Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Betlehem í Garðabæ

25. desember 2013

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu

Og friður.

Friður á jörðu.

Friður með þér.

Friður í lífinu þínu.

Friður í fjölskyldunni þinni.

Friður í umhverfinu þínu.

Friður í landinu þínu.

Friður í hjartanu.

Á aðfangadagskvöldi er friðurinn áþreifanlegur. Við finnum hann á götum úti og inni á heimilunum og við finnum hann hér í kirkjunni.

Það er friðurinn – eftir allan asann undanfarna daga – sem gerir okkur kleift að taka á móti þessu litla, kyrrláta barni. Þegar glaumurinn og lætin hafa þagnað, þegar streitan og stressið lætur undan, þegar umferðarniðurinn fjarlægist og síbyljan er hljóð, fær hjartað okkar næði til að tengjast því sem er ekta, því sem er óbreytanlegt, því sem er kjarni og uppspretta lífsins.

*

Aðdragandinn hefur verið langur. Alveg eins og meðgangan hennar Maríu var. Undirbúningurinn fyrir stóra daginn hefur tekið tíma og tekið toll. Við vitum hvað síðustu metrarnir fyrir fæðingu geta verið þungir og tekið á. Það getur líka átt við önnur verkefni, sem við þurfum að takast á við.

Í hugann kemur mynd af þeim mikla fjölda fólks – Garðbæingum – sem lögðu leið sína hingað í kirkjuna á aðventunni í sínum undirbúningi fyrir jólin.

Leikskólabörn, sem fengju að anda að sér reykelsislykt, eftir komu vitringanna til jesúsbarnsins í frásögunni um fyrstu jólin. Grunnskólabörn sem hafa æft af kappi jólasálma sem þau fengu að syngja í ljósum prýddri kirkjunni. Tónlistarfólk sem hefur borið gjafir sínar á borð fyrir okkur hin, eftir miklar æfingar og þrautsegju. Íbúar sambýlanna sem fengu tækifæri til að skemmta sér, syngja og borða góðan mat. Sjálfboðaliðar og þau sem leggja góðum málefnum lið - líka þau sem hafa þurft aðstoð við að ná endum saman. Syrgjendur sem þurfa horfast í augu við jólin án þeirra sem þau elska, og lifa jólin í skugga missis. Foreldrar nýfæddra barna sem koma til að undirbúa skírn þar sem draumar, vonir og væntingar um lítið barn, en líka áhyggjur og ótti eru lagðar í hendur Guðs í bæn og trausti um að Guð sleppi aldrei hendi sinni af þeim sem við elskum mest. Og svo messugestirnir allir.

Við erum jafn ólík og við erum mörg og aðstæðurnar okkar eru fjölbreyttar og það eru sögurnar okkar líka. Allt þetta höfum við meðferðis þegar komum hingað – komum til Betlehem – til að hitta barnið í jötunni. Því að hér er Betlehem á aðfangadagskvöldi. Friðurinn snertir okkur öll, á ólíkum aldri, á ólíkum stað, hvort sem við erum glöð eða leið. Í friði Guðs erum við örugg, með tilfinningar okkar og sögu, hver sem hún er.

Jólafriðurinn kemur hvernig sem á stendur. Hvernig sem þjóðin hefur það, hvernig sem stjórnmálin sveigjast til, hvernig sem veðrið er, hvort sem það eru eldgos eða jarðhræringar, hvernig sem samningar standa, hvort það er atvinnuþref, uppgangur eða kreppa. Friðurinn kemur í kotum og hann kemur í konungshöllum. Hann kemur í sorgarhús og hann kemur þegar allt leikur í lyndi. Hann kemur til okkar í einsemd og hann kemur til okkar í áhyggjum.

*

Í kvöld er barnið í miðpunkti. Í barninu hittum við ekki fyrir dóm og kröfur, heldur bara frið og kærleika og kyrrð. Í barninu finnum við staðfestingu þess að Guð elskar heiminn og að við erum ókei. Og það er lítið og varnarlaust barn sem opinberar þetta, ekki voldugir höfðingar eða máttugar stofnanir. Í kvöld erum við minnt á að það er hið smáa og viðkvæma sem inniheldur leyndardóm kærleikans. Frá því flæðir hið umbreytandi afl sem hefur áhrif á allt okkar líf og alla okkar veru. Hver sem tekur á móti því kemst ekki hjá því að breytast.

Ég trúi þessu. Ég trúi því að ljósbylgjan frá Betlehem nái inn í innstu kima og króka sálarinnar og hafi áhrif. Mér finnst ég sjá það í glöðum andlitum, hlýjum kveðjum, gjöfum og góðverkum, sem gerast allt í kringum okkur. Mér finnst ég sjái það í muninum á þjóðarsálinni sem sýnir sig í jólakveðjunum í ríkisútvarpinu og þeirri sem sýnir sig í athugasemdakerfunum. Þarna sé ég töfra jólanna og mátt kærleikans að verki.

Krakkarnir í Sjálandsskóla komu hingað í kirkjuna á aðventunni og fluttu m.a. sögu um helgileik sem fór úrskeiðis á skemmtilegan hátt. Áhorfendur fylgdust með kunnuglegri sögunni um Maríu og Jósef á leiðinni til Betlehem og bjuggust ekki við öðru en að þegar þangað var komið væri ekkert pláss í gistihúsinu fyrir þau. Nema hvað, strákurinn sem lék gistihússeigandann ákvað að leika svolítið af fingrum fram og þegar María og Jósef stóðu frammi fyrir honum og beiddust gistingar sagði hann: Að sjálfsögðu elskurnar mínar. Komiði inn. Það eru nú jólin!

*

Við göngum nú inn í þennan veruleika kærleikar og friðar sem við tjáum með hátíðinni sem hefur verið undirbúin á hverju heimili og hverju hjarta. Gjafirnar sem bíða undir trénu, eru valdar og gefnar til að tjá kærleika og ást. Sumar eru dýrar, aðrar bara einfaldar. Sumar eru búnar til og föndraðar af litlum fingrum.

Allar segja þær: þú ert mér dýrmæt. Ég gleðst yfir því að þú ert í lífinu mínu og er þakklát fyrir það sem þú gefur mér með því að vera til.

Barnið í jötunnibendir okkur á það sem skiptir máli í lífinu og gerir okkur þannig að betri manneskjum. Þess vegna skiptir máli að Jesús fæddist í Betlehem og þess vegna skiptir máli að hann fær að fæðast í hjörtunum okkar, um þessi jól og á hverjum degi.

Gleðileg jól.

Takið postullegri blessun.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1925.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar