Trúin og lífið
Postillan


Undirsíður

Eftir sama prédikara

Skyldar prédikanir

Kirkjuárið

Prédikanir á trú.is eru birtar undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í prédikunum

Jóhanna Gísladóttir

Sumarjól

Flutt 14. desember 2014 í Langholtskirkju

Það hefur verið í umræðunni á heimili mínu í aðdraganda aðventunnar að heppilegast væri að fresta öllum jólaundirbúningi og jólahaldi fram að sumarfríi. Þetta var í byrjun grín sem átti upphaf sitt einn dimman og kaldan nóvembermorgun þegar ég uppgötvaði mér til undrunar að aðeins nokkrar vikur væru til jóla. Jólalistinn síðan í fyrra var dregin fram í snarhasti og ég sá samstundis að ég var þegar orðin of sein í framkvæmd ýmissa verkefna.

Brandarann um sumarjól sagði ég því fyrst við morgunverðarborðið þennan sama dag og þótti alls ekki fyndin. Ég fann til ýmis góð og gild rök sem átti að sannfæra eiginmann og þrjú börn um alla kosti þess að breyta Jónsmessu í aðfangadagskvöld en fékk lítinn stuðning.
Uppástungan fékk verri undirtektir í hvert sinn sem mér tókst að koma henni að inn í umræðuna og er leið á mánuðinn og mamma var enn föst í sama brandaranum var börnunum hætt að lítast á blikuna.

Haldinn var fjölskyldufundur og brandaranum um sumarjól, sem þá var orðinn að raunverulegri uppástungu fyrir mitt leyti, var ekki bara hafnað heldur mér bannað með öllu að nefna þetta framar. Nema auðvitað ef ég sæi ástæðu til að fagna komu frelsarans tvisvar yfir árið, þá væru þau tilbúin að ræða það nánar.

Ég sá mig því mig tilneydda til að draga mig til hlés af virðingu við lýðræðið en dreymdi í laumi dagdrauma um grillaðan jólamat og jólasöngva í Nauthólsvíkinni.

Andlegur flótti minn frá því sem beið mín í hátíðarundirbúningi er svo sem ekki nýr af nálinni og hefur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir eftir að ég komst á fullorðinsár. Ég viðurkenni þó að þegar ástandið er komið á það stig að æðsta ósk húsmóðurinnar er að hraðspóla fram í janúar þá megi velta fyrir sér hvort boðskapur hátíðarinnar sé að fara forgörðum?

Guðspjall dagsins segir okkur frá Jóhannesi skírara og þeim tíma er hann boðaði komu Krist meðal fylgjenda sinna. Sagan af Jóhannesi er undanfari frásagnarinnar um Jesú sjálfan, þessir tveir drengir tengdir saman áður en þeir litu dagsins ljós. Lúkas guðspjallamaður segir þá frændur og líkt og Jesús sjálfur þá hafði Jóhannes mikilvægu hlutverki að gegna í framvindu sögunnar. Hann var útvalinn til að greiða veg Krists og hann skírði þá er til hans leituðu. Þá sem vildu öðlast nýtt upphaf.

Líkt og í öllum góðum sögum verðum við lesendur að veita bakgrunninum eftirtekt til að öðlast skilning á því sem er raunverulega að gerast. Þannig fjalla vers dagsins ekki eingöngu um Jóhannes eða Jesú heldur eru það aukaleikaranir sem málið snýst um. Múgur og margmenni sem hlustuðu gaumgæfilega á boðskap Jóhannesar um fyrirgefningu synda og frelsun frá fyrra lífi. Þetta var hópur gyðinga sem kaus að leita út fyrir normið, út fyrir það sem samfélagið bauð þeim og þau fylgdu innsæinu alla leið til eyðimerkurinnar til að heyra meir um þennan son Guðs sem var víst væntanlegur.

Vert er að bæta við frásögnina að Jóhannes skírari var í raun mjög undarlegur náungi sem kaus að einangra sig frá samfélaginu. Hann hafði því flust búferlum í eyðimörkina um leið og hann komst til vits og ára og Guðs orð barst honum þangað. Í Biblíunni er honum lýst sem hálfgerðum villimanni, líkari úlfi en karlmanni og varla sá er maður ímyndar sér að sé fullur af heilögum anda og prediki orð Guðs.
Það er afskaplega athyglisvert og efni í annan pistil hvernig Guð valdi og velur ætíð ólíklegasta fólk til þess að tala máli sínu. Með tilliti til aðventunnar getum við spurt okkur að þessu; ef Guð krefur sína útvöldu ekki um fullkomnun því krefjumst við hennar af okkur sjálfum?

Fyrr í vikunni komu fermingarbörn saman hér í kirkjunni í síðasta sinn fyrir jól og í lok stundar fengu þau það verkefni að hripa niður á miða persónuleg bænarefni fyrir hátíðarnar. Þau brutu miðann sinn saman og skiluðu honum í lokaðan poka svo enginn sæi nú það sem þau skrifuðu en ég fékk samþykki þeirra til að skoða miðana eftir stundina þar sem þeir voru nafnlausir.
Þegar ég fletti í gegnum þá kom mér tvennt á óvart. Annars vegar að níu miðar af hverjum tíu snérust um fjölskyldu og ástvini. Samskipti og söknuð.

Hins vegar kom mér á óvart að fleiri en einn unglingur setti í orð ósk sína um að verða „bestur“ eða „fullkominn“ í einhverju einu eða jafnvel öllu.

Af hverju upplifa unglingar það eftirsóknarvert að öðlast fullkomnun? Hvaða skilaboð erum við fullorðna fólkið að senda þeim?

Í lok dags er það nú svo að við höfum öll okkar hugmyndir um hvernig jólin eiga að vera. Hjá sumum eru þetta hugljúfar glansmyndir úr æsku þar sem litadýrðin virðist í huganum örlítið meiri en hún var í raun. Hjá öðrum eru þetta atriði úr sjónvarpi eða kvikmyndum. Sögur annarra af fullkominni hátíð. Svo erum það við sem upplifðum ekki ætíð draumajólin í uppvextinum og gerum því enn meiri kröfur á fullorðinsárum í sköpun þess sem við teljum okkur hafa misst af. Við bitru börnin eigum það til að ganga öfgafyllst til verka á aðventunni til að sýna heiminum hvernig á nú að gera þetta. En hættan er sú að við sitjum eftir með sárt ennið því ómögulegt er að bæta afkomendum okkar það sem við fórum sjálf á mis við.

Svo er það auðvitað svo eftir því sem skammdegið legst þyngra á okkur, eftir því sem vinnan reynir meira á þolinmæðina og þeim mun meira sem við þráum að komast í orlof frá lífinu, eða frí frá okkur sjálfum eins og maðurinn minn segir gjarnan, þeim mun meiri kröfur gerum við á að frítíminn okkar sé fullur af ævintýralegri skemmtun og gleði.

Hvernig tengist sagan af Jóhannesi skírara aðventu og eftirvæntingu? Jú ætíð mótar undanfarinn það sem koma skal. Hjá okkur fullorðna fólkinu er aðventan ekki einungis tími undirbúnings heldur einnig endurskoðunar. Hún gefur okkur færi á að hreinsa út gamlar kreddur, úreltar hugmyndir og skoðanir annarra á okkar lífi og sjá núið í nýju ljósi. Við getum leyft okkur að sleppa takinu af glansmyndum fortíðar og notað tækifærið til að búa til nýjar minningar í núinu sem snúast mögulega meira um andlega og líkamlega nærveru fremur en dýrar gjafir og fullkomlega bakaðar Sörur. Þannig erum við líka fyrirmyndir fyrir börnin okkar sem þurfa á því að halda í oft hörðum heimi samkeppni og samanburðar að leyfilegt og æskilegt sé að vera stolt/ur af eigin framlagi þó það sé ekki fullkomið.

Vissulega ylja og hlýja minningar úr hamingjusamri fortíð sem þær mega svo sannarlega gera en pössum okkur á að þær verði ekki vegtálmi í nútíð og stöðvi okkur ekki í að skapa eitthvað nýtt sem hentar okkar raunveruleika betur. Jólin eru fyrst og fremst hugarástand.

Löngun mín eftir sumarjólum dofnaði og hvarf fljótlega eftir að ég henti jólalistanum og tók meðvitaða ákvörðun um að leyfa þessum jólaundirbúningi að snúast um væntanlega komu frelsarans en ekki heimagerða konfektið hennar ömmu minnar. Gott er að hafa í huga á aðventunni að kristin trú er skemmtilegust þegar hún er iðkuð sem hópíþrótt og ég skora því á okkur öll að gefa okkur tíma til þess að koma til kirkju og taka þátt í samfélaginu sem hér er að finna.

Ég bið þess nú í lokin að við eigum öll hugljúfa aðventu og finnum öll fyrir raunverulegri gleði og tilhlökkun þegar hátíðin gengur í garð.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og Þjóðkirkjan. Flettingar 1198.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar