Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Ómar Gunnarsson

Sjálfstæðið, kosningarétturinn og trúin á Guð.

17. júní 2015

Ágætu Akureyringar og aðrir gestir. Gleðilega hátíð og til hamingju með daginn. Á þessum degi fyrir 71 ári safnaðist mikill fjöldi saman á Þingvöllum til þess að fagna hinu nýstofnaða Íslenska lýðveldi. Sjálfstæðisyfirlýsingunni fylgdu bænir og óskir þjóðarinnar um að hér á landi mætti þrífast gott og fagurt samfélag. Það er og hefur alltaf verið á ábyrgð þeirra sem mynda samfélagið að byggja það upp og skapa íbúum þess lífvænlegar aðstæður. Í dag berum við sem hér erum þá ábyrgð, við erum á þeirri vegferð. Líkt og þau sem hafa gengið sömu leið áður höfum við hrasað á vegferðinni, risið aftur upp og haldið áfram veginn. Guð gefi okkur kjark og styrk til þess að rísa upp aftur og aftur og halda áfram á hinni góðu vegferð sem hófst með stofnun lýðveldisins 1944.

Sjálfstæðið og kosningarétturinn
Árið í ár er merkisár í lýðræðissögu okkar, því á þessu ári fögnum við einnig 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Þegar lýðveldið var stofnað höfðu konur haft kosningarétt í 29 ár, engu að síður átti engin kona sæti á Alþingi Íslendinga þann 17. júní 1944. Fram að þeim tímamótum höfðu aðeins tvær konur setið á Alþingi, þær Ingibjörg H. Bjarnason og Guðrún Lárusdóttir. Fjöldi kvenna á Alþingi hefur vissulega aukist, en betur má ef duga skal. Á þeim 100 árum sem liðin eru frá því að konur fengu kostningarétt hafa orðið gríðarlegar breytingar á samfélagi okkar þjóðinni til heilla og blessunar. Við höfum stígið mörg mikilvæg skref í átt til aukins jafnréttis og jafnræðis. Við eigum þó enn langa ferð fyrir höndum, því enn í dag hvílir skuggi misréttis yfir mörgum sviðum samfélags okkar. Guð gefi okkur öllum kjark og styrk til þess að halda áfram og leitast við að uppræta óréttlæti og misrétti í sérhverri mynd svo að hér megi þrífast gott og fagurt samfélag.

Biblían, trúin og sjálfstæðið
Í ár eru 200 ár frá stofnun Hins íslenska Biblíufélags. Við kunnum að hafa ólíka afstöðu til Biblíunnar, en biblían og boðskapur hennar hefur mótað þjóðlíf okkar og þau viðmið og gildi sem við grundvöllum samfélag okkar á. Hún er safn margra rita og geymir margar ólíkar frásögur í einni þeirra kemur ungur maður til Jesú og spyr hvers konar líf sé Guði þóknanlegt, Jesús svarar honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. […og…] Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Enn fremur segir Jesús í fjallræðunni: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulu þér og þeim gjöra.“ Þessi orð Jesú þekkjum við flest, tvöfalda kærleiksboðorðið og gullna reglan eru grunnurinn að því sem við köllum kristna siðfræði. Þau eru kennd öllum fermingarbörnum og lýsa markmiði lífs þeirrar manneskju sem vill fylgja Jesú. Jesús kallar okkur til þess að elska og hlúa að lífinu í sérhverri mynd. Guð gefi okkur styrk og kjark til þess að halda áfram að elska og hlúa að lífinu, svo að hér megi þrífast gott og fagurt samfélag.

Vörðusteinarnir, fortíðin og framtíðin
Kæru vinir, árið í ár er merkisár í sögu okkar! 71 ár er liðið frá stofunun lýðveldisins, 100 ár frá því að konur öðluðust kosningarétt og 200 ár frá því að Biblíufélagið var stofnað. Sjálfstæðið, kosningarréttur kvenna og jafnréttisbaráttan eru ásamt trúnni á Guð vörðusteinar Íslandssögunnar. Vörðusteinarnir höfðu og hafa enn í dag mótandi áhrif á menningu okkar og samfélag. Á tímamótum sem þessum kalla fortíðin og framtíðin jafnt til okkar, vörðusteinarnir og vonin um að hér megi þrífast gott og fagurt samfélag eru okkar leiðarljós og vísa okkur vegin áfram. Guð gefi okkur öllum auðmýkt, kjark og kraft til þess feta þennan veg saman, svo að hér megi þrífast gott, kærleiksríkt og fagurt samfélag.
Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen

Hugvekja flutt við hátíðardagskrá í Lystigarðinum á Akureyri, 17. júní 2015.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2905.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar