Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Tannleysi og talentur

1. febrúar 2015

„Hann er tannlaus greyið
takið eftir því, tönnunum hann týndi,
takið eftir því, tönnunum hann týndi,
sykursnúði í.
Nú er illt í efni, ekkert tyggja má …“

Svona var sungið um kónginn í sælgætislandinu. Við sem aðeins eldri erum munum eftir þessu frá því við vorum ung. Þetta er af plötunni Í sjöunda himni með félögunum Glámi og Skrámi.

Ég skildi þetta alveg á sínum tíma. Átti afa og ömmu sem höfðu misst tennurnar – voru af þeirri kynslóð – og notuðu gervitennur. Þau þurftu aldrei að bursta, settu tennurnnar í glas með vatni og hreinsipillu á kvöldin. Ég öfundaði þau því mér fannst leiðinlegt að þurfa að bursta. Kannski var þetta miklu flóknara en svona sá lítill strákhnokki þetta.

Vegna þessa skildi ég vel fimmaurabrandarann sem ég sá einu sinni á Ómega. Hann er svona:

Prédikari stóð í stólnum. Fór með hluta af þessu guðspjalli sem við lásum frá altarinu, lagði sérstaka áherslu á lokaorðin og refsinguna: Það verður grátur og gnístran tanna. Gömul kona sat á fremsta bekk, henni virtist órótt. Kannski tók hún þetta til sín. Þetta var kirkja þar sem stundum voru samtalsprédikanir og því rétti hún upp hönd. Skjálfandi. Prédikarinn gerði hlé á orðum sínum þegar hann sá hana:

- Ertu með spurningu?
- Já. Hvað ef maður er orðinn tannlaus?
- Þér verður séð fyrir tönnum!

Mér fannst þetta svolítið fyndið þegar ég sá það í sjónvarpinu. En þetta er líka gott dæmi um leiðina sem þarf að fara þegar við nálgumst Biblíuna bókstaflega. Grátur og gnístran tanna hlýtur þá að merkja bókstaflega grátur og gnístran tanna. Og einmitt þá getur komið upp vandi þegar sá eða sú sem les söguna eða hlustar á hana og heimfærir á sig hefur engar tennur til að gnísta.

• • •

Við túlkum Biblíuna. Þegar það er gert skoðum við texta, bækur og ritið allt í ljósi sögunnar og þess samhengis sem það spratt upp úr. Við skoðum líka samhengið sem einstakar sögur standa í, hugsum um félagslegar aðstæður á tíma Biblíunnar. Og við heimfærum þessa texta upp á samtímann. Byggjum brú frá fjarlægri veröld Biblíutextanna til okkar eigin samtíma og okkar eigin reynslu. Við erum alltaf að gera þetta.

Við erum okkur til dæmis meðvituð um að í Biblíunni finnum við ólík bókmenntaform. Og hún samanstendur af 66 mjög ólíkum bókum sem urðu til á löngum tíma. Rowan Williams, sem var erkibiskup í Kantaraborg, orðar þetta svona:

„Biblían er fjölbreytt rit. Fjölbreytnin er svo mikil að hún jafngildir því að þú hefðir í einni bók Sonnettur Shakespeare, lagasafn frá 1910, innganginn að Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Immanúel Kant, bréf heilags Anselms og búta úr Kantaraborgarsögum eftir Chaucer. Allt í einni bók. Samt er ritunartími Biblíunnar lengri en ritunartími þessara bóka sem ég nefndi.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að við megum ekki falla í þá freistni að einfalda þetta mikla safn texta Biblíuna um of, til dæmis með því að segja að hún sé í raun og veru sagnfræði, safn af lögum og reglum eða ljóðabók. Hún er allt þetta og svo miklu miklu meira. Og kannski er mikilvægast af öllu, segir Williams, að lesa hana alla og rýna í það hvað Guð vill segja okkur, með og gegnum Biblíunni.

• • •

Eitt af því sem við lesum eru dæmisögur Jesú. Og þá komum við reyndar aftur að konunni í útlensku kirkjunni. Því þótt við séum okkur meðvituð um ólík bókmenntaform og það allt þá gerum við líka það sem hún gerði: við hlustum og lesum og spáum í það hvernig við rímum við þessa sögu sem verið er að segja. Það gerum við alveg sérstaklega við dæmisögurnar hans Jesú. Við veltum fyrir okkur: Hver er ég í þessari sögu? Hverjum líkist ég? Hver vildi ég vera? Hver vildi ég alls ekki vera?

Við gerum þetta ósjálfrátt, en getum líka gert það meðvitað. Hver ert þú til dæmis í sögunni sem við lásum í dag?
- Ríki maðurinn?
- Þjóninn sem ávaxtaði mest eða næst mest?
- Ónýti þjónninn, þessi sem átti það í vændum að gnísta tönnum?
- Sá eða sú sem hendir honum út í ystu myrkur?
- Sá sem segir söguna?

Hver ert þú alls ekki? Hver viltu vera? Hver viltu ekki vera? Hvers vegna? Dæmisögurnar fá okkur til að hugsa og þær eiga að gera það. Þessi beinir til dæmis kastljósinu að sambandinu milli yfirmanna og undirmanna, hún veltir upp spurningum sanngirni og öryggi, um væntingar, um réttlætið í heiminum þar sem þeir sem eiga mikið fá meira og þeir sem eiga lítið fá minna og jafnvel skömm.

Eru ystu myrkur kannski líking fyrir gjaldþrot? Fjallar sagan um vexti? Eða gæti hún gert það? Kannski.
Þannig virka dæmisögurnar.
Þær eru ekki einfaldar og þær eru ekki lokaðar. Túlkunin liggur ekki alltaf í augum uppi en áhrifin eru oftar en ekki augljós. Þær hrista upp í okkur, þegar við leyfum okkur að hlusta og leyfum þeim að seytla inn.
Þannig virka dæmisögurnar.

Eins er það með Biblíuna.
Og þá komum við aftur að upphafi prédikunarinnar. Kóngurinn í sælgætislandi var tannlaus. Hann hafði etið of mikið nammi og nú kom það í bakið á honum. Hann þurfti nefnilega tennur til að njóta alvöru matar. Við þurfum líka að hafa „tennur“ til að njóta Biblíunnar. Því textana þarf að tyggja og melta og helst borða hægt. Ekki skima eða skauta yfir, ekki einfalda um of, ekki lesa yfirborðskennt. Heldur virða þá, leyfa þeim að búa með okkur, íhuga þá, lesa, hlusta, meðtaka.

Heyra hvað Guð vill segja við okkur.
Með öllum þessum sögum.
Sem fjalla um fólk eins og þig og fólk sem er allt öðruvísi en þú.
En var samt allt að fást við lífið og trúna og Guð.
Eins og þú.

Hvatning dagsins er því þessi.
Lestu.
Hlustaðu.
Tyggðu.
Hægt.
Það skilar árangri.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Bústaðakirkja, 1. febrúar 2015. Lagt út af 5Mós 8.7, 10-11, 17-18, 1Kor 3.10-15, Matt 25.14-30.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2236.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar