Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Skundum í kirkju og strengjum vor heit

7. september 2014

Ég er viss um að margir hér inni hafa einhvern tímann strengt nýársheit. Vaknað fyrsta janúar og einsett sér að hrinda allskonar hlutum í framkvæmd, gera góða hluti og leggja vonda hluti til hliðar. En hefur einhver prófað að strengja haustheit?

Það er nefnilega margt sem bendir til þess að haustið sé miklu betri tími til að setja nýja hluti í gang, breyta hegðun sinni og koma sér upp úr gömlum hjólförum og finna ný. Haustið færir svo miklar breytingar í för með sér sjálfkrafa, og það sést allt í kringum okkur. Á meðan vorið er tíminn sem náttúran lifnar við og endurfæðist, þá er eins og öll menningin endurfæðist og gangi í endurnýjun lífdaga á haustin. Það sjáum við allt í kring um okkur. Skólarnir byrja, leikhúsin ýta dagskránni sinni úr vör, sinfóníuhljómsveitin hefur starfsár sitt, það er hægt að velja úr ótal námskeiðum sem styrkja mann í námi og starfi og líkamsræktarstöðvarnar bjóða upp á spennandi leiðir til að styðja við hollan lífsstíl.

Þannig að þegar náttúran bregst við því að sólin er styttra og lægra á himninum með því að hægja á sér og leggjast að lokum í dvala, þá taka manneskjurnar við sér og fara á fullt að gera skemmtilega hluti.

Ungur nemur gamall temur

Þannig er það líka hérna í Laugarneskirkju. Síðustu daga þá höfum við verið á fullu að undirbúa og byrja vetarstarfið sem er fjölbreytt og skrautlegt, og í dag þá er stór dagur í lífi kirkjunnar okkar því að við bjóðum velkominn heilan hóp af frábærum unglingum sem ætla að nota veturinn til að læra heilling um trúna, lífið, samskipti og sig sjálf, áður en þau fermast í vor.

Við byrjum með trukki og ætlum m.a. að skella okkur í ferðalag upp í Vatnaskóg og eiga rúmlega sólarhring saman við leik og fræðslu. Það er skemmtilegur tími framundan og ég hlakka til að kynnast ykkur krakkar, og fjölskyldunum ykkar. Það eru algjör forréttindi að fá að vera með svona flottum hópi og ræða hluti sem skipta gríðarlega miklu máli.

Einu sinni var talað um að við ferminguna kæmist maður í fullorðinna manna tölu og eftir fermingu fóru krakkar bara að vinna fyrir sér og skaffa. Það er sem betur fer ekki þannig lengur, ég held að foreldrar ykkar séu bara mjög sátt við að hafa ykkur aðeins lengur. En það er líka þannig að þessi ár sem þið lifið núna undirbúa ykkur fyrir verkefnið að vera fullorðin og verða fullorðin. Og það er þannig að margt sem maður venur sig á og iðkar þegar maður er unglingur, mótar mann til frambúðar. Það á við um hvernig við hreyfum okkur, hvað við látum í okkur, hverja við umgöngumst og hvernig okkur líður.

Stundum heyrum við að það sé flóknara að vera ung manneskja í dag en áður. Það sé svo mikið af upplýsingum og áreiti sem þarf að takast á við að það getur verið mjög erfitt að fóta sig. Það er örugglega mikið til í því, og þess vegna þurfum við að leggja ennþá meiri rækt við það sem hlúir að sjálfsmyndinni og gerir okkur sterkar og góðar manneskjur sem láta sig varða hvernig öðrum líður.

Frelsuð frá því sem kreppir

Það er líka margt sem getur unnið á móti því góða sem við eigum og höfum. Og stundum finnum við okkur í aðstæðum sem hindra okkur í að vera við sjálf og loka inni allt það góða sem Guð ætlar okkur að vera.

Guðspjallið um daufa og málhalta manninn sem við heyrðum áðan, dregur einmitt upp mynd af þannig aðstæðum. Maðurinn í sögunni bjó við aðstæður sem hindruðu hann í að eiga gefandi samskipti við annað fólk. Hann var lánsamur að eiga vini sem héldu utan um hann og sem tóku skref til að hjálpa honum. Hjálpin fólst í því að leiða hann til Jesú. Og þegar maðurinn og Jesús hittust urðu algjör umskipti á lífi hans. Hann var ekki lengur á valdi þess sem hafði heft hann og hindrað.

Ég trúi því að þegar við leyfum Jesú að snerta okkur og þegar við erum opin fyrir því sem Guð vill koma til leiðar í lífinu okkar, að þá gerist einmitt svona hlutir. Þess vegna er fermingarveturinn ykkar, frábært tækifæri til að læra um Jesú og samfélag þeirra sem vilja fylgja honum. Tíminn hérna í kirkjunni getur nefnilega nýst til að móta og styrkja ykkur sem kristnar manneskjur sem taka ábyrgð á sjálfri sér og öðrum.

Eitt af því sem við erum alltaf að tala um í kirkjunni, vegna þess að það er svo mikilvægt, er að láta sér annt um aðra og sérstaklega þau sem eiga erfitt. Við eigum eftir að ræða þetta mjög mikið í vetur og læra um hjálparstarf og kærleiksþjónustu. Við eigum líka eftir að spá í hvað við getum gert sjálf til að hjálpa öðrum og lagt okkar af mörkum til að gera samfélagið okkar betra.

Markmið um minni sóun

Ein stelpan mín fór í svona kennaraviðtal í vikunni þar sem hún var beðin um að setja sér markmið í tengslum við skólastarfið. Það mátti ekki vera svona almennt, eins og að standa sig vel á samræmdu prófunum, heldur eitthvað alveg ákveðið sem hún gat mælt og unnið eftir. Niðurstaðan var að hún setti sér fyrir að lesa í ákveðið langan tíma á dag.

Það er gott að setja sér markmið sem hjálpa manni að ná því sem er eftirsóknarvert. Þau geta líka hjálpað til að breyta eða hnika hegðun sem er ekki góð. Stundum þarf heilt samfélag að taka sig á og setja sér markmið sem leiðir til góðs. Eitt af því sem núna er rætt mikið um er hvernig við umgöngumst mat, nánar til tekið hvað miklum mat er sóað og hent, í heiminum öllum og á Íslandi.

Núna um helgina hefur verið átak til að upplýsa um hvað hér er um gríðarlega alvarlegan hlut að ræða. Það er talið að þriðjungi af öllum mat sem verður til í heiminum sé hent í ruslið. Þetta er svo ógeðfellt af mörgum ástæðum. Það er ennþá fólk sem fær ekki nóg að borða og það er fólk sem deyr af matarskorti. Það er líka þannig að mikið af matarframleiðslu á sér stað með þeim hætti að það gengur á auðæfi jarðarinnar og er ósjálfbær.

Hér er nú aldeilis tækifæri til að taka sig á, strengja haust-heit og setja sér markmið um að vanda sig betur í umgengni við mat. Hér geta nefnilega allir lagt sitt af mörkum, með því að fá sér bara á diskinn það sem maður ætlar að borða, með því að elda passlega mikið, með því að kaupa skynsamlega inn. Og með því að hreinlega gefa burt það sem við eigum og ætlum ekki að nota. Ég las svo áhugavert við tal við hann Bjarni Snæðing, sem eldar í kaffistofu Samhjálpar, þar sem fjöldi manns kemur og borðar á hverjum degi endurgjaldslaust. Þar segist hann gjarnan nota umframmat frá fyrirtækjum og einstaklingum. Allt sem hann eldar úr, fær hann gefins og mikið af því er matur sem hefði annars verið hent.

Það er alltaf rými til að bæta sig og hér er aldeilis tækifæri til að gera betur, þau sem njóta góðs af bættri matarumgengni, eru fyrst og fremst þau sem skortir mat, og elsku jörðin okkar sem við verðum að passa að sé ekki misnotuð. Og við eigum örugglega eftir að tala meira um þetta í fermingarfræðslunni.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1608.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar