Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Einkenni eilífðarinnar

1. september 2014

Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
frá húsi Drottins blessum vér yður.
Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós, 
fylkið yður með laufgreinum
að hornum altarisins. 
Þú ert Guð minn, ég þakka þér,
Guð minn, ég vegsama þig.
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu. (DS 118, 26-29)

Kæru söngfuglar, kæri söfnuður.

Ég sat hér í kirkjunni í gær og hlustaði á ykkur syngja, og furðaði mig á því hvað það virtist hafa verið auðvelt að búa til úr ykkur svona góðan kór. Og þegar þið lögðuð frá ykkur bækurnar og Lynnell söng fyrir og þið svöruðuð og einfaldar danshreyfingar eins og læddust inn í kórinn, líkt og þegar fyrstu geislar morguns læðast um tún engi, þá hugsaði ég: Skrítið hvað fólk er ennþá upptekið af því að kirkjuganga og dans eigi ekki saman. Og nú er búið breyta þessum versum sem ég las úr Davíssálminum, og ég er alveg viss um að það er vegna þess að það er betri þýðing úr frummálinu, og þar stendur núna: fylkið yður með laufgreinum að hornum altarins.
Þetta er sjálfsagt alveg fullkomin þýðing, en ég sakna þess samt sem stendur í gömlu þýðingunni:

Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum allt inn að altarishornunum.

Þegar sumartónleikarnir hófust í sumar, á 40 ára afmæli Sumartónleika í Skálholtskirkju, þá kom hingað hópur listamanna sem flutti okkur barrokk frá Suður Ameríku. Þar hafði barrokkið lagað sig að þeirri tónlist sem menningararfleifð heimamanna bjó að og útkoman var í einu orði sagt: stórkostleg. Og ógleymanleg. Þetta var ekki bara falleg tónlist og fallegt listafólk í söng og leik, heldur voru líka tveir dansarar. Ljóðin voru trúarljóð, einkum Maríubænir, og tónnin var í bland þekktur og óþekktur en til viðbótar því fylgdi túlkun með dansi. Það var ógleymanlegur dansi í fegurð sinni og fagmennsku. Hér á gólfinu. Það var tilbeiðsla í tónum, orðum og hreyfingum.

Við eigum því miður ekki þessu að venjast í kirkju. Það rifjaðist upp meðan ég sat hér á tónleikunum, að á tímum þýska alþýðulýðveldisins í Austur Þýskalandi voru listamenn í opinberri þjónustu reknir umsvifalaust úr starfi ef þeir fóru í kirkju. Þar á meðal ballettdansarar. Þá varð til nýr vettvangur í kirkjunni þar sem þessir listamenn túlkuðu ritningartexta í dansi. Það er ógleymanlegt er að hafa séð dansað Faðir vor. Það er næstum því eins ógleymanlegt eins og þegar kór heyrnardaufra flutti sálma á kristnihátíðinni á Þingvöllum. Mína eigin sálma, og ég sá það sem ég hafði sagt.

Listin ein kann að segja hið ósegjanlega. Listin í öllum sínum myndum. Sönglistin á þar sinn háa sess, og enginn efast um erindi hennar í kirkjuna, eða tjáningarmöguleika hennar fyrir augliti Guðs.

Kæra söngfólk. Kærar þakkir. Ekki bara fyrir sönginn, sem er dásamlegur, og ekki bara fyrir þennan kór sem varð til á nokkrum klukkustundum og er ótrúlega góður. Takk ennþá frekar fyrir að hjálpa okkur að endurreisa Skálholt sem athvarf fyrir söngstarf með þessum hætti sem gert var þessa helgina og minnir á marga dásamlega daga í ágústmánuði um áraraðir.
Það er stórkostlegur styrkur fyrir okkur sem hér erum að sýsla hvern dag og reyna að berjast fyrir því að við fáum að halda Skálholti sem helgistað og fræðslustað og kyrrðarstað og tilbeiðslustað og söngstað, andspænis þeim sem sjá hér fyrst og fremst möguleika til að græða á ferðamönnum.

Jesus segir í guðspjalli dagsins söguna um fariseann og tollheimtumanninn sem komu í sitt Guðs hús. Hann biður okkur með þessari frásögn að hugleiða okkar eigin kirkjugöngu, og bæði hegðan og hugsun frammi fyrir Guðs augliti.

Guðspjallið um fariseann og tollheimtumanninn er nefnilega dálítið sérstakt umhugsunarefni. Samanburður milli þeirra leiðir mann í besta falli á villigötur og hvorugur þeirra er beinlínis til fyrirmyndar. En þetta eru sannarlega tveir menn sem gengu fram fyrir Guð til þess að biðjast fyrir. Í því atriði þekkjum við samhljóm við eigið líf.

Þess vegna er það líka næsta víst að þegar gengið var frá því í kirkjunni á sínum tíma hvaða guðspjall skyldi lesið á hverjum sunnudegi, og það var nú ekki í gær, það var á sjöttu öld, þá hafi þetta guðspjall verið sett á 11. sunnudag eftir þrenningarhátíð, vegna þess að guðspjallið fyrir viku síðan,( það var semsagt gert ráð fyrir því að við færum í kirkjur á hverjum sunnudegi), guðspjallið fyrir viku síðan fjallar um það þegar Jesús grætur yfir Jerúsalem. Hann grætur yfir falli musterisins sem ekki var bara hið ytra fall byggingarinnar heldur hið innra fall tilbeiðslustaðarins með því að honum var breytt í viðskipta- og verslunarstað. Svo að Jesús fer þangað og rekur út kaupahéðnanna með orðunum: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.

Þess vegna eru spurningar þessa dags ekki fyrst og fremst um það hvor hafi staðið sig betur fariseinn eða tollheimtumaðurinn, heldur um það hversvegna við byggjum musteri og helgidóma guðsdýrkunarinnar og hversvegna við göngum fram fyrir Guðs auglit.

Fariseinn er að reyna að ná jöfnuði við Guð: Ég hef uppfylt skilyrðin fyrir inngöngu í Guðsríki, hleyptu mér inn. Öll afstaða hans er fullkomlega sjálfhverf. Hann er andspænis Guði í fullvissu þess að hann eigi kröfurétt á hann.
Tollheimtumaðurinn felur sig í fangi Guðs af því að björg hans er öll þar.

Þetta er saga sem mörgum er kunn, alla vega að einhverju marki, og jafnvel þótt Biblíuþekking sé annars ekki mikil. Sömuleiðis er mörgum kunn hin einfalda og um leið varasama útleggingarniðurstaða: Fariseanum er vísað frá, en tollheimtumaðurinn fær lof.

Tveir menn. Báðir gera hið sama. Þeir ganga í helgidóminn til að biðjast fyrir. Á meðan allur þorri fólks fer ekki þangað, hvorki í þeim tilgangi eða öðrum, fara þeir til að biðja.

Það er ekki heldur sjálfsagður hlutur. Það er hægt að fara í allt öðrum tilgangi í kirkju. Á þessum sumarmánuðum 2014 koma hér í kirkjuna í Skálholti daglega þegar mest er nokkur hundruð manns. Flestir þeirra hafa í mesta lagi tíma fyrir eitt stutt bænaandvarp, varla lengra en það sem við heyrðum hjá tollheimtumanninum, ef þeim er bæn í hug á annað borð. Mönnum liggur á að komast á næsta áfangastað. Það eru að vísu sannarlega fleiri en tveir sem koma til að biðjast fyrir, en þetta sem lýst er eru samt ekki aðstæður til bænahalds.

Svona sérstaklega af því að það er hér svo margt söngfólk þá er rétt að nefna að þessir tveir fóru ekki í helgidóminn til að syngja. Enda voru þeir ekki að taka þátt í neinu af því sameiginlega helgihaldi sem í boði var og að mestu var sungið.

Maður fær stundum spurninguna: Söng Jesús? Já, hann söng, þótt fáum sögum fari af því. En hann tók reglulega þátt í helgihaldi sinnar þjóðar þar sem sungið var. Og þegar hann átti sína síðustu kvöldmáltíð með lærisveinunum luku þau máltíðinni með því að syngja.
Áður en Jesús gekk í Grasgarðinn til að mæta þar böðlum sínum söng hann lofsöng. Við vitum nákvæmlega hvað hann söng síðast í jarðvist sinni, vegna þess að hefðin sem hann bjó að mælti fyrir um það. Hann söng það sem hér var lesið í byrjun, og meira en það, hann söng sálma saltarans númer 116, 117 og 118.
Einna síðast á jarðvist sinni með krossinn fyrir augum söng hann þetta vers úr sálmi 118.
Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glaðir á honum.

Í gær komum við saman til að heiðra minningu Páls biskups Jónssonar þegar liðin voru nákvælega 60 ár frá því að kista hans var opnuð. Og við sungum hið forna: In Paradisum, á íslensku. Sálmversin sem sungin eru í þeim söng sem hefur verið sunginn á dánardegi og á minningardögum kynslóðanna eru tekin úr sálmi 116: 

Snörur dauðans umkringdu mig,
angist heljar kom yfir mig,
ég mætti nauðum og harmi.
Þá ákallaði ég nafn Drottins:
„Drottinn, bjarga lífi mínu.“

Þú bjargaðir lífi mínu frá dauða,
auga mínu frá tárum,
fæti mínum frá hrösun.
Ég geng frammi fyrir Drottni
á landi lifenda.

Söngurinn Til paradísar tekur undir söng Jesú á leið hans á krossinn af því að það er leiðin til upprisunnar.


Páll biskup var samkvæmt frásögnum afar góður söngmaður. Það var Ágústínus kirkjufaðir einnig. Hann var eiginlega alveg frægur fyrir það og hafði sérstaka ánægju af því að syngja. Og kenning hans var þessi: Tvöfalt biður sá er syngur. Bis orat qui cantat. Okkur þykir gott að halda okkur við þetta í bænahaldi okkar hér í Skálholti.

Það er líka þannig að langflestir hafa haft sín fyrstu kynni af trúarlífi og bænahaldi í bæn og söng við vöggu barns og rúm. Þess vegna er Guðsmynd svo margra tengd við bæn og söng, enda verður hún til oftast nær við þessar aðstæður og nærist af henni.

En Ágústínus fékk mikla bakþanka út af þessu með sönginn. Og hann sagði sem svo: Er ég kannski bara að syngja af því að ég hef svo gaman af því að hlusta á sjálfan mig, og að láta bera á mér. Er ég kannski búinn að týna ástæðu þess að ég syng, búinn að týna sjálfri tilbeiðslunni í einhverskonar sjálfsupphafningu?

Og hann steinhætti að syngja. Marteinn Lúther, sem við vitnum gjarna til sagði um þetta: Þarna gekk nú Ágústínus of langt.

Kæri söfnuður. Það væri undarleg guðfræði að halda því fram að við ættum ekki að nota þær gjafir sem okkur eru gefnar. Og hver sá sem getur sungið og vill það, gerir það og gleður með því sjálfan sig og annað fólk, og englana. 
Stundum bara þá, ef ekki eru fleiri í heyrð.

Fallegust allra gjafa Guðs er tónlistin. Sagði Marteinn Lúther.
Ég held reyndar að fallegust allra gjafa Guðs sé manneskjan sjálf.

Eitt af þeim mörgu stórkostlegu augnablikum sem sá upplifir sem hér dvelur var að sjá síðstliðið föstudagskvöld koma hér í hlaðið hlaupara, pílagrímahlaupara. Það eru oftast pílagrímagöngumenn sem við sjáum hér, og slíkir komu reyndar í hlaðið nokkru síðar sama kvöld.

Á Skálholtshátíð kemur hingað pílagrímaganga frá Bæ í Borgarfirði, auk annarra. Þessi komu líka frá Bæ. Það er búið að merkja leiðina. Og ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki bara til að hrósa þeim, sem sannarlega er þó ástæða til, heldur til að vekja athygli á því að hin merkta leið er ekki bara mjög erfið á köflum af því að hún er brött og grýtt, heldur vegna þess að hún er ógreinileg, því gamla gatan, leiðin milli byggða fyrir daga ökutækja, sem endurvakin var í þessum tilgangi var að hluta týnd í grasi og viði. Það þarf því mikla einbeitni og áræði og þrautseigju til að fara þessa leið eins og hún er merkt.

Pílagrímaferðir eru í senn farnar að tilsettu marki í landinu, en um leið inn í hið innra sjálf. Og á báðum þessum leiðum eru stikur.

Á hvaða leið er ég?
Gangan í Guðs hús fram fyrir auglit hans er vegna þess að við þurfum að spyrja til vegar. Og þegar við komum þangað mæta okkur tvær spurningar Guðs. Hvaðan komstu og hvert ætlarðu? 
Hérna við altarið er staðurinn til að leggja af það gamla og höndla hið nýja. Ekki með einhverjum sérstökum stórkarlayfirlýsingum heldur einfaldlega með því að minnast þess að dagurinn í gær er liðinn og kemur aldrei aftur, en dagurinn í dag er nýr og ferskur, fullur af fyrirheitum og möguleikum og var aldrei áður, hann er bara lagður þér í fang eins og nýfætt barn og ekkert af því sem gerðist í gær og fyrradag nær til hans, nema þú viljir það. Þetta er þinn dagur. 
Auðvitað er staðreyndin sú að þetta er líka dagur margra annarra, og þér getur fundist að þú komist aldrei til þess að njóta hans af því að einhverjir aðrir hafi hrifsað hann frá þér.

Líka þess vegna þurfum við að ganga fram fyrir Guð. Aftur og aftur.

Sagan um fariseann og tollheimtumanninn er til þess að minna okkur á það. Og þegar við erum ekki viss um hvernig við ættum að orða hlutina, eða okkur finnst einfaldlega erfitt að orða þá af því að töluð setning hljómar öðru vísi en sungin, þá er svo gott að taka fram sálmabókina og syngja. Helst með öðrum. Sumt sem við myndum aldrei segja, ekki einu sinni við Guð, er auðvelt að syngja. Ekki bara til að orðin fái vængi, heldur til þess að við getum orðið eitt með orðunum og tónunum og með Guði.

Það er bara eitt einkenni á öllum myndum ritningarinnar af eilífðinni, á himnum. Þar er sungið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2089.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar