Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Stefán Már Gunnlaugsson

Kærkomin aðventa

30. nóvember 2014

Nú er aðventan gengin í garð þessi fallegi og góði tími sem minnir á komu jólanna. Ég á svo margar góðar minningar frá barnæsku minni um þennan dag. Í mörg ár hófum við krakkarnir í götunni daginn með því að fara í Sunnudagaskólann, þar sem kveikt var á fyrsta kertinu á aðventukransinum – Spádómskertin og við sungum öll saman fyrsta versið í sálminum: Við kveikjum einu kerti á. Svo fór fjölskyldan til ömmu og afa sem sem bauð allri fjölskyldunni í aðventukaffi. Í sjóði minninganna er þessi dagur sveipaður ljóma og fögru ljósi, því hann markar upphaf tíma eftirvæntingar og þegar við stefnum öll að sama marki að undirbúa stærstu hátíð ársins - jólin.

Enn þá ræktum við traustar hefðir á 1. sunnudegi í aðventu og það finnum svo vel hér á Vopnafirði. Hér komum við saman í kirkjunni og kveikjum á kertinu á aðventukransinum og eigum góða og uppbyggjandi stund saman. Svo þiggjum við góðgjörðir hjá kvenfélaginu í Kaupvangi og tökum þátt í athöfninni þegar kveikt er á jólatréinu ásamt því að hitta jólasveinanna. Þar erum við öll saman eitt börn jafnt sem fullorðnir og ræktum traustar og áralangar hefðir. Það er einnig siður hjá mörgum við upphaf aðventunnar að fara í kirkjugarðinn, vitja leiða ástvina og tendra ljós í minningu þeirra.

Aðventan tími hefða

Nú er tími hefða og siða, sem við fylgjum í þaula og segjum frá með stolti, en í annan tíma þykja hefðir jafnvel hallærislegar, gamaldags og halda aftur af breytingum. Núna kemur svo vel í ljós hve hefðirnar eru mikilvægar og þær blómga samfélag okkar, minna okkur á inntak jóla og aðventunnar, sem er að njóta samfélags með öðrum og uppörvast í kærleika og von.

Aðventan markar upphaf nýrra tíma og breytinga, hversdagurinn breytist og það er sem hátíðleikinn hefji innreið sína. Heimlin, verslanir og þorpið okkar breytist og fær á sig nýtt yfirbragð með jólaskreytingum og jólaljósum sem lýsa upp dimmt skammdegið. Það á ekki aðeins við í hinu ytra heldur einnig í hinu innra.

Góður maís

Eitt sinn var bóndi í Bandaríkjunum sem á hverju ári vann samkeppni bænda um besta maísinn. Blaðamaður tók viðtal við hann og vildi komast að því hvert leyndarmálið væri. Bóndinn svaraði án þess að hika: „Ég gef nágrönnum mínum sáðkorn af maísinum mínum.“ Það fannst blaðmanninum fráleit; að gefa samkeppnisaðilunum besta sáðkornið. Bóndinn sagði: „Þetta er nú frekar einföld fræði, sko vindurinn tekur frækornin og feykir þeim frá einum stað til annars og frjógar maísinn minn. Ef nágrannrnir mínir ræktuðu lélegt korn myndi maísinn minn smám saman líka verða lélegur. Ef ég hins vegar vil rækta góðan maís, verð ég að sjá um að nágrannar mínir hafi líka góðan maís.“

Þetta finnum við svo vel núna á aðventunni, því við viljum umfram allt njóta samfélags þar sem ríkir traust, góðvild og náungakærleikur. Til þess verðum við að gefa af okkur og þá dugar aðeins það besta sem við eigum. Aðventan er svo dýrmætur tími vegna þess að hún kallar fram það besta í okkur, minnir á hvað skiptir mestu máli í lífinu og einnig á að það sem við gerum og leggjum til hefur áhrif og auðgar umhverfi okkar og samfélag.

Hetja

Í guðspjalli dagsins sem lesið var héðan frá altarinu er sagt frá því þegar Jesús var staddur í heimabæ sínum Nasaret, sínum litla Vopnafirði. Í samkunduhúsinu les hann spádóm Jesaja um Messías, frelsara heimsins sem koma skyldi. Hann var hann umvafinn fólkinu sínu sem hann þekkti svo vel, vinum og ættingjum og hann lýkur lestrinum með því að segja: „Í dag hefur þessi ritning ræst í áheyrn yðar.“ Viðbrögð fólksins létu ekki á sér standa og það hrakti hann út, en hvergi fékk Jesús jafn slæmar móttökur og í heimborg sinni.

Um hetjur er sagt að þær hafi meiri trú á sinn innri mann, en ríkjandi viðhorf og það sem álitið er satt og rétt. Hún óttast hvorki að gagnrýna viðtekna afstöðu valdhafa eða fara gegn almenningsviðhorfinu, storka venjum og hefðum. Hetjan er oft dæmd af samtíma sínum, gjarnan vegna þess að hún langt á undan sinni samtíð eða ruggar bátnum of mikið. Það er hins vegar þetta fólk sem við lítum upp til þegar fram líða stundir, fólk sem hefur hugrekki að standa á skoðun sinni og hafa hugsjón.

Hugrekki til að tjá trú sína

Nýlega heyrði ég af fermingarbarni sem var spurt af jafnöldrum sínum: Trúir þú í virkilega á Guð? Barnið svaraði hátt og skýrt og án þess að hika: Já, það geri ég. Hér var svarað í fyllstu einlægni og af hjarta. Það hefur áhrif sem við segjum og gerum og það skiptir svo miklu máli að standa á sannfæringu sinni og tjá hana opinberlega. Að játa trú sína er grundvöllur kristinnar trúar og kirkju, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki.

Á aðventunni kemur svo vel í ljós hvað felst í því að trúa og hvert inntak trúarinnar er. Trúin er hreyfiafl, þar sem áherslan er á að gera, sýna og framkvæma. Að hafa áhrif til góðs, móta umhverfi sitt og allt sem hún snertir. Í frumkristni vakti kristið fólk fámennur hópur, en vakti athygli með hjálpfýsi og samkennd með samferðarfólki. Það átti einkum við þegar farsóttir gengu yfir og fólk flúði borgirnar, en kristnu söfnuðurnir voru eftir og hlúðu að sjúkum og deyjandi. Þau hugsuðu ekki um eigin hag, heldur um að líkna og hjálpa og var ekki spurt um trú, stétt eða stöðu. Þegar ofsóknir gegn kristnum söfnuðum hófust, þá hafði það öfugáhrif, því í stað þess að svipta grundvellinum undan söfnuðunum fjölgaði í fylgjendunum og þeir styrktu stöðu sína með hugrekki og staðfastri trú sinni. Þessi samkennd, fórnfýsi og staðfasta trú hafði áhrif og breytti smá saman samfélagi þess tíma. Enn eru þessi gildi undirstaða trúar og kirkju og raunar alls samfélags okkar.

Að breyta heiminum

Núna á aðventunni þegar við undirbúum komu jóla, þá finnum við svo sterk að við viljum bæta okkur sem manneskjur, sýna okkar bestu hliðar og vanda okkur í orði og verki. Traustar hefðir og siðir aðventu og jóla hjálpa okkur að stíga fram, sá frækornum kærleika og vonar og blómga samfélag okkar með góðum verkum. En þetta er ekki einhver kærleikur, heldur sem stafar frá litlu barni sem lagt var í jötu á jólunum fyrstu. Þetta er kærleikur Guðs sem elskaði heiminn og þeim kærleika eigum við að játast og bera vitni, sem elskar Guð og náungann eins og sjálfan sig.

Við getum ekki allt, en með Guðs hjálp getum við öll lagt að mörkum til að heimurinn verði betri. Skreytum ekki aðeins að utanverðu, heldur einnig að innan. Opnum hjarta okkur fyrir Jesú Kristi og kærleika hans, því sjá hann stendur við dyrnar og knýr á.
Í Jesú nafni amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2127.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar