Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Ómar Gunnarsson

Hann er með þér!

12. apríl 2015

Kæru fermingarbörn, ættingjar og vinir. Gleðilega hátíð!
Í dag er svo sannarlega hátíðisdagur því þessi glæsilegu ungmenni hafið ákveðið að segja JÁ við Jesú Kristi, þau hafa ákveðið að hafa hann að leiðtoga lífsins. Það er gleði – og þakkarefni!

Fermingarbörnin okkar hafa undirbúið sig vel, sótt fermingarfræðslu í allan vetur og tekið þátt í helgihaldinu og kirkjustarfinu. Þau eru því tilbúin að segja JÁ við Kristi og staðfesta skírn sína. Í skírninni játast Guð okkur í kærleika sínum. Guð segir JÁ við okkur. Ljóðskáld eitt orti um þetta JÁ Guðs með þessum orðum:

Ég var ekki spurður
þegar ég fæddist,
né heldur var hún er fæddi mig spurð
er hún fæddist,
enginn var spurður
nema hinn Eini
og hann sagði: JÁ
(Úr bókinni „Orð í gleði“ eftir Karl Sigurbjörnsson)

Kæru fermingarbörn! Guð segir JÁ við ykkur. Þið eruð óendanlega dýrmæt í augum hans, Guð elskar ykkur meir en orð fá lýst. Og kærleikur hans er svo mikill að ekkert getur skilið ykkur frá honum. Páll postuli upplifði kærleika Guðs í eigin lífi og um kærleika Guðs sagði hann:

„Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

Guð elskar ykkur heitt og JÁ hans verður aldrei NEI. Guð í Jesú Kristi, hefur sagt JÁ við ykkur og í dag segið þið JÁ við honum og allt það sem hann vill vera ykkur og gefa ykkur. Í dag munu þið marka lífi ykkar ákveðna stefnu frammi fyrir augliti Guðs. Þið verðið spurð hvert og eitt: „Vilt þú hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?“ Svarið ykkar „JÁ“ er játning ykkar. „JÁ“ ykkar lýsir því yfir að þið viljið fylgja Jesú. Það er gott að fylgja Jesú, en það er ekki alltaf auðvelt, því Jesús kallar okkur til þess að elska Guð og elska náunga okkar. En það reynsit okkur mannfólkinu oft á tíðum afar erfitt, en engu að síður segir Jesús við okkur:

„Elska skaltu Drottin Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er því líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Sá sem fylgir Jesús lifir ekki bara fyrir sjálfan sig, heldur fyrir Guð og náunga sinn. Jesús kallar okkur til að elska það sem Guð elskar. Og hvað er það sem Guð elskar? Guð elskar fólkið sem hann hefur skapað, jörðina sem hann skóp með orði sínu, Guð elskar allt sem lifir. Guð kallar okkur til þess að vera hendur sínar hér á jörðu og verða boðberar ljósins, að verða fólk sem leitast við að færa alla hluti til betri vegar. Þetta er ekki lítið, heldur mjög mikið, en Guð skilur okkur ekki eftir ein, hann sendir okkur sinn heilaga anda til þess að hjálpa okkur að vera ljósberar hans.

Kæru fermingarbörn þið eruð ung og lífið á eftir að færa ykkur mikla gleði og hamingju. Lífið er þó ekki alltaf dans á rósum og stöku sinnum göngum við í gegnum erfiðleika. Þið megið vita að
þið eruð aldrei ein á ferð því Kristur segir: „Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar“ Það er loforðið mikla sem hann gefur okkur hverju og einu! Kristið fólk hefur reynt þennan veruleika aftur og aftur á lífsleiðinni. 23. Davíðssálmur lýsir þessum veruleika trúarinnar svo vel:

„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta […] Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér“

Kæru fermingarbörn. Þið eruð ekki ein á þessari vegferð sem lífið er. Horfið á fólkið ykkar sem situr í kirkjunni og horfir brosandi til ykkar. Þetta er fólkið ykkar, það er til staðar fyrir ykkur. Hjá því getið þið sótt styrk og leitað ráða er þið haldið áfram að vaxa og þroskast í lífinu.

Kirkjan vill líka vera ykkur athvarf, hún vill vera ykkur heimili. Hún vill vera sá staður þangað sem þið sækið styrk til þess að lifa lífinu ykkar vel og fallega. Fermingin er ekki útskrift, látið því þennan dag ekki vera síðasta daginn sem þið komið til kirkju. Kirkjan er nefnilega meira en bygging, prestar og orgel. Þið eruð kirkjan og án ykkar er kirkjan okkar fátækari.

Umfram allt munið að Jesús er með ykkur alla daga. Sama hvað á dynur þá er Jesús þér við hlið. Hann er hjá þér, hann heyrir bænir þínar og vill blessa þig. Jesús gengur með þér þegar allt allt leikur í lyndi og þegar þú ferð um dimma dali lifsins. Jesús segir JÁ við þér eins og þú ert! Hann segir við þig í dag:

„Fylg þu mér“

og

„Sjá ég er með þér alla daga, allt til enda veraldar.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.
Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Fermingarræða flutt í fermingum 11. og 12. apríl 2015.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2028.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar