Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Eiríkur Jóhannsson

Jesús huggar

5. október 2014

Enn á ný komum við saman í helgidómnum og eigum þar samfélag okkur til uppbyggingar og andlegrar næringar, stillum saman strengi okkar í bænum og söng og heyrum lesið úr ritningunni, texta til hugleiðingar og fróðleiks. Hlutverk prestsins í prédikuninni að leitast við að ljúka upp ritningunum eins og það er stundum orðað. Benda á allavega eina leið til að túlka og finna á eigin skinni hvernig þessi löngu skráðu orð geta talað til okkar sem nú lifum. Hvaða áhrif þau geti haft fyrir einstaklinga og samfélag.

Nú höfum við heyrt þá lesna, textana og þar er það auðvitað guðspjallið sem leggur línurnar og gjarnan er sálmurinn sem sunginn er eftir það ortur út frá efni þess, líkt og í þetta sinn, þessi sálmur sem mörgum er kunnur og hefst með þessum orðum: Guðsson mælti grát þú eigi.

Í þetta sinn heyrðum við sagt frá einu af kraftaverkum Jesú. Hann er á leið inn til borgarinnar Nain þegar hann mætir líkfylgd og honum er sagt að hér sé verið að bera til grafar einkason ekkju nokkurrar sem þarna gengur með harmþrungin. Frelsarinn finnur til með henni kemst við af því að sjá sorg hennar og veit líka að afkoma hennar er algerlega ótrygg og í fullkominni óvissu. Hann gengur til og reisir hinn látna af börunum og fær hann móður sinni. Þannig sjáum við frelsarann ganga um, hann læknar sjúka, lífgar við látna, mettar svanga, hann jafnvel breytir vatni í vín svo brúðkaupsgleði megi vara eins og til var ætlast.

Margir eiga erfitt með kraftaverkin og sumir hafa jafnvel lagt sig eftir því að burtskýra undrið, finna jarðbundnar skýringar á hinum ýmsu kraftaverkum. Þessi tilhneiging er á vissan hátt í samræmi við það sem víða má sjá, að fólki virðist finnast það einhvers konar gengisfelling á gáfum þeirra og djúpu hugsun að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að það sé trúað. En samt er það til með að viðurkenna að siðfræðin og boðskapurinn sé ágætur og jafnvel gagnlegur í einhverjum tilvikum.

Það þarf ekki að undrast þessa tregðu því allt um kring má sjá dæmi um skaðlegt trúarofstæki og er kristin trú ekki undanskilin á því sviði. Sömuleiðis má sjá bregða fyrir brennheitu og alt að því heiftarfullu trúleysi sem í framkvæmd virðist ekki að öllu leyti ólíkt hinum öfgunum. Þetta þarf heldur ekki að koma á óvart því það er ekki til það svið mannlegrar tilveru að ekki finnist þar öfgar, þær finnast í stjórnmálum, náttúruvernd, mataræði, viðhorfum til þjóðernis og kynþátta og þannig mætti lengi telja. Það heyrist hins vegar ekki oft að leggja beri þessi fyrirbæri mannlífsins niður, en hins vegar bendir margt til þess að verið sé að reyna þetta gagnvart trúnni. í það minnsta að reyna að koma henni, ef ekki útaf, þá alla vega undir yfirborð hins opinbera sviðs mannlífsins.

Jesús Kristur er grundvöllur okkar kristnu trúar. Guð gerðist maður í Jesú Kristi, þetta er sú sannfæring sem lifað hefur allt frá því að kristin trú varð til. Þetta er ekki vísindaleg niðurstaða enda hefur hún haldist óbreytt í tvö þúsund ár meðan ný þekking hefur verið að ryðja eldri úr sæti allt fram á þennan dag, þannig að sú sem nú er nýjust og best gæti auðveldlega orðið úrelt á morgun.

Að trúa er mikilvægur þáttur í lífi meirihluta mannkyns, þetta er staðreynd, þótt mörgum virðist erfitt að kyngja henni. Í mörgum samfélögum er í gildi sáttmáli um það hvaða átrúnaður er hafður í heiðri. Fyrir þúsund árum var slíkur sáttmáli innsiglaður hér á Íslandi. Maður nokkur skreið undan feldi og benti á þá staðreynd að happadrýgst væri að ein trú og einn siður væri í gildi í einu landi. Um leið var sú staðreynd viðurkennd að ekki myndu allir fella sig við þennan sið, þótt meginlínan væri lögð með honum. Þess vegna var kveðið á um það að undantekningar og afbrygði hlytu alltaf að verða til. Það mátti blóta á laun.

Þessi samfélagssáttmáli hefur aldrei verið rofinn með formlegum hætti á Íslandi. Hann er skilgreindur í stjórnarskránni og hann var meira að segja áréttaður í nýlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt er víða látið eins og þessi sáttmáli sé ekki til.

Að trúa á Guð er að taka afstöðu til lífsins, að veröldin sé til orðin og viðhaldist fyrir vilja kærleiksríks Guðs. Guðs sem elskar sköpun sína og allt sem lífsanda dregur þekkir hann. Þess vegna trúi ég því að Jesús hafi reist drenginn upp af líkbörunum og gefið hann móður sinni. Af því að ég trúi því að Guði sé ekkert ómögulegt af því að ég trúi því að Guð sé góður.

Það verður svo af þessari trú sem siðurinn sprettur viljinn til að reynast öðrum vel, löngun til að lifa í friði, láta sér annt um náungann, standa vörð um lífið, standa vörð um sköpun Guðs náttúruna. Að taka siðinn án þess að byrja á trúnni er svipað því að ætla sér að rista brauð án þess að stinga brauðristinni í samband.

Trúin er á margan hátt lík ástinni, hún kviknar í brjósti mannsins í kjölfar ákveðinnar reynslu og reyndar líka með hjálp heilags anda en við höfum það töluvert á eigin valdi hvað við gerum með hana hversu mikla rækt við leggjum við hana. Af því getur líka ráðist hversu mikinn styrk við höfum af henni til dæmis ef eitthvað bjátar á.

Það er Guð sem huggar, hann finnur til með þeim sem þjáist. Þessi vitund um samkennd Guðs veitir styrk.

Þetta er sú andlega hugrækt, andlega þroskabraut sem enginn verður nokkru sinni fulllærður í en veitir hverjum þeim sem við hana fæst meiri andlegu ró og öryggiskennd en flestir hefðu trúað fyrirfram. Verkefni sem endist okkur ævina út. Þannig hefur trúin áhrif á líf okkar, skoðanir og gildismat. Siðferðisleg viðmið okkar, þess vegna getur trú aldrei orðið persónulegt einkamál, því hún hefur svo mikil áhrif á það hvernig við umgöngumst annað fólk, hvað við höfum í heiðri, hvað við virðum og hvað ekki.

Kannski mætti minnast á það að til munu vera kannanir sem sýna að fólk sem lifir virku trúarlífi hefur betri heilsu og lifir lengur en viðmiðunarhópar. Þetta gæti verði til umhugsunar fyrir þann stóra hóp sem leggur mikið upp úr heilbrigðum lífsstíl, borðar rétt og hreyfir sig, ekki er síður mikilvægt að leggja rækt við hið andlega svið mannsins, kannski er mest um vert að byrja þar.

Allar þjóðir gera með sér sáttmála um ákveðinn grundvöll, hann er ekki sjálfgefinn og getur verið með ýmsu móti. Reynslan sýnir að slíkur sáttmáli stuðlar að friði jafnvel þótt allir viti að ekki fylgja allir öllu. Nú stefnir í að þessi sátt verði rofinn á sviði trúarinnar, Þjóðkirkjan á ekki upp á pallborð.

Hvað nú ef upp risu eldheitir andstæðingar þjóðtungunnar, sem ég vona heitt að Guð forði, það væri nokkuð auðvelt fyrir þá að fara á stað því ég fæ ekki betur séð en flest þau rök sem notuð hafa verið gegn trúnni og þjóðkirkjunni gætu sem best átt við með tungumálið. Jafnræðisrök fjárhagsrök,og jafnvel mannréttinda. Þá gætu menn til dæmis sagt sem svo: Fyrst verið er að berjast við að halda gangandi þessari tungu og ætlast til þess að allir sem hér búi tali og skrifi og lesi mál sem talað er af hálfri milljón í heimi þar sem eru sjö milljarðar, er þá ekki lágmarkskrafa að kennd væri bæði kínverska og indverska? Er eitthvert réttlæti í því að barn sem fætt er í öðru landi sé skikkað til að eyða ómældri orku og tíma í að læra mál sem hvergi er notað nema á skeri úti í miðju Atlantshafi. Nei svona má maður ekki láta, svona má maður ekki tala því allir vita að íslenskan er okkur alveg heilög.

Eftir því sem þráðum fækkar í þeim vað sem við getum kennt við þjóð, þeim mun minna fær hann borið.

Guð son mælti grát þú eigi, hann er sá sem huggar, hann vill sjá okkur brosa, jafnvel hlæja, hann vill sjá gleði. Hann færir okkur fagnaðarerindi, evangelíum. Hann færir okkur andlegt frelsi og fyrirgefningu. Ungi maður ég segi þér rís þú upp . Þetta eru orð sem við getum öll tekið til okkar. Kristur tekur í hönd og reisir okkur upp hjálpar á fætur og gengur með okkur út í daginn, nýjan dag sem vel getur orðið besti dagur lífsins, dag fullan af tækifærum, fullan af fyrirheitum, fullan af gjöfum Guðs.
Drottinn gengur með hjörð sinni, sem fylgist að á ferðinni, þess fullviss að sproti hans og stafur muni hugga, á leiðinni að vötnunum þar sem hún má næðis njóta. Í Jesú nafni amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1611.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar