Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Valdhöfunum ógnað

8. mars 2015

Náð sé með okkur öllum.

Fyrir stuttu síðan kvartaði nýr þjóðleikhússtjóri yfir því að konur væru of áberandi á þessu leikári Þjóðleikhússins, og það þyrfti að passa að ganga ekki of langt, til að karlar upplifðu ekki að þeir hefðu minni möguleika en konur. Tvær konur stigu fram á ritvöllinn og svöruðu þessum áhyggjum hans. Saga Garðarsdóttir leikkona, benti á að réttara hefði verið að Ari væri stoltur af því að„fara fyrir stofnun sem hefur tekist að snúa við mörg hundruð ára hefð karlaveldis” og Þórhildur Þorleifsdóttir fyrrverandi leikkhússtjóri Borgarleikhússins, svaraði honum einnig og rakti það hvernig karlasamfélagið fer gjarnan að titra þegar konur verða of áberandi.

Ég nýt þess að starfa í söfnuði þar sem eru tveir kvenprestar í fullu starfi, og ég held að það sé eini söfnuðurinn á landinu þar sem sú er raunin Um tíma vorum við þrjár í haust, og einn karlprestur, en nú eru hlutföllin jöfn, tveir kvenprestar og tveir karlprestar, í þessum stærsta söfnuði landsins í Grafarvogi, sem telur hátt í 20.000 íbúa. Við upplifum það mjög gjarnan, ég og kollega mín, að fólk (oftast karlmenn) hefur það á orði: Já, þið konurnar eruð bara að yfirtaka kirkjuna. Eða, þið konurnar eruð nú bara að taka öll völd í samfélaginu!
Ég fæ alltaf dálítinn kjánahroll þegar ég heyri þetta, því það er svo fjarri lagi. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup, bendir á það í pistli á tru.is, að þótt konur hafi sigrað flest vígi í samfélaginu, verið sendiherrar, ráðherrar, bankastjórar, forseti lýðveldisins, og nú síðast, biskupar, þá sé enn langt í land með að launajafnrétti sé náð, og enn þykir það miklum tíðindum sæta, ef konur komast í áhrifastöður í samfélaginu, og eins og ummæli þjóðleikhússtjóra benda til, veldur það gjarnan miklum titringi.

Jesús er staddur á laufskálahátíð í Jerúsalem. Þetta er ein af höfuðhátíðum gyðinga, og borgin er full af fólki. Hann er orðinn þekktur fyrir starf sitt, fyrir það hvernig hann hefur sinnt þeim undirokuðu, læknað, huggað og styrkt, og hvernig hann hefur blygðunarlaust gagnrýnt valdaöflin í samfélaginu. Og þetta hefur tekið sinn toll. Starf Jesú hefur komið róti á samfélagið. Fólk, sem áður sætti sig við stað sinn í valdastiganum, sætti sig við örlög sín, að tilheyra hinum fátæku, hinum útskúfuðu, hinum ósýnilegu, hinum valdalausu, hefur allt í einu fengið rödd. Hefur allt í einu fengið málsvara. Og hinum valdamiklu er ógnað. Þeirra vald er ekki lengur óskorað, þeir geta ekki lengur gengið fram í öryggi þess að enginn muni gagnrýna það sem þeir segja og það sem þeir gera.

Þegar jafnvægi í samfélaginu er ógnað, skýrast línur. Þar sem áður voru mörg grá svæði, verða hlutirnir annað hvort svartir eða hvítir. Annað hvort ertu með eða á móti. Vinur eða óvinur. Hefur rétt fyrir þér eða rangt. Og þannig var andrúmsloftið á laufskálahátíðinni í Jerúsalem. Jesús stendur í kappræðum við andstæðinga sína, og þær verða sífellt harkalegri. Við erum ekki vön að heyra Jesú svona harðorðan. Þér eigið djöfulinn að föður! Segir hann. Hann er ekkert að skafa utan af því. Og hann sakar andstæðinga sína um að loka augunum fyrir sannleikanum.
Skömmu áður en Jesús lætur þessi orð falla gerist atburður sem hristir hressilega upp í þeim sem fylgjast með Jesú. Þar sem hann er í helgidóminum að kenna, er komið með konu til hans. Hún hefur verið staðin að hórdómi. Ekkert kemur fram um örlög hins samseka karlmanns, en konan er dregin fram fyrir Jesú í helgidóminum. Hún er látin standa mitt á meðal þeirra, til sýnis, og Jesús er spurður.„Finnst þér ekki að það eigi að grýta hana? Það er svoleiðis sem við förum með slíkar konur.” Þið þekkið sennilega flest þessa sögu. Hvernig Jesús þagði við, laut niður og skrifaði eitthvað með fingrinum á jörðina. Og hvernig hann rétti sig upp og sagði við þá: Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana” Og hvernig hann beygði sig aftur niður og hélt áfram að skrifa.
Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvað það var eiginlega sem Jesús skrifaði. En ég vil draga athygli ykkar að öðru. Hættum að horfa á Jesú. Horfum frekar á konuna. Því þegar Jesús beygir sig niður, beinir hann athygli áhorfenda frá sér að konunni. Hann beygir sig niður til að konan sjáist. Svo að þeir sem horfa á komist ekki hjá því að horfa á þessa konu sem stendur þarna, og að þeir sjái að hún er manneskja eins og þeir. Og Jesús krefst þess að þeir menn sem ætla að dæma hana, mæli hana með sama mælikvarða og þeir mæla sjálfa sig. Og einn af öðrum láta þeir sig hverfa.
Það er í kjölfar þessa atburðar sem Jesús lendir í þessum harkalegu deilum sem við heyrðum lesið um áðan. Jesús er búinn að hrista hressilega upp í valdinu, og það kemst enginn upp með það öðru vísi en að mæta andstöðu og lenda í hættu. Og Jesús er sannarlega í mikilli hættu. Andstaðan við kenningu hans og boðskap eykst sífellt, og það eru ekki bara fræðimennirnir og farísearnir sem eru honum andsnúnir. Það voru ekki bara hinir valdamiklu yfirstéttarmenn sem hrópuðu frammi fyrir Pontíusi Pílatusi og kröfðust þess að Jesús yrði krossfestur, en Barrabas látinn laus. Almenningur tók þátt í þeim gjörningi, því boðskapur Jesú ógnaði þeim líka.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Konur út um allan heim koma saman til að minnast þess að enn er langt í land með að jafnrétti kynjanna sé raunveruleiki. Við hér á Íslandi minnumst þess sérstaklega að í ár eru 100 ár liðin frá því að konur fengu í fyrsta skipti kosningarétt. Og við skyldum ætla að 100 árum eftir að konur fengu aðgang að kjörkössunum, væri fullu jafnrétti náð. Það héldum við alla vega þegar það var kannað árið 2003. En nú er annað uppi á teningnum. Á síðustu árum hefur orðræðan harðnað. Gráu svæðunum hefur fækkað, svörtu og hvítu svæðin orðin fleiri. Og sífellt fleiri meðal ungs fólks aðhyllast ákveðið ójafnrétti, t.d. finnst stórum hópi karlkyns unglinga að karlinn eigi að hafa meiri ákvörðunarrétt í samböndum en konur. Og konur þora ekki að opna munninn af ótta við að vera úthrópaðir öfgafeministar. Að ég tali nú ekki um hótanir um ofbeldi eða nauðganir. Þegar jafnvæginu er ógnað, ókyrrast þeir sem hafa völdin.

Jesús ógnaði þeim sem völdin höfðu. Hann setti nýja mælikvarða. Og hikaði ekki við að kalla ráðamenn samfélagsins börn djöfulsins. En það sem ógnaði valdhöfum kannski mest, var allt það fólk sem hann reisti upp. Sem hann veitti huggun og von. Eins og konan sem fór frjáls ferða sinna í stað þess að vera grýtt fyrir hórdóm. Eða eins og blindu og lömuðu mennirnir sem Jesús læknaði. Og öll þau sem upplifðu það að vera snortin af boðskap Jesú. Sem skynjuðu það og skildu að þau voru elskuð Guðs börn, án tillits til kyns eða samfélagsstöðu.

Og þetta er líka boðskapur Jesú Krists til þín. Þú ert líka elskað barn Guðs. Hvort sem þú ert karl eða kona, hvaða stöðu sem þú hefur í samfélaginu, þá ert þú fullgild manneskja, góð sköpun Guðs, sem nýtur kærleika hans. Það er eini mælikvarðinn sem gildir. Og þitt hlutverk er að láta til þín taka í samfélaginu. Með Jesú Krist sem fyrirmynd. Og hann getur verið okkur öllum fyrirmynd. Körlum ekki síst vegna þess að hann mældi konur sömu mælikvörðum og karla. Hann viðurkenndi tilvistarrétt þeirra og umgekkst þær sem jafningja. Og þessi afstaða Jesú á að vera okkur konum innblástur. Innblástur til að taka okkar pláss í samfélaginu, stíga fram, benda á misrétti, og láta ekki þagga niður í okkur.

Dýrð sé Guði, sem gefur öllum jafnan tilverurétt.

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2261.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar