Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Fritz Már Jörgensson

Í vanmættinum felst vonin

1. desember 2014

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilega hátíð á þessum fallega fullveldisdegi okkar íslendinga. Borgin okkar skartar sínu fegursta í dag og er gott dæmi um það hvernig almættið skreytir lífsvettvanginn okkar alla daga. Það er svo sannarlega hátíð í bæ. Í upphafi aðventunnar skreytum við flest híbýli okkar og umhverfi með jólaljósum. Þannig lýsum við upp skammdegið sem hefur ráðið ríkjum að undanförnu.

Í gær var víða um land kveikt á fyrsta aðventukertinu, kertið sem kveikt var á í gær minnir okkur á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins er höfðu sagt fyrir um komu frelsarans. Sígrænt grenið sem oft er notað í kransinn er tákn lífsins í Kristi og hringurinn er tákn um eilífðina.

Jólaljósin lýsa á meðan sólin lætur undan síga fyrir myrkrinu hér á norðurhjara veraldarinnar. Þannig lýsum við upp myrkrið þar til sólin hefur sigurför sína að nýju. Myrkrið er mörgum þungbært þegar það leitar uppi hvert skúmaskot og þrengir sér í krók og kima, sums staðar á landinu sést ekki til sólar langtímum saman og því er svo mikil tilhlökkun og von fólgin í því að dag taki fljótlega að lengja á ný.
Þegar fullveldisdagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn var lítið um háríðarhöld enda var kalt með afbrigðum veturinn 1918 og hamfarir gengu yfir landið, bæði eldgos og drepsótt. Ísland sem frjálst og fullvalda ríki var eitthvað sem menn höfðu barist fyrir um langa hríð. Baráttan átti eftir að standa í nokkra áratugi enn þar til sjálfstæði landsins varð að raunveruleika á ný. Og enn þann dag í dag þarf þessi litla þjóð að heyja sína ævarandi fullveldisbaráttu í hinum stóra heimi.

Íslendingar þekkja fullveldisdaginn og baráttuna sem liggur að baki honum, við höfum flest til að bera heilbrigða ættjarðarást og berum í brjósti fallega þjóðernisrómantík sem er blönduð straumum frá kristinni menningu þjóðarinnar. En allt á sér andstöður og við þurfum að gæta að viðhorfum okkar og sýn í fjölmenningar samfélagi samtímans án þess þó að þurfa að hvika frá stöðu okkar sem kristnir einstaklingar í kristnu samfélagi.

Okkur ber sem kristnum einstaklingum að vera gestrisin og taka vel á móti fólki hvaðan æva að sem vill setjast að hér á landi. Það mun alltaf gagnast okkur vel að sýna öndverðum skoðunum, menningu og trúarbrögðum umburðarlyndi og virðingu. En að sama skapi er rétt að hafa í huga að samfélagið okkar hér á landi er mótað af kristni og kristinni menningu meira en þúsund ára.

Við sem búum hér á hjara veraldar í þessu fallega landi, stórbrotinnar náttúru og fegurðar sem engu er lík, þurfum kannski fremur öðrum á slíku umburðarlyndi að halda. Samfélagið okkar Ísland er að þróast, við höfum tekið á móti nýjum íslendingum frá öllum heimshornum og njótum þess sannarlega að fá að upplifa brot af því besta úr ólíkum menningarheimum víðsvegar að.

Háskóli Íslands hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum og það er oft dásamlegt að sitja hér úti á háskólatorginu okkar og fylgjast með þessum iðandi menningarstraumum sem koma allsstaðar frá, og gengur svo ljómandi vel að lifa saman, hér í háskólasamfélaginu okkar.

Sjálfstæð þjóð, sjálfstætt fólk, kristin þjóð. Hver er merking þessa hugtaka? Jesús sagði í guðspjallinu sem lesið var hér áðan að hann bæri fátækum gleðilegan boðskap. Og að sú ritning hafi ræst. Hvað þýðir það? Þýðir það að við sem kristin þjóð sjáum um okkar fólk, tryggjum að enginn þurfi að líða skort í ríku landi? Eða þýðir það að við fólkið í þessu gjöfula landi lítum undan og tökum ekki ábyrgð?
Á aðventunni heyrum við oft af matargjöfum til þeirra er minnst mega sín og gleðjumst yfir því að fólk skuli hugsa til meðborgara sinna á þessum tímum allsnægtanna. Hjálparsamtök sem gefa til fátækra koma fram í fréttatímum fjölmiðlanna og birtar eru myndir af löngum biðröðum fólks er sækir bjargráð til þeirra.

Sjálfum finnst mér sorglegt og í raun óásættanlegt að velferðarmál í samfélaginu skuli vera svo bág að það þurfi yfir höfuð að gefa fátækum mat og aðrar nauðsynjar og hef ekkert umburðarlyndi fyrir því að þessum málum skuli ekki umsvifalaust kippt í liðinn. Hér í okkar ríka og gjöfula samfélagi á ekki að vera rými fyrir fátækt.

Ég hef velt því fyrir mér að undanförnu, hvort námsmenn hér við háskóla Íslands, þurfi að sækja sér aðstoð til hjálparstofnana nú fyrir jólin. Því miður þá kæmi það ekki á óvart ef svo væri. Kjör námsmanna eru afar döpur og fátt um úrræði á þessum annasamasta tíma ársins. Námsmenn eiga undir högg að sækja þegar kemur að tekjum og tekjumöguleikum. Tækifæri til styrkumsókna eru fá og lánskjör íslenskra námsmanna eru afar döpur.

Sjálfstæðisbarátta landsins var, er, og verður lituð af framlagi stúdenta sem oftar en ekki þurfa að vinna með námi eða jafnvel hægja á náminu sínu til að komast af. Hér er brotalöm á ferðinni og í raun alls ekki sæmandi þegar litið er til þess hversu aðgengið að háskólanámi er gott á Íslandi og þegar litið er til þess hversu rík við erum að eiga stofnun eins og Háskóla Íslands, með öllum þeim frábæru tækifærum sem það felur í sér, fyrir okkur sem hér stundum nám og þá sem munu stunda hér nám, vonandi um ókomna tíð.
Þeir dagar koma vissulega þar sem fyrirheit rætast og réttlætið ræður ríkjum. Samfélagsábyrgð fullvalda þjóðar er mikilvæg og við sem hér erum í dag þurfum sannarlega að axla okkar ábyrgð sem sjálfstæðir, kristnir einstaklingar. Hluti af því að taka ábyrgð sem slíkur er að taka þátt í því að gera kröfur til samfélagsins um að það sinni þeim sem minnst mega sín og geri meðborgurum sínum kleyft að lifa mannsæmandi lífi.

Nú styttist í hátíð ljóssins sem færir okkur yndislegan boðskap fagnaðarerindisins. Við heyrum um myrkrið í veröldinni en við heyrum líka af honum sem er líf og ljós til mannanna. Um hann sem frelsar okkur til lífs. Um hann sem skín í myrkrinu alla tíð.
Aðventan færir okkur viðsnúning þar sem ljósið sigrar myrkrið og vonin fæðist í hjörtum margra. Fólk hamast við að þrífa og gera allt fallegt og hreint fyrir jólin, allir leggja sig fram um að finna leiðir til að gleðja þá sem þeim þykir vænt um. Óhreinindin víkja fyrir hreinleikanum, náungakærleikurinn blómstrar og flestir finna löngun til þess að vera betri við hvert annað. Það væri svo gott og dýrmætt ef okkur ber gæfa til að láta góðu fyrirheitin og hlýju tilfinningarnar stjórna okkur áfram á nýju ári, leyfa aðventukærleikanum að blómstra áfram.

Við fáum tækifæri til að endurmeta okkur og skoða það, sem við stöndum fyrir í nýju ljósi. Við tökum nýjar ákvarðanir og mótum nýja stefnu. Það sem hefur gefist vel fær að fylgja okkur inn í gæfuríka framtíð, það sem verr hefur gefist fær að heyra fortíðinni til. Framtíðin bíður okkar og fortíðin er að baki, Drottinn kemur til okkar allra og blessar okkur með ljósinu.

Það er ástæðulaust að fyllast leiða yfir því sem ekki hefur farið eins og við viljum en þess mikilvægara að draga lærdóm af og gleðjast yfir því sem vel var gert. Framundan er heilt ár fullt af nýjum fyrirheitum og nýrri von fyrir okkur öll.

Mér var einu sinni sagt að vonin væri öllum öðrum tilfinningum sterkari. Vonin sigrar allt, ekkert er svo slæmt að það geti sigrað vonina sem fellst í vanmættinum.

Jólin nálgast, börnin okkar og barnabörn fyllast af spenningi fyrir jólunum og fullorðnir sömuleiðis. Allir fyllast af eftirvæntingu sem sumir eiga erfitt með að skýra út en er fyllt af nýrri von sem tengist sigri ljóssins yfir myrkrinu.

Það styttist í fæðingarhátíð Jesú Krists sem ákvað af náð sinni að fyrirgefa okkur syndir okkar. Það frelsast enginn með gjöfum eða fórn, við frelsumst fyrir trú á hann sem vill svo gjarnan vera ráðandi þáttur í lífinu okkar. Hann sem fórnaði ekki lífi sínu á krossinum, heldur gaf það. Drottinn kemur til okkar en ekki síst þeirra sem þjást og þurfa svo mikið á voninni að halda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1627.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar