Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Myrkrið hopar

24. desember 2013

Predikun í Eiðakirkju á jólanótt 2013

I.
Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Jólin eru komin. Þau eru komin til okkar.
Í miðju vetrarmyrkrinu og hríðarbylnum skín ljós Drottins við okkur á þessari hátíð, því að Kristur er fæddur.
Myrkrið og sortinn hopar við fæðingu hans, sem er kominn til að miðla birtu og yl frá himinhæðum.
Jólin eru komin. Já, Guð er kominn til okkar.

II.
Þetta var dimm og svöl nótt í haganum nærri Betlehem. Myrkrið var löngu skollið á, þétt eins og svartur veggur. Enginn snjór lýsti það upp, enginn kertalogi og hvað þá rafmagnsperur! Eflaust hafa þó hjarðmennirnir, sem skiptust á um að vaka og gæta að fé sínu, kveikt eld til að orna sér við og geta glitt í skepnurnar. Hætturnar gátu verið margar á þessum slóðum, rándýrin leynst í koldimmu myrkrinu og starf hjarðmannsins var örugglega ekki alltaf öfundsvert. En návistin við dýrin var þó gefandi og ylurinn vel þeginn, sem þau veittu þreyttum fjárhirðum.

Þessar aðstæður voru ekki á neinn hátt sérstakar eða eftirtektarverðar.

Þær voru ósköp hversdagslegar á þessum stað, Betlehemsvöllum. Og á nákvæmlega sömu stundu á þúsund öðrum stöðum í heiminum voru þúsund aðrir fátækir menn að gæta og sinna sínum dýrum, rétt eins og þúsund nætur þar á undan og þúsund nætur þar á eftir.

En skyndilega breyttist allt. Náttmyrkrið vék fyrir ljóma Drottins. Ljósið frá sendiboðum Guðs fyllti allt umhverfið. Hjarðmennirnir og skepnurnar þeirra hrukku í kút um leið og þeim voru fyrstum allra fluttar gleðifréttirnar, sem áttu eftir að berast um alla heimsbyggðina:
Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, Kristur sem ungbarn í reifum og lagt í jötu.

Allur himinninn fylltist af dýrð Guðs og lofsöng englanna.

Kannski getum við gert okkur í hugarlund tilfinningar hirðanna á þessari stundu. Ætli þeir séu ekki ruglaðir og í uppnámi? En samt eru þeir fyrst og fremst glaðir, snertir og fylltir af anda Guðs segja þeir hver við annan: Förum beint til Betlehem til að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.

III.
Hvers vegna voru einmitt þessir menn valdir til að upplifa fyrstir allra dýrð jólanna? Hvers vegna fengu þeir að vera fulltrúar allra kristinna manna við jötuna í Betlehem?

Við því eru sennilega engin svör. Guð mætir okkur oft þar sem við eigum síst af öllu von á honum.

En það sem er í mínum huga sérstakast við hirðana, er einmitt þetta:
Það er ekkert sérstakt við þá!

Hirðarnir eru blátt áfram nauðavenjulegir menn að sinna ennþá venjulegri verkum, því sem þeir þurftu að gera til að draga fram lífið og sinna skyldum sínum, eins og alla aðra daga.

Hirðarnir með dýrin sín eru einfaldlega ég og þú, sem erum að reyna að standa okkur í lífinu á hverjum degi og sinna okkar skyldum, ég og þú þar sem við erum að basla við að mæta í vinnuna, eða fara í fjósið, skúra eldhúsið, borga reikningana, koma barninu í leikskólann á morgnana eða bara að gera allt hitt sem við nennum kannski ekki að hugsa svo mikið um á aðfangadagskvöld!

Og þar er Guð.

Guð mætir okkur þar sem við erum stödd í lífinu.

Ljósið skín okkur í myrkrinu á jólunum, vegna þess að Guð er ekki aðeins raunverulegur skapari heimsins; hann er lifandi og persónulegur Guð sem vill mæta okkur í Jesú Kristi og ganga við hlið okkar.

Vitið þið hvaða loforð Guðs kemur oftast fyrir í Biblíunni?
Það er einfaldlega þetta: Ég er með þér.
Ég er með þér.

Við erum ekki ein, aldrei ein, vegna þess að Drottinn hefur heitið að vera með okkur. Hann er trúfastur Guð sem stendur við fyrirheitin sín. Í Jesú Kristi hefur hann uppfyllt loforðið um nærveru sína. Og á hverjum degi uppfyllir hann þetta loforð þegar Kristur er hjá okkur í anda sínum.

Hirðarnir eru fulltrúar okkar allra við jötuna í Betlehem, okkar sem heyrum þessar fréttir um að Guð sé með okkur í fæðingu frelsarans og reynum að taka á móti þeim, þar sem við erum stödd, í vanmætti okkar.

IV.
Ljósið sem ljómaði við hirðunum á fyrstu jólunum skín einnig við okkur á þessum jólum.

Samt vitum við að jólin eru ekki öllum gleðitími.

Margir hafa upplifað að á jólunum virðist andstæðurnar í tilverunni skarpari og tilfinningarnar dýpri en aðra daga ársins. Fögnuðurinn yfir samveru við fjölskyldu og aðra ástvini verður ef til vill sterkari nú en ella og þakklætið innilegra fyrir það sem við höfum þegið úr Guðs hendi. Öll þekkjum við að samhugurinn og samstaðan með náunganum verður gjarnan ríkari um þetta leyti árs. En sorgin og söknuðurinn eftir þeim sem við höfum misst kann einnig að verða sárari á jólum en aðra daga og reiðin sömuleiðis bitrari yfir því, sem ekki varð eins og við kusum, eða yfir þeim minningum sem eru okkur óljúfar.

Og nú langar mig að trúa ykkur fyrir smá jólasögu af sjálfum mér. Fyrir nákvæmlega ári síðan stóð ég í eldhúsinu heima í hádeginu á aðfangadag og hrærði í möndlugrautnum í pottinum á milli þess sem ég skar niður rauðkálið fyrir kvöldið. Í útvarpinu ómuðu hádegisfréttirnar, sem flestar fjölluðu um strokufangann af Hrauninu sem þið munið kannski eftir að gaf sig fram á bóndabæ nóttina fyrir síðustu jól og okkur fannst sennilega öllum svolítið jólalegt og fallegt.

En svo kom þessi pínulitla og látlausa frétt úr störfum lögreglunnar á Þorláksmessukvöld, þar sem meðal annars kom fram að lítið barn hefði fundist eitt á þvælingi í miðborg Reykjavíkur þetta kvöld og barnaverndaryfirvöld hefðu þurft að hafa uppi á foreldrunum og aðstoða þetta barn. Og allt í einu stóð þessi ungi karlmaður við grautarpottinn sig að því, sem aldrei áður hafði gerst yfir fréttatíma, að það var kominn klumpur fyrir brjóstinu - klumpur, sem breyttist í kökk í hálsinum af því að hún hvolfdist yfir mig, tilhugsunin um þetta ókunnuga barn þarna fyrir sunnan, og líka öll hin börnin sem kannski myndu ekki fá að eiga gleðileg jól vegna þess að foreldrar þeirra væru að glíma við erfiðleika. Að lokum þurfti ungi karlmaðurinn að taka á honum stóra sínum til að möndlugrauturinn yrði ekki með tárabragði það árið!

Svona geta jólin gert mann skrýtinn og kallað fram í okkur djúpar tilfinningar. Þau minna okkur nefnilega á að lífið er hreint ekki alltaf eins og við myndum vilja hafa það.

En á sama tíma minna þau okkur á það sem öllu varðar:
Hvað sem gerist í lífinu, göngum við ekki ein. Guð er kominn til okkar í Jesú Kristi. Hann stendur við orðin sín og yfirgefur okkur ekki.
Hjarðmönnunum á Betlehemsvöllum hefur eflaust ekki alltaf þótt lífið auðvelt eða sanngjarnt. En ljósið, sem skein við þeim og skepnunum þeirra, það lýsir líka til okkar.

Hvað sungum við ekki áðan? Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós, og þeim, sem búa í landi náttmyrkranna, skín fögur birta.

Það er birtan af Guði, holdi klæddum - Guði, sem mætir okkur í hversdagsleikanum, mætir okkur í gleðiríkri samveru með ástvinum, en líka í reiðinni og tárunum, mætir okkur yfir möndlugrautnum og rauðkálinu og stendur við loforð sitt:
Ég er með þér.

Jólin eru að koma. Já, Guð er að koma til okkar.
Gleðileg jól í hans nafni. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1809.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar