Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Grétar Sigurðsson

Lífsins taug

12. janúar 2014

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Einu sinni var maður sem bjó í djúpum dal sem var dimmur því sólarljósið náði aldrei þangað niður. Hann hélt að lífið væri bara svona og ætti alltaf að vera svona. Einn daginn gekk hann meðfram klettaveggnum sem umlauk dalinn og sá gúmmíslöngu hangandi. Þar var skilti sem á stóð „komdu upp á klettinn og þar sérðu ljósið“. Ljósið, hugsaði maðurinn. Hvað er ljós? spurði hann sig. Ég þarf ekkert ljós, það getur nú varla verið. En forvitni mannsins dró hann aftur að slöngunni og hann byrjaði að klifra upp klettavegginn. Hann komst ofar og ofar en skildi nú ekkert í því sem hann var að gera. Hvaða tilgangur er með þessu. Ég finn enga breytingu. En því ofar sem dró því meiri birtu varð hann var við. En hann sá einnig lengra, hann fór að sjá yfir lægri klettaveggina. Við honum blasti fegurð, hann fylltist nýrri tilfinningu sem hann þekkti ekki. Á endanum náði hann upp á klettinn og stóð þá á mikilli sléttu sem var þakin gróðri, þar var fegurri sýn en hann hafði ímyndað sér að hann gæti nokkurntíman séð. Slangan, sem hann notaði til að klifra upp var tryggilega fest í stóran steinkassa sem stóð við brúnina. Nálægt var fullt af fólki, þar voru dýr, þar var gleði og þar var sorg. Fólk hló, fólk grét, sumir hjálpuðu öðrum, aðrir nutu hjálpar. Hann sá byggingar, hann sá víðáttu, hann sá þrengsli. Hann kallaði til konu sem þar var nærri. „Hvað er þetta eiginlega?“ Konan svaraði: „Þetta er lífið eins og það er með gleði sinni og sorgum.“ „Hvernig varð þetta allt svona?“ spurði maðurinn. „Guð gaf okkur þetta allt“ sagði konan. „Hvernig þá?“ spurði maðurinn. Jú, sjáðu til. Komst þú ekki upp slönguna? Jú, svaraði maðurinn. Þannig komum við öll hingað, sagði konan. Við fengum þennan stað að gjöf. Við getum gert það sem okkur sýnist. Jahá, sagði maðurinn hugsi. Er gott að geta gert það sem manni sýnist, spurði hann. Konan svaraði: Já, ef manni sýnist það góða.

Passaðu bara vel uppá slönguna sem þú komst upp. Hún þarf að vera á sínum stað. Maðurinn fór nú að koma sér fyrir og búa sig undir þátttöku í þessu samfélagi. Honum leist mjög vel á og undi sér vel. Honum fannst þó þessi steinkassi og slanga þvælast fyrir sér. Þetta passaði einhvern veginn ekki inn í heildarmyndina. Hann ákvað því að höggva á slönguna. Það tæki örugglega enginn eftir því.
Nokkrum vikum síðar tók hann eftir því að fólkið var eitthvað svo dauft. Gróðurinn var tekinn að fölna og allt varð einhvernveginn svo líflaust. Konan, sem hann hafði hitt áður, kom til hans og spurði. Er slangan ekki örugglega á sínum stað? Uhh, nei, sagði maðurinn. Hún var fyrir mér. Konan sagði. Hvað varstu að hugsa maður. Þetta var vatnslögnin okkar. Þetta var forsenda þess að við gætum lifað á þessum stað. Þetta var líflínan okkar og haldreypi. Við gátum alltaf klifrað upp slönguna ef við duttum niður í dimma dalinn og í gegnum slönguna fengum við allt það vatns sem við þurftum til að drekka og vökva jörðina.
Hvað á þessi saga að benda okkur á?

Tökum við ekki hlutunum stundum sem sjálfsögðum? Lítum við ekki allt of oft á það sem sjálfsagt mál að búa í friðsömu samfélagi, að njóta menntunar, að hafa aðgang að heilbrigðiskerfi. Við finnum á umræðunni að gott heilbrigðiskerfi er ekki sjálfsagt og gengur ekki af sjálfu sér.

Samfélag okkar

Við tölum oft um að íslenskt samfélag byggi á kristnum gildum. Hvað felst í því? Geta menn ekki verið góðir við náungann þó þeir séu ekki kristnir? Jú, vitaskuld. En er eitthvað í hinum kristna arfi okkar sem hefur haft áhrif á hugsanahátt samfélagins. Af hverju finnst okkur sjálfsagt að hugsa um þarfir náungans? Af hverju reiðumst við þegar einhver er beittur ranglæti og kúgun? Af hverju finnst okkur sjálfsagt að sjúkir fái viðeigandi læknisaðstoð á ríkisreknum spítala? E.t.v. er svarið á þá leið að við höfum verið alin upp við þetta. Okkur hefur verið kennt það frá æsku. Hvernig tengist þetta kristinni trú? Jú. Við sjáum það glögglega að samfélög sem byggja á kristnum gildum eiga þetta býsna mikið sameiginlegt. Og skera sig á margan hátt úr hvað þetta varðar. Frumstæð samfélög þar sem kristni er að breiðast út sýna mjög fljótt þessi merki um samhjálp, áherslu á að mennta börnin og hlúa að heilsufari allra. Það er samofið kristninni að láta sér annt um náungann og leita leiða til að bæta aðstæður sínar.

Samhjálp

Þegar ég les fréttir af fólki hér og þar í samfélaginu sem bregst við tilteknum neyðaraðstæðum náungans með því að hjálpa, þegar fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar ljá góðum málefnum lið sem hafa það að markmiði að auðvelda líf einhverra annarra, þegar félög færa landspítalanum tækjabúnað að gjöf, þegar heilt samfélag verður bleikt í einn mánuð til að minna á bleiku slaufuna, þegar fólk í sínum daglegu störfum leggur sig fram um að þjóna náunganum sem best hvort sem maður er kennari, læknir, bifvélavirki, sjómaður eða bóndi, þá finnst mér ég sjá kirkju Krists að störfum. Við erum öll þátttakendur í samfélaginu og með einum eða öðrum hætti erum við að þjóna hvert öðru. Heiðarlegt fólk leggur metnað sinn í það að gera vel, mæta þörfum náungans eins og best verður á kosið, nýtir hæfileika sína, vöggugjafir og oft á tíðum menntun til að bæta þannig samfélagið sem það byggir. Við sjáum stjórnmálamenn af báðum kynjum, á alþingi og í sveitastjórnum. Flestir þessara einstaklinga eru drifnir áfram af þeirri hugsjón að bæta samfélag okkar, sama hvar í flokki menn standa. Sumir eru eldhugar, brautryðjendur, hugsuðir, framkvæmdafólk og allt þar á milli. Samfélagið hefur þörf fyrir okkur öll eins og ólík tannhjól í klukkuverki.

Ég sé kirkju Krists að störfum. Samfélag sem á sér djúpar rætur í kristinni arfleifð. En kristin trú er ekki fortíð. Hún er nútíð. Að líta á allt líf sem höfundarverk Guðs er nútíð og í fullu gildi.

Mér finnst alltaf jafn ánægjulegt að ræða við foreldra við undirbúning skírna. Við höfum sjáfsagt öll verið viðstödd skírn einhvern tíman en við munum fæst eftir okkar eigin skírn. Ég minni foreldra á að það að bera barnið sitt til skírnar er þeirra val og með því eru þau að taka á sig þær skyldur að ala barnið upp í Guðs trú og góðum siðum, foreldrarir eru að senda þau skilaboð út í umhverfið að þau vilji að heimili þeirra byggi á kristnum gildum. Ungbarnaskírnin minnir líka á það að Guð elskar okkar áður en við höfum forsendur til að elska Guð.

Á Íslandi er ekkert mál að byggja heimili sitt á kristnum gildum. Það eru fáir ofsóttir fyrir kristna trú sína á Íslandi. Af hverju er auðvelt að byggja heimili sitt á kristnum gildum? Jú, vegna þess að íslenskt samfélag er mjög mótað af kristnum gildum. Og það er vegna þess að þannig hefur fólk viljað hafa það. En það gerist ekki af sjálfu sér. Þess vegna þarf að standa vörð um þau gildi. Leggja rækt við trúna, miðla henni milli kynslóða, uppfræða. Allt þetta krefst athafna af okkur, að kenna börnum bænir og bænavers, að ræða við þau um gildismat og það af hverju eitthvað er rangt og annað er rétt. Að segja þeim frá elskandi Guði sem elskar alla menn. Á hverju byggir það gildismat? Er til eitthvað hlutlaust gildismat? Ég segi nei. Hlutleysi er ekki til. Við hljótum alltaf að þurfa að hafa eitthvað viðmið og ekki spillir fyrir að það viðmið hafi staðist tímans tönn og að reynslan af því viðmiði sé góð. Trúin er það viðmið, sú undirstaða, það bjarg sem við getum byggt á.

Gott samfélag er eins og fallegt pottablóm. Til að blómið haldi fegurð sinni þarf það að vera í frjósamri mold, hafa góðar rætur og fá reglulega vökvun. Ef við hins vegar klippum blómið frá rótum sínum og setjum það í vasa með vatni, þá sjáum við engan mun á blóminu …. fyrst um sinn. En eftir viku eða tíu daga er ég hræddur um að blómið sem klippt var myndi fölna, líkt og gerðist í sögunni hér í upphafi. Sömu áhyggjur hef ég af samfélagi okkar ef sú staða kemur upp að við myndum klippa á þær rætur sem reynst hafa okkur svo vel. Við myndum e.t.v. ekki sjá neinn mun fyrst um sinn en fljótlega færu hlutirnir að breytast, gildismat myndi sveiflast eftir því sem hrópað er hæst á hverjum tíma og sameiginleg grunnundirstaða gæti molnað. Ég óttast að orð Þorgeirs ljósvetningagoða gætu orðið að veruleika er hann sagði „ ef við slítum sundur siðinn, þá slítum við sundur friðinn“.

Gott dæmi um þá viðleitni að draga úr kristnum áhrifum er sú ákvörðun að banna Gideonmönnum að afhenda 10 ára börnum Nýja testamentið á skólatíma í grunnskólum Reykjavíkur. Það er í raun með ólíkindum að þetta skuli hafa gerst eftir áratuga farsælt samstarf Gideonfélagsins við skólana. Hvernig stendur á því að ekki má dreifa N.t. í grunnskólum Reykjavíkur? Hvernig stendur á því að kristnir foreldrar létu ekki heyra hærra í sér þegar svona ákvörðun var tekin. Erum við ekki öll í sama liði sem byggjum þetta land? Hvort sem við erum trúuð eða ekki? Er það ekki vilji okkar allra að bæta samfélagið, efla siðgæðisvitund og ala börnin okkar upp í kærleika hvert til annars? Hvers vegna í ósköpunum má þá ekki lengur afhenda börnum útbreiddustu bók allra tíma á skólatíma í Reykjavík? Hvað vakir fyrir Gideonmönnum annað en að bæta samfélagið okkar með því að dreifa Guðs orði? Ég held að við ættum að velta þessari staðreynd fyrir okkur og fylgjast með hver rökstuðningurinn verður næst.

Guðspjallið, sem ég las áðan, hvetur okkur til athafna. Það fjallar um að það sé ekki nóg að hafa góðan ásetning, heldur að það skipti meira máli að framkvæma. Sagan er einföld dæmisaga þar sem faðrinn táknar Guð, víngarðurinn táknar í raun lífið sjálft, heiminn, og við mennirnir líkjumst öðrum hvorum syninum. Annað hvort líkjumst við þeim sem nennti ekki að hlýða boði föðurins en sá sig um hönd og kom sér að verki eða við líkjumst þeim sem sagðist ætla að mæta til starfa en fór hvergi.

Með þetta í farteskinu erum við hvött til að ganga til sérhverrar þjónustu með gleði, minnug þess að við erum hluti af heild. Allir menn eru skapaðir í Guðs mynd. Öll erum við elskuð af Guði og vilji Guðs með okkur er sá að við elskum hvert annað og þjónum hvert öðru í kærleika.

Þannig vil ég að við stöndum vörð um samfélag okkar, stöndum vörð um þessi grunngildi og rætur þeirra. Týnum okkur ekki í sjálfhverfunni heldur horfum í kringum okkur, hrósum, hvetjum, styðjum og njótum. Við erum drifin áfram af kærleika Krists sem kallar okkur til góðra verka. Páll postuli segir í Filippíbréfinu „Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.“ Síðan segir Páll í Kólossubréfinu „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.“ Hugsið ykkur ef við myndum öll hafa þetta hugarfar við störf, á heimilum okkar og í raun hvar sem við erum og hvernig sem aðstæður okkar eru. Við erum aldrei ein á ferð, við njótum samfélags við sjálfan höfund lífsins, Guð. Við eigum því ekki að þurfa að fela Guð eða loka hann ofan í kassa.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Meðtakið postullega blessun. Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hugsanir ykkar og hjörtu í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.

Útvarpspredikun í Útskálakirkju 13. Október 2013. Messu útvarpað þann 12. janúar 2014 vegna tæknibilunar þann 13. okt. 2013.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1983.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar