Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arnaldur Máni Finnsson

Guðs Orð er ekki gangráður

23. febrúar 2014

Óumræðanlegi og allt umlykjandi Skapari – þú magnkraftur lífs og ljóss; þú endurnærandi og hreinsandi Frelsari - manns sonur og Guðs barn Jesús Kristur, sem fyrir heilagan anda ert á meðal okkar í dýrð, gleði og von, á erfiðum stundum: Vertu og vaktu hér og nú og helgaðu huga okkar til að meðtaka Orð þitt og leyndardóma, opna hjörtu okkar fyrir krafti þínum, kjarki og auðmýkt, blessun náð og lærdómi – í Jesú nafni, Amen.

I

Í upphafi var Orðið – og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð, segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls, eins og við vonandi þekkjum hér flest sem saman erum komin til að eiga samfélag um ljós og líf, á þessum Drottins degi, samfélag um Orð og bók – samansafn margra bóka – bókasafnið Biblíuna á Konudeginum sjálfum, samfélag um Guðs Orð og leyndardóm þess. Þetta Guðs Orð er margslungið og og illþýðanlegt stundum: Það þarf að þýða þessar bókmenntir á milli menningarheima, á milli tungumála, það þarf að skiljast í dag eins og það skildist í gær, eða fyrir hundrað árum; það þarf að túlka og boða Guðs Orð á hverjum tíma til þess að það geti endurnært og uppreist eins og góður félagi – góð kona, góður maki – því að í skírninni þá tökum við á móti þessu Guðs Orði, við eigum lífsförunaut, já jafnvel þó við köllum þetta afl, kynngimagnið á bakvið tilveruna, ólíkum nöfnum á stundum, já jafnvel þó við höfum ekki verið skírð, þá skynjum við þetta afl á bakvið tilveruna.

Það er merkilegt að takast á við Biblíuna – það mikla bókmenntaverk – á okkar tímum, þar sem það er grundvöllur og vitnisburður þeirrar kirkju sem við tilheyrum en um leið hefur boðskapur þess löngum verið ballestin í þeirri menningu sem við lifum í. Ekki aðeins siðferðislegt regluverk eins og sumum hættir til að túlka það, sér í lagi til að aðgreina breytni sína og lífsmarkmið frá öðrum, heldur sem vitnisburð um kærleiksboðskap sem birtir okkur þá Guðsmynd sem mótuð er úr efniviðnum. Það er dásamlegt hvernig manni er boðið að komast dýpra til þekkingar á sjálfum sér og möguleikum lífsins á þeirri vegferð, að reyna að skilja og skynja þann kraft sem hreyfir við hjörtum fólks í dag rétt eins fyrr. En það er ekki fyrir Bíblíuna eina sem við kynnumst þeim Guði sem vakir yfir og dvelur í náunga okkar sem og náttúrunni, þó frásaga mannlegrar reynslu sem birtist í Biblíunni sé vissulega uppspretta margskonar sköpunar sem hefur sterk áhrif á okkur. Nei, því að fyrir samfélagið sem við eigum um boðskap og þræði kjarnafrásögunnar í kristinni trú, öðlumst við dýpstu reynsluna af því hvernig það er að trúa, treysta og túlka líf sitt og viðhorf út frá lífi í samhengi við trúarlega heimsmynd. Ég þakka fyrir þá gjöf að höfði halla mega í Drottins skaut, þá náð að geta hvílt laus við ótta í faðmi einhvers sem ég mun aldrei skilja til fullnustu. Það eru mismunandi leiðir sem fólk þræðir til að rísa upp í trúartrausti á þeim nótum. Sumum finnst þeir þurfa vera sammála öllu sem stendur í Biblíunni, á sagnfræðilegum og guðfræðilegum nótum, því annars séu þeir að sverja sig undir skipurit sem muni leiða þau til óhamingju, ófrelsis, ósjálfstæðis – að trúarregluverkið muni draga úr mennsku þeirra og leitast við að fylla manneskjuna samviskubiti yfir því að vera breysk og ófullkomin. Aðrir keppast við að telja öðrum trú um að þeir séu hamingjusamir, frjálsir, sjálfstæðir og fullkomnir því að þeir séu sammála og trúi öllu á sagnfræðilegum og guðfræðilegum forsendum sem stendur í Biblíunni. Við erum blessunarlega meðvituð um að möguleikarnir í túlkun á þessum miklu bókmenntum er ekki háð því einu að gleypa við öllu eða hafna öllu heila klabbinu, nú til dæmis því að það sé ótrúverðugt í ljósi vísindaþekkingar eða heimsmyndar samtímans. Og þegar að er gáð þá snýr kannski allt það sem mestu skiptir ekki að sagnfræðilegum áreiðanleika heldur að innri kjarna þess boðskapar sem er settur fram, sumstaðar í ljóðum, annarsstaðar í dæmisögum, jafnvel í kjarnyrtum leiðsagnar-setningum Krists, eða spámanna Gamla testamentisins. Nú ætla ég ekki að leitast við að draga fram einn kjarna, einfaldan boðskap úr þessu mikla verki, í tilefni dagsins, því Guðs Orðið er stórbrotnari veruleiki en svo að um sé að ræða texta þeirrar bókar sem um er rætt einn og sér.

II

Það er krafa sem stendur uppá manninn á öllum tímum, að hann er skapandi vera og skynjar veruleika sinn, handanveruleika og lífsmarkmið, og túlkar og tjáir skynjun sína með verkfærum tungumáls og lista. Og rétt eins og Lúter lagði upp með sem forvígismaður siðbótarinnar að þær kenningar sem væru á biblíulegum grunni stæðu kennisetningum kaþólsku kirkjunnar framar, þá standa prestarnir uppi með samvisku sína og hið skapandi ferli að „boða Guðs Orð hreint og ómengað“ – samkvæmt vígsluheiti sínu að lúterskum sið. Guðspjall dagsins fjallar um þetta Guðs Orð þegar rýnt er í það af dirfsku. Og við erum krafin um skapandi hugsun og dirfsku þegar við tölum inn í hinn ólgandi samtíma, hvort sem litið er til stjórnmálanna á Íslandi, átaka á götum úti í nágrannaríki Póllands, Úkraínu eða til stríðandi samfélaga kristins fólks í Sýrlandi, Súdan og Cincinatti. Og þar sem Guðs Orði er sáð – sem frjóvgu sæði í raka mold – þar má ætla að vaxi og þroskist og dafni ávöxtur af Guðs Orði. Við erum krafin um það, með skapandi hugsun, að velta því fyrir okkur hverjir þessir ávextir eru. Eru það ávextir andans – sem Páll talaði um – eða ávextir lífs í gnægð og gleði, fagurt fjölskyldulíf: Er það sú blessun að upplifa meðgöngu og fæðingu barns og njóta uppvaxtar þess?

Það gefur lífi mínu gildi og fyllingu sem guðfræðings að takast á við texta Biblíunnar og víkja mér ekki undan þeim erfiðu spurningum sem kunna að spretta úr þeirri frjóu mold. Einhverjum kann að þykja texti dagsins skotheldur – augljós – söguna um sáðmanninn höfum við heyrt svo oft og enginn texti á því jafn vel við á sjálfan Biblíudaginn. Ég kenni í slagtogi við Eirík Örn Nordahl, skapandi skrif hér á Ísafirði um þessar mundir og þar tökumst við á við umbreytingar-æfingar á textum sem eru kannski „heilagir“ í augum margra, það er góð æfing, það er leit að innblæstri og áhrifum. Kannski mætti þýða boðskap þann sem stendur eftir í huganum – í guðspjalli dagsins – á þennan hátt á íslensku samtímans: „Græddu Biblíuna nú bara í hjartað eins og gangráð og þá mun þér blessast allt.“

„Guð blessi Ísland“ það varð fleygt – „við erum kristin þjóð“- það er umdeilt þegar því er haldið fram. Bé I Bé Ell í A, er bókin bókanna, á Orði Drottins er allt mitt traust, B I B L Í A! syngja börn í sunnudagaskólum landsins. „Gróðursettu nú bara reglurnar og siðferðisboðskapinn í brjóstinu og þá mun þér blessast allt.“ Hér erum við samankomin, fullorðið fólk á öllum aldri og vitum að þetta er ekki svona einfalt. Mótlæti og tilfinningar sem spretta af mótlæti og erfiðleikum og þjáningu og böli, hvort sem er í nærumhverfi okkar eða fjær, eru fylgifiskar þess að vera manneskjur, hversu vel sem við lærum Biblíuna okkar. Þó við gætum þulið Nýja testamentið afturábak og áfram, þá bjargar það okkur ekki frá mennsku okkar og sársauka, tilfinningum okkar og hvað þá því mótlæti sem við vorkennum okkur svo oft fyrir að þurfa upplifa. „Nú er ég vel meinandi manneskja og reyni að breyta rétt, hvers vegna þarf ég að upplifa mótlæti“ hugsa kannski sumir, eins og ég, og við reynum að skilja í þessum Guði sem stendur ekki við sinn hluta samningsins. Á ég ekki að uppskera hundraðfalt! ?

Manneskjan er ekki síður kröfuhörð, heldur en sá Guð sem borið er vitni í hinu mikla bókasafni, Biblíunni. Og bókin sú er marglaga – margræðni textans er kannski ekki augljós – en það segja nú samt fræðin, guðfræðin og bókmenntafræðin og heimspekin: Það er hið augljósa og svo eru það túlkanirnar. Söguna af sáðmanninum má finna í þremur útgáfum í Nýja Testamentinu, Matteus virðist taka hana nánast orðrétta frá Markúsi – en útgáfa Lúkasar hvikar ögn. Kannski er það mikilvægt, svo að sá sem hefur meðtekið Guðs Orð með fögnuði en horfið frá – því hann fann enga rót þar sem sáð var í hrjóstugu landslagi – eins og segir í guðspjalli dagsins, geti skilið þennan texta án þess að áfellast sjálfan sig fyrir kviklyndið og óþolinmæðina, þegar uppskeran lætur ekki strax á sér kræla. Við skulum minnast á muninn – því að hjá Matteusi og Markúsi er að finna atriði sem varðar manninn sjálfan.

Hvernig er Guðs Orði sáð í hjörtu mannanna, og hvernig þurfa hjörtu mannanna að vera til að þar spretti af þeirri frævu? Er hjarta þitt eins og klettur, hrjóstugt, lítið rými fyrir tilfinningar og sköpun. Fylgir þú reglum því að samkvæmt þeim er endurgjaldslögmálið í fullu gildi og algilt; tekur þú tönn fyrir tönn og auga fyrir auga? Læturðu þau afskiptalaus sem þú getur ekki hagnast á? Það sem er svo fallegt við að samstofna-guðspjöllin þrjú birta okkur það svo skýrt að Nýja testamentið er ekki enn heilagur sannleikur heldur bókmenntir þar sem fjölbreytt og víðtæk sýn á Frelsarann Krist gefur okkur færi á að máta okkur við ólíkar útgáfur af sömu sögu. Eitt orð getur skipt máli. Annað sjónarhorn getur breytt öllu. Hjá Matteusi eins og Markúsi lætur þetta eina orð lítið yfir sér. Í sjálfu sér. Hjá þeim segir – í útleggingunni á dæmisögunni – að Guðs Orðið hafi ekki fundið rót í manninum sjálfum. Í honum sjálfum, sem þýðir í sjálfu sér að við þurfum að hafa móttakara fyrir Orðið, við þurfum rót.

Átt þú rætur í sjálfum þér; eru rætur í hjarta þínu sem kallast á við hið lifandi orð og tengjast því, áttu rými fyrir anda sem vökvar moldina í hjarta þínu, svo að þú dafnir og berir ávöxt, þú manneskja sem ert Guðs Orð, sköpuð í Guðs mynd og átt rætur í hinu heilaga, hinu hreina og saklausa. Þú guðs barn sem áfellist sjálft þig eða aðra þegar á móti blæs; óttast þú að fuglar himinsins hafi étið fótum troðið guðsorðið úr hjarta þínu þar sem þú bjástrar nærri alfaraleið og fjarri ræktarlandi?

Afi minn bað mig innilega og sérstaklega að verða ekki of háfleygur hér í dag og ætla ég að minnast þess, því eiga ekki heima hér hátæknileg ritskýring eða kosmísk guðfræði um það ljós af hinu eilífa ljósi sem býr í brjósti þínu – Guðs barn – og mærð í tilefni Konudagsins til heilagrar Guðsmóður, á ekki heldur við. Kvenfrelsispólítík – eða pólítík almennt – heimsósómaræðu um fíflíu vorra tíma; fésbókina ætla ég líka að geyma, því þrátt fyrir að þar lesum við nútildags flest brotin úr bók bókanna, og þar megi margt uppbyggilegt finna sem kalla megi Guðs Orð, þá felur hún líka í sér samfélaggerð sem einangrar fólk og umhverfir í siðapostula, þar sem dómharka, hroki og sjálfsupphafning grasserar. Þar vantar rót en öllu er rótað upp. Við þurfum rót og rætur til þess að vaxa og dafna og verða heil. Og heil er manneskjan Guðs Orð, hvernig sem hún hljómar, hún er sagna-safn, hún er meira en sú mynd sem varpað er upp á vegginn, því hún er manneskja af holdi og blóði sem ber fram líf og ljós – og Orð.

Mér er nefnilega annt um allt þetta Guðs Orð sem við gleymum að er ávöxtur andans, afstaða okkar til náungans, fjölskyldu og vina, afstaða okkar til þess óumræðanlega Guðs sem er samur í upphafi Biblíunnar; í ljóðrænum texta um Anda sem svífur yfir vötnum óreiðunnar og skapar líf og ljós og kallast á við upphaf Jóhannesarguðspjalls sem hið frjóvgandi Orð – logos – mynd hins skapandi og frjálsi lífsandi sem þér var blásið í brjóst, til þess að geta vaxið og þroskast og dafnað til að vera bróðir og systir í Kristi Jesú, Kristur náunganum og þolgóður vinur vina þinna, en ekki fjarlæg stærð í vinasafni gerviheims. Mér er annt um Guðs Orð sem fyllir mig friði í þögn og íhugun bænarinnar. Mér er annt um það Guðs Orð sem fyllir kirkjuna vongleði og djörfung til að vera í heiminum en um leið ekki heimsins, hégómans og sérhlífninnar. Mér er annt um það að hvíla í því Guðs Orði sem huggar mig þegar mótlæti fyllir mig efasemdum, þegar bráðlæti mitt styggir og hræðir; því Guðs Orði sem hrýtur af vörum þeirra sem láta sér mig varða þegar holl ráð fylgja í kærleik og hófsemd. Hver dagur er fylltur Guðs Orði og Guðs blessun þegar afstaða okkar þroskast til þeirrar meðvitundar. Það fann ég síðast nú í síðustu viku, þegar annar bíllinn í röð skemmdist hér fyrir vestan aðeins síðan um áramótin. Hvað er eiginlega að gerast – hugsaði ég. Getur þetta verið?

Ég lenti í sviptivindi á Hvilftarströnd, vegurinn alísaður og svo alauður og ísaður aftur, svo erfitt var að ná stjórn á honum. Og ég endaði út af og fór einn heilan hring í frekar mjúklegri bílveltu. Áverkarnir voru ekki teljandi – og ótrúlega lítið sá á bílnum – og ég húkkaði mér fram áfram til vinnu, þar sem ég er að kenna flateyrskum nýbúum íslensku eftir fremsta megni. Þetta var blessunarlega í fyrsta skipti sem ég hef lent í bílveltu, en ég hugsaði með mér: Hvurn and… ertu nú að reyna segja mér kæri herra elsku besti Guð – ha! Eru þetta ávextir erfiðis míns og trúmennsku! Að feykja mér útaf veginum á leið minni til þessa mikilvæga starfs. Ertu að segja mér að þetta sé villa og ég spretti nú á meðal þyrna og sé að kafna í áhyggjum eða veraldlegu streði, ég sem hélt mig vera þinn, ljóssins knapi klár!

En svo áttaði ég mig. Því að stöðuglyndi og trúfesti eru ávextir andans, afstaða okkar til lífsins og tilviljannanna. Og ég þakkaði fyrir það að Guðs Orðið hefur breytt hugarfari mínu, kennt mér að bregðast við mótlæti með því að setja mig í annarra spor, sjá með augum Krists, sem eru full þakklætis og miskunnar, sjá með augum náungans að það var Guðs blessun að ekki fór verr.

Megi sú náð vera þér töm að sjá í náunganum Guðs Orð, að sjá með augum Krists inn í þitt eigið hjarta, öðlist þú gæfu til að fylla hjarta þitt kærleika og þakklæti, hvernig sem blæs, djörfung, hvernig sem gefur á bátinn, því ballestin er Guðs Orð, ljós og líf, frá eilífð til eilífðar – Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1932.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar