Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Hvar ertu?

23. febrúar 2014

Náð og sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

… hér skal tilreitt Herrans borð

og hér skal boðað lífsins orð.

Það orð, sem græðir öll vor mein,

það orð, sem vermir kaldan stein,

það orð, sem kveikir kraft og móð

og kallar líf í dauða þjóð. (Matthías Jochumson  Sb 269)

Heilagi Faðir, helga þú oss í sannleikanum. 
Þitt orð er líf, andi og sannleikur. 
Amen.

Kæri söfnuður. Ég veit að predikarar í Tómasarmessum eru jafnan prúðir og frjálslegir í fasi og standa úti á miðju gólfi við predikunina. Ég bið ykkur að hafa þolinmæði með mér og leyfa mér að standa hér á þessum stað. Ég er gamall maður og predikunarstóllinn veitir mér öryggi og áminningu, eins og hann á að gera, um það að söfnuðurinn eigi að mega treysta því að frá predikunarstóli sé ekkert boðað nema það sem hefur verið prófað og þvegið.
Þá hugsar ef til vill einhver : Ertu að segja að það sé þá óþvegið sem predikað er á gólfinu?

Svar: Origenes kirkjufaðir kennir um boðun orðsins að annarsvegar verði heilagur andi ekki fjötraður af neinu, hinsvegar sé predikunin ótvírætt bundin af ritningunni.

Origenes kennir að ekki sé einungis texti ritningarinnar innblásinn af heilögum anda, heldur útleggi predikarinn Orðið einnig í krafti heilags anda. En ekki aðeins það heldur þurfi þau sem heyra predikunina einnig að vera fyllt heilögum anda til þess að predikunin nái tilgangi sínum að uppfræða, hugga og hvetja.

Með þessum hætti er starfsemi heilags anda í söfnuðinum frjáls, segir hann, en þó er hún bundin við Orðið. Þessvegna er það huggarinn, andinn heilagi, sem er hinn eiginlegi túlkandi textanna. Predikarinn er í þjónustu hans, hvar sem hann stendur og jafnvel þótt hann stæði á haus.

En niðurstaðan er þessi: Heilagur andi þarf að stýra tungu predikarans og opna eyru heyrandans. Þá verður til predikun.

Sigurbjörn biskup Einarsson segir í hirðisbréfi sínu:

,,Guð talar, tjáir sig. Því þekkjum vér hann. Vér heyrum. Þá trúum vér. Og þá tölum vér líka. Orðið fæðir trúna og líf trúarinnar leitar fram í orði, búningi andans. Og orð trúarinnar er ekki aðeins það sem varir mæla, heldur öll tjáning hennar, allt sem ber henni vitni, allt sem birtir það líf af lífi Krists, sem hún nær að fæða hið innra.”

Kæri söfnuður.
Orð Guðs til þín er yfirskrift Tómasarmessunnar þetta sinnið. Þegar við gengum hér inn kirkjugólfið til þessarar guðsþjónustu breyttist yfirskriftin. Nú hljóðar hún svo: Orð Guðs til mín.

Óteljandi eru frásögurnar af því þegar orð Guðs laukst upp og breytti lífi og líðan og aðstæðum., einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga og þjóða.

Vitnisburðurinn um það hvað gerist þegar Orð Guðs kemur og er Orð til þín, og mín, er svo sterkur að einungis mjög djúpt efakast og löng eyðimerkurganga andans getur horft framhjá því og hafnað þeim vitnisburði.
En þannig er það nú einmitt. Jafnvel sá sem heldur Guðs orði í hendi sér í helgri bók getur haft hulin augu, dauf eyru og hart hjarta. Um það, einmitt um það líka snýst guðspjall Biblíudagsins.

Guð er Guð orðsins. Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Þetta þekkjum við. Upphaf Jóhannesarguðspjalls.

Tvö fyrstu vers Biblíunnar í fyrstu Mósebók, segja frá aðstæðum. Svo kemur þriðja versið þegar Guð tekur til starfa og það byrjar svona: Þá sagði Guð.

Þegar Móse stóð fyrir framan runninn sem logaði en brann þó ekki og Guð talaði við hann, spurði Móse, þegar ég segi frá því að þú hafir talað við mig og þeir spyrja: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ 14Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“

Ég er sá sem ég er, segir Guð um sjálfan sig. Ég er, er Guð sem talar. Þannig starfar hann í heiminum. Hann ávarpar heiminn og þá verður það sem hann segir. Og Guð ávarpar manninn. Í fyrstu ávarpar hann manninn, sem hann gjörði karl og konu, til að segja honum frá hlutverki hans og ábyrgð í heiminum. Hann talar til þeirra um samstarf Guðs og manns í heiminum og hann setur þeim reglur, sem þau brjóta. Sá sem brýtur Guðs boð týnir sjálfum sér frá augliti Guðs þangað til hann iðrast og ákallar Guð. Þess vegna er það fyrsta sem Guð segir við manninn eftir að þau höfðu brotið boð hans: Hvar ertu?

Kæri söfnuður.

Á hverju ári, á Biblíudaginn, fáum við að heyra í guðspjallinu um raunveruleika kirkjunnar og heimsins gagnvart erindi Guðs og ávarpi hans. Hans sem talar. Það er erindið sem frelsarinn Jesús Kristur var sendur með , bæði sem hann sjálfur og í ritningartextunum sem fyrir voru í ritum Ísraels við fæðingu hans og nært höfðu trú þjóðar hans til þess tíma. Hið Gamla Testamenti.

Þar er að finna sálma Davíðs, sem kallaðir hafa verið bænabók Jesús Krists og hafa þjónað kynslóðunum og gera enn. Í þeim mætast testamentin, sáttmálarnir, hinn gamli og hinn nýi og þegar best er mætast þar líka gyðingar og kristnir menn í einingu sem fátíð er annars.

En biblíudagurinn er líka annar sunnudagur í níuviknaföstu. Föstutímabilið einkennist af þeim áföngum sem sunnudagarnir afmarka með textum sínum og yfirskriftum. Áður en lagt er af stað inn í hina eiginlegu föstu sem hefst á öskudaginn, erum við minnt á Orð Guðs og viðtekt þess, orðið sem er Jesús Kristur og orðið sem er skráð og bundið á spjöldum heilagrar ritningar.

Við heyrum Jesús segja þessa dæmisögu um sáðkornið og jarðveginn sem það fellur í, og er ætlað að hugleiða hana með honum. Á Biblíudegi er leitað stuðnings við útbreiðslu Guðs Orðs um allan heim og viðtekt þess á grundvelli hinnar döpru sögu um sáðmanninn.

Einn ágætur Biblíutúlkandi og predikari Wilhelm Stählin setti fram kjarna guðspjallsins eitthvað á þessa leið:

Hversu miklar sálarkvalir hlýtur ekki Jesús, sjálfur sáðmaður his guðlega Orðs að hafa liðið þangað til hann fann huggun í hlutskipti bóndans sem sáir sáðkorninu á land sitt, og gat gefið lærisveinunum hlutdeild í þeirri huggun. 
Jesús fór ekki á mis við þá reynslu sjálfur að sáðkornið fellur oft á ófrjósamt land eða það sem er þakið illgresi, en hann veit líka hitt að góða moldin ber hundraðfaldan ávöxt.

En samt snýr hann ræðu sinni til allra, til fólksins alls sem heyrði til hans, því enginn getur afsakað sig með því að hann tilheyri þessari eða hinni moldinni. Sérhver einstaklingur er fullkomlega ábyrgur fyrir því að hafa heyrt og tekið á móti orðinu.

Dæmisagan um sáðmanninn er mikil huggun þegar áhyggjur hellast yfir okkur um að allt erfiði okkar sé til einskis, og að sérhvert sáðkorn sem kirkjan sáir falli á troðna götu, á klettinn eða meðal þyrna, vegna þess að sumt féll og fellur sannarlega enn í góða jörð.

Guð spyr. Hvar ertu?

Guð sem hefur sent sáðmann sinn út á akurinn, spyr: Hvar ertu? 
Ertu á akrinum, eða ertu hluti hans?

Við gætum litið svo á að hið fyrsta ávarp Guðs til manns sem Biblían greinir frá væri svo mótað af nánu samspili manns og náttúru sem raunin er vegna þess að það markaðist af tímanum sem það er talað á og því menningarsögulega samhengi sem það er talað inn í. En það er ekki þannig. Maðurinn er svo náinn hluti náttúrunnar og sköpunarverksins að hann skilur sig ekki frá því nema að því einu leyti sem verður þegar Guð blæs lífsandanum í nasir hans, þeim anda sem fer til Guðs þegar moldin fellur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, Þá blæs Guð honum skilning í brjóst svo hann þess vegna getur svarað þegar Guð spyr: Hvar ertu?
Eftir tíu daga hefst fastan. Þá er öskudagur.

Margir munu nota tímann á föstunni til þess að hlusta á passíusálma Hallgríms Péturssonar, eða lesa þá. Sumir munu hlusta á passíur Jóhanns Sebastians Bach. 
Bach hefur verið kallaður fimmti guðspjallamaðurinn. Það er ekki skrítið. Það er eins víst að fleiri muni á komandi föstu hlusta á predikun hans í passíunum en á fjölda bestu predikara kirkjunnar vítt um heim. Það er umhugsunarefni. Það væri þá líka eins gott að þeir skyldu hana.
Hvers vegna spyr Guð, þegar enginn veit svarið betur en hann sjálfur?

Sonur minn sem er að undirbúa sig undir að syngja guðspjallamanninn í Mattheusarpassíunni hringdi í mig frá Berlín til að spyrja að því hvort Júdasi hefði verið fyrirgefið áður en hann hengdi sig. Ég reyndi að segja honum að samkvæmt samtímaskilningi hefði morð verið morð hver sem myrtur var eða myrti. Hann sagði: Ég var ekki að spyrja að því. Ég er að hugsa um hvernig ég syng línuna sem segir: Þegar Júdas, sem sveik Jesú, sá að hann var dæmdur sekur iðraðist hann.

Fyrst hann iðraðist þá hlýtur Bach að hafa átt við að það sé Júdas sem talar í aríunni sem fylgir á eftir og segir:

Gefið mér minn Jesú aftur. 

Sjá hér peningana, laun morðingjans. 

Týndi sonurinn kastar þeim fyrir fætur ykkar.

Hvar ertu, Adam?

Guð ávarpar til þess að hinn týndi eigi þess kost að snúa sér og iðrast, kasta sér fyrir fætur hans, eins og Júdas kastar blóðpeningunum, og rísa síðan upp að nýju, laus og leystur frá syndinni.

Kæri söfnuður. Jesús Kristur, orð Guðs, sent til jarðarbarna til að frelsa þau og finna þau, er þessi spurning: Hvar ertu? Svarið við spurningunni er: Ef ég er ekki hjá þér, þá er ég hvergi. Þá er ég týndur. 
Svarið er í spurningunni. 
Ég er, sá sem ég er. Hann er ávarp og andsvar í senn.

Og eitt enn. Það er spurningin Hvar ertu sem lætur okkur vaxa upp af því fræi sem sáð var í akur Guðs. Í orðinu sem talað var til mín og talað er til mín og talað verður til mín.

Og um síðir munum við rísa upp af því hveitikorni sem sáð var, þegar moldin fellur til jarðarinnar, en andinn til Guðs sem gaf hann.

Hveitikorn þekktu þitt 

þá upp rís holdið mitt.

Í bindini barna þinna,

blessun láttu mig finna.

Amen

Dýrð sé Guði Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2479.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar