Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Þögnin, iðrunin og fyrirgefningin

2. apríl 2014

Að morgni gerðu allir æðstu prestarnir og öldungarnir samþykkt gegn Jesú að hann skyldi af lífi tekinn. Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.

Þegar Júdas, sem sveik hann, sá að hann var dæmdur sekur iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu og mælti: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“ Þeir sögðu: „Hvað varðar okkur um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“ Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig. 
Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: „Ekki má láta það í guðskistuna því þetta eru blóðpeningar.“ Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá akur leirkerasmiðsins til grafreits handa útlendingum. Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur. 
Þá rættist það sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: „Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð sem sá var metinn á er til verðs var lagður af Ísraels sonum, 10og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.“

Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“ Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir en hann svaraði engu. Þá spurði Pílatus hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér?“ En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög. Matt. 27. 1- 14

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Við skulum fara með versið:

Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni. Amen

Kæri söfnuður við höfum tvö stef til umhugsunar á þessu kvöldi.
Þögn Jesú frammi fyrir Pílatusi og iðrun Júdasar.

Heilög ritning geymir marga staði sem hvetja til þagnar. Drottinn er í sínu heilaga musteri. Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum. Hab. 2.20
Allt hold veri hljótt fyrir Drottni, því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað. Sak.2,17. Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hérum bil hálfa stund. OpJ.8,1.

Aðrir staðir ritningarinnar minna á hversu orðin geta verið máttlítil: Þá svaraði Job Drottni og sagði: Sjá ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn. Einu sinni hef ég talað og endutek það eigi - tvisvar og gjöri það ekki oftar. Job. 40,3-5.

Þetta er áminning til okkar um að við stöndumst ekki frammi fyrir augliti Guðs í trausti til okkar eign málsnilldar og að ekkert hæfi þar betur en þögnin. Síraksbók (42,i,) talar um andstæðu þagnarinnar: blaðrið og lausmælgina, þegar ekki er reynt að meta það sem eyrað nemur og kasta því sem ónýtt er, eða skömm er að: Blygðast þín fyrir að bera út orðróm og ljóstra því upp sem leynt á að fara.

Sálin er ekki markaðstorg, hversu mjög sem reynt er þó að gera hana að einhverju þess háttar. Sál okkar er þögull garður, öruggur virkisturn, læst herbergi eða hirsla.

Margir staðir í píslarsögunni greina frá þögn Jesú. Í þögninni rís hann upp úr múgnum, árásir, lygar, háð og spott hrífa ekki á hann. Jesús hylur sig með þögninni, eins og klæði. Þögn hans hvílir í þeirri fullvissu að hann og við séum í Guðs hönd, og að ekkert hendi okkur nema það sem hann ætlast til eða leyfir að gerist. Hversu undarlegt og erfitt sem það kann að vera og okkur kann að reynast að taka við því.

Drottinn er í sínu heilaga musteri. Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum.
Guð er að baki sköpun sinni. Þögull. Hann þegir í kyrrð hins stjörnubjarta himins. Hann þegir bak við hádegissólina. Stærstu undur lífsins verða til í þögn. Líkt og þegar blómið springur út og þegar brumar á tré og runna. Jafnvel fuglarnir og öldurnar hljóðna frammi fyrir undrinu þegar sólarlag og sólaruppkoma verða í sömu andrá hér við ysta haf.
Guð bíður og þegir. Svo talar hann. Guð vor kemur og þegir ekki, segir heilög ritning. Hann lætur okkur bíða eftir orði sínu. Hann talar úr þögninni. Og sá/ sú sem þegir heyrir orð hans.
Við þurfum að læra að varðveita leyndardóminn í þögninni. Aðeins fyrir þögina verða orð okkar mikils virði. Sá eða sú sem lengi hefur hlustað inn í eigið sjálf og heyrt grunntónana, Guðs rödd og samviskuna, hefur eitthvað að segja sem er þess virði að hlustað sé á það. Ræða okkar á að vaxa úr þögninni. En þögnin er fyrst og fremst eitthvað sem þarf að æfa og iðka, til þess að skark heimsins setjist ekki að í garði sálarinnar eða þögnin okkar verði einungis andlit einmanaleikans.

Þögnin er tæki til að halda frá sér jafnt utanaðkomandi áreiti sem óróleika og erli eigin skilnings sem sjálfur býr til myndir og heila myndaflokka í hugum okkar. Margar myndirnar byggja brú milli Guðs og manns meðan aðrar byggja múr á milli Guðs og manns. Þess vegna skyldum við reyna að læra að meta rétt þær myndir sem við hlöðum inn í skilningsgeymsluna og flokka þær. Hversvegna skyldum við aðeins reyna að læra að flokka það sorp sem flutt er burt frá okkur, en ekki það sem verður eftir og situr í sálinni.

Í þögninni nær orðið að þroskast þangað til það lærir að miðla sannleika og kærleika. Þau sem kunna að þegja kunna að tala þá fyrst þegar orðin eru til hjálpar og til þjónustu. Þau sýna öðrum virðingu með þögninni, bræðrum og systrum, og með þögninni hylja þau ávirðingar. Þess vegna er þögnin svo sterkt afl til að yfirvinna hið illa. Þögnin verndar og þögnin kemur upp um hið illa. Hið illa uggir ekki að sér og kemur fram í dagsljósið og verður þar að steini eins og tröllin í ævintýrunum.

Jesús þegir. Pílatus er alveg undrandi. Samt veit Pílatus að Jesús er saklaus af því sem hann er ákærður fyrir.
Hvers vegna þegir Jesús frammi fyrir Pílatusi? Í dag er hulin dýrð Drottins.

,,Herra minn, þú varst hulinn Guð,
þá hæðni leiðst og krossins nauð,
þó hafðir þú með hæstri dáð,
á himnaríki vald og ráð”, segir Hallgrímur.

Hvað færir þögnin okkur ? Hvert leiðir hún? Verður kyrrt og hljótt í líkamanum, í huganum og hjartanu? Verður friður og fyrirgefning til í þögninni?

Jesús veit að hann verður leiddur fyrir böðlana og negldur á kross þar sem hann deyr. Þögnin tjáir einmanaleikann, þegar ekkert er frekar að segja nema í lok hinnar djúpu þagnar: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig. Í þeirri setningu samsamar Jesús sig öllum þeim sem finna sig fullkomlega yfirgefin og ein. Við vitum það. Við vitum að þau voru ekki ein. Og við það megum við hugga okkur gagnvart sorginni yfir þeim sem var aleinn eða alen í þeim aðstæðum og vissi ekki að Jesús var með honum eða henni.

Hallgrímur tekur hart á Júdasi í Passíusálmunum. Við sungum þetta vers áðan:

Fégirndin Júdas felldi
fyrst var hans aðtekt sú
Guðs son Gyðingum seldi
gleymdi því æru og trú
svo til um síðir gekk
kastaði keyptum auði
þá kvaldi sorg og dauði
huggun alls enga fékk.

Kæri söfnuður í Mosfellskirkju. Ég held að hér hafi Hallgrími skjátlast í því að Júdas hafi ekki fengið hugun. Ég er reyndar alveg viss um að honum skjátlaðist. Og það sem meira er ég tel að yfirleitt hafi öllum skjátlast fyrrum og jafnvel enn í dag um þau sem ekki finna neina leið fyrir líf sitt og binda því enda á það.
Það felst í sjálfu orðinu sjálfsmorð að dæma þann gjörning sem morð. Og vissulega voru þeir tímar þegar sjálfsmorð var talið alveg samskonar glæpur og að myrða annan mann. Það merkti löngum að sá sem fyrirfór sér fékk ekki leg í vígðri mold, frekar en morðingjar yfirleitt, heldur var jarðsettur utan garðs. Fyrirgefning samfélagsins var engin. Ekkert var spurt um feril eða aðdraganda, né heldur um það hvort iðrun hefði átt sér stað, iðrun sem leiðir til fyrirgefningar.
Um þetta mikla vandamál sem með ýmsum hætti snertir allar fjölskyldur í þessu landi, en er ennþá feimnismál, eða svo svo mikið sorgarefni að um það er aldrei talað, er gott að hugsa í samhengi guðspjallsins sem bæði segir frá Júdasi og iðrun hans og Jesú Kristi og þögn hans.

Sannarlega er það göfugt að hætta lífi sínu til að önnur manneskja geti lifað. Það er mikil fórn að missa líf sitt við þær aðstæður. Þau sem þannig deyja eru gjarna kölluð hetjur. Dauði þess sem féll fyrir eigin hendi er sveipaður þoku, og enginn veit nema sá sem allt veit, hvort einkenni hans var uppgjöf eða sigur. Enginn talar þá um hetjur.
Að áfellast þann sem velur þá leið er rangt og miskunnarlaust. Allt of lengi var sá tími ríkjandi í kristinni kirkju að dæma þau hart sem sjálf völdu dauðann og kalla gjörð þeirra illum nöfnum, jafnvel meta til jafns sjálfviljugan eigin dauða og að taka líf annars manns. Það var vondur tími og lítill skilningur á eðli manns og elsku Guðs.

Undir krossi Krists megum við minnast þeirra allra sem kusu sér þessi örlög. Hvort sem það nú var af kaldri skynsamlegri yfirvegun, í tilfinningalegu uppnámi, í sjúkri örvinglan, í flótta frá eigin skyldum og ábyrgð, eða þeirri bjargföstu sannfæringu að engin önnur leið væri fær.
Það má alveg einu gilda hver aðdragandinn var. Vð felum þau öll í miskunn Guðs sem fullkomnaðist í dauða Jesú Krists á krossinum og við biðjum þeim öllum blessunar sem bera þá þungu samviskubyrði alla ævi að hafa komið of seint, að eigin mati, eða brugðist einhvernvegin ranglega við. Þeirri byrði getur enginn létt af nema Guð, og það gerir hann. Enginn dauði er jafn óvelkominn og sá sem á engan aðdraganda

Júdas sá enga aðra leið en þá að refsa sjálfum sér með þessum hætti sem hann gerði, andspænis því að hann dæmdi gjörðir sínar sjálfur. Hann sveik meistara sinn í hendur þeirra sem krossfestu hann.

Hann gekk út úr loftsalnum þar sem þeir neyttu síðustu máltíðarinnar. Sú máltíð hófst með því að Jesús þvoði fætur lærisveinanna. Með öðrum orðum: Jesús þvoði fætur Júdasar. Hjá honum, á honum og í honum voru þó annarskonar óhreinindi en einungis á fótunum.
Þetta snýst ekki bara um Júdas. Þetta merkir eftirdæmi. Það merkir að við megum aldrei skirrast við því að horfast í augu við öll þau óhreinindi og hverja þá synd og hvert það brot sem við mætum í þjónustunni við Krist á meðal manna. Hann sem læknar allt og hreinsar allt. Og hreinsun hans er fyrirgefning. En fyrirgefningu finnur maður ekki nema leita að henni. En hvernig get ég fundið það sem ég þekki ekki? Ég get það ekki. Og hvernig get ég fyrirgefið þeim sem ekki biður um fyrirgefningu? Og hver getur beðið um fyrirgefningu nema sá sem iðrast gjörða sinna?
Jesús þvær allt burtu. Hann þvær fætur þeirra. Hann gengur beint til verks. Og þegar því lýkur segir hann: Skiljið þið hvað ég hefi gert. Ég hef gefið ykkur eftirdæmi.

Iðrun og fyrirgefning heyra saman. En ég þarf að hafa smakkað fyrirgefninguna til þess að geta iðrast. Í iðruninni sjálfri felst gleði fyrirgefningarinnar. Og það sem staðfestir hvort tveggja er Orð Guðs. Og orð Guðs er Jesús Kristur.

Í Mattheusarpassíu J.S. Bachs sem er dásamleg túlkun píslarsögunnar syngur bassinn í framhaldi af frásögninni um Júdas, sem við heyrðum í guðspjallinu, í orðastað Júdasar.

Gefið mér minn Jesú aftur!
Sjá hér sjóðinn,
böðuls bætur,
takið við
er týndur sonur
fleygir þeim
að fótum ykkar .

Júdas flúði inn í þögnina undan sínum eigin innri ásökunarorðum. Við getum flúið raddir annarra, en ekki okkar eigin innri rödd. Enginn getur ásakað jafn grimmdarlega og óvægið og manns eigin samviska. Og iðrunin sem fær ekki svar í fyrirgefningunni er óbærileg kvöl. Og af því að hún gerist innra með manni sjálfum, og ekki í samtali við einhvern annan þá greinir sá sem iðrast ekki rödd fyrirgefningarinnar sem hljómar í iðruninni. Það er fyrirgefning í iðruninni. En við þurfum annars hjálp til að heyra það.
Þessvegna segir Hallgrímur svo fallega í Passíusálmunum

Freisting þung ef þig fellur á
forðastu einn að vera þá.
Guðhræddra selskap girnstu mest,
gefa þeir jafnan ráðin best.
Huggun er manni mönnum að,
miskunn Guðs hefur svo tilskikkað.

Amen Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1585.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar