Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Fiðlusnillingur á lestarstöðinni

26. desember 2013

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hann gekk inn í neðanjarðarlestarstöðina í miðborg Washington með töskuna sína undir hendinni og kom sér fyrir upp við vegg við hliðina á stórri ruslafötu. Þetta var frekar ungur maður, klæddur í gallabuxur og bol, með derhúfu á höfðinu. Upp úr töskunni sinni dró hann fiðlu og fiðluboga. Síðan skellti hann töskunni kæruleysislega opinni á gólf lestarstöðvarinnar, henti nokkrum smámyntum ofan í hana, vegfarendum til hvatningar, og byrjaði að spila á fiðluna sína.

Klukkan var að nálgast átta á föstudagsmorgni í janúar og fjöldi manns þusti framhjá á leið sinni með neðanjarðarlestunum til vinnu í stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar. Götulistamenn af ýmsu tagi voru algengir á þessari fjölsóttu lestarstöð. Örfáir þeirra, sem áttu leið hjá, gáfu sér stutta stund til að staðnæmast og hlýða á fiðlutónlistina, en fæstir máttu vera að því. Einstaka maður lagði klink eða dollaraseðil í töskuna. Fiðluleikarinn spilaði í þrjú korter og á þeim tíma gengu 1.100 manns framhjá honum. Aðeins einn þeirra áttaði sig á því hvað var að gerast og hver var að spila.

Fiðluleikarinn reyndist vera einn þekktasti tónlistarmaður heims, undrabarnið Joshua Bell, sem hafði brugðið sér í gervi götulistamanns fyrir tilraun sem dagblað í borginni vildi gera. Bell hafði árum saman leikið í öllum helstu tónleikasölum heims og aðeins þremur dögum fyrir tilraunina hafði hann til dæmis leikið fyrir fullu húsi á tónleikum, þar sem einn miði kostaði um 12.000 krónur - fyrir aðeins meðalgott sæti. Tónverkin, sem Bell galdraði fram á fiðluna sína, voru valin úr flokki meistarastykkja tónlistarsögunnar og áttu það sameiginlegt að gera gríðarlegar kröfur til tækni og þjálfunar listamannsins. Og hljóðfærið sem Bell handlék á lestarstöðinni var það sama og á öllum fínu tónleikunum, 300 ára gömul Stradivariusarfiðla sem metin var á yfir 400 milljónir króna. Allt þetta fór framhjá augum nánast allra farþeganna á lestarstöðinni.

II.

Jólahátíðin er gengin í garð og enn einu sinni höfum við fengið að hlýða á guðspjallið um fjárhúsið, englana, Maríu og Jósef og allt hitt sem við þekkjum sennilega öll svo vel. Mörg okkar kunna jólafrásögnina úr Lúkasarguðspjalli líklega utanbókar.

En getur þá hugsast að sagan sé orðin okkur svo vel kunn að við séum hætt að taka eftir og kunna að meta um hvað hún fjallar í raun og veru? Er jólaguðspjallið ef til vill orðið okkur eins og hvert annað kunnuglegt hátíðarskraut sem við tökum sem gefnu, æðum framhjá og leiðum varla hugann að? Er dýrðarsöngur englanna orðin okkur sem þægileg bakgrunnstónlist jólanna og Jesúbarnið í jötunni álíka umhugsunarvert og mandarína?

Hvað er í raun og veru að gerast í fjárhúsinu í Betlehem?

Því er svarað í öðru jólaguðspjalli, þessu sem ég las hér af predikunarstólnum áðan og er túlkun guðspjallamannsins Jóhannesar á fæðingu Jesú:

„Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki“ (Jh 1.9-10).

Kristur, sem hefur verið eitt með Guði frá upphafi tímans, stígur til okkar í litlu barni og býr með okkur. Dýrð Guðs verður opinber á jörðinni. Og við þekktum hann ekki, segir Jóhannes.

Í tilrauninni á lestarstöðinni, sem ég sagði ykkur frá í upphafi, gengu yfir eitt þúsund manns framhjá helsta fiðlusnillingi heims spila á Stradivariusinn sinn, án þess að taka eftir öðru en hversdagslegum götulistamanni. Það er alls ekki hægt að áfellast fólkið fyrir það. Sjálfur hefði ég ábyggilega flýtt mér hjá í þeirra sporum og alls ekki þekkt þetta stórmenni. En atvikið minnir okkur á mikilvægi þess að staldra við og vera opinn fyrir hinu undraverða í kringum okkur.

Jólaguðspjallið flytur okkur sannarlega undursamlegar fréttir: Guð, skapari himins og jarðar, hefur ekki skilið sköpun sína eftir eina og munaðarlausa. Hið sanna ljós er komið í heiminn til að hrekja burt sérhvert myrkur og gefa öllum, sem vilja, af ljóma sínum.

Spurningin er þessi: Göngum við nokkuð framhjá þessu undri jólanna eins og fólkið á lestarstöðinni gekk framhjá fiðlusnillingnum?

Látum við orð Jóhannesarguðspjalls eiga við um okkur: Heimurinn þekkti hann ekki?

III.

Dag nokkurn í haust sem leið sótti ég rúmlega tveggja ára gamla dóttur mína í leikskólann og spurði hana hvað hefði verið skemmtilegast í leikskólanum þann daginn. Svar hennar kom skemmtilega á óvart: Ruslabíllinn. Já, við eftirgrennslan hjá kennurunum fékkst það staðfest að ruslabíllinn hefði vissulega komið að hreinsa úr sorptunnum leikskólans fyrr um daginn og börnin á deildinni hefðu þyrpst út í glugga til að fylgjast með þessu stórvirki. Þetta var greinilega hápunktur dagsins.

Börnin sjá margt sem okkur fullorðna fólkinu hættir til að líta framhjá. Á hverjum degi mæta okkur fjölmörg undur, litlir hlutir sem geta glatt okkur eða skemmt, vakið okkur til umhugsunar, fyllt okkur þakklæti eða hreinlega lotningu. Oft gleymum við þó að staldra við og taka á móti því, veita okkur ráðrúm til að íhuga og þakka fyrir það sem okkur er gefið. Við hlaupum framhjá heimsfræga fiðlusnillingnum á lestarstöðinni og tökum honum sem sjálfsögðum eða hversdagslegum hlut. Og kannski gleymum við líka Guði í amstri daganna og skynjum ekki dýrðina sem í því felst að hið sanna ljós sé í heiminn komið í Jesú Kristi.

Því er stundum haldið fram að vísindin hafi leyst trúna af hólmi eða í besta falli gert hana óþarfa. Vísindi og trú eru þó engan veginn andstæðir pólar. Þvert á móti lít ég svo á að algóður Guð sé að verki þegar framfarir verða í vísindum og þekkingu, okkur öllum til heilla.

Vísindi og trú svara ekki endilega sömu spurningunum. Sköpunarsögunni í upphafi Biblíunnar, með sínum ljóðræna lofsöng um Skaparann, er þannig tæplega ætlað að svara því hvernig alheimurinn varð til með sama hætti og kenningar vísindanna, til dæmis um loftsteina eða þróun manneskjunnar úr sjávarlífverum, gera tilraunir til. Hins vegar vitnar Biblían um almáttugan huga að baki öllu því, sem í alheiminum býr, og vísindin fást við að rannsaka. Þannig geta vísindin vitnað um dýrð og máttarverk Guðs.

IV.

Ég er ekki sérlega góður í náttúrufræði, en ég man þó úr skóla að allar lífverur munu vera settar saman úr örsmáum frumum, milljónum og aftur milljónum af þessum frumum. Ég las einhvers staðar að ef vísindamaður nokkur myndi taka sér fyrir hendur að rannsaka eina einustu frumu, skoða hana til hlítar og, og unna sér engrar hvíldar við þetta verkefni - hvorki nótt né dag - þá myndu honum ekki endast hundrað ár til að komast að niðurstöðu um allt sem þessari frumu viðkemur.

Lífið er þannig fullt af undraverkum Guðs. Við erum minnt á dýrð Skaparans í agnarsmárri frumu jafnt sem í óravíddum himingeimsins, sem engu okkar mun trúlega endast aldur til að fá fulla vitneskju um. Við getum litið svo á að allt sé þetta sjálfsagt og hversdagslegt, en við getum líka staldrað við og gefið okkur stund til að hlýða á snilld fiðluleikarans og til að kunna að meta og þakka þá dýrð, sem orðin er opinber í Drottni Jesú Kristi.

Sólroði á austurhimni, frostrós á glugga eða gleðibros barns á jólum geta minnt okkur á dýrðina hans. Hið sanna ljós, Jesús Kristur, er komið í heiminn til að opinbera dýrð Guðs og upplýsa hvern mann. Okkur býðst að þekkja hann og taka við ljósi hans í hjörtum okkar.

Lífið er nefnilega undur.

Sköpunarverkið er undur.

Og jólaboðskapurinn, Guð sjálfur kominn til okkar, það er líka undur.

Höfum því augun hjá okkur. Það gæti leynst fiðlusnillingur á lestarstöðinni.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1903.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar