Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Úlfurinn Jesús

1. apríl 2015

Þegar að morgni gerðu æðstu prestarnir samþykkt með öldungunum, fræðimönnunum og öllu ráðinu. Þeir létu binda Jesú og færa brott og framseldu hann Pílatusi. Pílatus spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“
En æðstu prestarnir báru á hann margar sakir. Pílatus spurði hann aftur: „Svarar þú engu? Þú heyrir hve þungar sakir þeir bera á þig.“
En Jesús svaraði engu framar og undraðist Pílatus það. Úr morgunlestri dagsins í Mark 15.1-15

Kæri söfnuður.

Í nýútkominni bók sem heitir „Vertu úlfur“ og fjallar um reynslu höfundarins Héðins Unnsteinssonar af lífi með geðhvörf, miklum upphæðum og samsvarandi lægðum, eru birt fjórtán hollráð um hið góða líf. Héðinn kallar þau Lífsorðin fjórtán og þau eru svohljóðandi:

 1. Notaðu andardráttinn
 2. Borðaðu hollan mat í félagsskap annarra
 3. Hreyfðu þig daglega
 4. Lifðu í punktinum
 5. Upplifðu náttúruna
 6. Gleymdu þér
 7. Mundu að brosa
 8. Agaðu sjálfan þig
 9. Vertu til staðar
 10. Stattu með sjálfum þér
 11. Láttu þig langa í það sem þú hefur
 12. Þjónaðu í auðmýkt
 13. Trúðu og treystu
 14. Finndu sjálfan þig í öðrum

Tvö af þessum hollráðum kallast á við orð og afstöðu Jesú í morgunlestri þessa dags, miðvikudags í kyrruviku: Það tíunda um að standa með sér og það tólfta um að þjóna í auðmýkt.

Ég held að orðaskipti Jesú og Pílatusar fjalli einmitt um þetta: Að vita hver maður er og hvar maður stendur - að setja skýr sem innifelur það að að standa með sér.

Til dæmis með því að taka ekki þátt í samskiptum sem byggja ekki upp. Samskiptum þar sem annar aðilinn vill skilgreina hinn eða leiða hann inn í samtal sem skilar okkur ekkert áfram.

Og ég held að samtalið sýni okkur mikilvægi þess að standa með að standa með hlutverki sínu, þeirri stefnu sem maður hefur markað sér. Og hvað var það? Að boða samstöðu með þeim sem minna mega sín, að andæfa valdakerfi sem gengur út að sigra – sama hvað gengur á! Sigra vald með valdi.

Lífsorðahöfundurinn Héðinn skrifar um tíunda lífsorðið:

Þar skiptir mestu máli að geta sýnt öðrum heilbrigð mörk. Heilbrigð mörk eru í raun staðfesting á sjálfsvirðingu. Án sjálfsvirðingar setjum við í raun hvorki okkur sjálfum né öðrum mörk. (178)

Og um það tólfta skrifar hann:

Það sem einkennir gæfusamt fólk er að trana sjálfum sér ekki fram og lifa fyrir aðra. Leiðin að innihaldsríkri tilveru felst í því að geta starfað í auðmjúkri fullvissu um heilan innri kjarna og litla þörf fyrir viðurkenningu. (183)

Jesús neitaði að samþykkja spurningu Pílatusar. Þannig setti hann honum mörk. Og hann setti sjálfan sig ekki í öndvegi heldur lifði hann fyrir aðra.

Kæri söfnuður.
Kyrravikan er bráðum hálfnuð.
Við erum á leið til Golgata.
Með Jesú.
Nú göngum við með honum.
Stöndum með honum.
Lærum af honum.

Guð gefi okkur náð sína til þess.

Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju, 1. apríl 2015.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1521.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar