Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Jesús á flótta og örkin okkar

8. september 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Í heiminum í dag eru um 60 milljónir flóttamanna, fólk sem hefur yfirgefið heimkynni sín af ýmsum ástæðum. Af þeim eru 870 þúsund manns svokallaðir „hælisleitendur“ eða umsækjendur um alþjóðlega vernda.

Eins og við vitum eru nú heitar umræður í íslensku samfélagi um hvort Ísland eigi að taka á móti fleiri flóttamönnum og þá hvernig? En í þessum ákafa hefur almenningi ekki verið gefið tækifæri til að gera sér grein fyrir hvernig við getum skoðað og rætt þessar áskoranir sem kristin þjóð. Kristni er enn ríkjandi trú íslensku þjóðarinnar og því er eðlilegt að skoða hið kristilega sjónarhorn á málefni flóttamanna.

Að vera á flótta er mikilvægt þema í Biblíunni. Í Gamla testamentinu eru margar sögur sem varða flótta. Adam og Eva, sem voru fyrstu manneskjurnar á jörðinni, voru líka þær fyrstu sem flúðu. Þau reyndu að flýja augu Guðs. Jakob, sonur Ísaks, flutti burtu frá tengdaföður sínum Laban. Elía spámaður var á flótta í Hóreb, fjalli Guðs, og spámaður Jóna reyndi að flýja til Tarsís þvert gegn vilja Guðs.

Flóttasögur eru fleiri í hinni helgu bók, en hér ætla ég að fjalla um tvær vel þekktar sögur úr Gamla testamentinu. Það er sagan um örkina hans Nóa annars vegar og hins vegar Exodus, sagan um flótta gyðinga frá Egyptalandi.

Sagan um örkina hans Nóa er saga um flótta. Nói og fjölskylda ásamt dýrunum flýðu náttúruhamfarir sem stöfuðu af reiði Guðs. En það sem við þurfum að gæta að hér að Guð skipaði Nóa að byggja örkina, svo að hann gæti flúið með börn sín og dýr jarðarinnar.

En hvað er örkin? Örkin er skjól. Þeir sem voru inni í örkinni björguðust, þeir sem voru utan hennar létu lífið. Að vera inni eða úti. Það skipti máli. Í sögunni um örkina hans Nóa, birtist fyrst hugmyndin um „ramma björgunar“.
Og þetta eigum við vel að vita, ef fólk inni í örkinni læsir dyrum arkarinnar, þá kemst fólk að utan ekki inn.

2.
Önnur saga um flótta er um Exodus. Þetta var tvímælalaust mikilvægur atburður í sögu gyðingdóms. Fyrir gyðinga er Exodus kjarni trúar þeirra og allt um gyðingdóminn byggist á Exodus.

T.d. er „Shema Yisrael“ bæn sem virkir gyðingar segja tvisvar á hverjum degi, á morgnana og á kvöldin, og það má segja að þetta sé eins og okkar „Faðir vor“. „Shema“ er raunar hluti af 5. Mósebók og telst vera kjarni Mósebókanna fimm.

Í „Shema“ er sagt: ,,Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í landið (…..) með stórum og fögrum borgum sem þú byggðir ekki, (…..) víngörðum og ólífutrjám sem þú gróðursettir ekki. Þegar þú matast og verður mettur, gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni sem leiddi þig út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu“(5. Mós. 6:10-12).

Það er endurtekið aftur og aftur í Mósebókum að muna Guð sem hefur leitt gyðinga út úr þrælahúsi, Egyptalandi. Þannig er reynsla af„að vera á flótta“ grunnur trúar gyðinga á Guð.

Exodus var atburður þar sem fólk flýði slæmar aðstæður og flutti til nýs lands. Guðfræðingur sem ég virti mikið, Dr. Kosuke Koyama, kallaði slíka björgun og mynstur hennar „Exodus-lega björgun“ og sagði: „Björgun af þessu tagi er komin í öngstræti. Jörðin okkar er ekki það stór að hún geti endalaust gefið öllum nýtt land.“

Mér hefur lengi þótt sögurnar um örkina hans Nóa og Exodus táknrænar fyrir stöðu flóttamanna í dag. Fólk flýr land sitt og reynir að fá Exodus-lega björgun. Helstu áfangastaðirnir, Vestur- Evrópa, Norður-Ameríka eða Rússland eru arkir. Ísland er líka örk, þótt hún sé minni en önnur.

En þó að fólkið frá Miðaustur-löndum eða Afríku sé komið til arkanna, hvar sem hún er, lokar fólkið í örkunum dyrunum fast svo að nýtt fólk kemst ekki inn. „Af hverju opnið þið ekki dyrnar fyrir okkur?“: spyr flóttafólk. „Af því að það er ekkert rými handa ykkur hér. Og við viljum ekki láta eftir þægindi okkar ykkar vegna“: svarar fólkið inni í örkunum.

Þessa daga virðist móttaka flóttamanna vera farin að breytast í jákvæða átt í nokkrum löndum. En þegar við skoðum heildarmyndina í Evrópu, verðum við að viðurkenna að þessi líking sé enn óbreytt.

3.
Hvar er lausn? Hvaða ábendingar gefur Biblían okkur? Hér langar mig að minna á eitt. Núna er ég ekki að fjalla um lausn á flóttamannavandanum á pólitískum nótum. Við erum að hugleiða hvernig við eigum að skilja málefni flóttamanna sem fylgjendur Guðs, kristin þjóð.

Að vera á flótta var einnig þýðingarmikið í ævi Jesú. Eins og við hlustum og heyrum árlega þá leituðu Jósef og María hælis í Egyptalandi ásamt nýfæddum Jesú, þar sem Guð varaði þau við: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands“ (Mat. 2:13).

En það er til sérstök merking á þessum flótta til Egyptalands. Það er að Guð Faðir gerði Egyptaland, sem var þrælahús gyðinga, að skjóli fyrir heilögu fjölskylduna. Þetta var mikil breyting - alveg eins og frá svörtu yfir í hvítt. Eins og sést í „Shema“-bæninni, segja gyðingar á hverjum degi: „(gleymdu) ekki Drottni sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu“. Nú er þrælahúsið orðið að skjóli.

Skilaboð Jesú til samfélags gyðinga voru oft þversagnakennd. Þversagnir eru fyrirferðamiklar í kenningum hans. „Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki“(Mat. 5:10). „Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því“(Lk.9:24), svo nokkur dæmi séu tekin.

Ekki aðeins kenndi Jesús á þverstæðan hátt, heldur hagaði hann sér á sama hátt með því að hafa virk samskipti við fólk sem þótti á jaðrinum í samfélaginu.

Slíkar þversagnir í kenningum Jesú og framkomu eiga ekki að vera túlkaðar eins og hann hefði verið á móti lögmálum gyðinga, heldur ber að skilja þær þannig að Guð Faðir vildi leiðrétta þá villuleið sem samfélag gyðinga var á og endurheimta björgunarloforð sitt við Ísrael. Því var þetta ekki tilraun til þess að afnema lögmál Móse, heldur frekar að uppfylla þau með krossfestingu Jesú.

Og vegna krossfestingarinnar Jesú streymdi náð Guðs og miskunnsemi til allra sem voru fyrir utan ramma björgunarinnar. Gyðingar töldu að björgunarörk Guðs væri einungis fyrir þá, en Guð ákvað nú að opna hana fyrir alla.

4.
Dr. Kosuke Koyama benti á þetta: „Kristur fór út úr náð Guðs um björgun. Það er enginn annar utangarðsmaður eins og Jesús. Þjáning Jesú sem hafði verið yfirgefinn af Guði var orðinn að grunni fagnaðarerindisins“.

Með því að fara út úr ramma náðar Guðs, lætur Jesús okkur komast inn í rammann. Með öðrum orðum, kaus Jesús að fara sjálfur á flótta til þess að bjóða öðrum flóttamönnum inn í björgunarörk Guðs. Hér þurfum við að hugsa vel um mynstur hugsjónar Jesú, framkomu og ákvörðun.

Kjarni kristninnar er fagnaðarerindi. Og miðpunktur fagnaðarerindisins er Jesús Kristur. Hann er hér í kirkjunni með okkur. Kirkjan er skjól okkar og örk björgunar. Það er alveg pottþétt. En Jesús dvelur ekki alltaf inni í kirkjunni eða örkinni. Hann fer út úr örkinni til þess að leiða fólk inn í hana. Hann getur jafnvel farið á flótta til þess að hann mæti öðrum flóttamönnum.

Og þegar hann er úti, þá er miðpunktur fagnaðarerindisins líka úti. Við skulum ekki gleyma því. Ef við sitjum alltaf í kirkju eða björgunarörk, og lokum dyrunum fast, þá gætum við jafnframt útilokað frelsarann okkar sjálfan. Þetta er líka mikil þversögn sem Jesús kennir okkur.

Við erum fylgjendur Jesú Krists. Þá þurfum við að fylgja honum. Hvar er Jesús núna? Hvert fer hann á eftir? Stundum gæti Jesús hvatt okkur til að fara á flótta og verða að útlendingum. Það getur verið ómissandi hluti af trúarlífi okkar að vera á flótta eins og trú gyðinga byggist á sinni sögu um flótta.

Í Hebreabréfi stendur: ,,Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar, fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni“(Heb. 11:13). Trúarlega erum við sjálf á nýrri „Exodus-ferðinni“, en í þetta skipti er það ekki ferð á jörðinni, heldur ferð til himnaríkisins. Þess er að vænta með komu Guðs ríkis.

Hver er þá vænting Guðs til okkar í málum flóttamanna? Eigum við að læsa dyrum arkarinnar sem er kristin þjóð? Nei, örk björgunar Guðs er aldrei lokuð. Hún er opin, af því að verksvæði Jesú er alls staðar, inni í örkinni og úti arkarinnar. Fylgum Jesú og bjóðum fólki á flótta inn í örkina okkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2700.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar