Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Víngarðurinn

16. febrúar 2014

Kæri söfnuður í Árbæjarkirkju. Gleðilega hátíð!

Maður nokkur var spurður: Hvað er það dýrmætasta sem þú lærðir í bernsku?
Svar: Að rata heim.

Að rata heim hefur tvær merkingar. Í fyrsta lagi er það ómetanlegur fjársjóður að hafa lært að rata heim og vita að þar er skjól og aðhlynning og skilningur. Að sjálfsögu eru þau verðmæti dýrmætust þeim sem hafa týnst. Hafa týnt sjálfum sér og týnt veginum og jafnvel týnt fólkinu sínu. Að vita að heim, merkir ást og umhyggja en ekki skammir og ásakanir.

Hin merkingin er um Guð. Að hafa lært að sofna í senn í faðmi föður og móður á jörðu og Guðs á himinum. Þegar Guðsmyndin verður til úr því ástríki sem umvefur barn á þessum undarlegu mótum svefns og vöku í kvöldbæn og kvöldsöng og læra þar að Guð er nærri þegar allt annað er farið og týnt, af þvi að Guð er Guð og Guð elskar.

Í kirkju eins og þessari, þar sem er góður kór og frábær organisti þá leiðir það athyglina að J.S. Bach sem kallaður hefur verið fimmti guðspjallamaðurinn og mun á komandi föstu eins og ár eftir ár leiða fleira fólk til umhugsunar um Guð en allir bestu predikarar samtímans til samans.

Guðspjallið um verkamenn í víngarði varð honum og textaskrifara hans tilefni að kantötu nr. 84 : Ich bin vergnügt mit meinem Glücke. Þar segir:

Ég er ánægð(ur) með þann skerf hamingjunnar sem góður Guð hefur gefið mér. Falli mér ekki ríkulegar gjafir í skaut þá þakka ég honum hinar smáu. Ég er ekki heldur þeirra verð(ur).

Ertu sammála þessu.?

Guð skuldar mér ekki neitt. Það er alveg ljóst. Gefi hann mér eitthvað, gerir hann það til að sýna að hann elskar mig. Líka alveg rétt.
Ég get enga innistæðu eignast hjá honum vegna þess að ég get ekki gefið honum neitt nema það sem hann á nú þegar. Eða hvað ?
Var ekki einhvern tíma sagt að við gætum gefið honum hjartað?

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Láttu þó aldrei leiðast þér
ljúfi Jesú að benda mér,
hugsi til mín þitt hjartað milt
hirtu mig líka sem þú vilt.

Hjartað bæði og húsið mitt,
heimili veri Jesú þitt.

Hjartað …

Guðspjallið um verkamenn í víngarði fjallar um verðmæti. Það fjallar ekki um hagfræði. Ekki einu sinni um lélega hagfræði. Það fjallar ekki um fjármálaábyrgð. Það er ekki málsskjal í kjarasamningum. Og þó fjallar það um þetta allt og miklu meira.

Það var þeim líka ljóst Picander textahöfundi og tónskáldinu Jóhanni Sebastian Bach við gerð Kantötunnar nr. 84 sem myndi heita á íslensku: Ég gleðst yfir mínum skerf af hamingju. Hversvegna skyldi ég gleðjast yfir því?

Guð er Guð reglunnar. Hann meðhöndlar okkur börnin sín ekki eftir dutlungum eða tilviljunum, heldur gefur hann hverjum og einum samkvæmt verkum hans. Hvorki postulinn né heldur Drottinn sjálfur eru feimnir við að nota orðið laun. (Ef verk einhvers fær staðist … mun hann taka laun. 1.Kor. 3,14) þetta segir postulinn Páll.
Rómversk-kaþólska kirkjan og evangelisk-lutherska kirkjan hafa náð sáttum um það hvað skilar okkur heim til himins, það er trúin. Við getum samt ekki alveg komið okkur saman um hvort sumir fái aukalega umbun á himnum fyrir framúrskarandi árangur á jörðu, eða ekki. Það er til fólk sem hefur áhyggjur af þessu. En þá væntanlega ekki af laununum sjálfum, heldur af því hver fær þau.

Guð hefur heitið hverju og einu barna sinna launum. Við meðtökum laun fyrir verk okkar. Guðs laun.Guðlaun, lærðum við sum okkar að segja : Guð launi þér.

En Guðslaun eru bundin og fædd af öðrum skilmálum en jarðnesk laun. Í hverri skikkan vinnu eða viðskipta meðal mannanna verða launin að vera í samræmi við framlagða vinnu eða afköst, og spurningin um réttlát laun er grundvallarspurning samfélagsins á vinnumarkaðinum. Enginn vinnuveitandi á jörðu gæti hegðað sér svo sem húsbóndinn í dæmisögunni, en það sem samkvæmt mannlegum , skynsamlegum mælikvarða er ótrúlegt, öfugsnúið og ómögulegt, notar Drottinn til að gera skiljanlegt að í riki Guðs gengur þetta öðru vísi fyrir sig en á jörðu.

Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum, segir í sálminum (103,10) Guð breytir ekki við okkur samkvæmt syndunum og ekki heldur eftir afköstum og ekki einu sinni dyggðum heldur eingöngu samkvæmt sinni eigin gæsku.- enginn getur fengið meir, enginn mun fá fleira og meira en gjöf náðar hans.
Þín náðin Drottinn nóg mér er. Hversvegna ? Svar: því nýja veröld gafstu mér.

Hér er ekkert meira eða minna, engin krafa og enginn samanburður. Guðspjallið um verkamenn í víngarði geymir margar þversagnir. Jesús kaus að nota þær til þess að túlka leyndardóminn: Guðslaun, sem eru okkar laun og þó engin laun.

Í texta Bach kantötunnar nr. 84 segir svo:

Í sveita andlitis míns vil ég neyta brauðs míns.
Og þegar lífshlaup mitt endar á ævikveldi
þá réttir Guð mér eyri í laun.
Á hann er letrað : Himnaríki.

Og svo segir í framhaldinu:
Ó,! Ef ég fengi þessa gjöf að náðarlaunum,
þarfnast ég einskis frekar.

Þetta er alveg samhljóma við síðasta vers sálms Valdemars Briem sem við sungum áðan.

Og þegar síðast kvöldið kemur,
hann kallar sérhvern verkmann heim,
hann geldur engum öðrum fremur,
en öllum saman gefur þeim.
Ó, met sem gjöf, en gjald ei, það,
sem Guðs son hefur verðskuldað. (Sb 120)

Um þetta eitt snýst allt okkar streð á jörðu. Að komast til þekkingar á því skiptir eitt máli, ekki hvenær það verður, heldur hvort. Hverjum Guð launar, hvenær og hvernig er honum einum kunnugt.
En við ?
Erum við ekki í víngarðinum á sömu forsendum og í grasgarðinum:

Mig hefur ljúfur lausnarinn
leitt inn í náðar grasgarð sinn
vakandi svo ég væri hér
vitni skírnin mín um það ber.

Í víngarðinum voru þeir sem fengu allir sömu laun eftir daginn, hvort sem þeir byrjuðu snemma morguns og unnu allan daginn, eða komu á síðustu stundu. Eins og nærri má geta ríkti mikil óánægja meðal verkafólksins með þessa tilhögun húsbóndans, að borga öllum jafnt, og varð af innbyrðis óánægja í hópnum.
Lögmál guðsríkisins geta verið framandleg þeim sem ekki gefa sér tíma til að hugleiða þau, né heldur tíma fyrir Guð og orð hans.
Hvernig getum við beitt þeirri visku sem augljóslega gildir í hinum ytra heimi með sínu ranglæti og réttlæti, í starfinu fyrir guðsríki, innan kirkjusafnaðanna, í hinu innra trúboði og hinum ytri vitnisburði?
Andlegt líf safnaðar deyr ef það fær ekki aga og innri hvatingu til að vaxa og vekja athygli og að hver og einn sé lifandi steinn í andlegt hús kirkjunnar og trúarinnar, þar sem kristinn söfnuður og hver einstakur kristinn karl og kona brennur í heilögum ákafa af því að hann veit sig bera ábyrgð á því að útbreiða þann sannleika sem hann hefur tekið á móti og mótar hann, eins og brauðið og fiskarnir margfölduðust í höndum Jesú Krists í sögunni um mettunina. Þá vex líka ríkidæmi þekkingarinnar og lífsins í trú og kærleika og það verður sífellt minni þörf á að kvarta en enn meiri þörf að lofa Guð.
Það var afar ánægjulegt að sitja fund sóknarnefndar með prestum og organista og starfsfólki og prófastinum hér í Árbæjarkirkju á fimmtudaginn var og fá innsýn í líf og störf safnaðarins. Gleðiefni og áhyggjuefni. Þar sem hið fyrra gerði hið síðara smátt að vexti.
Þegar ég fór heim stóð ein setning eftir eins og yfirskrift alls þess sem rætt var. Hún var svona: Við ákváðum að halda bara samt áfram, þó að þrengdi að.
Í þrengingum getur raskast samhengi launa og vinnustunda. Ný verðmæti fá nýtt vægi. Gildi gæðast í vitundinni. Guð laun, lærðum við að segja. Guðlaun, af því að hann launar einhvernvegin allt öðru vísi en jarðnesk launakerfi byggja á.
En það er ekki bara það að launakerfi jarðarbarna gildir ekki á himnum.Starfið í víngarðinum hefur líka önnur einkenni en almennt gerist.
Við vorum minnt á þetta alveg nýverið þegar voðaatburður varð hér í nágrenninu og fyrstu fréttir sem bárust greindu frá því að Árbæjarkirkja væri opin og þar væri fólk að störfum til að veita aðhlynningu, til lífs og sálar.
Og sumir sögðu: Afhverju kirkjan? Er hún opin á nóttinni?
Svar. Nei. En þetta er vegna þess að kirkjan er ekki bara á einhverri lóð, hún er í víngarðinum. Og í víngarðinum er ekki byrjað á að spyrja: Fæ ég kannski borgað fjögra tíma útkall og næturvinnu?
Nei. Það er ekki spurt. Og ekkert borgað. Af því að kirkjan er í víngarðinum.
Þegar þú leitar þangað, þá ferðu heim. Eins og barn. Eins og týndur unglingur. Eins og hinn heimilislausi og umkomulausi. Þar er umhyggja og ástúð í fyrirrúmi. Ekki skammir og ásakanir. Enginn annar aðili í hinni félagslegu umönnun samfélagsins er með sama hætti fær um að veita þá þjónustu sem kirkjan getur veitt. Þegar allir leggjast á eitt eins og hér var gert.
Kæri söfnuður. Það er sérstakt ánægjuefni að fá að skyggnast um hér í víngarðinum í Árbænum, og sjá hversu samhentur hópurinn er sem leiðir starfið og hversu traust bakland söfnuðurinn sjálfur veitir og gefur. Og enn er hinn samhenti hópur styrktur í dag með nýjum viðbótarverkefnum hjá góðum starfsmanni, þegar Ingunn er endurheimt í hóp starfandi djákna í þjóðkirkjunni, sem eru alltof fáir. Til hamingju með það Ingunn, og söfnuðurinn, prestarnir og starfsfólkið. Til hamingju.
Árbæjarsöfnuður er öflug starfseining í kirkjunni. Það er niðurstaða þessara vísitasíu. Þetta er gróinn söfnuður með rótgróið starf sem gefur von og miðlar gleði og vekur þakklæti til víngarðseigandans. Guð laun, kæri söfnuður. Guð laun.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2668.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar