Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Á krókbekkjum heimsins

26. desember 2013

Það er þorláksmessukvöld fyrir rúmri öld. Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson, þá prestur í Odda á Rangárvöllum, er kominn til aftansöngs í kirkjunni að Keldum. Heimilisfólk hefur búið sig í betri fötin að loknum gegningum og hlýtt á húslestur. Síðan er farið til kirkju þar sem kveikt hefur verið á 30-40 tólgarkertum. Það er hátíðlegt í kirkjunni sem þá var nýreist.

Úti við kirkjudyr, á krókbekkinn, sem ætlaður er niðursetningum og aðkomufólki, sest blind kona og lætur fara eins lítið fyrir sér og hún getur þarna aftast í kirkjunni. Þá er það sem séra Matthías gengur fram í kirkjuna til hennar og leiðir hana inn í kór, setur hana við hlið sér og segir: „Við skulum sitja öll saman og syngja, Guðrún mín. Öll erum við eitt og ekki síst á jólunum.“

Frá þessu atviki í Keldnakirkju segir einn heimilismanna á staðnum, Vigfús Guðmundsson fræðimaður, þegar hann rifjar þessa stund upp í Sögu Oddastaðar, hann var ungur maður þegar þetta gerðist. Við gætum gert okkur í hugarlund að konan á krókbekknum hafi verið aldraður niðursetningur, en svo var ekki. Aðrar heimildir sýna að konan var tæplega sextug, blind, og þar að auki holdsveik og stafaði blindan af holdsveiki hennar. Þótt skrásetjari sögunnar geti þess ekki var konan móðursystir hans, systir húsfreyjunnar á Keldum. Þessi holdsveika kona var heil á sál og gat enn unnið með höndunum þegar hér er komið sögu. Holdsveikum var skipað á neðsta þrep samfélagsins.

Þetta er áhrifamikil svipmynd úr daglegu lífi fyrri tíma. Við sjáum þjóðskáldið fyrir okkur ganga fram í kirkjuna, jólaguðspjallið er á dagskrá, um barnið sem fæddist eins og niðursetningur eða umrenningur inn í þennan heim. Blind og sjúk konan hlýtur að eiga að sitja í öndvegi, í það minnsta á þessum degi, á þessari stundu, á jólum er heimurinn eins góður og hann getur orðið.

Við erum að tala um mannúð, það efni er á dagskrá heimsbyggðarinnar um þessi jól, hvernig ætti annað að vera þegar heimurinn hefur kvatt Nelson Mandela? Það nafn hefur sameinað þjóðirnar í aðdáun og þakklæti en þó kannski umfram allt í undrun yfir hinu óvænta, yfir því hverju litlum hópi hugsjónamanna, jafnvel aðeins einum manni, er unnt að áorka til góðs í þessum heimi.

Það var slegið á strengi vonarinnar þegar Mandela var kvaddur, hún var aldrei langt undan þar sem hann var. Ég fékk tækifæri til að hlusta á Mandela á alþjóðaþingi heimstrúarbragðanna í Höfðaborg í Suður-Afríku skömmu fyrir jól fyrir réttum fjórtán árum. Fyrir fundinn hafði ég farið með ferjunni út í Robben Island eða Seleyju rétt utan við Höfðaborg þar sem Mandela hafði mátt dúsa sem hættulegur fangi í tæpa tvo áratugi í fjögurra fermetra klefa. Það var sterk tilfinning að koma í fangaklefann og hugleiða líf og starf þeirra sem berjast fyrir mannúð og réttlæti.
Nú birtist hann í fundarsalnum. Hávaxinn, hógvær og lítið eitt stirður í hreyfingum gekk hann inn á sviðið, það hefði mátt heyra saumnál detta. Hér er aldraður maður, leiðtogi, um það var engum blöðum að fletta. Hann flytur langa ræðu með mildri rödd sinni, m.a. um trúarbrögðin og um sitt eigið trúaruppeldi, hann talar frá hjartanu og til hjartans.

„Mín kynslóð“, punktaði ég niður, „er afrakstur þeirra skóla sem trúfélögin ráku.“ Ríkisskólarnir voru aðeins fyrir hvít börn. En trúfélögin ráku skóla fyrir fátæka og þar með blökkumenn. „Hefðu þessir skólar ekki verið til, þá væri ég ekki hér í dag,“ sagði Mandela. Trúin var greinilega hættulegt afl í augum einhverra, hugsaði ég.

Þótt hann hafi almennt ekki fjallað mikið um trú sína er ljóst að uppeldi hans og mótun fóru fram í anda meþódistakirkjunnar þar sem hann skírðist. Hann var mótaður af kristinni trú, af Jesú, sem „fæddist eins og umrenningur í fjárhúsi“ eins og hann komst síðar að orði. Var málstaður Mandela ekki málstaður hans? Var það ekki málstaður mannúðar og réttlætis, sem umrenningar þessa heims skilja til hlítar, þeir sem sitja á krókbekkjum heimsins? Var það ekki málstaður spámannsins Jesaja sem fékk þjóð sína til að horfa fram til þeirra tíma þegar allt myndi breytast til hins betra.

„Sú þjóð, sem í myrkri gengur,/
sér mikið ljós.”

En spurningar vakna: Getur einstaklingur breytt þessum heimi? Eru það ekki flókin ferli í margslungnum aðstæðum einstakra þjóðfélaga sem valda breytingum, ýmist til góðs eða ills? Vegur ekki samspil ótal þátta í samfélagsvefnum á hverjum tíma, þyngra en hugsjónir einstaklingsins? Skiptir einstaklingurinn nokkru máli í þessari baráttu fyrir mannúð, réttlæti og breyttum heimi? Hér er gamalt deiluefni sagnfræðinga.

Mandela hefur verið hylltur sem hetja í landi sínu og um víða veröld, einn þeirra sem breyttu þessum heimi til góðs. Samt var hann ekki einn af hefðbundnum sigurvegurum sögunnar sem lögðu undir sig lönd og álfur og stóðu sigri hrósandi yfir hinum föllnu á vígvöllum sögunnar. Hann kom ekki úr því liði heldur öðru, með aðrar og róttækari hugsjónir. Hann kemur út úr skugga þeirra kúguðu, sem enginn veitti athygli, eftir tæplega þriggja áratuga fangavist. Hann kom úr röðum þeirra sem áttu sér þann draum að spilltum valdhöfum yrði steypt af stóli og kjörum smælingjanna yrði snúið til betri vegar svo vísað sér til Lofsöngs Maríu sem lesinn var frá altari. Markmið hans var ekki sigur heldur sáttargjörð, ný mannúð og nýtt réttlæti. Við erum að tala um lífsgildi.

Í Höfðaborg punktaði ég hjá mér: „Trúin var einn mikilvægasti þátturinn í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur“ segir Mandela „og mun enn sem fyrr gegna lykilhlutverki núna þegar mannkynið stendur frammi fyrir mörgum óhemjustórum úrlausnarefnum.“

Svipmynd kemur upp í hugann á þessari hátíð sem dregur athyglina að barninu: Gefum einum varðanna í fangelsinu á Seleyju orðið. Hann segist aðeins einu sinni hafa séð Mandela tárfella, það var þegar konan hans kom með barn þeirra kornungt. Öll snerting fanga og gesta var bönnuð, einnig við hvítvoðunga. Þegar vörðurinn, Christo Brand, sá örvæntinguna í augum fangans þegar honum var meinað að snerta barnið, braut hann strangar reglur fangelsisins og setti hvítvoðunginn örskamma stund í fang Mandela: „Hann kyssti barnið, faðmaði það að sér og varð svo að sleppa því. Tárin runnu niður kinnarnar“, sagði vörðurinn síðar.

Mannúðin er meira en orð, hún byggist á innri sannfæringu þar sem viljinn er með í leiknum, viljinn til að leggja eitthvað, jafnvel mikið í sölurnar fyrir sannfæringu sína. Baráttan fyrir mannúð og réttlæti grundvallast ekki á hagsmunum ákveðinna einstaklinga eða hópa, heldur á hugsjónum.

Marteinn Lúther lagði á það áherslu að trúin komi á undan verkunum. Allt sem maðurinn aðhefst á sér rætur í trú hans, í sannfæringu hans. Þannig ákvarðast breytni mannsins, hún á sér rætur í þeirri umbreytingu hugarfarsins sem trúin hefur í för með sér, í því gildismati sem er ein uppistaðan í trúnni. Með þeim hætti verður trúin mótandi þáttur í lífi mannsins, þar eiga hugsjónir og markmið forsendur sínar en þó öðru fremur í málstað Jesú sem lýsir sér ekki í kenningum heldur í verkum, í þeim verkum sem guðspjallamennirnir héldu til haga í ritum sínum. Sá málstaður snýst ekki um kirkjuna heldur um trúna.

Sjálfur var Lúther fordæmi fyrir þá sem eru reiðubúnir til að leggja mikið í sölurnar fyrir góðan málstað. Það sýndi hann ekki aðeins í baráttunni gegn þeirri miklu stofnanavæðingu trúarinnar sem hafi gerst í kirkju samtímans heldur einnig í baráttu gegn keisara og valdsmönnum þessa heims sem virtu að vettugi þann málstað sem hann gerði að sínum, málstað Jesú.
Lúther lét sér ekki nægja að vísa til orða og hugmynda heldur lét hann verkin tala með því að leggja allt undir vegna sannfæringar sinnar, með því að leggja sjálfan sig að veði.

Þannig birtist trúin í verkum hugsjónamanna aldanna, hún er meira en orð, hún er sannfæring sem skilar sér í lífsstíl, sem er lífsstíll ákveðinnar sjálfsafneitunar í þágu þess málstaðar, sem leitar ekki eigin vegsemdar heldur þeirra sem sitja á krókbekkjum heimsins og bíða þess að einhver kalli þá inn í samfélag sem mótast af mannúðlegum lífsgildum og réttlæti.

Stórskáldið Goethe segir í ljóðaflokknum „Vestur-austur ljóð“, sem samið var fyrir tveimur öldum og er eitt af stórvirkjum klassíska tímans að „Öll tímaskeið þar sem trúin er ríkjandi, í hvaða formi sem það kann að vera, eru glæsileg, hvetjandi og gróskumikil fyrir samtímann og síðari tíma.“

Þannig horfir skáldið til sögunnar og þannig metur hann gildi trúarinnar sem forsendu fyrir betri heimi, fyrir mannúð, menningu og menntun. Enginn veit hvernig Goethe hefði metið okkar tíma, en augljóst má vera að tuttugasta öldin var öld vantrúarinnar og um leið öld niðurlægingarinnar vítt og breitt um heiminn, öld styrjalda og grimmdar sem breyttu engu til hins betra.

Í Lofsöng Maríu, sem lesinn var frá altari, er sleginn strengur sem við könnumst vel við úr umræðum undanfarinnar daga og vikna í fjölmiðlum heimsins.

Lofsöngurinn myndar innganginn að jólaguðspjalli Lúkasar. Hann er eins konar stefnuskrá fyrir barnið sem fátæk fjölskyldan í Nazaret beið þá dagana, enginn þarf að lesa þennan texta lengi til að sjá og skilja að hér er ögrandi söngur, jafnvel eins konar pólítísk stefnumörkun sem hefur ekki fallið valdsmönnum samtímans í geð. Hér eru valdsmenn nefndir, dramblátir og auðsins menn, lofsöngurinn gefur engin fyrirheit um að þeirra staða verði tryggð heldur þvert á móti, þeim verður steypt af stóli.

Sá sem er í þann veginn að fæðast mun breyta öllu til hins betra, nú munu renna upp tímar réttlætis og mannúðar líkt og í lofsöng Jesaja, sem einnig var lesinn frá altari, þar sem okinu verður létt af herðum hinna kúguðu og barefli kúgaranna verða sundur brotin, þá munu hermannastígvél og blóðstokknar skikkjur hverfa í eldinn – því að barn er oss fætt.
Lofsöngur Maríu hefur pólitískt markmið sem er í fullu gildi á okkar tímum, hér og nú, lofsöngur sem er einnig byltingarsöngur eins og þessi orð bera með sér:

51Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað
52Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
53hungraða hefur hann fyllt gæðum,
en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Barnið í kviði Maríu er tákn hins nýja og óvænta, hins ótrúlega, það mun breyta
kjörum smælingja og þurfandi, það mun breyta þessum heimi.

Málstaður Jesú er málstaður fólksins á krókbekknum, þar er málstaður blökkumannanna sem var skipað utan við lög og rétt, þar er málstaður hetjunnar hvort sem hún heitir Mandela, Martin Luther King, móðir Theresa eða Gandhi sem mótaðist ekki síst af Fjallræðu Jesú á yngri árum í Suður-Afríku – eða var það einhver sem lét sér annt um okkur og miðlaði þessari lífssýn til okkar, faðir eða móðir, lífssýn sem bjó með okkur alla tíð? Eða einhver sem reisti okkur upp af krókbekknum, eða leiddi okkur innn í veröld annarra þar sem misréttið var lögmál, þar sem virðingarleysið fyrir hverju mannsins barni var algjört og endanlegt að því er virtist, þar sem tilgangsleysið þrúgaði lífsvitundina frá morgni til kvölds, frá vöggu til grafar?

Trúin er aldrei langt undan í lífi mannsins. Hún er hvort tveggja í senn: reynsla sem kemur til okkar óumbeðin í formi tilvistarspurninga mannsins, spurninga um tilgang og markmið, um réttlæti og mannúð, spurning um réttlæti annarra til að lifa og njóta mannlegrar virðingar hvernig sem aðstæður eru. Kemur trúin þá ekki til okkar í formi grundvallartrausts til lífsins: heimurinn getur orðið betri, lífið hefur tilhneigingu til að fara vel, vonin er þáttur í lífi mannsins og hverfur þaðan síðast. En hvaðan kemur hún, hver setti vonina í hjarta mannsins, vonina og þrána til þess sem gott er og fagurt og satt?

Eða þá að hún birtist okkur í þeirri mynd sem hún tók á sig á stund neyðarinnar, á ögurstund þegar ekkert annað en endanlegur ósigur blasti við? Þegar bænin verður til í hjarta mannsins, bænin, vegna þess að vitundin um návist Guðs hverfur seint úr hjarta mannsins, návist Guðs er eitt af þungavigtarhugtökum trúarinnar.

Eða þá í gleðinni – vekur gleðin ekki einnig vitund um trúna, um návist Guðs, ekki aðeins óttinn og angistin. Skyldi Mandela ekki hafa verið kominn inn á plan trúarinnar þegar angistin skein úr augum hans þegar honum var meinað að halda á barni sínu, skyldi hann ekki hafa örvænt vegna þess að hvítvoðungnum var meinað að njóta umhyggju í þessum heimi? Þurfti heimurinn að vera svona miskunnarlaus? En einnig gleðin, innst inni vitundin um að Guð var aldrei langt undan, hann var nálægur, einnig á þeim stundum þegar allt virtist vonlaust.
Málstaður Jesú er málstaður hinnar nýju tilvistar, líkt og barnsins, hann er málstaður þrautseigju og hugrekkis, málstaður réttlætis og mannúðar, málstaður umhyggju, sátta og fyrirgefningar, hann er málstaður sem breytir öllu.

Rétt fyrir jól spurði ég fermingarbörnin á þessa leið: Gerði Jesús þennan heim betri eða verri? Svarið var einfalt, Jesús gerði þennan heim betri. Börn og unglingar, allt ungt fólk, vill gera þennan heim betri en hann er. En hvernig betri? Þá eiga þau við mannúð, sáttargjörð, fyrirgefningu, frið, réttlæti, virðingu fyrir öllum mönnum, einnig af öðrum kynstofnum og öðrum trúarbrögðum og einnig virðingu fyrir skepnum og fyrir lífríkinu.

Jólabarnið átti ekkert. Samt hefur Jesús gefið þessum heimi meira en allir, hann hefur gefið þann innri auð sem nýtist manninum frá vöggu til grafar, hann hefur gefið okkur hamingju vonarinnar eins og Ágústínus kirkjufaðir komst að orði.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla… Sú var von spámannsins Jesaja, orð sem vert er að hugleiða þegar við njótum helgi jólanna og gleðjumst við jötu „umrenningsins“. Það barn breytti heiminum til hins betra.


Textar: Textar: Jes. 9:1-7; Lúk. 1.46-55.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1838.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar