Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Hvað er framundan?

15. febrúar 2015

Á fimmtudagsmorguninn hlustaði ég á athyglisvert viðtal í Ríkisútvarpinu. Viðmælandinn hefur haft það verkefni undanfarið að heimsækja grunnskóla höfuðborgarsvæðisins á vegum Advaniaskólans ásamt dóttur sinni, einnig hefur hann heimsótt framhaldsskólana. Erindið er að ræða um samfélagsmiðlana við börn og unglinga, foreldra og kennara.

Í viðtalinu var dregin upp ófögur mynd af heimi netsins sem börn og unglingar virðast verja ótrúlega miklum tíma til að fylgjast með eins og iðulega hefur komið fram í athugunum.

Þarna voru rakin dæmi af ýmsum toga um netveröld barna og unglinga, þar væri vissulega margt gott og gagnlegt og ekki væri tilgangurinn með þessum heimsóknum að draga úr gildi netsins fyrir börn og unglinga. En almennt talað þyrftu þau að læra að nýta sér það betur til gagns og raunar að fóta sig á því hála svelli sem það reynist vera í mannlegum samskiptum. Einkum lá viðmælandanum misnotkun netsins á hjarta. Í því sambandi nefndi hann einelti og niðrandi umfjöllun um börn og unglinga, hótanir og eitt og annað sem var síður en svo glæsileg mynd af raunveruleika lífsins á þessum vettvangi.

Dóttir hans hafði orðið fyrir miklu og alvarlegu einelti á netinu og þess vegna hafði hann og þau feðginin tekið sér þetta verkefni fyrir hendur. Fram kom að einelti væri mikið vandamál á netinu, bæði hér á landi og erlendis.

Með þessu viðtali, fræðslufyrirlestrum sínum og heimsóknum í skólana vildi þessi maður öðru fremur vekja fólk til umhugsunar og kalla foreldra til meiri ábyrgðar á því sem þarna væri að gerast. Reynslan sýnir að þar skorti mikið á, foreldrar bera iðulega við lítilli kunnáttu á netinu og öllu sem því viðkemur. En ábyrgð uppalenda er engu að síður mikil og þessu mætti líkja við umferðina að mati viðmælandans: foreldrar segðu börnum til áður en þau færu ein út í umferðina en létu þau ekki æða hugsunarlaust og án tilsagnar út á götuna. Svipuðu máli gegndi um netið, sérstaklega samfélagsmiðlana.

Öllum er ljóst að mikil tæknibylting er að ryðja sér til rúms vítt og breitt um heiminn og með ótrúlegum hraða. Mikið er í húfi að hún verði ekki til tjóns heldur til gagns, þar bera margir ábyrgð því að um netið flæðir hvort tveggja yfir: það besta og það versta, þar er eitt og annað sem getur skipt sköpum í lífi einstaklinga og samfélags. Þessi vegna snýst málið í reynd ekki um tækni og tækniþekkingu heldur um líf og lífsviðhorf.

Það er ekki aðeins í þágu barna og unglinga, sem heimilin verða að vera á verði, heldur einnig í þágu samfélagsins. Samfélagið hefur í reynd varpað stórum hluta uppeldisins yfir á heimilin, allt sem snertir lífsviðhorf í samfélaginu, lífsgildi, siðferðisgildi og trú, sem hefur kannski aldrei í sögunni sett eins mikinn svip á heiminn og nú, einnig hinn vestræna heim. Enginn veit hvaða áhrif það á eftir að hafa að börn eru að að fjarlægjast rætur okkar vestrænu menningar sem er að finna í hinum djúpa og breiða heimi trúarinnar. Mér vitanlega hefur engin rannsókn farið fram á því máli.

Uppeldi og mótun einstaklingsins er þáttur í menningu hvers samfélags, okkar tímar einkennast af miklu frelsi segja sumir, en upplausn, segja aðrir. Frelsi án ábyrgðar er ekki frelsi heldur upplausn þar sem ekkert er betra en annað, helgidómurinn er jafngildur bílskúrnum, mannúðin skiptir engu, baráttan við að lifa sjálfur af og sigra í baráttu, sem verður sífellt harðvítugri, hlýtur að verða loka niðurstaðan í hverju því samfélagi sem missir hér fótanna. Frelsi án ábyrgðar og án tilgangs er oftar en ekki leið mannsins til að glata frelsi sínu og týna sjálfum sér.

Nú í haust kom til okkar að Reynivöllum úkraínsk-bandarískur skurðlæknir sem bjó fyrstu ár ævinnar í Úkraínu og á þar ættingja. Þangað lá leið hans að þessu sinni, til þess að hjálpa starfsbræðrum sínum á sjúkrahúsi við að lækna sár þeirra sem særðust í stríðinu sem þar geisar. Á heimleiðinni vestur um haf kom hann aftur við og hafði þá frá mörgu að segja úr för sinni. Í reynd var hann niðurbrotinn innra með sér eins og allir sem kynnast styrjöldum og sjá hlið á mannlífinu sem flestir hafa aðeins kynnst í kvikmyndum og sjónvarpsfréttum.

Hann hafði fengið vænan skammt af dýpra innsæi inn í upplausn og ráðleysi sem hafði tekið á sig mynd takmarkalausrar grimmdar. Vonin var hvergi til staðar lengur að hans mati, framundan var allt svart. Ég veit að í huga hans var þessi spurning: Skyldi þessi þjóð, sem hefur markvisst mótast af guðleysi í tæpa öld, nú vera að horfast í augu við þann veruleika sem sáð hefur verið til í þrjár kynslóðir?

Reynslan hefur oft kennt manninum marga harða lexíu og sagan er besti kennari mannsins. Ég held að menn viti innst inni, einnig þeir, sem telja sig yfir allt hafna sem heitir trú og kirkja, einnig þeir vita innst inni að það skiptir máli hver mótar einstaklinga og þjóðir, hver og hvað, þeir vita að farsæld eins samfélags byggist ekki aðeins á þekkingu, hún byggist einnig á lífsgildum og umfram allt á sannfæringu um að eitt sé betra en annað.

Það er mér stundum umhugsunarefni að kanzlari Þýskalands er alin upp á prestaheimili í Austur- Þýskalandi þar sem faðir hennar var prestur. Og að forseti sama lands þarna í miðri Evrópu, sem var blóðvöllur í tvær aldir, var starfandi prestur í kirkjunni í Austur-Þýskalandi. Skyldi það vera tilviljun að þeim eru falin slík ábyrgðarstörf af þjóðinni, þeim sem koma úr hinum harða skóla þess guðleysis sem mótaði tvær sterkustu pólitísku hugmyndastefnur aldarinnar, kommúnismans og nasismans?

Það er munur á ræktuðum garði þar sem gróðurinn fær aðhlynningu og næringu og þeim garði sem enginn hirðir um og illgresið leggst yfir og kæfir allt sem nytsamt er og fagurt áður en það sér dagsins ljós, illgresið krefst einnig frelsis til að lifa og leggja allt undir sig. Er því ekki líkt farið með mótun ungra sem aldinna: farsæld einstaklinga og þjóða kemur ekki af sjálfu sér, svo mikið vitum við. Þar sem hlúð er að einstaklingnum með lífsgildum sem laða hann til þess sem fagurt er, gott og réttlátt, er það ekki einstaklingurinn einn, sem nýtur ávaxtanna, heldur samfélagið allt.

Á vinsælum netmiðlum meðal ungs fólks vestanhafs hefur forseti landsins, Obama, reynt að koma til móts við unga fólkið með því að tala umbúðalaust um eitt og annað, ástæðan er sú staðreynd að ungt fólk virðist hvorki lesa dagblöð lengur að neinu marki né fylgjast með fréttum í fjölmiðlum. Meðal annars ræddi forsetinn um stríðið í Úkraínu fyrr í vikunni og sagði að við skyldum stundum velta fyrir okkur hvernig ráðamenn hafa mótast. Hann tók Pútín forseta Rússlands sem dæmi. Hann hefði mótast í starfi sínu hjá leyniþjónustu ríkisins, þar sem hann hefði lært alls konar brögð til að ná sér niður á óvinum samfélagsins. Hann hefði með öðrum orðum enga reynslu af því að berjast fyrir mannréttindum og mannúð og hann hefur ekki sinnt hjálparstarfi, hvorki starfað í félagsþjónustunni eða starfað á sjúkrahúsi, ekki unnið í skólakerfinu með börnum og unglingum, hann þekkir heiminn aðeins út frá sjónarhorni valdsins sem stendur vörð um eigin hagsmuni og eigin hugmyndafræði.

Þannig reyndi forsetinn að draga upp mynd af hinum forsetanum. Kannski var sú mynd ósanngjörn, kannski ekki. Hann þurfti ekki að segja að hann sjálfur hefði mótast líkt og aðrir blökkumenn enn þann dag í dag við önnur lífsgildi og aðra sýn á líf einstaklings og samfélags þar sem baráttan felst enn sem fyrr í því að fá að njóta viðurkenningar samfélagsins. Það mótar samfélagssýn þeirra.
Kannski var þetta ósanngjarn samanburður settur fram í hita leiksins – en samt er nokkuð til í honum almennt talað. Það sem til er í slíkum samanburði er þetta: Það skiptir máli að við mótumst til mannúðar í bernsku okkar og æsku,

  • að við mótumst til að vera þátttakendur í baráttu þeirra, sem eiga á brattann að sækja,
  • að við mótumst til að standa með þeim sem verða fyrir einelti í stað þess að leggja aðra í einelti,
  • að við mótumst til þess að láta okkur þykja vænt um fólk í stað þess að líta á aðra sem óvini okkar,
  • að við lærum að vera frjáls í stað þess að ánetjast því sem vont er og gæti fjötrað okkur þeim fjötrum sem við losnum kannski aldrei úr.
  • það skiptir máli að við vitum á hvaða leið við erum.

Hitt er svo spurning hvort við eigum aðeins að leggja trúnað á það sem annar aðilinn í harðri deilu segir. Þar verðum við að sýna varúð og gæta sanngirni, stundum hefur hinn aðilinn, sá sem virðist hafa verri málstað, eitthvað til síns máls og stundum erum við sjálf að verja rangan málstað, jafnvel án þess að vita af því.

Við mótun okkar í bernsku og æsku er að mörgu að hyggja. Þannig hugsanir eru það sem netið, samfélagsmiðlarnir vekja með okkur ekki síst þegar uppvaxandi kynslóð á í hlut.

Í þessu sambandi kemur mér í hug umsögn sem gamall erkibiskup fær hjá Nóbelsskáldinu okkar Halldóri Laxness í bókinni Gerska ævintýrið sem kom út árið 1938. Erkibiskupinn bjó rétt utan við borgina Tíflis í Grúsíu sem þá var í Sovétríkjunum á erfiðum tímum þegar kirkjan hafði mátt að þola mikið mótlæti, jafnvel ofsóknir vegna guðlausra yfirvalda, sem Halldór Laxness var síður en svo fráhverfur á þeim tíma. Um þennan erkibiskup segir skáldið:

“Þessi hári þulur sem hafði séð öllu jafnað við jörðu sem verið hafi vegur hans og virðing, ríkinu, kirkjunni, keisaranum, guðinum, hann hefur hlotið að undirgángast mikið próf og standa nú hér á rústum lífs síns einsog í eyðimörku, án beiskju og í höfðinglegri ró, persónulegum virðuleik, mannlegri tign.”

Hér er endurminning um kristinn mann sem hafði aldrei látið bugast þrátt fyrir byltingar og stríð, útrýmingar á fólki og ótrúlega grimmd, hann lét aldrei bugast, það hafði áhrif á Nóbelsskáldið. Reyndar ekki eina dæmið sem hann nefnir í verkum sínum um kristna menn, m.a. munka, sem hann dáðist að vegna mennsku þeirra og mannúðar, vegna staðfestu þeirra. Þeir vissu hverjum þeir fylgdu og þeir vissu á hvaða leið þeir voru.

Kristin trú er samt grunnurinn að þeirri mannúð sem við þekkjum, sú mannúð byggir ekki á boðorðum eða reglum heldur á Jesú Kristi, á fordæmi hans og á ímynd hans, á fyrirmynd hans og mótandi návist hans í lífi okkar.

Í dag horfum við til hans. Guðspjall dagsins hófst með þessum orðum: Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem…“. Framhaldið er þannig: „… og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa“ (Lúk 18.31-34).

Hvað er framundan? Jesús virðist vita hvað er framundan og hann lýsir því sem hann á von á. Það er síður en svo glæsilegt, hann veit hvað bíður hans. En lærisveinarnir koma eins og af fjöllum. Þeir áttu von á einhverju öðru, kannski áttu þeir von á því að Jesús yrði krýndur sigursveig, hann fengi gullverðlaunin, hann yrði borinn í gullstól, fólkið sæi að þarna var maðurinn, þarna var sannarlega maður aldarinnar og það myndi falla fram og tilbiðja hann. Eitthvað í þessa áttina hafa þeir áreiðanlega séð fyrir sér, Jesús sem sigurvegara. En Jesú vissi hvað var í vændum. Það var ekkert tilhlökkunarefni. Hann hefði getað snúið við blaðinu og gengið í lið með sigurvegurunum en það gerði hann ekki. Þá hefði mannúðin ekki sigrað heldur tapað.

Við verðum að viðurkenna að við getum svo sem sjálf auðveldlega sett okkur í spor postulanna: Er alltaf svo auðvelt að skilja Jesúm? Er boðskapur hans ekki stundum dálítið flókinn – eða öllu heldur framandi við fyrstu sýn – þótt aðrir segi að hann sé alveg ótrúlega auðskilinn? Stöndum við ekki stundum í sömu sporum og postularnir að þessu leyti, eitt spurningarmerki í framan. Eru aðrir valkostir ekki alveg eins betri, hvað er rangt við sigurvegarana sem hafa líf Jesú í hendi sér? Hefur sigurvegarinn ekki alltaf rétt fyrir sér þegar upp er staðið? Komum við ekki best út með því að fylgja þeim sem sigra?

Að þessu sinni virðist skilningsleysi postulanna hafa gengið fram af Lúkasi eins og sjá má af þessum orðum: En þeir skildu ekkert af þessu. Lúkasi er greinilega nóg boðið, það er ekki nóg með að þessir útvöldu postular skilji ekki hvað Jesús er að fara heldur skynja þeir það ekki heldur.

Sumir spámenn flytja miklu auðskildari boðskap en Jesús, þeir eru miklu „nær fólkinu“ eins og stundum er sagt og flytja því hagnýta speki sem allir skilja – en hvort hún er einhvers virði fylgir ekki sögunni. Margir þeirra ná miklum vinsældum. Sumir leiðtogar leiða fólk ekki til farsældar, sumir leita aðeins eigin vinsælda. Blóðvöllurinn Evrópa varðveitir ekki aðeins sögu fórnarlamba heldur einnig sögu sigurvegaranna sem æddu fram og aftur í krafti vopnavalds.

Jesús berst ekki fyrir vinsældum. Hann er guðssonurinn sem opnar manninum leið inn í ríki Guðs. Guðs ríki er þar sem hann er. Hann kemur enn í dag rétt eins og áður. Kom hann ekki til blinda mannsins, lamaða mannsins, bersyndugu konunnar? Kom hann ekki til postulanna skilningssljóu? Kemur hann ekki enn til þeirra sem þarfnast hans, til þeirra sem spyrja um mannúð og réttlæti, um von?

Jú, hann kemur enn í dag, ekki sjálfs sín vegna heldur okkar vegna, til þess að við vitum hvar okkur er best borgið, hann kom til að svipta hulunni af augum okkar svo að við sjáum hann upp á nýtt, svo að við sjáum okkur sjálf upp á nýtt og finnum að okkur er borgið þegar við lifum í návist hans og þegar við göngum með honum þá leið sem hann hefur valið.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2551.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar