Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Ómar Gunnarsson

Lýður og gæsluhjörð

3. maí 2015

Predikun flutt á héraðsfundi Eyjafjarðar - og Þingeyjarprófastsdæmis 2. maí 2015, í Glerárkirkju.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag komum við saman til héraðsfundar, við lítum yfir liðið starfsár og þökkum fyrir það. Á héraðsfundi fáum við að þakka fyrir sigra liðins starfsárs og læra af ósigrum þess. Á héraðsfundi fáum við líka tækifæri til þess að horfa fram á vegin full tilhlökkunar yfir því sem framundan er. Það kann þó að vera, og það er alls ekki ólíklegt að þér sé síst þakklæti í huga, ef til vill var liðið ár þungt og erfitt. Ef til vill reynist þér erfitt að hlakka til þess sem framundan er.

Það eru ýmis teikn á loft, bæði í kirkjunni og í samfélaginu. Það eru átök víða í heiminum og í samfélaginu okkar það geysa harðar deilur á vinnumarkaði, harðar deilur um réttláta skiptingu gæðanna. Auk þessa er margt bendir til þess að okkur í kirkjunni gangi ekki nægilega vel að miðla trúnni á Jesú Krist til samferðafólks okkar.

Umræðan í samfélaginu virðist á stundum afar fjandsamlega í kirkjunnar garð og okkur þykir lítið gert úr hlutverki kirkjunnar, úr hlutverki okkar sem myndum saman kirkjuna. Við heyrum fréttir af fækkun skírnarathafna, fækkun meðlima í þjóðkirkjunni og ýmsar raddir heyrast sem kalla eftir því að kirkjan hverfi úr hinu opinbera rými. En þó ýmis teikn séu á loft þá erum við hér enn! Kirkja, hópur fólks sem leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Hér erum við enn og leitumst við með Guðs hjálp að vera biðjandi, boðandi og þjónandi samfélag, sem helgar sig Jesú Kristi.

Davíðssálmur 100 miðlar þakklæti og fullvissu sálmaskáldsins um gæsku Guðs, sálmurinn er þakkar – og lofgjörðarsálmur. Margir Davíðssálmanna eru einmitt slíkir sálmar, í sálmi 100 færir sálmaskáldið Guði þakkir fyrir gæsku hans og trúfesti við þjóð sína Ísrael, en Guð hafði verið Ísrael athvarf kynslóð eftir kynslóð. Sálmurinn var sunginn við helgigöngur til musterisins, eins konar inngöngusálmur eins og við syngjum í upphafi messu. Fólkið söng á leið til musterisins:

„Öll veröldin fagni fyrir Drottni. Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng. Játið að Drottinn er Guð, hann hefur skapað oss og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. Gangið inn um hlið hans með þakkargjörð, í forgarða hans með lofsöng. Lofið hann, tignið nafn hans, því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“ (Slm. 100:1-5).

Það mætti halda að allt væri í góðum málum hjá því fólki sem söng og bað með orðum 100 Davíðssálms. Sálmurinn lýsir fögnuði og þakklæti þjóðarinnar sem Guð elskaði, Ísrael. Ísrael hafði mikið að þakka því Guð hafði bjargað Ísrael og leitt fólkið sitt aftur til síns heima eftir langa útlegð í fjarlægu landi. Fólkið snéri heim til Ísraels og endurreisti musteri sitt. Það var þakkarefni, Guð hafði snúið við hag þjóðar sinnar og sýnt enn og aftur að hann er hirðir hennar og hún „lýður hans og gæsluhjörð.“
Hvaða erindi eiga orð sálmaskáldsins til okkar sem lifum allt aðra tíma. Hvaða erindi eiga þau við okkur sem höfum allt til alls og skortir fátt að minnst kosti í efnahagslegum gæðum? Sálmur 100 miðlar reynslu kynslóðanna: „…því Drottinn er góður, miskunn hans varir frá kyni til kyns.“ Það var reynsla Ísraels, þjóðar Guðs, jafnt á stundum myrkurs og ljóss. Við getum lært af reynslu Guðs þjóðar.

Nú eru gleðidagar í kirkjunni og við föngum upprisu Jesú Krists frá dauðum, við fögnum sigri hans yfir synd og dauða, við fögnum sigri lífsins. Við fögnum sigri hans sem segir: „Ég er góði hirðirinn, góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina…“ og „…Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Við fögnum hirði okkar, vini og bróður sem aldrei bregst. Við erum lýður hans og gæsluhjörð, hann er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Hann er ávallt nálægur jafnt á stundum ljóss og myrkurs.

Fólkið sem fyrst söng Guði lof og dýrð með orðum 100 Davíðssálms hafði margt að þakka. Guð hafði vitjað þess og leitt það heim á ný. Ytri aðstæður Ísraels voru engu að síður erfiðar, þjóðin var enn undir oki erlends valds og réði ekki málum sínum sjálf og vandamálin heima fyrir voru fjölmörg. Engu að síður söng fólkið þakkar – og lofgjörðarsálm fyrir Guði sínum, engu að síður minntist það trúfesti Guðs, gæsku Guð og varðveislu. Því Guð hafði verið þjóð sinni athvarf frá kyni til kyns og miskunn hans varir um eilífð.

Guð, hefur í Jesús Kristi tekið okkur að sér og gert okkur að lýð sínum og gæsluhjörð. Jesús er góði hirðirinn, sem leggur allt í sölurnar fyrir okkur, það sýnir hann með óyggjandi hætti á krossinum. Hann hefur lofað að vera með okkur allt til enda veraldar, hann hefur lofað að vera með kirkju sinni. „Vér erum lýður hans og gæsluhjörð!“

Hvort sem að við upplifum núverandi aðstæður okkar sem ljós eða myrkur höfum við tilefni til að fagna og þakka, við megum vera full vonar sama hverjar ytri aðstæður okkar kunna að vera: „…því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“

Dýrð sé Guð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir, alda amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 649.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar