Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Saga úr Fjarskadal

17. júní 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“ Þetta skrifar Páll postuli í bréfi sínu til Rómverja (13.8) og kom fram í einum þeirra lestra sem fluttir voru hér áðan.

Einu sinni voru þrjú systkini, sem hétu Himinblámi, Jökulhetta og Eldroði. Foreldrarnir fengu að gefa þeim þessi nöfn í friði, þar sem Mannanafnanefnd hafði ekki teygt áhrif sín inn í Fjarskadalinn þeirra. Þau systkinin uxu úr grasi í litlu koti í faðmi fjalla og léku sér við lækjarsprænuna í túnfætinum.

Oft deildu þau góðlátlega um, hvaða litur þeim þætti fallegastur. Himinblámi hóf þá umræðuna og sagði: „Fallegastur hlýtur að vera blár, litur hvelfingar himinsins og víðáttu hafsins.“ Jökulhetta andmælti og sagði: „Nei, bróðir. Enginn litur er fegurri en hvítur, litur jöklanna, skýjanna og hreinleikans sem við eigum að keppa eftir í hjartanu.“ Eldroði blandaði sér í umræðuna og mælti: „Þið eruð bæði á villigötum. Fegurstur allra lita er rauður, litur eldsins í iðrum jarðar og logans sem brennur innra með okkur, loga framtíðar okkar og sjálfstæðis.“ – En þá flaug fiðrildi framhjá, systkinin fóru að eltast við það og gleymdu sínu spekingslega álitamáli.

Alla jafna voru systkinin sammála um að lífið væri, svona yfir höfuð, bæði gott og skemmtilegt, og leiddu hugann lítið að öðru. Einn mildan sumardag voru þau á göngu meðfram þjóðveginum á leið heim af næsta bæ, þar sem þau höfðu dvalið dagpart með leikfélögum sínum. Á göngunni styttu þau sér stundir við að raula saman sitt uppáhaldslag, „Hver á sér fegra föðurland.“ Leið þeirra lá framhjá litlu og látlausu timburkirkjunni í dalnum. Þar sem þau höfðu tímann fyrir sér flaug Eldroða í hug að þau ættu að koma við í kirkjugarðinum þar sem afi þeirra og amma hvíldu. Nýttu þau systkinin tækifærið til að þreyta kapphlaup upp afleggjarann að kirkjunni.

Um það bil sem Jökulhetta hafði stungið bræður sína af á kappinu, pípti flunkunýi snjallsíminn í buxnavasa hennar, enda ágætt 3G-netsamband um allan Fjarskadal. Er stúlkan kom móð og másandi að sáluhliðinu dró hún upp símann og sá sér til ánægju að á Facebook hafði enn einn vinurinn skrifað athugasemd við nýju forsíðumyndina hennar: „Gott hjá þér að sýna samstöðu“. Hún hafði nefnilega breytt mynd sinni yfir í gula andlitskallinn sem flögraði um Fésbókina og merkti að hún þekkti einhvern sem hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þar átti hún við frænku þeirra, sem fyrir örfáum dögum hafði ákveðið að taka þátt í Beauty tips-byltingunni á Netinu og segja söguna af ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir.

Þegar bræður hennar tveir höfðu kastað mæðinni þarna í kirkjugarðinum áttuðu þeir sig á, hvað Jökulhetta var að skoða, og vildu ræða málin. Kannski var það hin helga staðsetning, sem olli því að vangaveltur þeirra tóku á sig andlegri blæ en áður; þau voru ekki alveg viss. En Himinblámi hallaði sér sumsé upp að gafli kirkjunnar og sagði: „Hvers vegna haldið þið að allt þetta ofbeldi sé til í heiminum? Af hverju hefur Guð ekki löngu tekið í taumana og stoppað það?“ Eldroði kinkaði kolli: „Nákvæmlega. Og hugsaðu bara um allt þetta vonda sem er í gangi í landinu okkar. Ég verð stundum svo reiður þegar ég hugsa um það sem sumir krakkar í skólanum þurfa að þola, eða sorann sem fólk getur sagt um aðra, til dæmis á Netinu.“

Jökulhetta var nú komin að leiði afa þeirra og ömmu og bætti við, eins og upp úr eins manns hljóði: „Það er ekki það eina sem er skrýtið í lífinu. Hvers vegna þurfum við eiginlega að deyja, og sumir meira að segja allt of fljótt?“ Eftir andartaks umhugsun bætti hún við: „Hver skyldi tilgangurinn vera með öllu saman, lífinu, á ég við?“

Skyndilega hrukku systkinin upp við kunnuglega hundgá. Þetta var Kristvina, tíkin þeirra trygga, komin á móts við sína góðu félaga. Kristvina var íslenskur fjárhundur, komin af léttasta skeiði en ævinlega aufúsugestur nærri þeim systkinum. Þau klöppuðu henni og kjössuðu þarna í grasinu milli leiðanna. En nú brá nýrra við. Líkt og í leiðslu þótti þeim hin gamla vinkona hefja upp raust sína, og mæla:

„Kæru vinir mínir. Ég hef beðið þessa dags lengi, að þið næðuð þeim þroska að bera upp ykkar góðu spurningar. Lítið á lóuna, sem syngur á þúfu. Lítið á kraftmikinn fossinn, sem rennur hér fyrir ofan. Lítið á ykkur sjálf, hversu þið eruð stórkostleg smíði, taugar og æðar og lungu full af hreinu lofti. Allt er þetta undur. Sjáið Drottin að verki allt um kring. Finnið að hugurinn að baki sköpuninni er kærleikur. Rétt eins og ég nýt þess að þiggja og endurgjalda kærleika ykkar, þá er tilgangur lífs ykkar sá að elska. Að elska Guð og elska náungann eins og sjálf ykkur. Kærleikurinn er jafnt rauður, blár og hvítur í hjörtum ykkar, því að þið eigið hann öll jafnt.“

Kristvina, hinn óvænti sendiboði frá eilífðinni, tók sér nú málhlé til að kasta af sér vatni og leyfa Eldroða að klappa sér um stund, en hélt svo áfram:

„Skaparinn hefur gefið okkur öllum frjálsan vilja. Því fylgir mikil ábyrgð. Manneskjan víkur alltof oft af réttri braut og vinnur sjálfri sér og öðrum skaða. Það sjáum við skepnurnar öðrum betur. Þess vegna verðið þið, ungu Íslendingar, að beina sjónum ykkar að kærleikanum og að hinni fullkomnu fyrirmynd hans, Jesú Kristi. En það er rétt, að þegar við elskum gerum við okkur sjálf brothætt og viðkvæm fyrir áföllum. Enginn á jörðu getur skilið til fulls hvers vegna sorgin þarf að fylgja lífinu. Við verðum að glíma við þá spurningu alla ævi. En kærleikurinn mun hafa sigur í áætlun Guðs. Gangið til kirkju og þiggið leiðsögn hans um lögmál lífsins.“

Þegar Kristvina hafði lokið ræðu sinni gengu systkinin hugsi að litlu kirkjunni og Himinblámi lauk upp dyrunum. Er inn var komið varð þeim litið að gamla og lúna skírnarfontinum, þar sem þau höfðu öll verið vatni ausin sem hvítvoðungar; færð í faðm frelsarans eins og börnin í biblíusögunni, sem þau höfðu svo oft heyrt. Orð Jesú í sögunni voru meira að segja útskorin á skírnarfontinum: Leyfið börnunum að koma til mín.

Án umhugsunar gekk Jökulhetta að altarinu og opnaði af handahófi Biblíuna, sem þar lá. Hjartað hamaðist í brjósti hennar þegar við henni blöstu orð úr Rómverjabréfinu, orð sem birtu lögmál lífsins, tilgang þess og markmið. Hún las þau upphátt fyrir bræður sína, hægt og skýrt: Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað, því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.

Kæru fermingarbörn. Í dag er hátíðisdagur í lífi ykkar, áfangi á vegferð ykkar frá barnæskunni til ungdóms- og síðar fullorðinsára. Sú leið er ykkur hulin nú, en við vitum að hún felur bæði í sér ljós og skugga. Við biðjum þess með ykkur, að þið leyfið frelsaranum Jesú Kristi að slást í för með ykkur á þeirri leið.

Sem ómálga börn voruð þið skírð í hans nafni. Sem stálpaðir unglingar á þroskabraut gangið þið hér að altarinu í dag í hans nafni. Þiggið leiðsögn hans í hverju verki og hugsun og haldið í hans hönd um ókomnar slóðir. Gerið umfram allt kærleikann að tilgangi ykkar og markmiði í lífinu, eins og postulinn skrifar: „Sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“ Í Jesú nafni. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1929.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar