Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Ákvörðun, áhætta og sinn eigin kross

16. febrúar 2015

Textar dagsins eru hér.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Í síðasta mánuði voru tveir Japanir fórnarlömb hins grimma ofbeldis samtaka sem kalla sig Íslamska ríkið. Karlmennirnir tveir voru ekki hermenn að berjast gegn samtökunum heldur óbreyttir borgarar. Ég varð mjög leiður við þessar fréttir eins og margir aðrir í heiminum.

Um þessi voðaverk var vitaskuld mikið fjallað um í japönskum fjölmiðlum og þar heyrðust raddir eins og þessar: „Af hverju voru þessir menn í Sýrlandi þegar utanríkisráðuneyti okkar hafði varað við áhættunni þar og mælt að Japanir flýðu landið. Þeir trufla núna þjóðina mikið.“

Japanskur vinur minn sem er leiðsögumaður á Íslandi vitnaði í þrjá japanska ferðamenn sem voru að tjá sig um málið: „Þeir tóku sjálfir ákvörðun um að fara inn á hættulegt svæði og því er mér sama um örlög þeirra.“ Já, hvað voru mennirnir í raun og veru að gera þarna?

Karlmennirnir tveir sem teknir voru af lífi af Íslamska ríkinu voru þarna af sitt hvorum ástæðum. Annar þeirra var blaðamaður og hét Kenji Goto. Það voru nokkur atriði varðandi hann sem vöktu athygli mína sérstaklega. Hann var kristinn. Það þýðir ekki að hann hafi verið meira virði eða meiri manneskja en hinn, en mér fannst það athyglisvert vegna þess að það er ekki algengt að vera kristinn í Japan, þar er aðeins einn af hverjum hundrað kristinn. Þá útskrifaðist Kenji úr sama háskóla og ég. Þetta tvennt vakti athygli mína og ég fór að kynna mér lífshlaup Kenji Goto á netinu.

Kenji Goto var 47 ára gamall þegar hann var myrtur. Hann skírðist til kristinnar trúar þegar hann var þrítugur en á sama tímabili hóf hann störf sem sjálfstæður blaðamaður. Hann virðist hafa haft sérstakan áhuga á stöðu kvenna og barna á stríðssvæðum. Hann gerði nokkrar heimildarmyndir og gaf út nokkrar bækur síðastliðinn áratug.

Sem dæmi um titla bókanna sem hann skrifaði má nefna: „Barnahermaður sem þráir frið fremur en demanta. Saga um börn sem voru neydd til að verða hermenn vegna stríðs um demantanám í Afríku“ „Bæn í Rwanda. Saga um fjölskyldu sem lifði af borgarastríðið“ „Ef ég gæti farið í skóla. Saga um Mariam í Afganistan.“

Kenji sagði oft við vini sína: „Börn og konur eru stöðugt fórnarlömb á stríðssvæðum“. Hann vildi kynna málið fyrir almenningi í Japan og kafa dýpra ofan í málin og þess vegna heimsótti hann ýmis hættleg svæði í heiminum.

Og þaðan sendi Kenji alltaf skilaboð til Japana í gegnum Twitter eins og: „Má ekki reiðast, þá tapa ég. Að hata er ekki mannleg gjörð. Guð dæmir það sem er vont, en ekki ég. Arababræður mínir kenndu mér það“. Eða: „Halló, ég veit ekki hvort við séum góðir vinir eða ekki, en samt er þetta tækifæri til að skilja tilvist hvers annars á sömu jarðkúlunni“.

2.
Starf Kenji sem blaðamanns var mjög vel metið. Og ég held að ég geti skilið hvers vegna hann þorði að sækja heim og fara inn á hættleg stríðssvæði. Þarna sá hann eitthvað hann langaði að skoða, þarna varð hann að vera. Það var tilgangur ævistarfs hans. Hann tók þann kross og lifði við áhættu.

Í viðtali sem var tekið fyrir árið síðan sagði Kenji frá ástæðu þess að hann snerist til kristinnar trúar: „Ég hélt að ef ég myndi deyja aleinn á stríðssvæði nokkru, yrði það mjög einmanalegt en ef Jesús tæki á móti mér í himnaríkinu, gæti það verið þolandi“ sagði hann og brosti.

En þá sagði presturinn hans við hann: „Guð er ekki Guð aðeins þegar maður andast, heldur einnig á meðan maður lifir“. Þetta varð tækifæri fyrir Kenji til að endurskoða virði hvers dags. Hann skildi alveg mikilvægi þess að lifa.

Fólk sem mætir hættlegum aðstæðum vegna skyldu sinnar gæti þekkt betur mikilvægi þess að lifa en aðrir. Slíkt fólk, fólk sem mætir áhættu vegna starfs sins, eru ekki aðeins blaðamenn á stríðssvæðum. Það er líka í hversdagslífi okkar. Slökkviliðsmenn, lögreglan, björgunarsveitarfólk, sjómenn, verkamenn í háhýsum og svo framvegis. Hversdagslíf okkar byggist á þjónustu þessa fólks og framtaki, ef til vill meira en við erum meðvituð um.

Ef við horfum á myndband frá stríðssvæði í fréttum, þýðir það að fréttamaður og ljósmyndari hafa verið á staðnum. Þegar við heyrum fréttir af ebólusjúkdómnum megum við ekki gleyma að læknar og hjúkrunarfræðingar voru á staðnum. Ef þið hafið gaman af t.d. James Bond kvikmyndunum, vinsamlegast gleymið því þá ekki að myndin hefði aldrei orðið til án áhættuleikara.

Og mér skilst, þó að það gæti verið nokkrar undantekningar til, að allt þetta fólk, sem helgar sig starfi sínu þótt því fylgi ákveðin áhætta, ákveði sjálft að velja það. Líklegast finnur fólk eigin tilgang og virði þess að helga sig því starfi.

Þegar slíkt fólk lendir í vinnuslysi, segjum við þá: „Það tók sjálft ákvörðun um að sinna þessu starfi og því er mér sama hvað verður um það“? Nei, við segjum ekki það. Ef einhver segir slíkt, er viðhorf hans bókstaflega „sjálfhverft“ og eitthvað mikilvægt hulið honum.

3.
Sunnudagurinn í dag er föstuinngangur og guðspjall dagsins er um Jesú og lærisveina hans á leiðinni til Jerúsalem. Jesús talar við lærisveinana um hvað mun gerast hjá sér í Jerúsalem: ,,Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“(Lúk. 18:32).

Jesús var að tala um eigin kvöl á krossinum, dauða og upprisu. Jesús er nú fara að sinna stærsta ætlunarverkefni sínu. Það var ekki áhættuverkefni. Það var meira en það, því að fórna sjáfum sér var sjálfur tilgangurinn.

En lærisveinarnir skildu ekki hvað Jesús var að tala um. Raunar var þetta í sjötta skipti sem Jesús talaði um áætlun Guðs um krossinn í Jerúsalem, en lærisveinarnir skildu það samt ekki. Hér megum við ekki líta niður á þá. Vanskilningur lærisveinanna var ekki þeim að kenna. ,,Orð þessi voru þeim hulin“(Lúk 18:34). Guð huldi merkingu orðanna frá lærisveinunum. Þeir máttu ekki skilja ætlun Guðs fyrirfram.

Hins vegar er allt í birtingu fyrir okkur. Við þekkjum hvað gerðist á skírdagskvöld og á föstudaginn langa. Við vitum að Jesús reis upp á páskadagsmorgun. Við skiljum hvað þessir atburðir þýða fyrir okkur. Að því leyti eru forsendur okkar allt aðrar en lærisveinanna og við höfum þau forréttindi að skoða það sem hefur nú þegar gerst og skilja það. Lærisveinarnir vissu ekki hvað myndi gerast eða hver yrði merking þess. Fyrir okkur er ekkert hulið lengur.

Engu að síður verðum við að viðurkenna ákveðna ókosti hjá okkur sem lærisveinarnir bjuggu ekki við. Ókosturinn er sá að það er ekki endilega auðvelt fyrir okkur að tengja kross Jesú eigin lífi okkar, eða með öðrum orðum að skynja kvöl Jesú á krossinum sem hluta af okkar lífi. Sem sé það veitist okkur stundum erfitt að hugsa til Jesú á krossinum og finna virkilega tilfinninguna fyrir því í brjóstum okkar, þótt við skiljum kenningar kristninnar.

Lærisveinarnir fundu fyrir því. Þeir upplifðu krossfestingu Jesú. En fyrir okkur er dauði Jesú á krossinum og upprisan atburðir sem sagnfræðilega gerðust fyrir tvö þúsund árum, í landi langt í burtu frá heimilum okkar. Og einnig getur ýmislegt eins og kirkjan sem stofnun, prestar eða guðfræðin komið á milli Jesú og okkar og aukið fjarlægðina. Þannig gæti það gerst að við hugsum líkt og: „Krossfesting Jesú var ekki endilega fyrir mig.“ „Ég hef ekki krossfest Jesú“ eða jafnvel „Jesú ákvað sjálfur að fara á krossinn. Hvers vegna ætti það þá að skipta mig máli?“

4.
Líf okkar kristinna manna byggist á krossfestingu Jesú. Jesús fór upp á krossinn til þess að frelsa okkur frá syndum okkar og það var ákvörðun Jesú að fyrra bragði, eftir vilja Guðs. Kvöl Jesú og dauði færa okkur sáttmál við Guð Föður okkar, og upprisan Jesú býður okkur eilíft líf.

Allt þetta birtist sem von í okkar hversdagslífi en samtímis hefur þetta nú þegar ræst í trú okkar. Trú er ekki „ágiskun“ eins og Jón Gnarr misskildi í Fréttablaði gærdagsins. Trú er von og fullvissa. Það er mikilvægt að við skiljum skýrt merkingu krossfestingar Jesú, enda skynjum við krossinn Jesú sem hluta af lífi okkar. Annars getur vonin verið óljós og trúin sveiflótt.

Við eigum að staðfesta tilvist krossins Jesú í okkar eigin lífi. Í upphafi sagði ég frá starfi Kenji Goto, blaðamanns sem varð fórnarlamb hryðjuverka Íslamska ríkisins. Og einnig hef ég minnst á fólk sem helgar sig starfi sem fylgir ákveðin áhætta. Margt fólk þorir að þjóna áhættusömu starfi og við þiggjum starfsárangur þess án tillits til þess að hvort við séum meðvituð um það eða ekki.

Ég myndi segja að það þurfi ekki að takmarkast við„líkamlega hættu“, heldur má segja hið sama um alls konar óþægindi eða leiðindi sem fylgja þjónustu við samfélag okkar. Blaðberinn verður t.d. að vakna snemma hvern morgun, póstberinn verður að bera út póstinn í hvernig veðri sem er, bílstjórinn þarf að vinna á frídegi og svo framvegis. Ótal margir vinna daglega þrátt fyrir ákveðin óþægindi og leiðindi og í gegnum þá þiggjum við þægindi inn í líf okkar.

Þannig getum við séð að samfélag okkar og hversdagslíf sérhvers okkar er tengt störfum fólks sem oft eru áhættusöm, fylgja jafnvel óþægindi eða leiðindi. Það sem tengir okkur saman er ekki aðeins kærleikur, heldur hugrekki fólks sem veitir ákveðna fórn með störfum sínum líka. Þetta er eins og stórt net og enginn getur flúið þaðan.

Ég ætla ekki að segja að líf manns sem fórnar sér vegna skyldu sinnar eins og Kenji og líf Jesú séu sambærileg. Það er ekki rétt. Krossfesting Jesú er aðskilinn og sérstakur atburður og ekkert er sambærilegt við hann.

Hins vegar segi ég að það sé hægt að sjá „mynstur“ í því hvernig Guð setur upp samskipti okkar manna, hver sé vænting Guðs í sambandi á meðal okkar sem Guðs barna. Það er nefnilega að líf okkar er meira eða minna stutt af fórnargjörð annarra og það er ómissandi hluti samfélags okkar.

Það þýðir um leið að sérhvert okkar verður að leggja sitt fram jafnvel þótt það að krefjist af okkur óþæginda eða sérstakrar fyrirhafnar. Og með því að skilja framlag hvers og eins í kringum okkur, getum við jafnframt nálgast Jesú á krossinum sem staðsett er í miðju slíkra samskipta.

Og þaðan getum við staðfest tvö atriði sem eru einföld en við megum ekki gleyma: í fyrsta lagi að þakka öðrum fyrir framlag þeirra, og í öðru lagi að leggja framlag sitt fyrir samfélag með því að fara í Jerúsalem fyrir okkur sjálf og taka okkar eigin kross. Þá, hvar er Jerúsalem okkar? Hver er kross okkar? Íhugum það núna í föstuinngangnum.

Mig langar að ljúka hugleiðingu minni með því að þakka Kenji Goto sem gefið hefur okkur efni til umhugsunar og biðja:

Faðir á himnum, umfaðma þú í heilaga ríkinu þínu Kenji Goto og önnur fórnarlömb hryðjuverka og ofbeldis hinna síðastu daga. Lít þú á heiminn okkar sem er núna og miskunna þú hann og gef þú heiminum frið og sáttmál meðal þjóðanna.

Faðir, lát þú okkur skynja kross sonar þins Jesú nærri okkur svo að við getum haldið fast í það frelsi sem Jesús gaf okkur. Og með því, lát þú okkur ætíð muna mikilvægi þess að þiggja og gefa, að þakka og virða, og að trúa Jesú og fylgja. Lát þú okkur bera eigin kross okkar með hugrekki og halda áfram að ganga á veg til ríkisins þar sem þú ríkir.
Í nafni Drottins okkar, Jesú, biðjum við. – Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2693.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar