Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna)

25. desember 2014

Það eru komin jól.

Og þau eru eins og þau hafa alltaf verið.

Það var asi á Þorláksmessu.
Umferðin seig og afgreiðslan í búðunum líka.
Og um stund gátum við jafnvel fyllst af því sem er kallað Þorláksmessuangist.
Þegar allt gengur svo sem upp en það gerist bara allt-of-hægt.
Líkt senunni í Love Actually þegar einn eiginmaðurinn í Love Actually er að kaupa skartgrip og biður um að fá honum pakkað inn og sú þjónusta er í boði en hún tekur bara alltof … langan … tíma.
Þið munið.

Svo rann aðfangadagur upp.
Allir fóru í stellingar og vissu hvað þeir áttu að gera.
Elda matinn.
Fara í jólabaðið.
Snurfusa heimilið.
Keyra út pakkana.
Skapa rýmið fyrir hið heilaga.
Og svo þegar klukkuna vantaði nokkrar mínútur í sex kom nálgaðist hið heilaga.

Það hófst ekki með látum.
Heldur með þögn.
Í útvarpinu.
Gufan þagnaði.
Og klukkurnar í Dómkirkjunni og í Laugarneskirkju og öllum hinum kirkjunum í borginni klingdu og í hverjum klukknahljómi voru fólgin sömu skilaboð:

Það eru komin jól.

• • •

Kæri söfnuður.

Svona áður en ég held lengra þá langar mig að segja ykkur hvað ég ætla að gera í dag. Ég ætla að tala um Jesús og okkur og nota til þess fjóra texta úr Biblíunni og svo ætla ég að gefa ykkur einn lykil að jólunum. Lykil sem virkar svolítið eins og Jólin fyrir byrjendur og eiginlega líka lengra komna. Hann útskýrir merkingu jólanna. Hann gæti jafnvel útskýrt þau svo vel að þið gleymið því aldrei. Það eru semsagt fimm atriði sem þið þurfið að muna eftir þessa prédikun.

Það eru komin jól.

Það er allt eins og það á að vera.
Það er allt eins og það hefur verið.
Og það er gott.

Samt er eitthvað breytt.
Í það minnsta frá því við sem eldri erum vorum lítil.
Og jafnvel frá því í fyrra eða hitteðfyrra.

Mig langar að nefna tvennt:

Snjallsíminn.
Sjálfan.

(Ég fæ kannski að smella af einni mynd meðan ég er hérna.)

Það eru komin jól.

Og allir eru að snappa.
Ekki af stressi.
Heldur frásagnarþörf.
Miðlunarþörf.

Sumir eru reyndar ennþá á instagram, unga fólkinu finnst það kannski svolítið 2013.

Aðrir pósta á twitter en líklega eru flestir Íslendingar á Facebook. Í það minnsta miðað við höfðatölu.

Og ef við kíktum inn á Facebook í gærkvöldi mátti sjá fallegar myndir og hlýjar kveðjur:

„Gleðileg jól, takk fyrir allt. Þið eruð frábær!“
55 læk.
10 ummæli.

Og sumir hashtagga það sem þeir skrifa - því þannig er nútíminn:

#jól
#jól2014
#pakkar

Og skrifa jafnvel stöðufærslu með taggi:

„Gjafirnar 2014 - #12stig“

Og hver skyldu vera skilaboðin sem felast í þessu?

Þetta er ég.
Hér er ég.
Svona er ég.
Svona eru jólin mín.

• • •

„En það bar til um þessar mundir“ lásum við frá altarinu í gær.

Ætli það sé ekki frægasti texti allra tíma?
Hvað stendur annars þarna?

Jesús fæddist í jötu.
Af því að það var ekki pláss fyrir þau.
Og það voru vitni:
Hirðar.
Vitringar.
Mamma og pabbi.
Englar.
Og sjá, það var harla gott.

Svo er það hinn textinn. Sá sem við lesum í dag. Textinn hans Jóhannesar sem skrifaði:

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.“

Og segir svo nokkru síðar:

„Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Hvað getum við sagt um þetta? Út frá þessum gamla veruleika jólasögunnar og nýjum samtíma snjallsíma og myndavéla?

Við getum sagt þetta:

Jesús er sjálfa – hann er selfie Guðs.
Af því að Jesús – sem er Guð – birtir líka Guð.
Það er vegna Jesú sem við þekkjum Guð og getum séð Guð.

Hann er samt ekki snapp.
Sendur og birtist í stutta stund og hverfur svo
Hann er ekki instagrammmynd í lágskerpu.
Hann er ekki status á fésinu - þótt hann sé kallaður Orðið í Jóhannesarguðspjalli.

Og það er ekki hægt að draga hann saman í stuttu tísti: „Fæddist, boðaði, píndur, dó, reis upp. #jesús“

En allt þetta má nota til að birta hann, boða hann, segja frá honum.

Til að segja hvað?

Hann var hér.
Í þrjátíu og þrjú ár.
Hann dó.
Þetta vitum við.
Hann hafði áhrif, á samtíðarfólk sitt og hefur haft áhrif síðan. Þetta vitum við.

En það er annað og meira.
Hann steig niður.
Reis upp.
Hann er með okkur.
Hann er nærri.
Hann er fyrirmynd sem hvetur og kallar okkur til að feta í fótsporin sín.
Til að reynast náunganum Kristur.

„Alla daga, allt til enda veraldar,“ eins og Matteus guðspjallamaður orðar það fyrir næstum tvö þúsund árum og við segjum þegar börnin eru borin til skírnar.
Þessu trúum við.

• • •

Svo er annar texti í Biblíunni sem kallast á við guðspjall dagsins. Hann fjallar að vísu ekki um Jesús heldur okkur mannfólkið. Það er sköpunarsagan þar sem segir:

„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ (1M 1.27)

Þetta eru fyrri Biblíutextarnir tveir.

Og hvað segja þeir?

Orðið var Guð.
Og hann bjó með oss.
Allir hlutir urðu til fyrir hann.
Hann skapaði.
Hann skapaði manneskjuna eftir sinni mynd.

Við erum sköpuð í Guðs mynd.
Við erum líka sjálfa – selfie Guðs.
Við birtum líka Guð í heiminum.
Og við erum kölluð til að gera eins og hann.

• • •

Kæri söfnuður.
Ég sagðist ætla að gefa ykkur lykil að jólunum. Lykil sem virkar eins og Jólin fyrir byrjendur og þið getið notað ef þið eruð einhvern tímann spurð út á hvað jólin ganga. Til dæmis af fréttakonu Sjónvarps í Kringlunni í aðdraganda jóla.

Lykillinn er setning:

Saltið í matnum og ljósin í gluggunum minna á merkingu jólanna.

Segjum þetta saman:

Saltið í matnum og ljósin í gluggunum minna á merkingu jólanna.

Og hvað merkir þetta?

Til að skilja það þurfum við annað textapar í Biblíunni þar sem talað er um Jesús og okkur.

Fyrst textann þar sem Jesús segir:

„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóh 8.12)

Og svo textann þar sem hann segir um okkur:

Þér eruð salt jarðar. […] Þér eruð ljós heimsins. […] Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. (Matt 5.13-16)

Lykillinn er salt og ljós.

Jesús er sjálfa Guðs.
Við erum sjálfa Guðs.

Og við eigum að vera bæði salt og ljós í þessum heimi sem Guð skapaði og varð svo hluti af. Við eigum að vera náunganum salt og ljós – vera hendur Guðs til góðra verka í heiminum. Þannig erum við eins og Jesús, þannig minnum við á að við erum sjálfa Guðs.

„Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Lykillinn er salt og ljós.

Saltið í matnum og ljósin í gluggunum minna á merkingu jólanna.

Jólin snúast um Guð, okkur og náungann.

Á jólum spyr Guð:

Viltu vera hendurnar mínar?
Viltu vera saltið og ljósið í heiminum sem ég hef skapað?

Svarið gefur þú með lífi þínu.

Gleðileg jól.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2027.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar