Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Nýtt fyrir stafni

11. maí 2014

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“

Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Jóh 16.16-23

Drottinn Guð, skapari alls sem er. Eins og þú vekur náttúruna til nýs lífs á nýju vori og endurnýjar ásjónu jarðar, fyllir hana von og þrótti og fegurð, þannig viltu einnig endurnýja okkur börn þín og gjöra nýja jörð og nýjan himinn þar sem réttlætið ríkir. Lífga okkur, vek okkur upp af svefndrunganum, gef okkur kraft og kjark svo að við þorum að trúa og rísum upp til nýs lífs með þér, fyrir Drottin Jesú Krist frelsara okkar og bróður. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Þessi þriðji sunnudagur eftir páska hefur frá fornu fari yfirskriftina: jubilate, eða Fagnið! Guðspjallið er tekið úr þeim hluta af orðum Jesú sem kallast skilnaðarræður hans.Við heyrum og lesum það sem Jesús segir við sína nánustu lærisveina og postula skömmu áður en hann var handtekinn, píndur og krossfestur.

Jesús segir: Innan skamms munuð þér ekki sjá mig, en aftur innan skamms sjá mig. … Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. … Ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

Hryggð mun snúast í fögnuð. Hið liðna sem merkt er hryggðinni er farið, 
hin komandi gleði er þegar komin.

Í lexíu dagsins heyrðum við þessi orð úr Jesajabókinni. (Jes. 43. 18-19)

Minnist hvorki hins liðna

né hugleiðið það sem var.

Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,

sjáið þér það ekki?

Ég geri veg um eyðimörkina

og fljót í auðninni.

Það sem öllum virðist ómögulegt framkvæmir Guð. Þess vegna biðjum við hann líka um hið ómögulega og gefumst aldrei upp á því. Við festum okkur ekki við það sem var og endurspeglum það í núinu eins og það væri óumbreytanlegt lögmál. Né heldur horfum við á aðstæður okkar hverju sinni eins og þeim verði aldrei breytt.

Hversu oft höfum við ekki spurt fólk í aðstæðum sem okkur koma á óvart eða eru augljóslega ekki góður kostur: Hversvegna er þetta svona? Og hversu oft höfum við ekki fengið svarið: Þetta hefur alltaf verið svona.

Nú hef ég nýtt fyrir stafni, segir Guð. Og hvað gerir hann? Hann leggur til dæmis fyrir okkur nýjan dag á hverjum morgni. Ný tækifæri til að gera hið nýja. Án þess að festast í því sem var, eins og því verði ekki breytt. Guð er Guð hinna nýju tækifæra vegna þess að hann er skaparinn, sem er sífellt að skapa.

Þegar við hinsvegar samt litumst um og horfum til baka, þá er það ekki í þeim tilgangi að endurtaka hið liðna vegna þess að það hafi alltaf verið, heldur til að leita og finna það sem verður til blessunar og hamingju.
Ritað er hjá Jeremía:

Svo segir Drottinn: 
Nemið staðar við vegina og litist um, 
spyrjið um gömlu göturnar, 
hver sé hamingjuleiðin
og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld. Jer. 6.16

Fyrir nokkrum kvöldum bankaði uppá hjá mér Herbert Guðmundsson, sem við myndum mega kalla söngvaskáld, vel þekktur maður í heimi tónlistarinnar og hefur verið það til margra ára.Við tókum tal saman, reyndar heldur stutt, hann var á hraðferð og ég að vinna aðkallandi verk, og hann sagði mér örstutta sögu af því hvernig hann, sem hafði verið búddisti, komst til trúar á Jesú Krist. Ég ætla ekki að reyna að endursegja frásögn hans af því hvernig Jesús snart hann með þeim hætti að hann breyttist úr búddista í kristinn mann á einni örskotsstund. En það var lýsing sem minnti á það þegar sólin brýst í gegn um skýjaþykkni án þess að maður eigi þess von, eða sjái nokkrar líkur til þess. Ný sköpun.

Ég nota þetta dæmi um söngvaskáldið til að skýra muninn á því sem Jesús segir við lærisveinanna þegar hann segir annarsvegar : þið munuð sjá mig, og hinsvegar: Ég mun sjá ykkur. Sjá þig.

Við getum farið á tónleika hjá Herbert Guðmundssyni og staðið einhversstaðar í hópi tónleikagesta, og við sæjum hann, en það eru afar litlar líkur til þess að hann sjái mig, eða okkur, og ég vænti þess heldur alls ekki.

Þegar Jesús birtist við endi aldanna, er hann kemur í mætti og dýrð, munu allir sjá hann. Innan skamms munuð þér sjá mig, segir hann. Við verðum í hjörðinni hans og það er endalaus fjöldi. En hann sem kemur, kemur með þeim hætti að hver og einn einstakur mun mæta augnaráði hans. Ég mun sjá þig, segir hann. Og þann sem hann sér hefur hann endurleyst. Hann hefur leyst hann frá dauðanum og frá syndinni.

Myndlistarmenn hafa sumir hverjir náð að koma þessu augnaráði Drottins til skila. Til dæmis er fræg altaristafla í litlu kirkjunni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Það er 17. aldar hollensk mynd af atburðinum í Emmaus, ómerkt, en ef til vill úr skóla Rembrandts, alla vega er hún frá hans tíma og hans landi.

Jesús á myndinni horfir á þig. Hvar sem þú stendur í kirkjunni, hvort sem þú færir þig til hægri eða vinstri, Jesús nær alltaf augum þínum.

Í Emmaus vissu lærisveinarnir í fyrstu ekki að það var hann, en augu þeirra lukust upp og þeir þekktu hann er hann braut brauðið. 
María var úti fyrir gröfinni að morgni upprisudagsins, og hélt að Jesús væri grasgarðsvörðurinn. Hún þekkti hann ekki fyrr en hann nefndi nafnið hennar. Þá lukust hennar augu upp.

Þannig munum við einnig þekkja að það er Jesús, þegar við mætum honum. Hann sér hvert og eitt okkar með þeim hætti að við þekkjum hann. Margir segja að það gerist í andlátinu. Sumum auðnast þessi reynsla í lifanda lífi. Oft í erfiðum aðstæðum eða á krossgötum lífsins.

Þegar Guð sendi son sinn í heiminn hafði hann nýtt fyrir stafni. Það hið nýja fullkomnaðist einmitt í því ferli sem Jesús lýsir.

Hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Segir Jesús. Ég hygg að við gætum verið sammála um að enginn fögnuður geti verið meiri en sá að sjá Jesú, augliti til auglitis, og það er einmitt það sem hann er að segja lærisveinunum í guðspjallinu: Ég hverf sjónum, ég birtist aftur og ég ég mun sjá ykkur. Við vitum að hann er að segja með þessu: Ég dey á krossinum, ég rís upp og birtist ykkur, og ég mun sjá ykkur og dvelja meðal ykkar. Í fögnuði og gleði.

Það sem var er ekki það sem verður. Ekki heldur þótt við reynum að halda dauðahaldi í það. Hryggð breytist í fögnuð.Út úr vonleysinu getur vaxið von. Eins og orðið fæðist í þögninni, út úr orðleysinu, er ekki sjálfgefið að vonleysið fæði af sér áframhaldandi vonleysi, eða þjáningin nýja þjáningu.

Þess vegna notar Jesús dæmið af fæðingunni. Fögnuðurinn yfir hinu nýfædda barni fæðist með því og fæðist með þjáningu. Fögnuður fæddur af þjáningu. Hryggð snýst í fögnuð. Dauðinn umbreytist í líf. Krossinn fullkomnast í upprisunni.

Kæri söfnuður. Það er á þessum stað í þessari predikun sem við skulum minnast þess að það er mæðradagur. Við gætum sagt að Jesús ætlaðist til þess með dæminu um fæðinguna. 
Af eðlilegum ástæðum er önnur nálgun karls að reynslu sem aðeins er konum gefin. Ferill þungunar á meðgöngu, þraut fæðingarinnar og upplifun þess að sjá þungunina og þrautina breytast í persónu sem borin er í heiminn, barn sem sem fékk þroska og næringu í móðurkviði af móðurlífi, það getum við karlar aðeins nálgast eins og gestir. Og meðan barnið þekkir ekkert betur en hjartslátt móður sinnar og er bundið henni sterkum böndum, þótt búið sé að rjúfa naflastrenginn, er faðirinn ókunnugur. Hann er nánast eins og aðskotahlutur, sem þarf að leggja mikla vinnu í að kynnast hinum nýfædda einstakling og vinna traust hans, og læra að vera faðir. Móðir þarf líka að læra að vera móðir. Jafnvel þótt það væri meðfæddur eiginleiki, þá þurfa meðfæddir eiginleikar líka að vaxa og þroskast og eflast.

Sú kona sem verður móðir í fyrsta sinn gengur inn í nýjan heim sem hún áður ekki þekkti. (Innan sviga, það gildir auðvitað alveg eins fyrir nýjan föður, það er bara ekki stef dagsins).

Þá gildir það sem ritað er: Ég hef nýtt fyrir stafni. Nýtt og óþekkt. En að ganga ekki þann veg sem lagður hefur verið, hversu takmarkaður sem undirbúningurinn er, það er eiginæega ekki í boði.

Til heiðurs öllum nýjum mæðrum á öllum tímum er hér texti sem ég eitt sinnn þýddi og veit ekki hver samdi, né heldur hvenær. Ég kann ekki að tala fyrir munn mæðra á mæðradaginn, en ég get snúið yfir á íslensku oðrum sem kona hefur mælt á útlensku.
Textinn er svona:

Ég er ekki fædd móðir. 
Ég þekki ekki leiðirnar, 
en ég verð að fara þær, 
skref fyrir skref.

Ég á ekki svörin, 
ég verð að spyrja
og gera mistök.
Gefið get ég einungis það sem ég hef.

Ég er ekki fullkomin móðir. 
Ég get bara veitt stuðning þegar ég er studd sjálf.

Ég er engin fyrir-mynd 
fullmótuð í myndbyggingu
og vísar á viðurkennd takmörk.


Ég er manneskja á leiðinni að verða það sem ég verð;
 ást sem þarfnast ástar, 
trausts og sannfæringar 
um að mega vera
það sem hún er.

Þrautin sem breytist í huggun og gleði, eins og við fæðingu, af því að Guð hefur nýtt fyrir stafni, leiðir athyglina að öðrum spurningum um það sem var og verður. Það eru spurningar sem kvikna í ljósi þess sem Jesús birtir lærisveinunum um sjálfan sig. Hann gengur inn í myrkrið og hverfur sem fyllir hans nánustu hryggð og vonleysi, og svo birtist hann þeim upprisinn frá dauðum, líkt og þegar ljós dagsins brýst fram úr myrkrinu. Hann dvelur hjá þeim og breytir hryggð þeirra í fögnuð.

Getur blessunin fæðst í bölvuninni. Já. Eins og ljósið fæðist í myrkrinu.

Það vill svo til að á þessu vori eigum við þess kost að fá að heyra Mattheusarpassíu Jóhanns Seb. Bachs einu sinni enn þótt fastan sé liðin, á afmælistónleikum í Langholtskirkju á laugardaginn kemur.

Þetta er nefnt hér vegna þess að eitt af því stórkostlega sem Bach gerir í þessari passíu er að hann nálgast persónu Júdasar með öðrum hætti en hefðbundið er í kirkjukenningunni og guðfræðinni, ekki síst alveg sérstaklega einmitt á tímum Bachs.

Júdas sem sveik frelsara sinn hlaut þau maklegu málagjöld að falla fyrir eigin hendi, og var því metinn sem hver annar morðingi. Jarðarbörnin töldu sér skylt að ganga út frá því að honum skyldi meinað inngöngu í eilífð Guðs á himnum.

Það eru ekki jarðneskir dómstólar á himnum. Hvernig í ósköpunum ættum við að vera þess umkomin að áforma að ekkert geti breyst að loknu hinu jarðneska lífi. Hafi Guð nýtt fyrir stafni, þá er það hið nýja eingöngu í hans höndum en ekki okkar. Þrátt fyrir að hann hafi gefið kirkju sinni vald til að binda og leysa.

Í aríunni Geb mir meinen Jesum wieder, Gefið mér Jesú minn aftur, þar sem sungið er í orðastað Júdasar, er svo mikil gleði í tónlist Bachs að það er ómögulegt annað en að sjá að þegar Júdas kastar frá sér silfrinu, morðingjalaununum, fyrir fætur prestanna, kastar hann frá sér bölvuninni. Það getur ekki verið neitt nema gleði fyrirgefningarinnar sem hljómar í tónlistinni.

Að Júdas skyldi samt ekki sjá neitt úrræði annað en að refsa sjálfum sér með þeim hætti sem hann gerði, kallaði ekki yfir hann nýja bölvun, heldur hafði iðrun hans þegar blessað hann, og þannig dó hann. Hryggð hans gat snúist í fögnuð.

Með öðrum orðum. Það er ekkert það til sem Guð getur ekki breytt úr hryggð í fögnuð, né úr bölvun í blessun. Þegar hann hefur nýtt fyrir stafni þá hindrar það ekki neitt. Jafnvel árstraumar renna um auðnina og vegir myndast í eyðimörkinni. Vatn sprettur upp í eyðimörkinni og fljót í auðninni. Þar sem áður var eyðisandur eru akrar og blómgrónir vellir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi,er enn og verða mun um aldir alda.Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1962.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar