Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Óskiljanlegar eru víddir guðdómsins

27. júlí 2014

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ó, Drottinn Guð, ég lofa dásemd þína
sem dag hvern leggur þú í hendur mér.
Ég þakka lífið, vernd og vegferð mína
og vil í trú og auðmýkt fylgja þér.
Þá syngur, Guð minn, sála mín til þín!
Þú mikill ert! Þú mikill ert!

Guðspjallið. Matt. 28. 18-20.
Á þeim dögum sagði Jesús.: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“

Kæri söfnuður á Þönglabakka.
Hér við ysta haf stöndum við á fornum og friðhelgum stað. Hér er kirkjugrunnur Þönglabakkakirkju í helguðum Guðs barna reit, þar sem kynslóðirnar hvíla. Gröfin segir ekki frá. Gröfin geymir þögul örlagasögu. Gröfin lýkur aldrei upp munni um það sem geymt var í huga og hjarta þess sem til hvílu var lagður.

Hér hvíla formæður okkar margra og forfeður. Hér hvílir hluti af okkur sjálfum. Og eins og undur lífsins vilja hafa það, þá eru hér þau sem voru eldri en við og fyrri en við og að baki okkar, og eru þó um leið yngri en við og síðari en við og á undan okkur. Í guðsríkinu.
Ómælanlegar eru víddir þess ríkis. Það er auðvelt að skilja það einmitt hér á þessum stað. Fátt minnir okkur betur á það en víddir þær sem við sjáum þegar við horfum hér til hafs.

Um leið hugsum við sérstaklega til þeirra sem lengi horfðu í óró hjarta og hugar til hafs, og enginn kom.
Stór hluti þeirrar sögu sem þessi garður ætti að geyma, er ekki hér heldur í hafinu.

Óskiljanlegar eru víddir guðdómsins. Handarför Guðs og fingraför og ætlunarverk. Við sem hér erum vitum ekkert nema það eitt að hann hefur skilað okkur hingað á þennan stað með lífi þeirra og verkum sem hér gengu um garða, eða gengu jafnvel allt annarsstaðar og komu aldrei hér en saga þeirra var þó samhljóða þeirri sem hér var sögð og lifuð.

Á fyrri tímum meðan enn var hér byggð og prestssetur, þá var Þönglabakki hreint ekkert vildarbrauð. Og fyrir kom að menn spyrðu: Hverskonar guðsvolaður staður er þetta? Sem barn heyrði ég þá sögu og trúði henni auðvitað, að túnið á Þönglabakka væri svo þýft að þar fótbrotnaði köttur.

Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, segir Jesús. Hvað merkir það?
Fyrst hann hefur það vald hversvegna beitir hann því ekki eins og okkur sýnist að hann ætti að beita því? Hvers væntum við af honum?
Ingibjörg mágkona mín var svo kvalin í nuddinu að hún sagði: Jesús minn. Þá sagði nuddarinn: Ég get sagt þér það að hér þýðir ekki að kalla á Jesú. Ég hef aldrei séð hann hér. Margra viðhorf er þessu líkt. Og skiljanlegt er það einnig. Lífið og trúin sýnir okkur margar þversagnir. Og mörgum þykir lítið gerast þó á hann sé kallað og dagur hver sé honum falinn.

Hér á þessum stað bar fólkið börn sín til skírnar. Öll börnin sem lifandi voru fædd. Sum þeirra voru borin til grafar fáum dögum síðar.
Allt vald er mér gefið. Leyfið börnunum að koma til mín. Að deyja er ekki það versta. Að lifa getur verið miklu verra.

Árið 1944 var kirkjan á Þönglabakka tekin ofan. Hún var ekki nýtanleg lengur. Og byggðin var eydd.

Yfir í Fjörðum allt er hljótt.
eyddur hver bær, hver þekja fallin.

Kirkjan sem hér stóð var eins og brostin von og gluggar hennar horfðu tómum augum út á hið eilífa djúp. Árið 1944. Á meðan horfðu önnur augu á gaddavír og gasklefa.
Hvers væntu þau sem voru í fangabúðum? Hvaða tími er þetta? Jú, það var heimstyrjöld. Það var verið að að fella, drepa, eyðileggja, setja fólk í fangabúðir og útrýmingabúðir, og leita leiða til að drepa sem flesta í einu höggi, og helst að eyða eingöngu mannfólki en hlífa mannvirkjum. Hverskonar tími er það?

Allt vald er mér gefið á himni og á jörð, segir Jesús. Hvað merkir það?
Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum,segir hann.
Kæri söfnuður á Þönglabakka. Að lærisveinum. Kristniboðsskipunin talar ekki um að kristna þjóðir, þó að það standi reyndar í gömlu Biblíuþýðingunni, og það er ekki einu sinni meiningin að afgreiða kristnitöku á Þingvöllum með alþingissamþykkt í hæfilegri friðsemd. Því að það var ekki það sem Jesús bað um. Maður verður ekki lærisveinn með alþingissamþykkt.
Sr. Pétur í Laufási, blessuð sé minning hans, orti sálm sem er í sálmabókinni, þar sem segir: Við erum litlir lærisveinar. Já, við erum sannarlega litlir lærisveinar.

Hvað erum við að biðja um þegar við áköllum Guð? Hvað biðjum við hann um sem hefur allt vald? Að gera okkur lífið léttara? Já. Að koma í veg fyrir að eitthvað gerist? Já. Að við verðum frísk þegar við erum veik? Já. Og að hann verndi börnin okkar.? Já.
Og hverju svarar hann? Sannarlega höfum við mörg dæmi þess að hann hafi einmitt svarað þessu öllu bókstaflega, en fyrst og fremst gæti hann hafa svarað eitthvað þessu líkt:
Ég get ekki hlíft þér við því að fara þessa leið, því að þetta er leiðin þín, en ég skal fara með þér og fylgja þér, og styrkja þig, vegna þess að markmið okkar er ekki jarðneskt, heldur himneskt.

Og hverju gæti lærisveinn þá svarað: Ég vil reynast þeim sem eru með á leiðinni eins og lærisveinn. Eins og Jesús vill að lærisveinar geri. Að reynast öðrum, ekki í Jesú stað, heldur í breytni eftir honum og í Jesú nafni.

Kæri söfnuður. Við komum saman á óbyggðum stað eins og svo oft er lýst í frásögn guðspjallanna. Í dag er það einkum tvennt sem okkur er falið að hugleiða. Það er bakland fyrirmælanna um að fara um heiminn og kalla lærisveina til fylgdar, og það er áætlun Jesú Krists um skírnina.
Allt er þetta tengt saman hér á Þönglabakka síðustu helgina í júlí. Meðan hér stóð kirkja var hún helguð Ólafi konungi hinum helga. Messudagur hans er 29. júlí og þess vegna er í dag ekki bara messudagur heldur kirkjudagur á Þönglabakka.
Og þessi kirkjudagur er líka einskonar afmælisdagur, því að nú eru 70 ár frá því að Þönglabakkakirkja var tekin ofan. Þá var stríð. Þá var heimsstyrjöld. Og Þönglabakki var orðinn staður á heimskorti. Þönglabakki var jafn vel þekktur á kortum njósnaflugvéla og Reykjavík og Akureyri og þau sem hér voru eftir voru í sömu skotlínu, hefðu hér mæst andstæðingar. Og hafinu hér norðurundan var stöðug umferð og stöðug lífshætta.
Lífshættan sem fólkið hér hafði búið við um aldur var alheimseign, og með þeim fáu sem höfðu starað hér út á hafið í von um björgun feðra og bræðra og eiginmanna, störðu augu milljónanna í sömu vonlausu áttina.

Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, sagði Jesús. Sá Guð sem horfir á útrýmingu þjóða og kynstofna, getur ekki verið almáttugur, sagði fólkið eftir síðari heimstyrjöld. Og útrýmingin hélt áfram. Hvað hafa margar milljónir fallið í Afríku síðan þá, á meðan heimurinn horfði í aðra átt, og fjölmiðlar þögðu því þeir voru ekki á staðnum. Og hvað er í gangi þessa dagana? Ekki bara í Ísrael og Palestínu og ekki bara í Úkraínu, og ekki bara í Suður Súdan.

Kain kemur enn alblóðugur af akri og segir: Á ég að gæta bróður míns?
Á ég ekki frekar að drepa hann, fyrst hann skyggir á mig.

Óneitanlega leita á hugann hugsanir um það hverskonar dýrlingur það var sem kirkjan hér var helguð. Saga hans er mjög sérstök, og alls ekki er sjálfgefið að hún sé til þess fallin að hvetja til þess sem á að vera eðli og einkenni kristinnar trúar, eða eftirfylgdar við Jesú Krist. Miskunsemin. Kærleikurinn. Friðurinn. Réttlætið. Það er reyndar í mörgum greinum miklu frekar alveg alls ekki þannig með Ólafi konungi digra.
Í helgri bók er talað um það þegar réttlæti og friður fallast í faðma. Það er vegna þess að það er enginn friður nema þar sem réttlætið ríkir og ekkert réttlæti nema þar sé friður.

Guð hefur aðra mælistiku en menn. Hann gengur í veg fyrir mennina, sem eru börn, alla tíð, allt til enda lífsins. Börn hans. Jesús talar um þetta í barnaguðspjallinu sem við lesum við hverja skírn. Guð er ekki spar á gjafir sínar. Og hann er alveg laus við tortryggni. Hann gefur af einlægni og miskunnsemi okkur öllum guðsbarnarétt í skírninni, þó að hann sannarlega viti að sum okkar munu aldrei gera neitt með þessa gjöf og sum munu af krafti vinna gegn henni, jafnvel með stóryrðum um trúna á Guð og að aðeins hluti hinna skírðu mun þora að játa trúna og standa fast við hana í hverskonar andbyr.

Okkur býðst ekkert tækifæri hér undir himni Guðs til rökræðna um kraftaverk, gildi þeirra eða raunveruleika inni í miðri predikun. En guðspjallið um skírnina og útbreiðslu kristinnar trúar mætir hér frásögninni um mettunina í óbyggðum. Ekki af því að það er guðspjall næsta sunnudags, heldur af því að við erum hér og megum ganga til Guðs borðs hér, og taka þannig á móti óskiljanlegu kraftaverki. Því að sérhver sá sem trúir því að Jesús Kristur hafi risið upp frá dauðum og gefi þeim sem trúa eilíft líf með sér, efast ekki um mátt hans til að metta fimm þúsundir með því sem varla sýnist metta nema fimm manns, og að fyrirheit hans um fyrirgefningu og um eilíft líf séu lifandi sannleikur.

Jesús lagði þau litlu efni sem hann hafði yfir að ráða í hendur Guðs föður. Í bæn. Hann þakkaði fyrir matföngin og bað hann að blessa þau. Síðan lagði hann þau í hendur lærisveinanna og bað þá að deila þeim út. Tökum eftir því. Hann lagði þau í hendur lærisveinanna. Hann deildi þeim ekki út sjálfur. Jesús er ekki einn að verki. Aldrei. Hann hefur lið með sér. Við erum í því liði, ef við kjósum svo. Og við sjáum til þess að þeim fjölgi sem eru með honum í liði. Í takt við guðspjall dagsins.

Kvöldmáltíðarefnin á þessu heimagerða altari hafa lítið umfang og benda ekki til þess að nokkur geti orðið saddur af þeim í þeirri merkingu að fá magafylli. Þetta eru hin litlu efni hinnar miklu máltíðar til hinnar löngu ferðar. Tökum einnig eftir því: Hin litlu efni hinnar miklu máltíðar til hinnar löngu ferðar. Einmitt þess vegna tölum við um leyndardóma, eða sakramenti. Þessir leyndardómar eru sérstaklega undirstrikaðir með því að þeir eru bornir fram í helgum kerum, með helgum umbúnaði. Þeir standa á vígðum altarissteini, umvafðir vígðum dúkum, í vígðum kaleik og patínu. Og þessi kaleikur og þessi patína sem hér eru á altarinu, hafa hlotið þá sérststöku eldvígslu að vera gerð úr íslenskum leir brenndum við íslenskt birki. Og altarissteinninn er úr síðasta gosi hér fyrir norðan.

En hið helgasta við leyndardóma þessa sakramentis er söfnuðurinn sem safnast saman í kringum þá og gerir eilífa kirkju umhverfis þá. Þeir kirkjuveggir falla aldrei og fúna ekki heldur eins og veggir þeirrar kirkju á Þönglabakka sem hér stóð síðast, því að þeir eru hlaðnir úr steinum, úr lifandi steinum, sem Jesús Kristur hefur sjálfur merkt sér og helgað sér í heilagri skírn. Það er söfnuðurinn hans. Í dag á Þönglabakka.
Og þessi lifandi kirkja kemur hér saman í fegurstu kirkju sem völ er á því að Guð byggir hana sjálfur. Þar sem kirkjuþakið er himinn Guðs og kirkjugólfið er landið sjálft og veggirnir fjöllin, og altaristaflan óendanleg víðátta hafsins sem minnir á eilífðina sjálfa.

Við höfum gengið til kirkju á þessum degi þó að bygging Þönglabakkakirkju sé löngu horfin. Við höldum kirkjuhátíð í tilefni af því að það eru sjötíu ár síðan Þönglabakkakirkja var tekin ofan. Ólíklegt má telja að á þeim dögum þegar kirkjan var fjarlægð og búskapur lagðist hér af hafi nokkurn órað fyrir því að hér mundu síðar, á ári hverju safnast saman svo margir til messu á Þönglabakka, eins og raun ber vitni. Það minnir okkur á að allt getur breyst og að ekkert er endanlegt nema eilífð Guðs.

Það er nokkurt ferðalag sem þarf til þess að messa á Þönglabakka. Það ferðalag sem á sér takmark hér í kirkjugarðinum er tákn um lífsferðina, sem við deilum með samferðafólkinu, en einnig með þeim sem á undan okkur gengu og á eftir fylgja.
Gjöf skírnarinnar er besta nestið sem við getum fengið fyrir lífsferðina alla. Það er nesti sem nægir alla leið heim að hástóli Guðs á himnum þegar göngunni hér á jörðu líkur. Og í kvöldmáltíðinni fæst sú himneska næring til göngunnar, sem hreinsar burtu syndina og veitir hina fullkomnu fyrirgefningu Guðs.

Þess vegna megum við koma að borði Drottins hér í óbyggðum, eins og fólkið forðum, og meðtaka Krist sjálfan í táknum brauðs og víns, svo við megum líkjast honum meir og meir og þjóna honum í þeim sem við mætum á leiðinni. Á leiðinni sem er vegur okkar allra, og þau fóru sem hér hvíla, og hér háðu sína lífsbaráttu, leiðinni heim til hans.
Við göngum með þeim sem gengin eru. Heim. Og vegur okkar er og verður varðaður með góðum hug og góðum bænum og kærleiksverkum í bland við ofbeldisverk og illgjörðir sem aldrei linnir fyrr en Guð skapar allt á ný. En við erum sett í þennan heim sem Guð á og elskar til þess að framfylgja elsku hans.

Þess vegna ætlum við líka að syngja hið elskuríka Næturljóð úr Fjörðum í framhaldi af þessari predikun.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2146.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar