Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Okið er OK

18. nóvember 2013

Prédikun á næstsíðasta sunnudegi kirkjuársins, í Vídalínskirkju í Garðabæ

Guðspjall: Matt 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Náð sé með yður og friður frá Guði, sem skapar þig, Guði sem frelsar þig og Guði sem elskar þig.

Í vikunni vorum við að fræða um dauðann og sorgina við fermingarbörnin. Þá kom vel í ljós, eins og svo oft áður, að þetta unga fólk býr yfir mikilli visku og mikilli reynslu, líka á þessu sviði.

Við fórum í leik sem átti að hjálpa okkur að heyra um viðhorf og skoðanir hvers annars, sem ber heitið „Heiti stóllinn“. Heiti stóllinn virkar þannig að við setjum fram einhverja fullyrðingu eða spurningu sem hver og einn þarf að taka afstöðu til. Síðan er einhverjum boðið að koma og setjast í sérstakan stól, sem snýr að hópnum, segja frá sínu svari og útskýra hvers vegna honum eða henni finnst eða líður eins og þeim gera.

Af því að umræðuefnið var alvarlegt, voru spurningarnar og svörin það líka. „Hefur þú farið í jarðarför“, var ein spurningin. Og það höfðu mjög mörg gert. Og nokkrir komu í heita stólinn og sögðu frá sinni reynslu.

Svo kom spurning sem var mjög áhugaverð. „Ef þú vissir að þú ættir bara einn mánuð eftir ólifaðan, hvað myndir þú gera?“ Svörin voru náttúrulega margvísleg en svona svör komu mjög oft fyrir: Ég myndi lifa lífinu til fulls, gera allt það sem mig langar til að gera, njóta lífsins, taka út allan peninginn minn og kaupa það sem mig langar í - eða gefa fjölskyldunni minni.

Svo voru náttúrulega grjótharðir húmoristar í hópnum sem gátu komið með svona svör: Ég myndi fara í fallhlífarstökk - með enga fallhlíf.

Rauði þráðurinn í þessum svörum var þetta með að lifa lífinu til fulls og gera það sem mann langar mest að gera.

Út frá þessu sköpuðust síðan mjög skemmtilegar umræður um hvað það þýddi að lifa lífinu til fulls og hvað það væri sem okkur langaði til að gera mest af öllu. Og það er mjög áhugavert að hlusta á hvað ungu fólki á fermingaraldri metur mest og finnst skemmtilegast. Mér finnst afar merkilegt að við höfum svona snemma fastmótaðar hugmyndir um hið góða líf og hvað er eftirsóknarvert í lífinu. Og að tilhugsunin um dauðann, ýtir við okkur og minnir okkur á hvað skiptir máli - og hvað er þegar allt kemur til alls, ekkert svakalega merkilegt.

Orðin sem Jesús segir í guðspjalli dagsins, fjalla í raun líka um forgangsröðun og gildismat. Og að það sem virðist vera merkilegt og mikilvægt er það kannski ekki, þegar upp er staðið. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Það sem við staðnæmumst við í þessum texta er ákveðin þversögn sem gengur ekki upp við fyrstu sýn. Jesús kemur með tilboð um að þegar við erum þreytt og að sligast undan byrðum lífsins, þá megum við koma til hans og skilja það eftir. Losna undan því sem íþyngir okkur og slævir og kemur í veg fyrir að við njótum lífsins.

Það er gott tilboð og freistandi tilhugsun. Væri ekki ekki dásamlegt að geta varpað af sér því sem fjötrar okkur og dregur úr okkur orku og gleði? Jú, það er það sannarlega. En tilboðinu fylgir líka hvatning. Og hún er að við tökum á okkur aðrar byrðar, annað ok.

Muna ekki allir hvað orðið ok þýðir? Ok er landbúnaðarmál og frá þeim tíma sem stór dýr voru notuð til að draga plóga sem voru nauðsynlegir til að geta ræktað jörðina. Okið var þá sett á uxann eða hestinn, yfir herðakambinn og svo var tækið tengt við okið og hægt var að stjórna dýrunum betur. Þetta forna landbúnaðarmál hefur síðan ratað inn í kirkjuna vegna þess að hluti af skrúða prestsins, á að tákna ok. Er einhver sem veit um hvað presturinn er að tala?

Jú, það er stólan sem er hluti af skrúða helgihaldsins, sem á að tákna okið sem Jesús talar um við okkur í dag. Takið á ykkur mitt ok. Stólan sem presturinn ber í helgihaldinu á að tákna og minna á ok Jesú, það sem hvíldi á Jesú og voru byrðarnar hans.

Sumar byrðar eru nefnilega þess virði að bera þær. Við þurfum ekki að hugsa lengi til að komast að því. Þegar um okkar nánustu er að ræða, börnin okkar, foreldra, systkini, maka er að ræða, þá erum við tilbúin til að leggja mikið á okkur fyrir þeirra velferð og vellíðan. Foreldrar fórna svefni og hvíld til að vakna til ungra barna, ómældur tími fer í skutl og stúss með skólabörnunum og svo tekur við alveg ný gráða af umönnun og veseni þegar börnin verða unglingar. Þið þekkið það, sem hér eruð, er það ekki?

Þegar Jesús segir, takið á ykkur mitt ok, höfðar hann til þessarar ábyrgðar sem við berum gagnvart fjölskyldunni okkar, því við þekkjum hvernig er að bera byrðar fyrir þau sem við elskum. En áskorunin í orðum Jesú er fólgin í því að hugsa eins og hann og yfirfæra ástina og umhyggjuna sem við berum gagnvart okkar nánustu yfir á náunga okkar, hvar sem hann er, og yfir á samfélagið okkar allt.

Ekki til að við séum að vaka eftir eða skutlast með þennan eða hinn, heldur með því að vera tilbúin að leggja okkar af mörkum til að aðrir njóti, til að styðja við þau sem eiga undir högg að sækja og til að auðga okkar sameiginlega rými.

Mig langar að nefna tvö dæmi sem eru afar nærtæk í þessu sambandi, sem snerta okkur sem hér erum, söfnuðinn okkar í Vídalínskirkju. Annað er frumkvæðið sem þjóðkirkjan og biskupinn okkar sýndi í sambandi við söfnun fyrir nýjum línuhraðli á Landspíta, og við tókum þátt í hér í Garðabæ með prjónabasar og nytjamarkaði eftir messu í september.

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir minntist á þetta mikilvæga kærleiksverk í ávarpi sínu við setningu kirkjuþings í gær og talaði um að þarna hafi þjóðkirkjan stigið fram sem afdráttarlaus þátttakandi í brýnustu úrlausnarefnum þjóðarinnar. Ég er mjög glöð að ráðherrann hafi orðað þetta með þessum hætti - því það lyftir upp því verkefni kirkjunnar að sýna kærleikann sem við boðum, í verki. Kærleikur er ekki bara eitthvað sem við tölum um á sunnudögum heldur á trú okkar á lífsins Guð og kærleikans Guð að gera okkur að afdráttarlausum þátttakendum í viðfangsefnum lífsins.

Hitt dæmið sem mig langar til að nefna, um það þegar við sameinumst um verkefni sem allir njóta og allt samfélagið nýtur góðs af, er afar viðeigandi hér í söngmessunni okkar í dag. Það er nýja orgelið, sem varð til hreinlega af því að einstaklingar, samtök og fyrirtæki studdu við drauminn um nýtt orgel í Garðabæ. Útkoman er frábær og skemmtileg í alla staði, og í dag fáum við að njóta tónlistarinnar sem felst í nýjum sálmum og söngvum. Tónlistin lyftir andanum og færir okkur ómetanleg gæði sem eru ekki metin til fjár. Og við fáum að njóta hennar í sameiningu, vegna þess að margir lögðust á sveif með því að svo mætti verða.

Kærleikur Jesú knýr okkur til að verða þátttakendur, gerendur í samfélaginu. Og það ok er ókei!

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2136.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar