Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Elskar Guð okkur jafnt?

16. febrúar 2014

Textar dagsins eru hér.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Í þjóðfélagi okkar virðast nokkur lykilorð vera til staðar. Oft segjum við:„Orð í tíma töluð“, en mér sýnist sem lykilorð þjóðfélagsins séu ekki alltaf sömu, heldur breytast þau eftir því sem aðstæður í þjóðfélaginu breytast. Eftir bankahrunið höfum við t.d. mjög oft heyrt lykilorðin „réttlæti“ og „kærleikur“.

Að sjálfsögðu eru hvoru tveggja „réttlæti“ og „kærleikur“ alltaf mikilvæg lykilorð í samfélagi okkar, ekki aðeins eftir bankahrunið, en ef til vill fannst samfélaginu mikilvægi þeirra sterkara í ringulreiðinni í kjölfar þess.

Réttlæti eða réttlætiskennd er sannarlega mikilvægt hugtak og viðhorf til þess að þróa samfélagið okkar í rétta átt. Réttlæti er nátengt hugtaki um jafnrétti jafnt sem siðferði. Mismunun er móthugtak réttlætisins.

Guðspjall dagsins er dæmisaga sem fjallar um laun verkamanna í víngarði, og þar sem við erum að tala um laun má nefna að launamunur kynjanna á Íslandi mældist 18,1 prósent árinu 2013 og það er eitt réttlætismál sem ber að laga sem fyrst.

Réttlæti og jafnrétti í samfélaginu má að mörgu leyti greina með tölum og lagasetningu og með því að mæla þær eða bera saman fæst hlutlæg mynd um stöðu réttlætis eða jafnréttis. En hvað þá um hitt lykilorð samfélagsins okkar, kærleik?

2.
Auðvitað er ekki hægt að mæla nákvæmlega hve mikinn kærleik samfélag eða einstaklingur hefur. Kærleikur birtist á margvíslegan hátt á meðal okkar manna. Stundum birtist kærleikur á þann hátt að kærleikurinn lítur ekki út fyrir að vera kærleikur. Hið sama má það segja um „elsku“ eða „ást“, systurhugtök kærleiksins.

Það gerist oft að maður þarf að vera frekar kaldur í framkomu við aðra manneskju vegna elskunnar sinnar. Foreldri verður stundum að vera hart við barn sitt til að kenna því mannasiði eða rétta hegðun. Kennari þarf stundum að aga nemendur sína til þess að draga fram það besta í þeim. Þá eru einnig til manneskjur sem ekki geta sýnt ást hreinskilnislega vegna persónuleika síns.

Mörg dæmi eru til hins vegar um falskærleika eða falsást. Auk þess breytist elskukennd eða ást mjög fljótlega í hatur eða reiði í nokkrum tilfellum, eins og við þekkjum vel.

Þannig er ómögulegt fyrir mann að reyna að mæla hve mikið maður elskar aðra eða hve mikið aðrir elska ákveðna manneskju. Það er ekki hægt að bera saman stöðu manna, sem varðar kærleik, elsku og ást. Og þess vegna verður sú tilfinning manns, eins og „hve mikið eða lítið ég er elskuð/elskaður“, háð því að hvað manni sjálfum finnst.

Afleiðing þess er sú að við misskiljum stöðugt samband okkar við aðra varðandi kærleik, elsku og ást. Líklega verðum við að viðurkenna það sem örlög okkar mannanna þegar um er að ræða á samskipti meðal manna.

3.
En hvernig er það í samskiptum milli okkar og Guðs? Guð elskar okkur öll. En elskar Guð okkur jafnt? Hvernig getum við metið hve mikið við erum elskuð af Guði? Eða getum við fullyrt að Guð elskar enn okkur öll?

Hvernig er raunveruleiki fólks í heiminum ? Fólk á jörðinni býr við mjög misjafnar aðstæður og lífskjör þess eru alls ekki jöfn. Þegar við sjáum og heyrum um aðstæður í Sýrlandi eða í Afríku í fréttum, um hvað er að koma þar fyrir konur og börn, erum við þá sannfærð að Guð elski fólk í jafnt?

Skoðum stöðuna á Íslandi. Ísland er ekki í stríði og hér ríkir ekki hungursneyð sem betur fer. En samt getur fólk orðið fyrir alvarlegri lífsreynslu og óheppni. Ungt fólk lætur lífið í bílslysum. Margir eru að glíma við erfiða sjúkdóma. Aðrir eiga í erfiðleikum vegna fjölskylduvandamála eða fjármála. En á sama tíma eru einnig margir sem njóta lífsins í þessu sama samfélagi. Elskar Guð okkur jafnt í alvöru?

4.
Í þjónustu minni hitti ég oft hælisleitendur á Íslandi. Ég veiti þeim aðstoð án tillits til þess hvaða trú þeir aðhyllast. Sumir þeirra eru kristinnar trúar. Um daginn talaði ég við einn þeirra. Hann er frá Mið-Austurlandi. Heimaland hans er múslímaþjóð en hann fæddist inn í kristna fjölskyldu en hún tilheyrði algjörum minnihluta í landinu.

Hann sagði við mig að það var alls ekki auðvelt að vera kristinn maður í heimalandi sínu. Það hefur alla tíð verið sýnileg mismunun jafnt sem ósýnileg. Ég er sjálfur frá þjóð þar sem kristni er minnihluti, því skil ég vel að aðstæður kristinna manna séu ekki eins og á Íslandi í mörgum löndum í heiminum.

Maðurinn flúði heimaland sitt fyrir 10 árum. Að vera kristinn var ein af aðstæðum flótta hans. Hann hefur eytt árunum í Evrópu og kom til Íslands í síðasta sumar. Hælisumsókn hans er núna til afgreiðslu hérlendis en hann segist vera orðinn mjög þreyttur.

,,Toshiki“ sagði hann við mig: „Guð þekkir alla sögu mína frá upphafi. Hann veit hvort ég segi sannleikann eða ljúgi. Hann veit hvernig mér líður núna. Ég er búinn að vera í þessari stöðu í 10 ár. En samt gerir Guð ekki neitt fyrir mig. Af hverju? Ég veit ekki hvort ég geti haldið í trú mína á Guð eða ekki“.

Ég verð að játa það, en spurning af þessu tagi er sú erfiðasta að svara sem prestur. Af hverju gerir Guð ekkert til að breyta stöðu mannsins sem verið hefur á flótta mörg ár? Í slíkri stöðu, er það skiljanlegt að manninum finnist Guð hafa hætt að elska sig, þó að ég segi ekki að það sé réttur skilningur hjá honum.

5.
Það hlýtur að vera fleira fólk sem hefur þessa sömu tilfinningu um að hafa verið yfirgefið í samfélagi okkar núna. Ástæðurnar geta verið ýmsar: Löng barátta við erfiðan sjúkdóm, atvinnuleysi og torgeng atvinnuleit o.fl. eins og ég hef orðað áðan. Fólki getur liðið illa og verið leitt og fundist Guð hafa yfirgefið sig. Eða fólk getur talið að það skipti sig engu máli jafnvel þó það trúi á Guð.

Þetta er nákvæmlega sama staða og atvinnulausir verkamenn í guðspjalli dagsins. Í dæmisögunni segja verkamennirnir:
,,Enginn hefur ráðið okkur“ (Mat.20:7). Við eigum engan meistara. Enginn þarfnast okkar. Við vorum yfirgefnir. Við erum orðnir„engir“. Svona er yfirgefin/n- tilfinning.

Slík tilfinning er mjög mannleg og skiljanleg. Við skulum ekki sakast við neinn ef fólk fær svona tilfinningu í erfiðum aðstæðum. „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“(Mt.27:46) Jesús leyfir það að við segjum það í glímu við erfiðleika.

Engu að síður er þarna ákveðinn misskilningur til staðar og hann er tengdur hugmyndinni um„almáttuga Guð“. Við hugsum venjulega jafnvel ómeðvitað að Guð sé almáttugur og geti gert hvað sem er. Þess vegna, þegar við erum í andstreymi lífsins lengi, telja sumir að Guð vanræki þá eða refsi þeim. Þegar náttúruhamfarir eiga sér stað, segja alltaf einhverjir: „Af hverju lætur Guð þetta gerast?“

En við þurfum að viðurkenna þetta vel að sú staðreynd að Guð er almáttugur þýðir ekki beint að Guð stjórni öllum fyrirbærum í heiminum eins og hann sé að tefla og jörðin sé stórt skákborð. Sem manneskjur verðum við að standa á þeirri forsendu að við eigum að lifa lífi okkar í þessum heimi þar sem raunveruleikinn getur verið harður oftar en stundum.

Trú á Guð leiðir okkur ekki í líf þar sem engir erfiðleikar eru til staðar, heldur tryggir trúin okkur það að við týnum ekki merkingu lífsins, verðmæti lífsins og virðuleika manneskju, jafnvel þótt í erfiðleikum sé. Því jafnvel ef við mætum erfiðum tímum, þýðir það alls ekki að Guð hefur hætt að elska okkur eða yfirgefið.

6.
Hvernig hjálpar Guð okkur þá þegar við eigum í erfiðleikum og hvert leiðir Guð okkur? Ég ætla ekki að neita kraftaverki. En við getum ekki treyst eingöngu á kraftaverk, af því að kraftaverk kemur bara óvænt. Hjálp Guðs og leiðbeining verða að koma á áreiðanlegri hátt. Áreiðanlegasta hjálpartækið frá Guði er t.d. við sjálf.

Við söfnumst saman reglulega í kirkjuhúsið, hlustum á ritningarlestur, fáum okkur Guðs orð, þiggjum líkama Krists og blóð í sátt við Guð föður. Þá er safnaður og sérhver okkar ekki áreiðanlegastur hlutur þar sem kærleikur Guðs og umhyggja útfyllast?

Að sjálfsögðu, erum við öll syndarar sem einstaklingar og við erum öll með eigin galla. En samt segir Jesús: ,,Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður“(Jóh.15:16). Guð notar okkur sem færi til þess að kærleikur og umhyggja berast til fólks sem situr í myrkri.

Þegar ég fer í heimsókn til hælisleitenda, taka þeir jafnan hlýlega á móti okkur heimsóknarvinum. Raunar getum við heimsóknarvinir ekki gert neitt sem varðar hælismál þeirra sjálf. Engu að siður gleðjast þeir þegar við komum, þar sem margir þeirra halda að þeir hafa verið yfirgefnir af öllum í samfélagi.

Þetta er bara lítið dæmi, en við megum ekki vanmeta hlutverk okkar sjálfra. Þó að við séum litlar manneskjur með ýmsa galla, er málið kærleikur og umhyggja sem Guð lætur okkur bera með okkur.

Í dæmisögu dagsins, fór eigandi víngarðsins á torgið fimm sinnum á dag. Af hverju? Af því að eigandinn vildi finna atvinnulausan mann og ráða hann. Hann var að fylgjast með atvinnulausum mönnum á sínu svæði. Þetta er dæmi um hvernig Guð elskar okkur. Guð fylgist stöðugt með okkur og lætur kærleik sinn streyma til okkar. En gleymum ekki, við erum hluti af endalausu kærleiksstreymi Guðs.

Ef við gleymum hlutverki okkar og hættum að hugsa til fólks í erfiðleikum, þá stöðvast kærleiksstreymið hjá okkur. Guði þóknast það ekki. Jesús Kristur, okkar Drottinn, gekk aldrei á auðveldan veg á jörðinni. Það var vegna þess að Jesús elskar okkur svo mikið alla tíð og sýnir okkur fram að erfiðleikar geta ekki skilið okkur frá elsku sinni.
Við förum að ganga í föstu bráðum. Í upphafi föstunnar staðfestum við einu sinni enn að við erum öll elskuð mikið og jafnt af Guði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3869.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar