Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Fáum okkur morgunmat

20. apríl 2014

Þrjár konur, þrjár vinkonur, tvær heita María og ein heitir Salóme, ganga saman á tímanum þegar nóttin breytist í dag og sólin er að koma upp. Sporin þeirra eru þung, með hverju þeirra neyðast þær til að horfast í augu við það hræðilega sem gerðist. Leiðin liggur í garðinn þar sem eingöngu látnir liggja og erindið er að veita ástvini hinstu þjónustu og kveðju.

Þau sem hafa þurft að kveðja ástvin vita að umstangið kringum útförina og allt það praktíska sem þarf að leysa, hjálpar einhvern veginn við að láta hugann starfa og komast í gegnum daginn. Þetta upplifðu vinkonurnar þrjár líka. Á leiðinni í garðinn spjalla þær saman, kannski rifjuðu þær upp stundirnar sem þær áttu með Jesú, upprifjunin kveikir ljúfsárar minningar um tíma sem voru svo góðir en koma aldrei aftur. Kannski huggar ilmurinn af smyrslunum sem þær bera og tilhugsunin að geta þrátt fyrir allt sýnt líkama hins látna ástúð og virðingu með þessari hinstu þjónustu. Talið berst líka að verkefninu sem bíður þeirra, þær átta sig á að það er flóknara en þær bjuggust við og kvíðinn gerir vart við sig.

„Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum“ spyrja þær. Steinninn fyrir gröfinni er allt í senn, tákn fyrir þungann sem hvílir á hjarta hinna syrgjandi og raunveruleg hindrun. Hann stendur fyrir hinar þungu spurningar sem kvikna við lífsreynsluna, þegar vonin deyr og skipbrotið verður. Í brjósti vinkvennanna og fámenna hópsins frá Galíleu sem hafði fylgt Jesú og upplifað ævintýrið sem umbylti og breytti, sátu núna þungar spurningar, ótti og kvíði um óvissa framtíð.

En steinninn leikur líka annað hlutverk á þessum glænýja degi sem nú er runninn upp. Í stað ótta leiðir hann í ljós gleði, í staðinn fyrir að vekja kvíða, kveikir hann von: “En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.” Steinninn er ekki lengur hindrun heldur leiðir hann í ljós fagnaðarerindið um lífið sem hafði sigur yfir dauðanum.

Hvernig má það vera? Hvernig getur lífið haft betur en dauðinn? Hvernig hefur þú reynt upprisuna í þínu lífi? Við getum sagt frá upprisunni í lífinu okkar á svo marga vegu. Nýlega rifjaði ég upp ævintýrið um Næturgalann eftir H.C. Andersen, sem gaf frá sér svo fögur hljóð að sjálf reynslan að hlýða á hann umbreytti fólki. Og söngur næturgalans var svo máttugur að dauðinn sjálfur þurfti að láta í minni pokann. Í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar segir svo frá viðskiptum næturgalans og dauðans, sem hefur komið sér fyrir á brjósti hins deyjandi keisara, náð að sölsa undir sig hina keisaralegu gripi og er smám saman að sjúga úr honum lífið:

En dauðinn hélt áfram að stara á keisarann með augnatóftunum stóru og tómu. Það var svo hræðilega þegjandalegt þar í herberginu. Þá hljómaði allt í einu fegursta sönglist við gluggann. Það var litli, lifandi næturgalinn, sem sat á trjágrein fyrir utan. Hann hafði heyrt, hvað keisarinn ætti bágt og var því kominn til að færa honum huggun og von með söng sínum. Og eftir því sem hann söng lengur, bliknuðu myndirnar meir og meir, blóðrásin örvaðist í hinum sjúka líkama keisarans og dauðinn sjálfur hlustaði á og sagði: „Haltu áfram, næturgali litli! haltu áfram!“ „Viltu þá láta mig fá gullsverðið glæsilega? Viltu láta mig fá skrautfánann? Viltu láta mig fá kórónu keisarans?“ Og dauðinn lét hverja gersemi af hendi fyrir einn söng, og næturgalinn hélt áfram að syngja, og hann söng um kirkjugarðinn, þar sem kyrrðin ríkir, þar sem hvítu rósirnar vaxa, þar sem ylliviðurinn angar og grængresið vöknar af tárum þeirra sem eftir lifa. Þá fór dauðann að langa heim aftur í garðinn sinn, og sveif hann svo út um gluggann í líki kaldrar, hvítrar þoku.

Það er mikill páskabragur yfir þessari sögu og eitthvað við samskipti næturgalans og dauðans sem leiðir hugann að því hvernig afl kærleika Guðs í Jesú Kristi yfirbugar vald dauðans í lífi manneskjunnar. Alveg eins og næturgalinn hrekur dauðann úr hjarta keisarans með blíðum söng, missir dauðinn áhrifavald sitt í lífi þeirra sem taka á móti upprisuboðskapnum og leyfa páskunum að ríkja.

Vinkonurnar þrjár voru vissar um að þær væru að loka ákveðnum kafla í lífi sínu en uppgötvuðu þess í stað að eitthvað alveg nýtt væri að hefjast. Þær ætluðu að ganga að hinum látna, veita honum hinstu virðingu og kveðja fyrir fullt og allt. Í staðinn mætir þeim tómur staður og þær fá fyrirmæli um hvað gera skuli og hvað bíði þeirra.

Það vekur athygli að í páskaguðspjallinu sjá þær aldrei Jesú. Hann er ekki hér, segir ungi hvítklæddi maðurinn við þær. Og þessi nýi veruleiki skapar ekki umsvifalaust gleði og áhyggjuleysi í lífi vinkvennanna heldur flýja þær í ofboði og þora ekki að segja neinum hvað þær höfðu upplifað. Upprisan varð að veruleika í lífi þeirra eftir því sem tíminn leið, þær sannfærast og ein þeirra fær það hlutverk að kunngjöra þetta þeim sem höfðu verið með Jesú en hörmuðu nú og grétu. En þeir trúðu henni ekki.

Trúin og efinn takast á í páskasögunni. Kannski efaðist Kristur sjálfur á krossinum þegar hann hrópaði Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig! Og vinir Jesú, sem höfðu séð hann þjást og deyja, voru lengi að trúa, sumir létu ekki sannfærast fyrr en þeir höfðu fengið að sjá og snerta.

Upprisa Jesú á páskadagsmorgun er eins og lítið fræ, sem verður, ef það fær að blómstra og skjóta rótum, að risastóru tré þar sem fuglar himins leita skjóls. Upprisan er ferli sem hefst á páskadagsmorgni og þroskast út í vorið, vex og dafnar. Í ritningunni taka við dagar og atburðir þar sem Jesús birtist fólki, gengur með fólki, brýtur brauð og grillar fisk, Jesús stígur til himna og lærisveinarnir bíða eftir því að heilagur andi úthellist yfir Jerúsalem.

Það tók allt þetta fyrir vini og vinkonur Jesú að verða páskafólk sem lætur ekki í minni pokann fyrir dauðanum heldur ber lífið í hjarta sínu. Þess vegna skiptir það miklu máli að við horfum á páskana sem ekki bara einn morgunn heldur ferli 50 gleðidaga - fram að hvítasunnu. Það skiptir sérstaklega máli að gefa upprisunni tíma þegar gangan okkar á páskadagsmorgun er þung og við erum ekki í stakk búin til að gleðjast eða fyllast von um framtíðina. Við getum verið á þeim stað í lífinu að við kunnum betur við okkur í föstunni, sem beinir sjónum að baráttu og mótlæti lífsins. Hin skjótu umskipti frá föstudeginum langa til páskadags, frá dauða til lífs, geta verið yfirþyrmandi og ruglandi. Þá er gott að fá að taka á móti fyrirheiti páskanna í litlum skrefum, eins og dagsbirtunni á vormánuðum, sem eykst og eykst. Páskarnir eru loforðið um að Guð sem var farinn, tekur sér stöðu með manneskjunni og stígur með henni inn í ljósið.

Það er mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, sólin er að koma upp. Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn. Komdu, við skulum fá okkur morgunmat því fastan er liðin og páskarnir eru rétt að byrja. Tökum á móti þeim með því að vera páskafólk, eins og vinkonur og vinir Jesú. Hér ríkir dauðinn ekki lengur, heldur býr hér lífið sjálft.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2313.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar