Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Við himins hlið

25. desember 2014

Heyr, faðir þjóða, faðir minn,
æ, fyrirgef þú mér.
Lát börn þín heyra boðskap þinn,
og bera ljós þitt út sem inn
og ætíð þjóna þér.

Ó, legg í heimi helga ró
í hjarta sérhvers manns.
Æ gef þeim líf og frið og fró,
þá fyrir krossinn hans sem dó
í fórn Guðs, frelsarans.

Lát falla yfir bú og byggð
þinn blíða, djúpa frið.
Lát gróa sár og huggast hryggð
í hverjum manni eflast tryggð.
Gef náð við himins hlið.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. Gleðilega jólahátíð í Jesú nafni hér við himins hlið.

Þegar það var ákveðið á sínum tíma að fæðingarhátíð Jesú Krists skyldi haldin sem næst vetrarsólstöðum og þeim tíma þegar dag fer að lengja, þá var það til þess að minna á að okkur er ætlað að vaxa með honum, og meira en það: hlutverk hans í lífi okkar á að stækka. Það er eins og Jóhannes skírari sagði: Hann á að vaxa, ég á að minnka.

Það merkir um leið að hatrið á að minnka en elskan að vaxa. Það gildir jafnt um einstaklinga og þjóðir og alla heimsbyggðina.Þetta er eitt megininntak hins kristna boðskapar til heimsins. Það sem gerir hinum kristna boðskap erfiðast fyrir er þegar þau sem segjast koma fram í nafni kristindómsins, eða beinlínis Jesú sjálfs, eru alls ekki að því, heldur að skara eld að eigin köku.
Þess vegna voru það svo ánægjuleg tíðindi sem bárust úr Vatikaninu á mánudaginn var, þegar Frans páfi las yfir kardinálunum og tiltók það sem hann hefur séð að er í ólagi og meira en það, er til skammar.

Nú kann einhverjum hér inni að finnast langsótt að nefna páfann hér í Þingvallakirkju í jólapredikun, en það er nú ekki langsóttara en það að einmitt hér við þetta altari Þingvallakirkju hefur páfi kropið til bæna. Það hefur ekki gerst í neinni annarri kirkju þjóðkirkjunnar á þessu landi. Það vill ennfremur svo til að presturinn sem hér stendur átti nú í október fund með einum af þessum kardinálum, og veit að hann var einn af þeim fáu sem brosti glaður þegar páfinn flutti ræðu sína, meðan flestir voru heldur súldarlegir, ef marka má frásagnir. Karl Lehmann, kardináli í Mainz var einn þeirra sem valdi þennan páfa, einmitt vegna þeirra vegferðar sem hann vildi að páfinn legði í gegn spillingunni sem hafði búið um sig á löngum tíma: Að hann lagaði til. Enginn staður né stofnun getur varið sig fullkomlega gegn rangindum og villuljósum. Ekki frekar en manneskjan sjálf. Þess vegna er það svo rík áhersla í öllum boðskap kristninnar að manneskjan þurfi á öllum tímum að horfast í augu við sjálfa sig og spyrja hvort hún sé á réttri leið með líf sitt, og þegar það á við að viðurkenna fyrir samvisku sinni og trú sinni þegar leiðin er röng, og rækta með sér löngunina til að gera betur, bæta fyrir það sem misgjört var og biðjast fyrirgefningar. Og treysta því að hún sé sönn þegar hún er veitt, vegna þess að sönn fyrirgefning gefur fullkomlega þann kraft sem þarf til að bæta ráð sitt.

Allt þetta er það sem í kirkjunni og trúnni er kallað iðrun.
Til þess að vaxa með Kristi og gefa honum meira rúm í lífi sínu þurfum við einmitt þetta. Því að líf með Kristi er líf í fyrirgefningu. Ef til vill er ekkert kröftugra til vaxtar í lífinu heldur en fyrirgefningin. Hver sá sem þiggur fyrirgefningu annars réttir sig upp, réttir úr bognu baki áhyggju og sektarkenndar, tekst á við verkefnin með nýjum þrótti og líf hans fær nýja næringu.
Barnið í jötunni er fyrirgefning Guðs. Í því felst velþóknun hans á öllum börnum sínum, af því að þau þarfnast fyrirgefningar. Og þar sem er fyrirgefning þar er friður.

Kæri Þingvallasöfnuður.

Eins og venjulega hefur hefur dálítið verið talað um hefðir fyrir þessi jól, gamlar og nýjar reyndar. Sannarlega eru hefðir dýrmætur þáttur jólahaldsins. Og messan hér í Þingvallakirkju er okkur dýrmæt hefð. Ég hygg að það megi fullyrða það. Og einnig fyrir hönd okkar sem sinnum þjónustu hér í kirkjunni í dag. Kórinn sem kemur hingað til kirkjunnar og syngur á jólum og páskum og er settur saman úr stórfjölskyldu okkar hjónanna, hann er hér í ellefta sinn. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því, ekki einu sinni söngfólkið sjálft. Guðmundur okkar Vilhjálmsson er í fríi, en við höfum fengið góðan organista í staðinn, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem í elskusemi sinni hljóp í skarðið.

Það er líka falleg hefð að mega koma hér að kirkjunni á jólum og mega treysta því að búið að setja upp jólatré og skreyta það. Sama stórfjölskyldan frá Heiðarbæ hefur borið ábyrgð á því svo lengi að enginn man lengur hvernær það byrjaði. Þökk sé þeim sem núna lögðu hönd að.

Fimm ár eru liðin frá því að við héldum 150 ára afmæli Þingvallakirkju. Við erum samt ekki alveg búin að ljúka því verki sem við ætluðum að vinna kirkjunni til góða, þó sannarlega hafi margt verið gert og gert vel. Það er mikið þakkarefni, en um leið hvatning til framhalds. Til dæmis hefur önnur gamla klukkan í turninum þagað þunnu hljóði í nokkur ár, en mun ekki klingja að nýju nema farið sé vel að henni og eftir krókaleiðum, helst utanfrá.

En hér stendur þessi aldni helgidómur, stór í gildi sínu en smár í veru sinni. Jafnvel ekki stærri en það gripahús sem guðspjallið greinir frá að hafi verið fæðingarstaður Jesúbarnsins. Og englarnir sungu lofsöng fæðingarhátíðarinnar: Þeir sungu um dýrð Guðs, um frið á jörðu og um velþóknun Guðs yfir mönnunum.
Eða gerðu þeir það?

Það er dálítið merkilegt sem kemur í ljós þegar englasöngurinn á jólanótt er skoðaður nánar. Hvað sögðu englarnir? Náttúrulega má byrja á því að spyrja á hvaða tungumáli þeir hafi sungið.

Það er stundum sagt þegar verið er að gera grín að okkur prestunum fyrir að vera óskiljanlegir í predikunarstólnum að við tölum himnesku. Það er ekki góð lýsing á vondum verknaði.

Það segir frá því í postulasögunni þegar heilagur andi kom yfir postulana að þeir fóru að tala við fólkið, sem var, eins og stundum hér á kirkjutröppunum úr öllum mögulegum áttum og heimshornum og talar hver á sinni tungu. En á hvítasunnunni var það þannig að allir viðstaddir heyrðu að talað var á þeirra móðurmáli. Það væri miklu gáfulegra að kalla það himnesku þegar talað er þannig að allir skilja og heyra eins og talað væri á þeirra móður tungu.

Ég álykta þess vegna að englarnir hafi einmitt talað og sungið þannig að allir skildu. Svo kemur Lúkas guðspjallamaður þrjátíu árum síðar og hann skrifar niður á sinni tungu það sem englarnir sögðu. Á grísku. En þeir sem sögðu honum frá hafa væntanlega talað arameisku. Og einhverntíma seinna voru orð englanna skrifuð niður á latínu, og þannig voru þau þegar Oddur Gottskálksson þýddi Nýja Testamentið yfir á Íslensku í Skálholti. Næsta ár, árið 2015 er Biblíuár. Elsta starfandi félag á Íslandi, Hið íslenska Biblíufélag verður 200 ára. Það er alveg kjörið tækifæri fyrir þennan söfnuð og alla söfnuði og einstaklinga að leita svara við þessari spurningu: Hvað stendur eiginlega í Biblíunni? Ekki bara: Hvað sungu englarnir?

En. Það skiptir miklu máli hvaða skilaboð mannkynið fékk þessa nótt, hvað sem líður Biblíufélaginu.

Núna stendur í okkar Biblíu að englarnir hafi sungið:
Dýrð sé Guði í upphæðum,
friður á jörðu
og velþóknun yfir mönnunum.

Sumum finnst þessi boðskapur ekki passa. Nema það sem sagt er um dýrð Guðs á himnum. Það er erfitt að rengja það. En friður á jörðu?
Það er ekki friður á jörðu. Það er svo mikill ófriður á jörðu að Frans páfi, fyrrnefndur, hefur sagt: Við ættum að hætta að tala um að hin þriðja heimstyrjöld gæti brotist út. Hún stendur yfir. Hún hefur staðið yfir í mörg ár.
Það vill bara svo til að hún geysar mest í þeim löndum sem við á vesturlöndum fylgjumst lítið með og viljum lítið vita um. Þau sem koma þaðan til okkar og segja okkur frá þeim hörmungum sem þau hafa séð og upplifað, tala fyrir daufum eyrum.

Og velþóknun yfir mönnunum. Hefur Guð velþóknun á mönnunum? Já, að því leyti til að hann sendi son sinn í heiminn vegna allra manna, vegna allra barna sinna jafnt, og vill þar engan greinarmun.
En hann hefur augljóslega ekki velþóknun á öllum gjörðum þeirra. Ekki frekar en við sjálf höfum velþóknun á mörgu því sem mennirnir gera hver öðrum og gera jafnvel okkur sjálfum.

Hvað vill Guð? Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur, segir Jesús. Þetta er stórt verkefni. Get ég elskað þann sem gerir mér illt? Svar. Ég elska ekki hið illa sem hann gerir. Ég get það ekki og ég á ekki að gera það. En ég get elskað þann einstakling sem á bakvið er og er manneskja rétt eins og ég. Jafn nakin í fæðingunni og jafn fátæk í dauðanum. Og, Jesús kom hans og hennar vegna í heiminn.

Það sem englarnir sungu kemst ekki mjög vel til skila á íslenskunni. Sumar aðrar tungur ná því betur. Jafnvel Oddur gerir það þó það sé ekki fullkomið. Hann þýðir þetta þannig: : og friður á jörðu og mönnum góður vilji.
Orðið sem þýtt er sem velþóknun (Evdokia) er á sumum stöðum í Biblíunni þýtt sem blessun.
Hvað sögðu þá englarnir ? Merking orða þeirra er þessi: Á himnum er dýrð Guðs. Á jörðu er friður Guðs hjá þeim sem hafa tekið á móti góðum vilja hans og gert hann að sínum.

Velþóknun Guðs, það er að segja það sem er gott fyrir þá komi yfir þá. Blessun Guðs og friður hans sé með þeim mönnum sem þegið hafa hinn góða vilja sem Guð gefur þeim.
Og best af öllu er svo það sem Biblían vitnar um að þegar maðurinn heyrir það sem Guð segir við hann, þá verður það!

Það er ein af dásemdum guðsríkisins að það geta lokist upp dyr á milli tímans og eilífðarinnar. Það er aðferð eilífðarinnar að stíga þannig inn í tímann að það sem var og það sem verður það er núna. Það gerist til dæmis þegar við ljúkum upp orði Guðs og heyrum hann tala til okkar hér og nú.

Jesús Kristur, barnið í jötunni er hann sem er og hann sem var og hann sem kemur. Hinn alvaldi. (Opb. 1.8).

Þess vegna megum við enn að nýju ganga að jötu Jesúbarnsins og taka á móti því og lifa þann stóra atburð enn að nýju þetta ár, þótt liðin séu tvöþúsund ár frá hinni fyrstu nótt heilagrar jólahátíðar. Það er af því að náðin og sannleikurinn fallast í faðma og opna tímann, inn í eilífðina.

Náðin og sannleikurinn koma til okkar með Jesú Kristi og við göngum með honum veginn til lífsins í sannleika. Í samhljómi þess er hann segir um sjálfan sig: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Sannleikurinn. Sannleikurinn gerir okkur frjáls. Frelsarinn sem kemur er sannleikurinn. Hvernig tek ég við honum? Hvernig get ég búið til aðstæður í lífi mínu sem gera honum auðvelt að ganga inn til mín, af því að ég vil að hann komi. Hvernig held ég jól?
Hann skal kallast: Undraráðgjafi, guðhetja, eilífðarfaðir, friðarhöfðingi.Hann. Jesús.

Kæri söfnuður.
Ekkert er eins öflugt til þess að viðhalda kristnum sið í þessu landi eins og jólahaldið. Fullyrða má að fátt annað en hið beina kirkjustarf er eins öflugt til hins sama og ríkisútvarpið sem nú á undir högg að sækja í ýmsum greinum. Þetta gildir alveg óbreytt þó að við höfum mótmælt því að kvöldbænir leggðust af. Þó að örpistlar Ævars séu frábærir þá koma þeir ekki í stað bænar. En ástæðan fyrir þessari fullyrðingu er þessi: Í nærri tvo daga fyrir jólin, í samtals sautján klukkustundir er Guð nefndur á hverri mínútu í ríkisútvarpinu, jafnvel nokkrum sinnum og hann er tengdur við það besta og hlýjasta í þeim sem biðja um að hann sé nefndur. Þetta er stórkostleg staðreynd.
Það er ekki að ástæðulausu sem þau sem vilja kveða niður kristinn sið mótmæli skólaheimsóknum barna fyrir jólin, og vilja heldur að það sé maí, ef nokkurntíman, ef tilgangurinn sé eingöngu fræðsla á vegum skólans. Það er auðvitað vegna þess að kirkjuheimsóknir barna rétt fyrir jólin gefa þeim miklu meira af trúarlegri næringu.

Það eru engar hlutlausar kirkjuheimsóknir til, hversu vandlega sem prestar og kirkjufólk forðast að segja nokkuð við börnin sem máli skiptir þegar þau koma í kirkjuna. Kirkjuheimsóknir eru áhrifavaldur í lífi barna. Það á ekkert að neita því. En það mætti sannarlega kanski oftar benda á að þessi börn sem koma í sína kirkjuheimsókn eru yfirleitt skírð og tilheyra eins og foreldrar þeirra kirkjunni.

Það verður alltaf þannig að þau sem vilja ekki að fólk trúi á Guð amist við starfsemi kirkjunnar. Það er jafn sjálfsagt, eins og það ætti að vera sjálfsagt að við sem viljum halda kristnum sið, rækjum hann svo vel sem við kunnum og gleymum aldrei þessari litlu línu í sálminum Þú Guð sem stýrir stjarnaher, sem hljóðar svo: … að breytni mín þess beri vott að barn þitt gott ég heiti! Því að það er ekki gott, í þessum heimi, að halda sig bara við það að það sé trúin ein sem skiptir máli, en ekki verkin, ef trúin er svo mikið einkamál að miskunnarverkin verða að engu.

Jólin eru eini tími ársins sem hjálpar okkur til að muna hvað það merkir að vera kristin manneskja. Að muna að Guð býr í dýrð sinni á himnum, en kemur með frið sinn og elsku sína og blessun til mannanna þegar Jesús fæðist á jörðu. Þegar hann eitt sinn fæddist í Betlehem og þegar hann fæðist í vitund þess sem tekur við trúnni.
Og hvernig gerist það? Þegar börnin okkar sjá og heyra að við höldum jól í einlægni og lesum bænirnar með þeim.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1874.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar