Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Davíð Þór Jónsson

Betlehem er víða

2. febrúar 2014

Hvers væntir Guð af mér?

Þetta er spurning sem allir, sem á annað borð trúa á tilvist einhvers konar Guðs, hljóta að velta fyrir sér. Og fyrir þá sem játa kristna trú er þessari spurningu í grundvallaratriðum tiltölulega auðsvarað. Okkur hefur verið sagt það. Spámaðurinn Míka sagði á sínum tíma:

„Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ (Míka 6.8)

En þetta einfalda boð hefur reynst kristnum mönnum ansi strembið í gegn um tíðina – ekki síst þetta með hógværðina.

Jújú, vissulega má benda á fyrirmæli í lögum Gyðinga frá bronsöld sem í dag yrðu aðeins flokkuð sem svívirðileg mannréttindabrot og finna má í ýmsum ritum Gamla testamentisins. Og það þarf ekki mjög sögufróðan einstakling til að sjá dæmi þess að kristindómurinn hafi verið notaður til að réttlæta ýmsa fáheyrða ósvinnu. Reyndar er erfitt, ef ekki ógjörningur, að finna nokkra hugmyndafræði sem valdasjúkir einstaklingar hafa ekki einhvern tímann misnotað í svívirðilegum tilgangi.

En það er þetta með hógværðina. Allt of oft verður maður var við að kristnir menn líti á trúfélagsaðild sína eina og sér sem einhvers konar siðferðilegt heilbrigðisvottorð, án nokkurs tillits til þess sem þeir aðhafast í orðum og gjörðum. Það hefur jafnvel heyrst gefið í skyn að það eitt að hafa fermst, þ.e. svarið þess eið að ætla að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns – já, þetta er ekki orðalag sem notað er í heittrúarsamtökum heldur fermingareiður þeirra sem tilheyra vorri evangelísk lúthersku þjóðkirkju – að þessi eiður geri menn hæfari til að stýra þjóðum, burtséð frá því hvort þessi viðleitni hafi verið einlæg og sönn … eða yfirhöfuð til staðar.
Hvar er hógværðin í því?

Það eitt gerir auðvitað engan að betri manni eða hæfari þjóðarleiðtoga að játa Krist með vörunum.

Í lexíunni sendir spámaðurinn Jesaja hræsnurunum skilaboð frá Guði sem ekki er hægt að misskilja og umorða má sem svo: „Ég hef ógeð á bænakvaki ykkar og helgisiðum ef hendur ykkar eru ataðar blóði.“ Hinn sanna tilbeiðsla birtist sem sagt ekki í því hve vel við rækjum helgisiði okkar og hátíðir heldur í því hvernig við komum fram hvert við annað þess á milli. Jesús segir í guðspjallstextanum sem lesinn var áðan: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

Ekki svo að skilja að Jesús sé á móti helgisiðum og bænahaldi, en hann segir: „ … þegar þér biðjist fyrir þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til þess að menn sjái þá.“ (Matt 6.5)

Hvar er Betlehem?

Nú fyrir jólin birtist grein á netinu sem vakti nokkra athygli. Þar var þeirri staðreynd haldið á lofti að jólaguðspjallið sé sennilega í öllum nútímaskilningi helber skáldskapur. Það bendir nefnilega ekkert til þess að neitt boð af því tagi að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina hafi komið frá Ágústusi keisara um þær mundir þegar Jesús frá Nasaret fæddist. Ótrúlega mörgum þótti undrum sæta að Lúkasarguðspjall, sem sennilega var ritað einhvern tímann á tímabilinu 80 – 120 e. Kr., skyldi ekki tilheyra þeirri tegund bókmennta sem við getum kallað akademíska sagnfræði og leit dagsins ljós í upphafi nítjándu aldar okkar tímatals eða um það bil átjánhundruð árum síðar, heldur sé það svokallað helgirit. Fólki sem fylgst hefur með vitrænni guðfræðiumræðu síðastliðinna þriggja til fjögurra alda var aftur á móti ekki sérlega brugðið við þessa opinberun.

Frásögn Lúkasar af fæðingu Jesú er auðvitað ekki um landafræði. Hún er ekki um nákvæma GPS staðsetningu Maríu Jóakimsdóttur á yfirborði reikistjörnunnar þegar hún varð léttari að Jesú Jósefssyni. Hún er um það hvar í samfélaginu Guð birtist mönnum. Og í þeim skilningi er hún heilagur sannleikur. Guð birtist mönnum í líki fátæks barns sem fæðist í heiminn í gripahúsi og þeim lægst settu, þeim útskúfuðu og smáðu er fært fagnaðarerindið: Frelsari er fæddur. Það eru þeir nafnlausu sem fá fréttirnar, ekki hinir nafngreindu:

Ágústus keisari eða Kýreneus landstjóri. Og Matteus guðspjallamaður bætir um betur og segir frá pólitískum ofsóknum Heródesar sem Jósef og María þurftu að flýja til Egyptalands með hvítvoðunginn. Þar birtist Guð okkur ekki bara sem allslaust barn fætt í gripahúsi, heldur sem landflótta hælisleitandi, upp á náð og miskunn manna kominn.

Frásögn Lúkasar þjónar þeim tilgangi að tengja Jesú við messíasarspádóm Míka: „En þú, Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael.“ (Míka 5.1) Míka ofbauð spillingin hjá valdastéttinni í Jerúsalem. Hinn nýji frelsari sem innleiða myndi nýja gullöld fyrir lýð Guðs, hinn nýi Davíð konungur, gat ekki komið þaðan – hann hlaut að koma frá smáþorpinu sem Davíð konungur hafði komið frá á sínum tíma.

Lúkasarguðspjall segir sömu sögu: Guð birtist okkur ekki sem einn hinna innmúruðu í valdaklíkunni heldur sem einn okkar minnstu bræðra. Guð birtist okkur ekki í konungshöllinni eða musterinu heldur í gripahúsinu þar sem við geymum þá sem ekki er pláss fyrir.
Betlehem er víða.

„Gestur var ég og þér hýstuð mig,“ segir Jesús í guðspjallinu. En hér bjagar þýðingin hina raunverulegu merkingu. Orðið sem hér er þýtt „gestur“ er á grísku „xenos“. Það merkir eiginlega „útlendingur“. Þetta orð þekkjum við kannski best sem fyrri hluta alþjóðlega hugtaksins „xenophobia“, útlendingahatur. Og hvaða útlendingar skyldu nú hafa verið að beiðast hýsingar fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir tvöþúsund árum? Puttaferðalangar? Bakpokalýður að skoða heiminn? Túristar með fulla vasa af gjaldeyri?

Nei.

Þetta var fátækt, allslaust og hrjáð fólk sem hrakist hafði frá heimalöndum sínum vegna styrjalda, hungursneyðar eða pólitískra ofsókna; fólk sem flúið hafði óbærilegt ástand heima fyrir út í óvissuna til að bjarga lífi sínu og barna sinna.

Þetta fólk er enn á meðal okkar. Það er enn á flótta og beiðist hýsingar. Við köllum það aftur á móti ekki „gesti“. Okkur finnst það sennilega of vinalegt. Það gerir of miklar kröfur til okkar að líta á það sem gesti. Við köllum það „hælisleitendur“. Og við höfum ekki pláss fyrir það núna frekar en fyrir tvöþúsund árum, jafnvel þótt við játum Jesú Krist með vörunum, þann sama Jesú Krist og sagði:

„Hælisleitandi var ég og þið veittuð mér hæli“ svo ég nútímavæði þýðinguna aðeins og geri merkinguna skýrari.

Betlehem er víða.
Allt of víða.

Við höfum okkar eigið Betlehem hér á Íslandi. Það er í Keflavík. Við köllum það Gistiheimilið Fit. Þar geymum við þá sem ekki er pláss fyrir þangað til við getum losað okkur við þá.

Að þekkja Jesú

Í Jóhannesarguðspjalli er sagt frá því þegar Jóhannes skírari sér Jesú í fyrsta sinn. Hann ber strax kennsl á hann og segir: „Sjá Guðs lamb sem ber synd heimsins.“ (Jóh 1.29)

Það er gott að þekkja Jesú.

Það er ekki eins gott að hrópa í sífellu „Þarna er Kristur! Þarna er Kristur!“ og benda á hin ýmsu musteri og hallir nútímans en láta eins og Betlehem sé ekki til. Jesús sá það fyrir. „Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur, eða: Þar, þá trúið því ekki.“ (Matt 24.23//Mark 13.21) segir hann. Við skyldum því alltaf gjalda varhuga við því þegar hinir innmúruðu stíga út úr musteri valdsins til að segja okkur hinum hvar Krist sé að finna, ekki síst þegar það er gert á samkundum til að menn sjái þá … í fjölmiðlum.
Það þarf til dæmis ekkert að fletta blöðunum lengi eða fylgjast mjög vel með fréttum til að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvort meiri þörf sé á fræðslu um grundvallaratriði kristilegs hugarfars og kristins siðferðis í skólakerfinu eða í innanríkisráðuneytinu, jafnvel þótt ráðherrann sjái ástæðu til að nýta ávarp á kirkjuþingi til að leggja áherslu á hvað aðrir en hún sjálf þurfi mikið á kristilegri innrætingu að halda.

Það er nefnilega þetta með hógværðina.

Hýstum við Tony Omos? Hýstum við Edward Snowden? Hýstum við …

Hér gæti nafnalistinn verið svo langur að það er skömm að því.

Og við köllum okkur kristna þjóð.

Hvernig væri að spyrðum okkur sjálf: Eru trúarsamkundur okkar merkingarlaus leikrit þar sem við komum saman og lofum Guð með vörunum, en höfum svo rétt til að fara úr karakter um leið og tjöldin eru dregin fyrir, sniðganga hina hungruðu og þyrstu, reka hælisleitendur úr landi og ganga á rétt munaðarleysingjans og ekkjunnar eins og okkur lystir, bara ef við erum mætt í búningunum okkar í tæka tíð fyrir næstu sýningu og munum textann okkar?

Og ef okkur líður illa með svarið, þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvað ætla ég að gera í því?

Kristindómurinn er í því fólgin hvernig við komum fram við minnstu bræður Jesú Krists, ekki í trúfélagaskráningunni okkar hjá Hagstofunni eða löguninni á skartgripnum sem við kunnum að bera um hálsinn. Það gerir engan að kristinni manneskju að tala um mikilvægi kristnifræðslukennslu í skólum út um annað munnvikið og dreifa óhróðri út um hitt.

Í vinfengi við glæpamenn

Þetta er mannréttindamessa. Og mannréttindi eru ekki bara eitthvað sem vondir menn eru að brjóta á í útlöndum. Mannréttindi eru skýrt skilgreind réttindi sem hver manneskja nýtur án tillits til „kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna“ svo vitnað sé í 2. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þar er margt áhugavert að finna, t.a.m. 14. greinina þar sem segir: „Allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“

Mannréttindi og mannréttindabrot eru nær okkur en við höldum.

Nítjánda grein mannréttindayfirlýsingarinnar kveður á um „frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“

Þetta veit kínversk alþýða til dæmis ekki vegna þess að frá Kína er ekki hægt að nálgast vefsíður með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, t.d. er lokað á aðgang að öllum heimasíðum landsdeilda Amnesty International. Samt er Alþingi Íslendinga með miklum meirihluta nýbúið að samþykkja fríverslunarsamning við fjöldamorðingjana frá Torgi hins himneska friðar, þjóðarmorðingjana frá Tíbet, á sama tíma og stjórnvöld berjast hatrammlega gegn þátttöku okkar í bandalagi þeirra þjóða sem fremst standa í heiminum á sviði mannréttinda, grannríkja okkar í Evrópu. Það væri kannski ástæða til að spyrja ráðamenn okkar út í þetta um leið og þeir koma heim frá Sochi, borginni þar sem enga samkynhneigða er að finna samkvæmt borgarstjóranum – enda varðar slík kynhneigð við lög þar í landi.

Auðvitað er það sjónarmið gott og gilt að við eigum að hafa samskipti við aðrar þjóðir, þeir valdhafar eru vandfundnir sem hafa tandurhreinan skjöld þegar kemur að mannréttindum. Hvernig eigum við að koma sjónarmiðum okkar að ef við neitum að tala við fólk?
En spyrjum á móti: Erum við að því?

Erum við að umgangast glæpamenn til að hafa góð áhrif á þá eða erum við að hjala við þá í mesta bróðerni í kokteilboðum af því að okkur er upphefð að vinfengi þeirra, af því að það er svo gaman í útlöndum, af því að það er góður bisnes að vera vinur Pútíns og Kína?
Hver er þá að hafa hvernig áhrif á hvern?

Er samviskan föl?

Hvað er sanngjarnt verð fyrir eina samvisku?

Hættan sem steðjar að kristindómnum

Margir hafa áhyggjur af því að ógn steðji að kristindómnum, hann kunni jafnvel að líða undir lok. Og vissulega steðjar ógn að kristindómnum. En hún er ekki í því fólgin að sífellt fleiri skuli nýta sér þau mannréttindi, sem tryggð eru í 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, að mega skipta um trú eða sannfæringu.

Vefsíðan Vantru.is ekki í þann mund að fara að ganga af kristindómnum dauðum, þótt margir kirkjunnar menni sjái ástæðu til að verja ótrúlega miklum tíma og orku í það vonlausa verkefni að reyna að tala um fyrir aðstandendum hennar. Kristindómnum stafar engin hætta af borgaralegum athöfnum Siðmenntar við ýmis hátíðleg tækifæri í lífi félaga sinna.

Nær væri að við, sem viljum játa kristna trú, spyrðum okkur sjálf: Af hverju sjá sífellt fleiri vel gefnir og hugsandi einstaklingar ástæðu til að leggja lykkju á leið sína til að tilheyra ekki hópi okkar? Hvað er það sem fælir þá frá? Er það ofstæki og heimska ofsatrúarfólks sem jafnvel gengur svo langt að hafna þróunarkenningunni sem trúvillu og hefur bitið í sig handvalin fyrirmæli úr Gamla testamentinu sem varða við sjálfsögð mannréttindi? Er það undirlægjuháttur kirkjunnar við siðlausa valdastétt? Erum við svona leiðinleg?
Varla er það boðskapurinn um kærleika og frið.

Er það kannski vegna þess að framferði okkar bendir til þess að boðskapurinn um kærleika og frið sé lítið annað en merkingarlaust orðagjálfur sem við skreytum okkur með á sunnudögum og á stórhátíðum á milli þess sem við síðan virðumst þegja þunnu hljóði um óréttlætið sem dafnar mitt á meðal okkar?

Þurfum við að hafa hærra um það sem við þó gerum vel – þó þannig að ítrustu hógværðar sé gætt? Þurfum við að gera ráðstafanir til að tryggja að enginn sem talar í nafni trúarinnar segi nokkurn tímann neitt vanhugsað eða heimskulegt, án þess þó að skerða tjáningarfrelsi þeirra?

Er það hægt?

Þarf kannski að rífa kirkjuna undan oki valdhafa til að hún finni hjá sér kjark til að segja þeim til syndanna? Enginn glefsar í höndina sem fæðir hann.

Óvinurinn er ekki þarna úti. Hann er mitt á meðal okkar.

Hættan sem steðjar að kristindómnum er að hann leysist upp í merkingarlausa tilgerð, að hann verði umbúðir án innihalds, að hann verði ekkert annað en athafnir og leiktexti, fánýti og viðurstyggð í augum Drottins, svo notað sé orðfæri Jesaja spámanns.
Hættan sem steðjar að kristindómnum er sú að Heródes er að leika Jóhannes skírara á meðan kirkjan stendur álengdar og klappar fyrir skrípalátunum.

Kristindómnum stafar engin hætta af þeim sem hafa hafnað honum með vörunum – en ganga erinda frelsis og kærleika … mannréttinda.

Honum stafar hætta af þeim sem játa hann með vörunum en koma óorði á hann með athöfnum sínum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.
Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2661.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar