Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Er ég okei?

31. ágúst 2014

Tímamót geta verið af ýmsum toga. Stundum eru þau augljós, eitthvað tekur enda og annað byrjar, t.d. þegar þú gengur í hjónaband, eða skilur við maka þinn, hættir í gömlu vinnunni og byrjar í nýrri. Flytur til annars lands og byrjar lífið þar.

En stundum koma tímamótin hægt og án þess að maður taki neitt sérstaklega eftir þeim. T.d. hvernig við eldumst. Eina stundina erum við ung og efnileg, hipp og kúl, en svo allt í einu erum við það ekki lengur. Ég átti svona ekta miðaldramóment - þegar það rennur upp fyrir manni að maður er ekki lengur ungur - núna um helgina þegar við hjónin fórum á sýningu á leiklistarhátíðinni Lókal. Umkringd ungu hipsterunum, fannst mér virkilega sem ég væri ekki alveg á sömu blaðsíðu, sérstaklega þegar salurinn skellti upp úr og ég fattaði ekki af hverju. Hugsaði: þarna kemur kynslóðabilið vel fram!

En sýningin sjálf stóð fyllilega undir væntingum. Lókal hátíðin er hugsuð til að veita inn í menninguna nýjustu straumum í sviðslistum, til að lyfta upp því sem ungt og efnilegt listafólk er að fást við og til að tengja saman erlenda og innlenda listamenn. Þessi tiltekna sýning var eftir ungan mann sem vildi segja sögu langömmu sinnar, Petru Sveinsdóttur frá Stöðvarfirði, sem er núna landsþekkt og í raun langt út fyrir landsteinana, fyrir stórmerkilegt steinasafn sitt.

Saga Petru er auðvitað afar áhugaverð og það var fallegt að kynnast henni í gegnum vangaveltur og uppgjör barna-barna-barnsins. Safnið sjálft er einstakt og tilurð þess, að ein lítil kona arkaði um fjöll og fjörur um áratuga skeið og bar heim fleiri tonn af grjóti, stundum í bakpoka bæði á bakinu og maganum, er stórmerkilegur vitnisburður um mátt einstaklingsins og um manneskju sem byggði upp og hafði áhrif.

Inn í sýninguna voru unnin myndskeið úr gömlu sjónvarpsviðtali við Petru. Þar var hún m.a. spurð út í ævistarfið sitt og sambýlið við fjöllin og náttúruna. Auðvitað barst talið að huldufólki - og Petra sagðist aldrei hafa orðið vör við neitt slíkt. Og hún túlkaði það ekki sem merki um að huldufólkið væri ekki til eða byggi ekki á þessu svæði, heldur sem svo að það hefði ekkert að athuga við steinatökuna. Enginn hefði vitjað hennar í draumi eða gert vart við sig á nokkurn hátt.

En af því að sviðið býður upp á óendalega möguleika í framsetningu og frásögn, ákvað höfundur verksins að gefa álfunum rödd, í formi ungs huldumanns í töluverðu uppnámi, sem fékk að vera talsmaður þeirra sem upplifðu sig rænda og hlunnfarna. Sjáið þið, sagði hann, og benti á nokkra af fallegu steinunum hennar Petru, hér bjó Þrándur og Gunnar og Bárður og Hildigunnur - hvernig myndi ykkur fólkinu líða ef við álfarnir kæmu bara og tækju húsin ykkar og byggju úr þeim safn!

Kannski þjónaði álfurinn í verkinu fyrst og fremst því hlutverki að leika sér að staðalmyndinni af Íslendingum sem trúa á álfa, kannski var hann hugsaður til að fá áhorfendur til að setja sig í spor annarra og horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni.

Leikhúsið og sjónlistirnar, eins og allar listir, geta þjónað því hlutverki að við förum að máta okkur sjálf, reynslu okkar og möguleika, við alveg ný viðmið. Það felur í sjálfu sér alveg nýtt frelsi, sem sprengir upp fyrri hugmyndir og stirðnaða mynd sem við höfum af okkur sjálfum og lífinu.

Ef að þetta er hlutverk listarinnar, hvernig snertir það trúna og boðskapinn sem við söfnumst saman í kirkjunni til að meðtaka og láta hafa áhrif á líf okkar? Getur verið að við ættum að nálgast sögurnar og vitnisburðina sem við finnum í Biblíunni með þessu hugarfari? Spyrja hvernig hjálpar þessi saga mér að horfa á mig, í nýju ljósi og uppgötva frelsið sem ég þrái og þarf til að vaxa og dafna í því hlutverki að vera manneskja?

Í dag fáum við upp í hendurnar sögur og texta þar sem tvö hugtakapör koma gjarnan fyrir. Þau eru drambsemi og auðmýkt. Eða í formi lýsingarorða, að vera drambsöm og auðmjúk. Og við fáum söguna af mönnunum tveimur, farísea og tollheimtumanni sem týpurnar sem uppfylla þessi hugtök.

Annar nálgast hlutina einfaldlega þannig að hann sé ekki bara góður eins og hann er heldur betri en aðrir. Hann er betri en þessir ranglátu, hórkarlarnir, ræningjarnir þarna úti - og líka betri en gaurinn sem stendur við hlið hans í musterinu. Þetta er drambsama týpan. Hún er nógu örugg með sig til að leggja þessa sjálfsmynd fram fyrir Guð. Hann er alveg grjótharður og segir, Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og þessir menn.

Hinn maðurinn er alveg hinumegin. Hann er í duftinu og hefur einhvern veginn náð botninum. Hann er tákmynd auðmýktarinnar sem hefur ekki burði til að horfast í augu við aðra eða sjálfan sig.

Hvernig koma þessar týpur þér fyrir sjónir? Með hverri þeirra samsamar þú þig? Ég þori að veðja að við myndum flest merkja við dálkinn sem tollheimtumaðurinn er í, bara af þeirri einföldu ástæðu að það er erfitt að viðurkenna að okkur finnst við yfirleitt vera betri en aðrir. Það er ekki fínt að viðurkenna það.

Guðspjallið skilur okkur heldur ekki eftir í lausu lofti, sögumaðurinn dregur sínar ályktanir. Og þær eru þannig: sá auðmjúki fór sáttur heim til sín en hinn drambsami ekki.

Þarna er áhugaverð þversögn, hvernig getur sá sem er svona öruggur með sig í samanburði við aðra ekki verið sáttur við sig og stöðuna í lífinu? Og hvernig getur sá sem getur ekki einu sinni horfst í augu við aðstæðurnar af því honum finnst hann ekki þess virði, snúið til baka sáttur?

Eitt af því sem við erum alltaf að kljást við sem manneskjur, er að leggja mat á okkur sjálf og hvert annað. Og kannski segir þessi saga okkur sannleikann um byrðina sem fylgir því að vera eiga alltaf í eilífum samanburði við aðra og byggja mat okkar á því.

Þetta er m.a. kallað facebook heilkennið. Þegar við lesum það sem aðrir skrifa og birta og fyllumst vanmætti yfir því hvað aðrir hafa það skemmtilegt, hvað þau eiga í góðum tengslum við sína nánustu, hvað þau eru skapandi, drífandi og sniðug. OMG, hugsum við, ekki er svona gaman hjá okkur. Ekki er ég svona dugleg í ræktinni, ekki hljóp ég fyrir Íslandsbanka á Menningarnótt og ég er ekki einu sinni búin að taka ísfötuáskoruninni.

Ég held að sagan um faríseann og tollheimtumanninn sýni okkur fyrst og fremst að samanburður við aðra er óhollur og leiðir í öngstræti. Öfgarnar sem fylgja samanburðarsamfélaginu geta verið hvort sem er, hroki yfir því að vera betri en þetta pakk sem er svona og hinsegin - eða niðurlúta sjálfið sem metur sig einskis vert.

Hvorugt er gott. Það getur ekki verið heilbrigt að líta sífellu niður á sig og gera lítið úr sér. Og samanburðarhrokinn er jafnvel ennþá skaðlegri og skilur okkur eftir ósátt, við okkur og aðra.

Sátt við Guð og menn. Hvernig verðum við það? Ég er viss um að við hér inni hvert og eitt okkar getum sagt frá því hvernig við höfum bæði fundið okkur á vonda staðnum, ósátt og ómöguleg og hvernig við höfum náð að leggja til hliðar þörfina á að meta okkur sjálf út frá væntingum og kröfum annarra. Oflátungshátturinn nær til okkar þegar minnst varir, og við verðum eins og fariseinn þegar við vörpum öndinni léttar af því að vera ekki eins og hún þessi þarna, eða hinn. Og ég er viss um að við höfum líka fundið botninn, þar sem við viljum ekki einu sinni líta upp eða hefja augu okkar til himins, þar sem við þó vitum að mætir okkur ekki dómur, ekki samanburður, heldur opinn faðmur sem er tilbúinn að taka við okkur eins og við erum.

Tímamótin eru mörg og misjöfn. Hvernig höndlum við að verða fullorðin, miðaldra, öldruð? Fyllir það okkur drambi og fullvissu um að við séum réttlát en allir hinir ómögulegir? Eða tekur það frá okkur allt sjálfstraust og sjálfsvirðingu? Þegar upp er staðið finnum við sátt með því að sleppa samanburði og hætta að reyna að vera eitthvað sem við erum ekki. Vegna þess við erum nógu góð. Meira að segja þegar maður er í leikhúsi og meirihlutanum finnst eitthvað drepfyndið og þú fattar ekki hvers vegna.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2190.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar