Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Leyst frá gröfinni

20. apríl 2014

Hveitikorn þekktu þitt
þá upp rís holdið mitt
í bindini barna þinna
blessun láttu mig finna. Amen

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Gleðilega páskahatíð.

Kæri páskasöfnuður. Þau sem kenna sig til kristinnar trúar hafa ýmsar skoðanir og meiningar og kenningar um allt sem varðar trúna og túlkun ritninganna og játninganna. Stundum er mismunurinn meira að segja svo afgerandi að það verða til ný trúfélög og nýir söfnuðir. Það er einungis eitt sem er sameiginlegt með kristnu fólki. Það er trúin á upprisuna. Það er einfaldlega ekki hægt að kenna sig til kristni nema trúa að Kristur sé upp risinn og að það hafi ekki aðeins merkingu fyrir hann heldur fyrir þau öll sem á hann trúa. Ef Kristur er ekki upprisinn þá er predikunin einksis virði og trúin ónýt líka, segir postulinn. (1.Kor. 15.14-17)
Hvernig nákvæmlega upprisan verður, eða hafi veriðí upprisu Jesú Krists, er allt annað mál, og um það er líka hægt að deila og vera ósammála um. Vitnisburður ritninganna er tvennskonar, eins og glögglega kemur fram hjá Páli postula. Það sem er samkvæmt ritningunum og játningunum og það sem er samkvæmt frásögnum og vitnisburðum einstaklinga. Um þess þessar tvær gerðir vitnisburðarins væri gott að ræða í annan tíma, og að söfnuðurinn hugleiddi sjálfur.

Hvað gerðist í gröf Jesú vitum við ekki. Hversvegna María Magdalena þekkti hann ekki upp risinn og hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn, vitum við ekki. Hvað verður um okkur og hvernig þegar við deyjum og hann reisir okkur upp, vitum við ekki. Gilda orð Jesú við ræningjann á krossinum: Í dag skaltu vera með mér í Paradís? Gilda þau einnig fyrir okkur þegar við deyjum, eða sofum við í gröfinni svo og svo lengi? Jafnvel allt til efsta dags þegar Guð gerir alla hluti nýja og líka gömlu beinin mín sem verða löngu fúnuð í jörðinni. Við vitum þetta ekki.

Páll postuli predikaði yfir Korintumönnum, og þeir spurðu hann stórra spurninga, ekki síst um upprisuna. Hvernig rísa dauðir upp?
Við skulum aðeins dvelja við svör postulans við því, og við löngun mannanna til að vita alla skapaða hluti.
Hvernig er að deyja? Hvernig er hinumegin? Hvernig er maður þegar maður er upprisinn? Er eitthvað að borða og eitthvað að gera?
Það er til fólk sem segist vita þetta allt saman. Hvernig maður klæðist, hvað maður borðar og hvernig maður lítur út.
Einn á forverum mínum á Grenjaðarstað, séra Benedikt Kristjánsson, gerðist póstmeistari á Húsavík þegar hann hætti prestskap. Hann er sagður hafa haft mestar áhyggjur af því að það væri svo mikið iðjuleysi í himnaríki.

Nútíminn sem gerir meiri kröfur um nákvæmni í upplýsingum en áður var algengt, myndi vafalaust vilja skýrari svör en þau sem Páll gefur í bréfinu fyrra til Korintumanna.
Það er reyndar ekki einungis vegna kröfunnar um meiri vísindalega nákvæmni, heldur jafnvel miklu frekar vegna þess að samtímafólk er búið að fá alveg nóg af öllum orðunum sem ekkert er á bak við. Daglega eru borin á borð fyrir okkur orð, jafnvel stóryrði, sem engin innistæða er fyrir. Þetta er leikur stjórnmálamanna og þjóðarleiðtoga og þjóða – leiðtoga, sem hafa lært það, ekki síst í samhengi fjölmiðlanna að þú verðir alltaf að svara öllum spurningum, og það strax, þótt þú hafi ekki hugmynd um hvert svarið ætti að vera. Sá stjórnmálamaður sem er spurður og svarar, ég veit það ekki, er ekki trúverðugur, að því talið er. Vandamálið er bara það að hann er ekki heldur trúverðugur þegar hann kemur með innihaldslaus svör.
Samtíminn hefur enga þolinmæði og enga biðlund. Þess vegna verður það oft að það sem fæðist er ófullburða, eins og allt sem þarf sinn meðgöngutíma til að fullþroskast en fær hann ekki.

Kæri söfnuður. Við komum saman á páskum og fögnum upprisunni. En upprisan kemur á eftir dauðanum. Hvernig er að deyja?
Miðað við sumar lýsingar gæti maður haldið að það að deyja væri svona eins og ferð á Akranes í sólskini. Maður þarf að vísu að fara í gegnum göngin, og þá er dimmt og jafnvel dálítið óþægilegt, þó að það séu að vísu ljós, en það eru ekki bara hraðatakmarkanir heldur líka vont loft. En svo kemur maður bara út úr göngunum aftur alveg eins og maður fór inn, nema kannski að hafi maður verið veikur Saurbæjarmegin þá er maður frískur Innra - Hólms megin.

Það er til ævaforn sögn um mann sem hafði heitið því að láta vita af sér þegar hann væri kominn yfir um. Þetta er svo gömul saga að hún er á latínu. Aðalatriði sögunnar er svona:
Qualiter? Taliter? Svar. Totaliter aliter.
Það er svo gott með þessa sögu að hún er alveg jafngóð og jafn upplýsandi þó að maður kunni ekki latínu. Hún minnir mig reyndar, - ef eg má vera persónulegur- á það þegar Bóas, þarna í bassanum, var lítill snáði í Þýskalandi og lærði snemma að svara spurningunni: Warum með Darum. Enda rímar það. En það er jafn upplýsandi og þegar spurt er hversvegna og svarið er: Af því bara.
Qualiter? Taliter? Totaliter aliter. Merkir: Hvernig? Þannig? Svar: Fullkomlega öðruvísi.
Orð Páls sem við þekkjum svo vel (1.Kor. 15.42-44) til dæmis úr útfararritualinu þegar þau eru notuð þar staðfesta að það sem verður er fullkomlega öðruvísi.:
Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt. Sáð er í vansæmd en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika en upp rís í styrkleika.Sáð er jarðneskum líkama en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.
Þetta segir Páll. Og hann segir líka, svona eins og til að lýsa muninum á þeirri tilvist sem við þekkjum á jörðu og þeirri sem er á himni og við þekkjum ekki:

Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir þegar þeir koma?“ Heimskulega spurt! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. Og er þú sáir þá er það ekki sú jurt er vex upp síðar sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.Ekki eru allir líkamir eins heldur hafa mennirnir sinn, kvikféð annan, fuglarnir sinn og fiskarnir annan. Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.Eitt er ljómi sólarinnar, annað ljómi tunglsins og enn annað ljómi stjarnanna… (1.Kor.15.35-41)

Kæri söfnuður. Það má halda sig við orð Jesú sjálfs (Jóh. 12. 23-24), sem reyndar Páll vísar hér til. Jesús segir:
„Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.

Sannarlega er Jesús að tala hér um sjálfan sig, og um það sem verður við dauða hans og upprisu, en líkingin af fræinu sem fellur í jörðina og jurtinni sem vex upp af því, er kannski besta líkingin um það hver er munur á hinni jarðnesku tilveru og hinni himnesku. Sannarlega eru mörg fræ falleg í eðli sínu og sannarlega eru þau full af fyrirheitum, en það jafnast ekkert á við það sem upp af þeim vex. Og svo má líka minna á að hið sama gildir um lirfuna, púpuna og hið fullvaxna fiðrildi.
Þetta á postulinn við í orðunum sem ég las:(1.Kor. 15.36-37)
Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. Og er þú sáir þá er það ekki sú jurt er vex upp síðar sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. … Og eins og við höfum borið mynd hins jarðneska munum við einnig bera mynd hins himneska.

Hvað vitum við þá? Við vitum svo sem ekki neitt. Ekki ef allt er mælt þekkingarfræðilega út frá skynseminni. En það sem við verðum áskynja um eftir nálgun og á vegum trúarinnar, er að tilvísanir í náttúruna og upprisu lífsins þegar vorar, eins og það væri sönnun á upprisu Jesú Krists, dugar alls ekki. Enda höfum við verið minnt á það mjög hraustlega síðustu daga að þeir páskar sem haldnir eru alveg við anddyri sumarsins hafa enga sjálfsagða tengingu við náttúlegt góðviðri og vorkomu eins og dagatalið gefur þó til kynna.
Vorið er sannarlega hluti af hinu náttúrulega ferli, en upprisa frá dauðum í Jesú nafni er alls ekki hluti af náttúrulegu ferli. Upprisa merkir umbreyting til nýs og eilífs lífs.
Það er ein af ástæðum þess að við erum í vandræðum með orðalag trúarjátningarinnar. Samhengið á milli orðanna í játningunni um Jesú í annarri grein játningarinnar og um okkur hin í þriðju greininni er ekki auðskilið. ,Það er : reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, og svo þess er við segjum: Ég trúi á upprisu mannsins? holdsins? dauðra? Við höfum ekki valkostinn sem sumar systurkirkjurnar hafa, sem segja upprisu líkamans, sem merkir fyrst og fremst upprisu í líkama. Það er reyndar einmitt það sem allar þessar útgáfur eru að reyna að segja: Ég rís ekki upp eins og formlaus og þokukenndur andi, og ekki heldur einhverskonar Laddaútgáfa af draug, heldur í þekkjanlegu einskonar líkamlegu ástandi.
Upprisulíkaminn er ekki hinn sami líkami og hinn jarðneski. Hold og blóð getur ekki erft Guðs ríki, segir postulinn. Þó að það standi hold í elstu gerð postullegu játningarinnar, þá er orðalagið upprisa holdsins, ónákvæmt orðalag, þó að við notum það. Sérstaklega vegna þess að þar er fyrst og fremst vísað þess sem gerist við endi aldanna, þegar Guð gjörir alla hluti nýja en segir ekkert um það hvort líf er eftir dauðann þangað til það verður. Upprisa mannsins er orðalag sem ætlað var ekki síst til að sætta andstæðar fylkingar í kirkjunni. Það er líka ónákvæmt orðalag, vegna þess að við endi aldanna verður allt gjört nýtt, og ekki bara maðurinn. Upprisa dauðra er það sem orðað er þannig í stóru játningunni, messujátningunni, og sumar systurkirkjur okkar erlendis hafa sæst á það að nota sama orðalag í báðum játningunum. Það merkir að það sem dó verður reist upp til lífs. Við deyjum, en Jesús reisir okkur upp frá dauðum. Við sofnum ekki bara og vöknum svo hinumegin. Við deyjum algjörlega og fullkomlega. Og eigum enga von og ekkert líf og enga eilífð nema vegna þess að hann, sem sjálfur sigraði dauðann veki okkur upp aftur og íklæði okkur himneskum búningi svo við megum dvelja með honum.
Og hann kallar okkur með nafni, eins og hann ávarpaði Maríu við grafarmunnann, þegar María hélt að hann væri vörður. En þegar hann nefndi nafnið hennar, þekkti hún hann af því að hún þekkti röddina.
Við breytumst, við eldumst og gránum og verðum allt öðruvísi en þegar við vorum yngri, við styttumst, við víkkum, við hrukkumst, en röddin heldur sér lengst. Hún gerir okkur þekkjanleg. Og þegar Jesús kallar þá munum við þekkja að það er hann.
Það er notaleg tilfinning sem fylgir því að hugsa um að Jesús sjálfur kalli okkur ekki aðeins út af þessum heimi heldur inn til eilífðar sinnar. Með nafni. Eins og í skírninni.
Það er Jesús sem leysir líf þitt og mitt frá gröfinni. Það er hann sem heldur á lyklunum að eilífðinni og lýkur upp fyrir okkur nýjum heimi að þessum heimi liðnum. Hann kallar. Það er líka notaleg tilfinning að mega treysta því að þetta kall hans frá lífi til lífs sé ekki aðeins við endalok jarðvistarinnar.Hann kallaði þig og mig til eilfðarinnar strax í skírninni. Við það breytast áherslurnar. Hvernig er að deyja? Hvenær kemur dauðinn?
Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt. Í Kristí krafti ég segi: Kom þú sæll, þegar þú vilt.

Gleðilega páska. Í Jesú nafni. Amen
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1948.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar