Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Þegar trúin sé

26. október 2014

Predikun við vísitasíu prófasts og vígslubiskups í Hjallakirkju 26. október 2014

Guðspjallið: Matt 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Bænin

Gakk inn í Herrans helgidóm,
þú hjartkær Drottins lýður,
og lofa Guð með glöðum róm,
er gleðihnoss þér býður.
Um löndin öll
Guðs orðin snjöll
af ótal vörum hljómi
í Herrans helgidómi. Sb. 214, 1v. Valdimar Briem

Predikunin

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Kæri söfnuður Hjallakirkju, og kæra samstarfsfólk á vettvangi kirkju og trúar. Kæru gestir Lionsklúbbanna úr röðum eldri borgara í Kópavogi.

Takk fyrir, kæri söfnuður, að taka á móti mér og prófastinum hér í dag. Það er afar þýðingarmikið fyrir okkur að koma í heimsókn eins og þessa til að frétta af málefnum safnaðarins, og sjá hvað við blasir hér og nú og horfa fram á veginn með starfsfólki og söfnuði.

Svona heimsókn til safnaðarins hefur langa sögu. Hún er frá fornu fari kölluð vísitasía. Vísitasía varð til strax á postulatímanum og hefur verið einkenni kristins safnaðarstafs í tvöþúsund ár.Í 15. kafla Postulasögunnar segir svo:

Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: „Förum nú aftur og vitjum trúsystkinanna í hverri borg þar sem við höfum boðað orð Drottins og sjáum hvað þeim líður.“ Post. 15.36

Við erum sem sagt komnir hér við séra Gísli eins og Páll og Barnabas til að athuga hvernig ykkur líður. Til skýringar þá væri sjálfsagt gagnlegt að vita hversu margir eru með tannpínu eða höfuðverk eða aðra vanlíðan, svo við gætum beðið fyrir þeim, en við erum samt meira að hugsa um hvernig söfnuðinum líður trúarlega, og hvaða sýn og væntingar hann hefur á stöðu trúarlífsins og trúariðkunarinnar. Í dag og á morgun. Bæði sem heild og persónubundið.

Það er auðvitað gott og gagnlegt að heyra um allt það góða sem gerst hefur í þessum söfnuði allt frá því hann var stofnaður fyrir tæpum þrem áratugum, en vísitasía vígslubiskups og prófasts er ekki vegna þess sem var heldur þess sem verður. Þótt annað byggi á hinu.
Hvernig gengur starfið? Hvernig er hlutfall skírna og útfara? Hvernig gengur að standa undir kröfum um starf í söfnuðinum? Hvernig gengur að fá starfsfólk? Hversu þungt er vinnuálagið? Hvernig er þátttaka hins almenna safnaðarfólks í samkomuhaldi safnaðarins? Og, alveg sérstaklega: Hvernig mótar trúin viðhorf og verkefni?
Þetta eru fáein dæmi um efni sem við viljum ræða í samtölum við leiðandi einstaklinga í söfnuðinum eins og prestana og organistann og sóknarnefndarfólk og formann, hér í Hjallasókn.

Hjallakirkja er mér hjartfólginn staður af gefnu tilefni. Það er mér afar dýrmæt minning að hafa á sínum tíma verið beðinn að gefa fagleg ráð varðandi hönnun og byggingu þessarar fallegu kirkju út frá forsendum hagnýtrar guðfræði.

Ógleymanlegt er að hafa staðið hér neðanvert við kirkjulóðina ásamt frumkvöðlum safnaðarins og arkitekinum Hróbjarti og prestinum, nafna mínum séra Kristjáni Einari, Guð blessi minningu hans, og heyra þá lýsa hugmyndum sínum um kirkjuna sem enn var ekki til, þannig að húsið reis fyrir augum mínum og breiddi út arma sína til safnaðarins og þjónustu hans.
Þetta skyldi vera í senn hús Guðs og heimili safnaðarins.

Það rifjast upp fyrir mér hversu skýra sýn þeir höfðu á að hér þyrfti að taka mið af öllum þörfum safnaðarins vegna þess að ef þú byggir tilbeiðslustað, þar sem Guð er lofaður, til hans er beðið og orð hans er hugleitt þá kallar það á samhljóm við allt sem gerir þig að ábyrgum einstaklingi fyrir augliti Guðs, ásamt öllum söfnuðinum og allri kirkjunni.
Líkast til er ekkert hús til sem þarf að geta uppfyllt eins margar og miklar kröfur og kirkja. Samt eru engar kröfur gerðar til kirkjunnar sem húss umfram þær sem gerðar eru til sérhvers kristins manns. Til þess að kirkja geti verið kirkja þarf hún reglulega að taka á móti einstaklingum sem sjálfir eru kirkja.

Kirkjan sem enn hafði ekki risið var í þeim sem lýstu henni, prestinum og arkitektinum og bygginganefndinni, með alveg sérstökum hætti, með afgerandi ytra formi og innra skipulagi.
Sú kirkja sem við sjálf berum með okkur hefur auðvitað ýmisleg form og skipulag. Það eina sem er sameiginlegt öllum kirkjum er að þar býr Guð. Þar hefur Jesús Kristur valið sér bústað.

Guð helgur andi, huggun trú,
þín hjálp við oss ei linni,
þér stað í vorum brjóstum bú,
og blessun krýn oss þinni.
Sálmabók. Sb 221, v.4 Helgi Hálfdánarson

Kæri söfnuður. Það er sannarlega til þess ætlast að predikun geti verið persónulegur vitnisburður predikarans um það hvernig Orð Guðs talar inn í hinar fjölbreytilegu aðstæður. En það er sjaldan góð predikun sem snýst fyrst og fremst um persónu predikarans. Ég get samt ekki látið vera að nefna að segja ykkur frá því að ég stend í dag á einskonar vegamótum sem hafa áhrif að það hvernig mér þykir rétt hér og nú að draga fram erindi þeirra ritningartexta sem sem til okkar tala þennan sunnudag.
Vegirnir sem mætast á þessum vegamótum liggja annarsvegar frá ráðstefnu erlendis þar sem rætt var um aðstæður kristinnar kirkju í heiminum og hins vegar frá kirkjuþingi þjóðkirkjunnar sem hófst í gær.
Það er alltaf gott að minnast þess að við erum ekki ein, og sem kirkja ekki heldur. Við erum hluti af heild, hvort sem við skoðum það í smærra eða stærra samhengi. Eins og ákvarðanir kirkjuþings snerta störf allra safnaða og starfsmanna inn á við og eru mjög dýrmæt þjónusta við kirkjuna í landinu, finnur maður lítið fyrir kirkjuþingi í almennu safnaðarlífi í landinu, beinlínis,
Það eru dásamleg forréttindindi að eiga þess kost að vitja safnaðanna og finna drifkraftinn sem þar er að finna, og sjá hversu ólíkir þeir eru og ólíkar aðstæður þeirra alveg óháð ýmsum áhyggjuefnum kirkjuþingsfulltrúa.
Þess vegna er það hinn vegurinn sem ég nefndi, frá hinni almennu sýn á hina almennu kirkju í öllum heiminum sem hefur miklu sterkari tengingu við daglegt líf og trúarheilsu Hjallasafnaðar en kirkjuþingið.

Hvernig er trúarheilsan?
Einn af mínum frábæru forverum í embætti prests á Grenjaðarstað fyrir rúmum hundrað árum, var séra Benedikt Kristjánsson.
Hann var ekki aðeins stórbóndi, með um fimmtíu manns í heimili yfir sumartímann og sláttinn, heldur var bærinn svo stór að hann tók einn hluta hans undir gamalt fólk og lasburða. Þegar hann hætti prestsskap fór hann til Húsavíkur og gerðist póstmeistari. Haft er eftir honum að hann hálf kviði því að fara til himna, því að sér virtist að þar gæti verið svo mikið iðjuleysi.
Ég nefni þetta við ykkur hér og nú vegna þess að eitt af því sem kom til umræðu á hinu þinginu sem ég var á, var að eilífðin er ekki lengur eins eftirsóknarverður staður og lengst af hefur verið síðan mannfólkið fékk fregnir af því að hún væri til.
Sá heimur sem við hér á Vesturlöndum þekkjum best er enginn táradalur, almennt séð. Við sem búum á þessum slóðum jarðar höfum það mjög gott. Sannarlega gerist það enn að hið illa hendir gott fólk. Við missum ástvini í slysum og ólæknandi sjúkdómum eða í hendur fíkniefnafjandans, en lífslíkur vaxa, sífellt meiri fjöldi sjúkdóma er læknanlegur, hungursneyð er fjarri, og vont loft frá Holuhrauni liggur aldrei yfir nema skamma stund í senn.

Sífellt fleiri hafna hugsuninni um tilvist eilífðarinnar, og sá möguleiki að þurfa um síðir að standa skil á gjörðum sínum gagnvart dómara eilífðarinnar er ekki aðeins framandi heldur virðist ýmsum hann stangast á við myndina af algóðum Guði sem fyrirgefi hvort sem er, og hvað sem er. Þörfin fyrir frelsara, hvort heldur er á jörðu eða himni, er ekki fyrir hendi. Kenningin um að Guð hafi þurft að koma sjálfur til jarðarinnar í syni sínum til að bæta fyrir misgjörðir barna sinna gagnvart hvert öðru er oft talin forneskjan ein sem dragi fram hið blóðþyrsta eðli fyrri kynslóða og menningarheima, sem ekki gildi lengur í hinum upplýsta og friðsamlega heimi vesturveldanna.
Og þá segir maður stundum: Þú varst semsagt ekki að horfa á fréttirnar!
Kæri söfnuður.
Hafi Karl Marx haft rétt fyrir sér á sínum tíma um að trúarbrögðin væru ópíum fyrir fólkið þá er trúleysi samtímans það ekki síður.
Hvernig get ég látið vera að leita að réttlætinu þegar óréttlætið er allt í kring? Hvernig get ég látið vera að leita friðar þegar ófriður er allt um kring? Hvernig get ég látið vera að leita Guðs, sem er afl og viska og speki, og kraftur og andi alls hins góða og fagra og fullkomna, þegar guðleysið setur manninn yfir allt og ofar öllu, manninn sem er ekkert nema upprétt, blóðþyrst spendýr þiggi hann ekki leiðsögn og ögun sinna hvata, frá afli sem er æðra en hann sjálfur og utan veru hans.
Hann sem þarf fyrirgefningu til að geta gengið veginn í eftirfylgd Krists.

Kæri söfnuður.
Guðspjallið í dag er frásögn Mattheusar af tilteknum atburði. Frásögn Markúsar af sama eða samskonar atburði í guðspjalli hans er miklum mun myndrænni, en frásögn Mattheusar. Markús segir frá því að svo margir hópuðust í kringum Jesú að vinir lama mannsins komust ekki að honum nema rjúfa gat á þakið og láta hinn lama síga niður í rekkju sinni. Sú mynd leiðir athyglina að vináttunni og gefur tækifæri til að tala um vináttuna. Um það hvernig vináttan er eins og hengirúm sem maður hvílir í. Hún heldur utan um mann á alla vegu og gefur öryggi.
Það var dálítið vinsæl æfing í samskiptatrausti, alla vega í eina tíð að láta sig falla aftur á bak í trausti þess að vinir manns gripu. Vinir manns, sem maður hafði þó kannski ekki þekkt nema fáeinar mínútur.
Við erum aldrei of oft minnt á hversu dýrmæt vináttan og traustið eru. Alltaf, en ekki síst í safnaðarstarfi og kirkjulífi.

En aðalerindi guðspjallsins er eins hjá báðum guðspjallamönnunum. Jesús segir : Hvort er auðveldara að segja: Statt upp og gakk eða: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar. Niðurstaðan er sú sama. Hinn lami fær mátt. Nú væri hægt að setja á langa ræðu um það hversvegna Jesú leggur þetta að jöfnu. Stutta svarið er þetta: Fyrirgefning Guðs gerir mann heilan og þar með frískan og hún léttir hverskyns lömun af.
Og .
Það er bein tenging á milli þessa og göngu okkar til kirkju. Erindi okkar er að taka á móti fyrirgefningu Guðs í messunni. Það er erindið til kirkju, en erindið frá kirkju er : statt upp og gakk. Jesús reisir þig upp. Hann felur þér verkefni í guðsríkinu.

Það er alltaf verið að lama mann einhvernvegin. Mótlætið lamar, dregur úr mann kraft og slær kjarkinn niður.

Okkur er falið stórt hlutverk frammi fyrir augliti Guðs. Hver messa gefur okkur tækifæri til að standa þar og taka við nýjum verkefnum sem okkur er treyst til. Guð leggur ekki þyngri byrðar á okkur en við getum borið.
Þess vegna getum við staðið frammi fyrir honum og sagt við hann. Já, þú ætlast til að ég beri þetta. Ég skal gera það, ég treysti því að þú grípir inn í ef ég er að kikna. Og ég skal létta undir með öðrum, eins og Símon frá Kýrine tók krossinn af herðum Jesú á krossgöngu hans.
Það er hlutverk okkar. Það er helgasta hlutverk hvers safnaðar. Líka þessa hér.

Guðspjallið segir: Er hann sá trú þeirra.
Hversvegna er þetta helgasta hlutverk safnaðar? Svo að Jesús fái að sjá trú okkar.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1441.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar