Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Aftur til fortíðar með Jordan Belfort

4. maí 2014

Sá óvenjulegi atburður átti sér stað á dögunum að fiðrildi nokkurt var stöðvað fyrir of hraðan akstur hér í bæ. Lögreglunni var auðvitað nokkuð brugðið þegar hún greindi ökumanninn við stýrið en samkvæmt reglum bað hún fiðrildið um ökuskírteini og varð það fúslega við þeirri ósk. Eftir að lögreglan hafði grandskoðað skírteinið leit hún rannsakandi á fiðrildið og sagði „ þetta er ekki þú á myndinni“ fiðrildið svaraði „ jú jú en þarna var ég bara lirfa.“
Þessa sögu heyrði ég í prédikun í páskamessu sem ég sótti í All saints kirkjunni í Los Angeles fyrir réttum hálfum mánuði síðan. Það er nánast alltaf sól í Kaliforníu þannig að upplifunin af því að ganga til messu á upprisudegi í glaða sólskini var kannski ekki alveg jafn mikill léttir og þegar maður fagnar hinu íslenska vori við tóma gröf náttúrunnar. Guðsþjónustan var hins vegar magnþrungin, tónlistin stórkostleg og öll þjónusta bæði vígðra og óvígðra þjóna bæði eðlileg og látlaus. Prédikun séra Ed Bacon var dásamleg og raunar svo góð að ég komst við sem gerist nú kannski ekki oft undir þeim kringumstæðum. Hann talaði mikið um Maríu Magdalenu og skrýtlan tengdist einmitt samskiptum hennar og Jesú í upprisufrásögn Jóhannesar. María Magdalena var brotin manneskja þegar hún kynntist Jesú, hún var að glíma við andleg veikindi og hann hjálpaði henni að takast á við þau og stækka af þeim frekar en hitt. Sennilega vita fáir jafn vel hvað nýtt líf merkir eins og þeir sem hafa fengið bót meina sinna bæði til líkama og sálar. María Magdalena var á vissan hátt lirfa þegar hún kynntist Jesú en þegar hann dó var hún orðin að kröftugu fiðrildi, vængir heilbrigðis og getu höfðu vaxið á sál hennar og í sinni. Hún var ekki bara manneskja sem hafði fengið annað tækifæri, hún var orðin ein af lærisveinunum sem Jesús treysti til að byggja upp kirkju með steinum orðsins. En þá deyr hann og í fyrstu angistinni metur hún stöðu sína þannig að hún muni hverfa til fyrra lífs. Eða jafnvel að lífi hennar sé lokið. Tilfinning sem auðvitað margir syrgjendur upplifa á fyrstu stigum sorgarinnar.
Í mestu örvæntingunni þekkir hún ekki frelsara sinn þar sem hann stendur hjá henni við gröfina, ekki fyrr en hann ávarpar hana með nafni.
Fiðrildi getur ekki aftur orðið að lirfu. Á sama hátt getum við ekki aftur orðið það sem við vorum. Kristin trú kallar okkur til að stækka og eflast á lífsgöngunni, hún kallar okkur ekki til að lifa fullkomnu, lýtalausu lífi þó að fyrirmynd okkar sé fullkomin. Nei trúin kallar okkur einungis til að draga ályktanir af reynslu okkar og eflast þannig að þroska og visku. Kannski er það ein ástæða þess að Guð valdi að dvelja aðeins tímabundið hér á jörðu, að hann vildi að við reyndum sjálf að fóta okkur í tilverunni með dauða hans og upprisu að vopni. Hann vildi að við færum að „heiman.“ Það er eilífðarverkefni að takast á við dauðann og upprisuna, enda nokkuð sem við uppgötvum bara með reynslunni. Það er svo erfitt að útskýra upprisu með orðum og jafnvel dauðann líka. María Magdalena hélt um tíma að öllu væri lokið með dauða Jesú, þangað til að hún áttaði sig á því að þá fyrst var komið að henni að taka flugið og nýta heimanmund trúarinnar til góðs fyrir sjálfa sig og aðra. Við þurfum rými til að vinna úr minningunum því í raun eru það minningarnar sem hafa hvað mest áhrif á líf okkar hverju sinni, við lifum í minningunum meira en núinu sem er í raun eðlilegt því við þurfum alltaf tíma til að melta reynsluna, hvort sem hún er góð eða slæm. Þess vegna eru fáar fréttir jafn vondar og þær þegar fólk lærir ekkert af reynslunni og ákveður jafnvel að snúa til baka og gerast púpa eða lirfa þó allt bendi til að það sé ekki hægt.
Ég veit ekki með ykkur en ég hef gersamlega fengið á heilann þessa heimsókn viðskiptamógulsins Jordan Belfort til landsins en hann mun halda fyrirlestur í Reykjavík þann 6.maí nk. Fyrir þá sem ekki þekkja til mannsins þá er hann hinn víðfrægi Wolf of Wallstreet sem samnefnd kvikmynd með Leonardo di Caprio í aðalhlutverki fjallar um. Belfort þessi náði undraverðum frama á Wallstreet og varð óheyrilega ríkur, lifði vægast sagt hátt þar til kom að skuldadögum en sannleikurinn var sá Belfort hafði svikið mörg hundruð milljónir dala út úr viðskiptavinum sínum. Og nú er hann að koma til landsins að kenna Íslendingum sölutækni sína. Auglýsingin um komu hans hljóðar eitthvað á þá leið að ef þú viljir auka tekjur þína og efla sjálfstraustið í viðskiptum þá sé þetta fyrirlesturinn fyrir þig. Ég fyllist skelfingu. Ekki yfir þessum manni sem slíkum enda hefur hann fullt tjáningafrelsi rétt eins og ég og þú. Hann er sömuleiðis velkominn til landsins eins og hver annar ferðamaður sem vill njóta náttúru og menningar og endurnærast. Nei ég fyllist skelfingu yfir því að hér hafi myndast rými fyrir slíkan viðburð og að ungir lofandi einstaklingar muni éta ráð úr lófum þessa hrokafulla manns. Því það er hroki að beygja ekki af leið sem hefur orðið sjálfum manni og öðrum til tjóns. Ef hann væri að koma til þess að halda fyrirlestur um það hvernig hann týndi sjálfum sér í græðginni og notaði fólk til að fullnægja eigin þörfum hvort sem þær sneru að peningum, kynlífi eða almennum samskiptum og hvað það hefði kennt honum þá væri ég sjálf vís til að mæta enda myndi miðinn þá heldur aldrei kosta um 50 þúsund krónur. Ég gæti þá líka lært eitthvað af honum af því að ég get sjálf gerst sek um græðgi og hroka í mínu eigin lífi og þarf stöðugt að vera að endurskoða sjálfa mig. Jordan Belfort hefur fulla möguleika á að breytast úr lirfu í fiðrildi ef hann kærir sig um en ég sé það ekki gerast með þessu framtaki og sé þessa heimsókn ekki heldur verða til að efla siðferðisgrundvöll hins íslenska viðskiptalífs . Íslenskt viðskiptalíf er enn að melta minninguna um tíma þar sem litlir Jordanar létu draum sinn rætast á kostnað annarra ekki bara Íslendinga heldur annarra þjóða eins og frægt er orðið og raungerist í orðinu Icesave.
Ég sé í raun engan mun á því að fá Belfort hingað til lands til að kenna sölutækni eða samskipti kynjanna en hann virðist ekki hafa litið á þau sem samskipti heldur meira sem viðskipti.
Nú gæti einhver sagt „ en á ekki presturinn að prédika fyrirgefningu Guðs?“ Og jú það er mikið rétt en þá verðum við fyrst að skilgreina hvað felst í fyrirgefningu því fyrirgefning er ekki sama og samþykki skaðlegrar hegðunar og breytni. Sá sem þiggur fyrirgefningu þiggur hana með því að breyta fyrri háttum og læra af reynslunni og uppskera auðmýkt gagnvart þeirri gjöf að fá annað tækifæri. En í raun er Belfort ekki vandamálið í mínum huga heldur sú hugmynd að fá hann hingað til lands til að kenna okkur að græða og efla sjálfstraustið. Mér sýnist á myndinni sem byggir á lífi hans og hann var til ráðleggingar um að sjálfstraust hans hafi fyrst og fremst byggst á því að eiga og mega, safna að sér völdum og umgangast lífið sem ránsfeng.
Eflaust voru margir sem óttuðust um framtíð Íslands haustið 2008 þegar bankarnir hrundu, þjóðarsálin var örvæntingarfull, eins og María Magdalena forðum. En rétt eins og Maríu er okkur ætlað að halda göngunni áfram og skapa nýtt þjóðfélag sem hefur önnur gildi en þau sem krossfesta réttlæti og samkennd.
Og hvað er einhver prestur „norðan heiða að tala með einhverjum endanum“ um þessa heimsókn eins og aðal skipuleggjandi viðburðarins sagði eftir að undirrituð hafði sagt skoðun sína í Sunnudagsþætti Gísla Marteins? Jú einmitt af því að ég er prestur þá sé ég mig knúna til að hafa á þessu skoðun, af því að mér ekki ætlað að afla mér vinsælda í starfi heldur að bera umhyggju fyrir fólki þó það ruggi partýbátnum sem liggur við sömu bryggju og kirkjuskipið. Það versta sem við gerum er að þegja þegar alkinn í fjölskyldunni fellur, það er nefnilega ekki til sá alki sem mun einhvern tímann læra að drekka þess vegna skulum við vera á vaktinni vegna þess að við viljum ekki aftur 2007.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3144.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar