Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Andri Bjarnason

Leitin að tilganginum

8. desember 2013

I.
Nýverið kynntist ég ungum manni sem lifir við takmarkanir sem flestum okkar eru framandi. Saga hans er merkileg og hann hefur gefið mér leyfi til að segja ykkur hana. Fyrir nokkrum árum varð þessi maður fyrir hræðilegu slysi og lamaðist fyrir neðan mitti. Að lenda í slíku er áfall fyrir allt fólk en fyrir ungan mann sem lifir fyrir ævintýraleg ferðalög og snjóbrettarennsli er það slíkt reiðarslag að lífið hættir að vera sjálfgefið — skyndilega verður andardrátturinn ekki jafn ósjálfráður og áður. Með tímanum hafa þessar breyttu aðstæður rænt unga manninn tilganginum í tilverunni. Og það er dauðans alvara.

II.
Frásagnir austurríska geðlæknisins Viktors Frankl úr útrýmingarbúðum nasista í seinni heimstyrjöld minna okkur á lífsnauðsyn tilgangsins. Þar segir af fólki sem lifði við verstu hugsanlegu aðstæður en tórði ef það átti sér tilgang. Þannig hafði einn fanginn sannfærst um að stríðinu myndi ljúka tiltekinn dag í marsmánuði. Hann virtist eflast með hverjum deginum sem leið en þegar umræddur dagur rann upp og ljóst var að stríðið stóð enn lagðist maðurinn í rúmið og dó. Vannæring og vosbúð höfðu þar eitthvað að segja en fyrst og fremst dó maðurinn úr tilgangsleysi.

III.
Ungi maðurinn sem ég sagði ykkur frá leitar nú að tilgangi. Við hittumst vikulega og ég geri mitt besta til að aðstoða hann við leitina. Það er nokkur áskorun; hér dugar skammt að beita skipulegri og vísindalega sannreyndri sálfræðimeðferð en gildir þeim mun meira að láta ekki fræðin og formið hamla leitinni. Fljótlega varð mér ljóst að þessi samvinna okkar myndi taka óvænta stefnu, því í samtali okkar bar trúmál á góma. Maðurinn sagðist vera trúaður og sagði mér sögu af atburði sem varð til þess að styrkja hann í trúnni.

Nokkrum árum fyrir slysið var maðurinn einn á ferðalagi í Rúmeníu. Hann var á gangi í borginni Constanta sem stendur við Svarta hafið og það var tekið að rökkva, nóttin nálgaðist. Peningalítill hafði hann ekki efni á gistingu og sá fram á að flækjast um borgina þar til nýr dagur rynni upp. Hann vissi vel að það gæti reynst hættulegt að vera einn á ferli að næturlægi í þessari borg en átti ekki annan kost. Hann var þreyttur, skeggjaður og skítugur.

Þar sem hann gekk meðfram fáfarinni götunni kom hann auga á rauðklædda konu sem gekk á móti honum, handan götunnar. Á því augnabliki sem þau voru í þann mund að ganga fram hjá hvort öðru litu þau bæði yfir götuna og augu þeirra mættust. Ungi maðurinn fann að þetta augnsamband var óvenjulegt. Hann gekk nokkur skref til viðbótar en skyndilega var þessi unga kona komin yfir götuna og gaf sig á tal við hann. Hún kunni álíka lítið í ensku og hann í rúmensku en tókst þó að gera sig skiljanlega. Hún benti upp í himininn og spurði: „Trúirðu?“ Hann jánkaði því, undrandi á svip. Þá spurði hún, eða öllu heldur staðhæfði: „Þig vantar gistingu.“ Furðu lostinn kinkaði hann kolli og feimnisleg brosvipra birtist á andliti konunnar. Hún gekk af stað og hann gat ekki annað en fylgt henni. Þau gengu dágóðan spöl uns þau staðnæmdust utan við drungalegt, háreist fjölbýlishús. Hún tók upp lykil, opnaði dyrnar og þau gengu inn fyrir. Þar blasti við niðurníddur stigagangur. Konan gekk á undan upp tröppurnar og hann heyrði hana tauta eitthvað fyrir munni sér. Hann áttaði sig samstundis á því að konan var að biðja; hún var hrædd og hún bað til guðs. Það rann upp fyrir manninum að það sem hún óttaðist var hann.

Þau komu loks upp á stigapall og konan opnaði dyr að íbúð sem var vart meira en meðalstórt herbergi. Hún bjó um manninn í rúminu sínu, bauð honum góða nótt en svaf sjálf í íbúð nágranna síns í sama húsi. Að morgni reis okkar maður úr rekkju, endurnærður og enn hálf ringlaður yfir atburðum gærkvöldsins. Konan gaf honum að borða, fylgdi honum á lestarstöðina og kvaddi hann þar. Þau hafa hvorki heyrst né sést síðan.

IV.
„Hvernig á ég að túlka þennan atburð öðruvísi en að þarna hafi guð verið að verki?“ spyr maðurinn. Mér verður orða vant. Kærleikurinn í sögunni er svo sláandi, svo hættulegur og fórnandi. Það er bara ekki fullnægjandi skýring að þarna hafi maðurinn verið heppinn og hitt á góða konu.
Ungi maðurinn á sína trú og í gegnum hana túlkar hann þennan merkilega atburð. Hann skilur hvað konunni gekk til; hún gerði það sem hún gerði vegna þess að hún sá tilganginn í kærleikanum og þessi tilgangur gerði henni kleift að yfirstíga óttann. Og hér opnast möguleiki: Getur þessi fórnandi kærleikur orðið að tilgangi unga mannsins? Getur hann fundið tilgang í sjálfum sér fyrir aðra? Hann gæti svo sannarlega lagt sitt af mörkum til rannsókna á mænuskaða og hefur raunar þegar náð merkilegum árangri í endurhæfingu sinni. Þann möguleika mætti kanna betur. Getur hann fundið tilgang í því að veita fólki innblástur? Það er sömuleiðis eitthvað sem mætti láta á reyna.

Kjarni máls er sá að trú þessa unga manns býður honum upp á nýjan lífsmöguleika: Að eignast tilgang sem er ofan við aðstæður hans. Fyrirmyndanna er ekki langt að leita. Við þekkjum öll ímynd Jesú Krists og gildir þá einu hvort við trúum því að hann sé sonur guðs eða ekki. Í Nýja testamentinu birtist hann sem kærleikurinn holdi klæddur. Hann var maður fyrir aðra og átti sér tilgang sem hóf hann upp fyrir erfiðar aðstæður og átakanlegan dauðdaga.

Ef það reynist of ögrandi að fara heil 2000 ár aftur í tímann í leit að fyrirmynd í þessum efnum þá mætti líta til Nelson Mandela sem kvaddi þennan heim fyrir nokkrum dögum. Hann sat í fangelsi í 27 ár en var í raun frjáls allan þann tíma — frjáls í þeirri merkingu að hann átti sér tilgang sem gerði hann frjálsan í vonlausum aðstæðum. Hvenær eru hlekkir fjötrar, er freistandi að spyrja.

Þessa dagana er ungi maðurinn af fullri alvöru að íhuga hvort hann geti haft þann tilgang að vera verkfæri Guðs til góðra hluta. Verði það sá tilgangur sem hann finnur sér er ég bjartsýnn á að tilvera hans muni glæðast litum að nýju.

V.
Kynni mín af unga manninum hafa kennt mér margt um eðli tilgangsins. Mér hefur orðið ljóst að ég get hvorki fundið né skapað tilgang fyrir þennan mann né nokkurn annan því tilgang verður hver að skapa og upplifa sjálfur — hann verður ekki kenndur, ekki neyddur upp á fólk og hann fæst heldur ekki pakkaður og tilbúinn í neytendaumbúðum.

Áþreifanlegt dæmi um þetta upplifði ég í vor. Hér niðri, í sal gamla safnaðarheimilisins, hittist Karlasmiðjan vikulega, en það er endurhæfingarúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir atvinnulausa karlmenn. Ég hef verið svo lánsamur að fá að hafa stýra því starfi. Síðastliðið vor stóð þessum mönnum til boða að þiggja sumarstarf hjá Reykjavíkurborg og sinna þar garðslætti. Þeir tóku þessu tilboði fálega, fannst starfið heldur óspennandi og sáu lítinn tilgang með því. Aðeins nokkrum dögum síðar gerðist dálítið merkilegt; nánast fyrir tilviljun fékk ég aðgang að stóru húsnæði hér í borg og ákvað því að bera undir hópinn hvort hann sæi færi á því að nýta húsnæðið til einhvers um sumarið. Þá spratt fram sú hugmynd karlanna að nýta húsið sem bækistöð og safna peningum til styrktar Barnaspítala Hringsins. Og hvernig ætluðu þeir að fara að því? Jú, með því að slá gras fyrir fólk. Skyndilega voru þessir sömu menn orðnir mestu áhugamenn um garðslátt sem ég hef fyrir hitt og voru óðara farnir að ræða ólíkar gerðir sláttuvéla og hvernig ná mætti sem jöfnustum slætti.

Hvað var það sem gerðist? Mennirnir fengu að skapa sinn eigin tilgang og upp úr honum spratt tilhvötun sem dreif mennina áfram. Þeir söfnuðu tæpum 300 þúsund krónum fyrir Barnaspítala Hringsins, ekki vegna þess að þeim var sagt að gera það, heldur vegna þess að þeir fundu í því tilgang. Það var tilgangurinn sem frelsaði þá til góðra verka.

VI.
Kannski er það einmitt þetta sem ungi maðurinn þarfnast — tilgangs sem frelsar hann frá aðstæðum sínum og til góðra verka.
„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ segir á vísum stað. Ég fæ ekki betur séð en að tilgangurinn geri það líka.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3098.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar