Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Kærleikur í búningsklefanum

3. ágúst 2014

Kæri söfnuður.

Ég ætla að segja ykkur þrennt í dag: Sanna sögu, örlítið um Jesús og eitt um samfélagið okkar í dag.

Við byrjum á sögunni.

Vinur minn var staddur í sundlaug á dögunum. Hann synti og fór svo aðeins í pottinn og lét líða úr sér. Svo fór hann upp úr og þar sem hann stendur í búningsklefanum sér hann útundan sér tvo menn. Þetta voru stórir og vígalegir menn sem litu svona svolítið „mótorhjólatöffarahandrukkaralega“ út eins og hann orðaði það. Þeir voru að tala saman með talanda sem maður tengir við töffaraskap. Hann hugsaði svosem ekkert meira um það en þessi upplifun af gaurunum tveimur skapaði ákveðnar væntingar hjá honum.

Svo er hann að klæða sig og þá heyrir hann betur hvað þeir eru að segja. Það var eitthvað á þessa leið:

Annar: „Ég hef verið rosalega mikið að spekúlera í þessu með auðmýktina. Hún kristallast í því að maður enga heimtingu án einu, frægð eða frama í heiminum. Það eina sem maður getur búist af sjálfum sér er að gera heiminn aðeins betri fyrir aðra og ég held að auðmýktin felist í því.“
Hinn: Já, einmitt.

Og svo stuttu síðar heyrði hann gaurinn bæta við:

„Ég er farinn að hjóla meira og það er svo mikið frelsi í því. Ég nýt þess miklu betur að vera í núinu þegar ég hjóla og finn betur fyrir umhverfinu.“ Svo bætti hann við: „Ég var alltaf að gefa svo mikið í og bruna og spítta og áttaði mig allt í einu á því að ég var að hræða fólk og gera það óröuggt. Maður vill það náttúrulega ekki.“

Vinur okkar stóðst ekki mátið, afhjúpaði eigin fordóma og þakkaði um leið: „Mikið er flott að svona stór gaur hafi svona fallega heimssýn sem snýst ekki um hver er hærri eða hraðari eða stærri.“ Þá svaraði hinn: „Við verðum öll að gera heiminn aðeins betri í kringum okkur.“

Þeir kvöddust með handabandi og sá stóri horfði í augum á honum og sagði eitt orð: Kærleikur.

Stóru strákarnir í sundlauginni voru staðalmyndabrjótar.

Þetta var það fyrsta.

• • •

Jesús olli vonbrigðum.

Þeir höfðu búist við alvöru leiðtoga. Einhverjum sem safnaði þjóðinni saman og gerði uppreisn gegn þessum óþolandi Rómverjum sem réðu öllu og kúguðu alla. En hann vildi það ekki.

Og hann sagði:

„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ (Jóh 18:36) sem minnti á að hann vildi ekki stofnsetja stórt ríki og vera þess háttar leiðtogi.

Og hann sagði:

„Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur“ (Lúk 3.11) við alla sem áttu mikið og hvatti unga ríka manninn til að gefa allar eigur sínar til þeirra á þyrftu að halda og fylgja sér.

Og hann sagði:

„Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina“ (Lúk 6.29) við þá sem voru of uppteknir af auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.

Jesús olli vonbrigðum.
En ekki öllum, aðeins þeim sem vildu hörku en ekki mýkt, sáu sér hag í ófriði, vildu eiginvöld í stað þess að valdefla aðra.
Því hann var friðarpostuli um leið og hann var staðalmyndabrjótur.

Þetta var númer tvö.

• • •

Það er stríð og það eru átök um allan heim.
Við höfum áhyggjur.
Og við finnum til vanmáttar okkar.

Það eru átök á Gaza.
Í Sýrlandi.
Í Úkraínu.
Og á mörgum fleiri stöðum.

Við lærðum það af Njálu og svo af mannkynssögunni allri að lögmálið auga fyrir auga, tönn fyrir tönn gengur ekki upp. Húskarlavígin tóku af öll tvímæli um það. Það gengur heldur ekki upp að taka meira, höfuð fyrir auga - líkami fyrir tönn virkar ekki. 1600 Palestínumenn fyrir 63 Ísraelska hermenn virkar ekki. Allra síst þegar haft er í huga að Palestínumennirnir búa á hernumdu svæði og Ísraelsmönnum - sem hafa hernumið Gaza - ber í raun að tryggja öryggi þeirra og velferð.

Ég held að við þurfum að brjóta upp staðalmyndir hér. Staðalmyndir af stríði og friði. Um aldir hefur verið unnið með hugmyndina um réttlátt stríð en ég held að hún sé ekki gagnleg. Kirkjurnar í kringum okkur hafa kallað eftir réttlátum friði og það er góður útgangspunktur. Enn frekar þurfum við að brjóta upp staðalmyndirnar af fólki og hópum. Því við viljum að samfélagið okkar einkennist af friði.

Þar eigum við að horfa til fordæmis Jesú sem braut upp staðalmyndina af leiðtoga og var boðberi friðar og mýktar.

Þar eigum við líka, held ég, að horfa á strákana í sundlauginni sem minntu á að meginmarkmið okkar í lífinu á að vera að gera heiminn aðeins betri fyrir aðra.

Friðflytjendur leynast nefnilega víða, líka þar sem við bjuggumst ekki við þeim.

Þetta var það þriðja.

• • •

Að síðustu er það hvatning dagsins:

Hvernig væri að við reyndum öll að lifa í auðmýktinni sem Jesús kennir og strákurinn í sundlauginni orðar svo vel. Lifa þannig að heimurinn verði aðeins betri fyrir aðra. Og hvernig væri að við prófuðum að kveðjast ekki með bæ eða bless eða vertu sæll heldur með djúpu og einlægu augnatilliti og handabandi og svo lykilorði hins góða lífs:

kærleikur.

Það væri skref í friðarátt.

Dýrð sé Guði sem skapaði heiminn og hvíldist á sjöunda degi sem er friðardagurinn, dýrð sé syninum sem kallar okkur til að vera friðflytjendur og dýrð sé heilögum anda sem er andi friðarins.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2787.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar