Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Davíð Þór Jónsson

Krossfestingin virkar ekki

5. apríl 2015

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Saga páskanna er ljót.

Hún er um grimmd, miskunnarleysi, kvalir og dauða. Hún er um veraldlega valdhafa sem svífast einskis til að berja niður hverja ógn sem þeir koma auga á. Hún er um trúarleiðtoga sem líta ekki á sig sem þjóna heldur höfðingja, sem handhafa sannleikans, prókúruhafa Guðs á jörð. Hún er um siðfirrta valdastétt sem traðkar alþýðu manna niður í svaðið í þágu valds síns og virðingar.

En sagan er ekki um vonleysi gagnvart þessari illsku. Hún er ekki um ótta við grimmdina.

Þvert á móti.

• • •

Jesús frá Nasaret hafði verið krossfestur. Leiðtoginn sem lagði musterið undir sig, úthýsti víxlurunum, fordæmdi fjárplógsstarfsemi æðsta prestsins og sakaði hann um að hafa gert musterið að ræningjabæli … Jesús sem setti fram glænýjar kenningar sem ógnuðu stöðu og virðingu þeirra sem álitu sig hina einu réttu umboðsmenn Guðs á jörð … sem sagði: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matt 5.44) … sem sagði: „Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður.“ (Lúk 6.37) Hann hafði verið handtekinn, pyntaður og lífið murkað úr honum með þeim kvalafyllsta og mest niðurlægjandi hætti sem rómversk valdasýki hafði getað upphugsað: Krossfestingu.

Ljós heimsins hafði verið slökkt.

Fylgjendur Jesú höfðu tvístrast um allt. Sá fremsti þeirra meðal jafningja hafði meira að segja skelfingu lostinn afneitað frelsara sínum þrisvar af ótta við að hljóta sömu örlög og hann.

Auðvitað voru fylgjendur Jesú þrúgaðir af vonleysi og uppgjöf. Allt sem þeir höfðu unnið að, allt sem þeir höfðu trúað á og vonað á var að engu orðið. Hinir nýju og betri tímar sem þeir höfðu gert sér vonir um að væru í augsýn … blekking og tál. Meistarinn hafði verið tekinn og slátrað opinberlega, fórnarlamb kvalalosta og mannhaturs valdsins. Allt yrði áfram eins og það var og hafði alltaf verið, hver tilraun til mannlegrar reisnar barin niður jafnharðan með harðsvírðu miskunnarleysi. Þannig yrði það um ókomna tíð.

Markmið krossfestingar var ekki aðeins að deyða hinn dæmda heldur að drepa hverja von hjá alþýðu manna um að grimmd valdsins myndi nokkrun tímann láta undan síga.

• • •

Sagan segir frá tveim valdleysingjum sem voru á leiðinni að gröf Jesú til að smyrja lík hans. Tveir einstaklingar, sem voru eins langt frá efsta lagi samfélagsins, eins fjarri valdinu og komist varð, ætluðu að vinna síðasta kærleiksverkið sem Guð á jörð myndi njóta. Eftir að toppurinn á valdapíramídanum hafði drepið hann myndi það vera botn hans sem smyrði lík hans.

Þetta voru konur, fullkomlega valdlausar, réttlausar og raddlausar, dæmdar við fæðingu vegna kynferðis síns og þjóðfélagsstöðu til að verða aldrei neitt annað en þolendur og leiksoppar í lífi sínu. Jafnvel lægst settu karlar voru yfir konur hafnir, nema kannski fjárhirðar. Þeir voru við hlið alþýðukvenna á botni samfélagsins.

En þegar konurnar komu að gröfinni var hún tóm. Þess í stað birtist þeim engill sem sagði: „Þið skuluð eigi óttast.“

Þessi skilaboð hafði Guð fært mönnum áður með munni engla sinna. „Þið skuluð eigi óttast. Verið óhræddir.“

Rúmum þrjátíu árum áður höfðu englar birst mönnum, merkilegt nokk fjárhirðum í það skiptið. Þeir höfðu verið að gæta hjarða sinna á Betlehemsvöllum og þegar þeir urðu felmtri slegnir við guðsbirtinguna – eðlilega – fengu þeir þessi sömu skilaboð: „Verið óhræddir.“

Inn í þessi skilaboð til hinna valdlausu og réttlausu er jarðneskt líf Jesú Krists rammað: Verið óhræddir, fjárhirðar. Ykkur er frelsari fæddur. Ekki óttast, konur. Hann er upprisinn.

Hvað merkir það?

Hvað er Guð að segja okkur með þessari sögu?

Að fyrir 2000 árum hafi rómverski herinn klúðrað aftöku?

Að fyrir 2000 árum hafi sá einangaraði sögulegi atburður átt sér stað í fjarlægum heimshluta að liðið lík hafi fyrir tilstilli einhves guðdómlegs „hókus-pókuss“ fyllst aftur af lífi og labbað burt úr gröf sinni?

Ef svo er, er þá ekki eðlilegt að spyrja: „Hvað kemur það mér við? Hér á Íslandi? Tvöþúsund árum síðar? Hverju breytir það fyrir mig?“

Eða er Guð að segja okkur eitthvað sem á erindi til okkar í dag? Hér og nú?

• • •

Þýski guðfræðingurinn Rudolf Bultmann var einn helsti forvígismaður frjálslyndrar guðfræði á fyrri hluta síðustu aldar. Sagan segir að einhvern tímann hafi hann talað um merkingu upprisunnar með þeim hætti að íhaldssamari og bókastafstrúaðari áheyrendur supu hveljur. Hann var því einfaldlega spurður: „Trúirðu því þá ekki að Jesús hafi raunverulega risið upp frá dauðum?“ Bultmann mun hafa svarað: „Hvað veit ég um það? Ég er guðfræðingur, ekki fornleifafræðingur.“

Fyrir Bultmann var upprisan einfaldlega ekki sögulegur atburður heldur trúarlegur sannleikur. Fyrir honum voru rannsóknir á gröf Jesú viðfangsefni fornleifafræðinnar, ekki guðfræðinnar. Viðfangsefni guðfræðinnar var að hans mati ekki upprisan sem einangraður sögulegur atburður heldur trúarleg merking hennar sem eilífs sannleika.

Ljós heimsins verður nefnilega ekki slökkt.

Það þarf ekki nema eina litla ljóstíru til að rjúfa hið svartasta myrkur.

Á hinn bóginn megnar allt heimsins myrkur ekki að kæfa einn lítinn kertaloga.

Ljósið hefur enga ástæðu til að óttast myrkrið. Myrkrið er fullkomlega vanmáttugt gagnvart því. Það er myrkrið sem hefur ríka ástæðu til að vera skelfingu lostið gagnvart ljósinu – ekki öfugt.

Krossfestingin virkar ekki.

Ekki bara krossfesting Jesú sem reis upp frá dauðum á þriðja degi, heldur krossfesting vonarinnar. Hún er ódrepanleg.

Þetta hefðu Rómverjar átt að vita. Nógu marga höfðu þeir krossfest til að slökkva í vonarneistum án þess að það hefði nein áhrif á þörfina fyrir krossfestingar.

Árið 71 f.Kr. voru 6000 þrælar, sem gert höfðu uppreisn undir forystu þræls að nafni Spartakus, krossfestir við Appia-veginn til Rómar. Maður hefði haldið að það hefði nægt til að enginn léti sér detta í hug að rísa upp gegn valdi Rómar framar. Samt gerðu gyðingar í Jerúsalem tilraun til uppreisnar árið 4 f.Kr. vitandi hvað myndi bíða þeirra ef þeim mistækist ætlunarverk sitt. Þeirri tilraun lauk með því að 2000 gyðingar voru krossfestir í Jerúsalem. Og þrátt fyrir krossfestingu Jesú og ótal annarra í millitíðinni var gerð önnur uppreisn í Jerúsalem árið 70 e.Kr. sem lyktaði með eyðingu borgarinnar og svo margir voru krossfestir að ekki var pláss fyrir fleiri krossa á staðnum, en samt urðu Rómverjar, samkvæmt samtímaheimildum, uppiskroppa með krossa áður en þeir náðu að aflífa alla sem dæmdir höfðu verið til krossfestingar.

Krossfestingin sýnir vissulega grimmd og miskunnarleysi valdsins. En hún lýsir líka örvæntingu; örvæntingu þess sem veit að hann hefur rangt fyrir sér og lætur því hnefana tala, örvæntingu þess sem gerir sér grein fyrir því að hann er að fara halloka í rökræðu og reynir að breiða yfir það með því að hækka róminn.

Krossfestingin sýnir örvæntingu valds sem finnur til vanmáttar síns gagnvart voninni í hjörtum alþýðunnar og bregst við með því að upphugsa sífellt svívirðilegri og fólskulegri aðferðir í sinni vonlausu baráttu við að kveða hana í kútinn.

• • •

Kristur er upprisinn.

Kristur er sannarlega upprisinn í hjarta hvers manns sem á hann trúir. Sá sem fylgir honum mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. Ekkert myrkur megnar að kæfa það ljós. Engin krossfesting drepur þá von.

• • •

Saga páskanna er ljót.

Hún er um grimmd og miskunnarleysi, um hina sterku sem kúga þá veikari og traðka þá ofan í svaðið. Hún er um tilraun til mannlegrar reisnar sem er barin niður af harðýðgi og fólsku. Hún er um misþyrmingar, blóð og dauða.

En hún er ekki um uppgjöf gagnvart grimmdinni og miskunnarleysinu. Hún er ekki um vonleysi gagnvart fólsku og illsku valdsins. Hún er um vonlausa baráttu illskunnar við kærleikann. Hún er um vanmátt grimmdarinnar gagnvart voninni, afhroð myrkursins fyrir ljósinu.

Hún er um upprisu frá dauðum.

Og hún er um Guð sem kemur inn í aðstæður þrúgaðar af uppgjöf og vonleysi með von og kærleika og segir: „Verið óhrædd. Ég er hér. Ég lifi. Ég er ekki að fara neitt.“

„Nú varir þetta þrennt, trú, von og kærleikur,“ segir postulinn Páll. (1Kor 13.13). Saga páskanna staðfestir það.

Rómverska heimsveldið varði ekki. Það er löngu liðið undir lok. Og síðan það leið undir lok hafa allmörg heimsveldi risið og fallið.

En trú, von og kærleikur vara enn.

Krossfesting kærleikans virkar nefnilega ekki.

Hann rís alltaf upp aftur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1674.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar