagan anda og biðjum hann að koma yfir söfnuðinn og einkum vígsluþegana, eins og við héldum að heilagur andi skildi bara latínu. En við höfum reynslu af öðru!
Þetta snýst jú ekki um það, heldur um hina löngu, löngu samfylgd svo margra í vígðri þjónustu og sú góða tilfinning að á undan ykkur kæru vígsluþegar voru margir, margir og og á eftir ykkur verða þau einnig mörg og mörg sem sem grípa keflið og hlaupa eða ganga.

Lífið er ekki latína. En á meðan við megum vænta þess að svo fagurlega verði svarað af kirkjuloftinu hinum latneska söng, hversvegna skyldum við þá breyta því? Við höfum jú líka blóm á altarinu, af því að þetta er heilög hátíð. Við áköllum heilagan anda. Það er aðalatriðið. Engin vígsla er án þess.

Allir aðrir í systurkirkjum okkar á Norðurlöndum og hvarvetna, eru hættir að ákalla andann á latínu. Þannig verður það einnig hér hjá okkur ef vænta má, á næstu árum þó að það sé gömul hefð, sem horfir til baka um leið og hún horfir fram.

En sá heimur sem þið eruð send til er um margt ólíkur þeim sem við sem þá vorum vígsluþegar gengum inn til fyrir fjörutíu árum.
Nú stöndum við frammi fyrir heimi óróleika og ókyrrðar. Fólk flýr heimili sín og heimkynni og leitar nýrra. Jafnvel má búast við að það sem við sjáum nú sé aðeins lítið brot af því sem verða kann. Ef til vill horfum við fram til ekki minni þjóðflutninga en þeirra sem voru á dögum Rómaveldis, og lögðu það í rúst.

Ef til vill verður á næstu fjörutíu árum hlutfall þeirra sem eru fædd á Íslandi mikill minnihluti íbúanna. Það merkir nýjan heim og ný verkefni, í mörgu ólík því sem nú er. Flóttamannavandi samtímans kemur okkur öllum við, hvað sem síðar verður. Einmitt núna þegar tugþúsundir eru á flótta munu einhver þeirra einnig knýja dyra hér hjá okkur. Það er fagnaðarefni að nú skuli liggja fyrir ákvörðun stjórnvalda um að bregðast jákvætt við því. Við hér í kirkjunni hugsum til orða Jesú í 25 . kafla Mattheusarguðspjalls , allt sem þér gjörið einum þessara minnstu bræðra gjörið þér mér, - og við reynum að bregðast við eins og kristnum ber. Þess vegna verður tekið við frjálsum framlögum við kirkjudyr Dómkirkjunnar í dag.

Kæru vígsluþegar. Við erum send. Það er inntak vígslunnar og sameignlegt hinni grundvallandi vígslu til trúar og lífs sem skírnin gefur. En nú eruð þið þrjár sendar til sérstakrar þjónustu, við lífið, við blessunina og við hinn upprisna Jesú Krist í söfnuðinum.

Ég er upprisan og lífið, segir Jesús við Mörtu. Trúir þú þessu?
Og við megum svara af djörfung eins og hún og með henni:
„Já, Drottinn”!

Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3581.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar