Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Kross í bjarma upprisunnar

18. apríl 2014

Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Jóhannes 12. 23-24,31-33.

Bænin
Ó minn Drottinn að mér gáðu,
elsku þinnar veit mér gjöf.
Augum mínum ljós þitt ljáðu
leið mig út af dimmri gröf
Annars hlær með hæðnisrómi
hann sem stöðugt fylgir mér
og ei hlýtir hinsta dómi
heldur stríðir móti þér. Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Þýski presturinn og listamaðurinn Sieger Köder er einn af þeim á þá náðargáfu að segja hið ósegjanlega með list sinni. Hann hefur gert óvenulega mynd af Kristi sem ber krossinn. Myndin var gerð fyrir fjölskylduföður sem mætti dauða sínum í trú en háði mjög langt og mjög hart dauðastríð. Listamaðurinn gerði myndina honum til huggunar og hjálpar. Myndin sýnir Jesú sem fallið hefur undir krossinum og megnar ekki að rísa upp aftur heldur skríður áfram á fjórum fótum en undir lengri hluta krossins er annar sem einnig skríður, yfirkominn af þunga krossins.Leiðin er dimm, eggjagrjót og upp í mót.

Jesús fellur og sá sem er á eftir honum stynur sáran: Guð minn. Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Jesús snýr sér við og horfir á vin sinn: Þú ert alls ekki yfirgefinn. Ég er hjá þér og yfirgef þig aldrei. Krossinn sem við berum er minn kross, okkar kross. Við berum hann saman. Ég ber hann með þér, ég ber þig með mér, ég dreg þig að takmarkinu. Krossinn og Golgata eru ekki endamarkið, heldur upprisan, páskasólin, eilífðin.

Hversu erfitt reynist okkur ekki að horfast í augu við atburðarás föstudagsins langa? Hversu satt er ekki það sem skáldið Davíð Stefánsson segir í sálminum um föstudaginn langa: Ég bíð uns birtir yfir og bjarminn roðar tind.
Við bíðum líka, páskasólarinnar, bíðum þess að hið þunga böl sé liðið hjá. Hvað veldur? Hvað jefur þú minn hjatrkær Jesú brotið?
Er Golgata hið sýnilega dæmi um styrk og mátt hins illa valds andspænis hinu góða? Einmitt ekki.

Kæri söfnuður, orðin sem ég las úr 1. kafla Jóhannesarguðspjalls eru ekki venjulegur predikunartexti fyrir föstudaginn langa, heldur fyrir Mikjálsmessu, þann 29. september.
Það á sérstaklega við um orðin: Höfðingja þessa heims er út kastað. Mikjálsmessan hefur að tilefni baráttu Mikaels erkiengils við drekann mikla sem er Satan og djöfull, hinn fallni ljósengill, Lusifer. Hann sem stendur alltaf og æfinlega fyrir uppreisn gegn guðdóminum, hann sem leiðir fylgjendur sína gegn hinu góða, fagra og fullkomna, gegn ljósinu inn til myrkursins.
Þessi mikla glíma ljóss og myrkurs, lífs og dauða, góðs og ills, er mönnunum hugleikin og hefur verið um aldir, og jafnvel jafnlengi og hugsun mannkyns hefur verið til. Hversvega er það ? Svar. Það er vegna þess að sérhver venjuleg manneskja finnur í sér,finnur í sjálfri sér, glímuna milli þessara tveggja afla í einhverri mynd, ævinlega, jafnvel á hverjum degi. Páll postuli vísar til þess þegar hann segir: Hið góða sem ég vil geri ég ekki.
Við köllum þettta stundum hið jarðneska andspænis því himneska. Hið jarðneska eðli, fætt af moldu jarðar andspænis því himneska og eilífa. Og samt er hin jarðneska mold hluti af Guðs góðu sköpun, sem hann blessar margvíslega með lífskraftinum.
Hversvegna þessi glíma? Hversvegna enn, þegar höfðingja heims hefur verið út kastað?
Hversvegna enn, þegar dauðinnn og syndin hafa verið sigruð? Ef við skoðum þetta nánar og setjum upp í tvær deildir eða heildir, getum við spurt: Hverjum er meiri akkur í því að auglýsa styrk sinn, þeim sem er veikari, þeim sem er tapari, eða hinum sem er sigrari.
Svarið er augljóst.
En við þurfum að segja við taparann mikla: Þú getur látið eins og þér sýnist, þú ert dauður, þú hefur tapað. Því aðeins sá sem trúir því að taparinn sé sigurvegari þjónar honum og hjálpar honum. Það er engin spurning að liðsafnaður hins illa er öflugur. Það er auðvelt að sjá dæmi um það í múgnum sem hrópar krossfestu hann!
En krossinn er ekki merki um sigur hins illa, krossinn er merki um sigur hins góða, sigur kærleikans yfir makt myrkranna, því að höfðingjanum er burt kastað.
Það sjáum við best þegar við horfum fram, og sjáum dýrð Drottins lýsa upp myrkrið bak við krsssinn.

Kæri söfnuður Þingvallakirkju á föstudaginn langa.
Auðvitað er það eins og að missa af kjarna málsins að vera farinn að njóta páskahátíðarinnar áður en föstudagurinn langi er liðinn. Samt er það hlutskipti langflestra Íslendinga hvort sem þeir tilheyra kirkjusamfélagi eða ekki. Hinsvegar getum við ekki heldur horft á krossinn án þess að sjá bak við hann bjarma upprisunnar. Þannig hefur það verið. Við sem höfum notað dagana hér á undan á föstu eða í dymbilviku til að hlusta á passíur Jóhanns Sebastians Bach sem sannarlega enda við grafarmunnann eftir að honum var lokað, en ekki þegar steinum var velt frá, höfum fundið heita glóð trúarinnar í tónum og texta miðla eftirvæntingu upprisunnar án þess að nefna það orð nokkurn tíman.

Þannig var það einnig löngum að orð Jesú sem hér voru lesin: Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ – að þau voru ekki aðeins skilin með þeim hætti sem ritað er : Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.- heldur sáu og heyrðu kynslóðirnar einmitt í þessu felast mynd Krists hins upprisna sigrara dauðans þegar hann kemur í dýrð sem æðstur konungur himis og jarðar.
Það er til málverk eftir samtímamann Luthers Ulrich Apt, sem sýnir Krist á krossinum, sýnir múginn steyta hnefa og hrópa, og yfir þeim er myrkur, eins og dimmt ský sem grúfir yfir þeim og hylur Krist til hálfs.Lítið eitt til hliðar er drengur sem horfir upp og fram og það er birta í andliti hans. Hann horfir gegnum skýið dimma á andlit Krists sem fyrir ofan skýið er baðað birtu upprisunnar sem fellur á drenginn.

Hvað gerðist á Golgata?
Fortíðin dó en framtíðin lifnaði. Á krossinum varð til ný trú, ný trúarbrögð. Hið gamla leið undir lok. Trúariðkun gyðinganna með sínum sláturfórnum leið undir lok og varð ekki hluti kristindómsins, þó að fyrst í stað kæmi tími á mærum kristindóms og gyðingdóms uns andinn birti sannleikann. Skilin milli lífs og dauða, milli hins gamla og nýja, milli syndar og fyrigefningar, verða til á hverjum degi, á hverjum nýjum morgni. Svefninn er bróðir dauðans, segja fornar bækur. Hver nýr dagur er nýtt líf. Þú skalt snúa þér til Guðs á hverjum morgni, segir Luther, snúa þér til trúar á nýjum degi. Hið gamla er farið. Að rísa upp til hversdagsins er fyrirheit um hina endanlegu upprisu
Syndin og sektin allt hið ljóta og spilla tilheyrir hinu liðna og jafnvel þegar maður er staddur í því miðju er maður á leið frá því. En sá sem er á kafi í hinu liðna sér ekki hið komandi. Golgata merkir baráttu lífs og dauða.
Golgata segir:Veldu lífið.Veldu blessunina. Skildu eftir bölvunina, skildu þig frá bölvuninni.
Faðir fyrrgef þeim, því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Orð Jesú á krossinum. Hversu oft höfum við ekki mátt hvíla í skjóli þeirra.

Kæri söfnuður.
Margur nútímamaðurinn spyr hvort það geti verið að hinn algóði Guð, faðir miskunnsemdanna og Guð alllrar huggunnar hafi virkilega viljað blóðfórn síns elskaða sonar á krossinum á Golgata. Margur nútímamaðurinn svarar þessu neitandi. Þetta getur bara ekki verið, segir hann þá. Hverju er þá til að svara?
Margir fræðimenn, kennarar og predikarar benda á að í fyrsta lagi hafi postulum og lærisveinum, söfnuðum og síðar kirkjunni sjálfri alls ekki í fyrstu verið ljóst allt það sem fólst í atburðum píslarsögunnar, né í kenningu Jesú Krist, það hafi opnast þeim smám saman með hjálp hins heilaga anda. Fjöldamargt í orðum Jesú sjálfs vísar til þess að síðar muni margt ljúkast upp.
Guð er ennþá að ala upp börn sín, kynslóð eftir kynslóð, rétt eins og að hann hefur ekki lokið sköpunarferlinu.
Það eru tvö þúsund ár frá þeim atburði sem lýst er á Golgata. Það er alveg víst að skilaboðin þá voru alveg skýr. Fórnir musterisins, slátrun nauta og hrúta og hafra, til friðþægingar fyrir syndir mannanna gagnast ekki og eru ekki Guði þóknanlegar. Miskunnsemi þrái ég en ekki fórn, segir í bók Hósea.
Það er vegna þess að slíkar fórnir eru eins og hver annar vélrænn gjörningur fyrir utan manninn sjálfan, eins og orð án hluttekningar hafa ekki merkingu.
Mynd Jesú á krossinum er ekki staðfesting um refsiglaðan Guð heldur kærleiksríkan.Það er opinn faðmur Guðs sem við sjáum, og trúum á.

Fyrirgefning syndanna fæst ekki nema fyrir frumkvæði Guðs og verk hans sjálfs. Þess vegna gengur hann sjálfur inn í stað hinna mörgu dýrafórna, eitt sinn og á fullkominn hátt. Hin gamla kirkja, synagógan er leyst af hólmi með hinni nýju kirkju Krists á jörðu. Það sem hinn gamli Adam olli í syndafallinu, bætir hinn nýi Adam, Kristur fyrir ,með því að fórna sjálfum sér. Hann bætir fyrir brot Adams. Hliðið inn til Paradísar sem brot Adams lokaði, er nú opnað aftur. Hlið Heljar sem skildi hina dauðu eftir í dauðraríkinu, hefur Jesús Kristur brotið, og leyst hina dauðu frá dauðanum.

Jesús Kristur lífsins ljómi, leysti oss frá sekt og dómi.
Líknin þín sem leyst mig hefur, lífið sem þú nú mér gefur.

Jesús lifir, lífið sanna, leysti fjötur allra manna, heldur lyklum Heljar á, hann sem leysir dauða frá.

Það er ekki upprisan ein sem opnar hliðið inn til eilífðarinnar, það er dauðinn og fórnin á krossinum. Upprisan er fyrst og fremst staðfesting þess að sigur er unninn á krossinum. Sigur á dauðanum, sigur á öllu illu sem kennt er við andstæðing Guðs hinn illa Satan og djöful, sem Mikael glímdi við og varpaði niður á jörðina þar sem fjörbrot hans skemma og spilla og glepja fólk til að trúa því að það sé enn hann sem hafi öll ráð í hendi sér.
Þegar Mikael varpar honum niður horfir hann framhjá honum. Ekki á hann. Hann horfir framhjá honum eins og þeim sem maður tekur ekkert mark á.
Það er ekki múgurinn sem hrópar og hæðist að sem við horfum á við krossinn. Það er hann sem hangir þar.
Það eru heldur ekki sölubúðirnar og hrópandi kaupmenn og viðskiptavinir sem við horfum á þegar við staðnæmumst á Golgata núna í dag árið 2014,
Við horfum í gegn um hin dimmu ský á andlit hins krossfesta baðað í birtu upprisusólarinnar.
Annars værum við föst inni í gröfinni,
Annars væri það andstæðingur Guðs gæsku sem héldi hátíð.

Ó minn Drottinn að mér gáðu,
elsku þinnar veit mér gjöf.
Augum mínum ljós þitt ljáðu
leið mig út af dimmri gröf
Annars hlær með hæðnisrómi
hann sem stöðugt fylgir mér
og ei hlýtir hinsta dómi
heldur stríðir móti þér.

Jesús sagði: Stundin er komin að dýrð mannssonarins verði opinber.Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Á ég að segja: Faðir frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til að mæta þessari stundu. ( Sjá Joh. 12. 26 – 27.)
Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1446.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar