Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Vanda Sigurgeirsdóttir

Góðmennska gegn einelti

8. nóvember 2013

Bara svona eins og í fyrra, þá var maður að fara á þessar keppnir, eins og Gettu betur og Morfís … Ég fór á eina svona keppni sem var haldin hérna í skólanum og þá var búið að taka frá fullt af sætum fyrir bekkinn okkar. Einhverjir fjórir krakkar úr bekknum … og svo kem ég og„má ég ekki setjast?.“„Nei, það er allt upptekið.“ Og ég alveg o.k. og sest þarna aðeins frá. Og svo koma krakkarnir og það eru kannski komnir 10 krakkar og keppnin byrjuð. Þannig að ég fer og sest og þá alveg„nei heyrðu, þetta er upptekið.“ Svo voru þrjú sæti laus alveg alla keppnina hjá krökkunum.
Mér fannst það ógeðslega leiðinlegt.

Þetta er frásögn nemenda í framhaldsskóla á Íslandi fyrir nokkrum árum og er hluti af rannsókn Arnheiðar Gígju Guðmundsdóttur meðal framhaldsskólanemenda sem voru lagðir í einelti. Þessir krakkar voru hætt í skólanum eða höfðu hugleitt að hætta, þau áttu fáa eða enga vini og voru oft ein eftir skóla. Flest ef ekki öll höfðu þau hugleitt sjálfsvíg og sum gert sjálfsvígstilraunir. Fyrir mig, sem hef alltaf átt vini þá er þetta hræðileg tilhugsun, eiginlega óbærileg; að eiga enga vini en þetta er eigi að síður veruleiki margra barna á Íslandi í dag.

Ég heiti Vanda Sigurgeirsdóttir og ég hef farið víða og talað um einelti. Ég hef samt aldrei áður talað um einelti í kirkju en eftir að hafa hugsað um það aðeins þá skil ég eiginlega ekki af hverju ég er ekki búin að gera það fyrir löngu, því Guð og Jesú eru sannarlega mínir menn þegar kemur að einelti – eða ég kannski þeirra kona. Það má sjá ef Biblían er lesin eða í mínu tilfelli ef maður „gúgglar“ Guð og einelti. Margt vissi ég nú fyrir, eins og ýmislegt um náungakærleik, fyrirgefningu og svo auðvitað Gullnu regluna, sem ein og sér myndi stoppa allt einelti ef við færum nú bara eftir henni öll sem eitt.

Mér finnst ég því vera á réttum stað, jafnvel þó ég komi ekki oft í kirkju – en það þýðir samt ekki að ég trúi ekki á Guð, sem ég geri. Mín trú á Guð tengist orðinu góð en ég held að það sé ekki tilviljun að orðin Guð og góð eru svona lík, ég held meira að segja stundum að menn hafi ruglast og Ó-ið breyst í U – þar að segja að Guð ætti í raun að vera og heita Góð. Í það minnsta þá trúi ég því að Guði sé mikið í mun að við séum góð. Góð við okkur sjálf og ekki síst góð við aðra – og komum við þá að aðalefninu, einelti – þar sem góðmennska getur sannarlega gert gæfumuninn.

Ég heyrði orðið einelti í fyrsta sinn þegar ég var 24 ára og við nám í Svíþjóð. Þetta var árið 1989 og orðið einelti varla til á Íslandi, þó að hegðunin væri sannarlega til staðar. Ég gleymi þessari stund aldrei því á þessu augnabliki helltust yfir mig miklar tilfinningar. Ég fékk sting í hjartað, kökk í hálsinn og tár í augun. Ekki af því að ég var lögð í einelti sem barn heldur vegna þess að ég skammaðist mín. Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér að á minni skólagöngu höfðu ýmsir orðið fyrir aðkasti og ég horfði bara á, hló meira að segja stundum og það sem hafði mest áhrif á mig var að ég gerði aldrei neitt til að hjálpa. Og það sveið, því ég leit – og lít enn – á mig sem góða manneskju og ég fann fyrir skömm og eftirsjá. Og ég man að ég hugsaði: OOO bara ef einhver hefði komið og sagt okkur frá hvað einelti er hræðilegt – og í kjölfarið tók ég tvær ákvarðanir sem hafa haft áhrif á líf mitt síðan. Annars vegar ákvað ég að leggja aldrei í einelti og hins vegar að ég ætlaði að hjálpa og berjast á móti einelti. Ég er fyrrum íþróttakona og hef verið í mörgum liðum en á þessari stundu bjó ég til mikilvægasta liðið sem ég hef verið í, eineltisbaráttuliðið - og hef ég verið að safna í liðið síðan. Ég er því ekki fyrrum þolandi eða gerandi í eineltismálum, ég er ekki að fara að segja ykkur þannig sögu. Ég er bara manneskja sem heyrði um skelfilegar afleiðingar eineltis og ákvað að gera eitthvað í málinu. Þið getið líka tekið þessar sömu ákvarðanir og ég – og skráð ykkur þar með í eineltisbaráttuliðið. Það kostar ekkert að vera með, ekkert félagatal, ársfundir, stjórn eða neitt slíkt, þetta er bara ákvörðun sem maður geymir í hjartanu og hegðar sér í samræmi við.

En hverjar eru þessar afleiðingar? Jú bæði rannsóknir og frásagnir þeirra sem hafa verið lagðir í einelti ber saman um fjölþættar alvarlegar afleiðingar eineltis. Má þar nefna þunglyndi, kvíða, einmannaleika, depurð, slæma sjálfsmynd, ýmsa sállíkamlega kvilla eins og höfuðverk, svefnleysi og magaverk, ásamt ýmsum öðrum neikvæðum þáttum, sem jafnvel fylgja fólki fram á fullorðinsár.
Ætla ég hér að lesa fyrir ykkur orð tveggja stúlkna sem báðar voru lagðar í einelti. Önnur þeirra hafði þetta um reynslu sína að segja:

Mér leið alveg rosalega illa, ég fór að trúa henni, að ég væri svona ljót og feit og ömurleg. Mér fannst það líka sjálfri og sjálfstraustið fór alveg niður.

Og hin sagði:

Þetta fer inn á sálina og þetta fer aldrei út. Þetta er alltaf hérna og þú finnur alltaf fyrir verknum. Hvað sem þú segir, hvað sem þú gerir, þarna er alltaf verkur sem fer aldrei.

Ég gæti sagt fleiri og enn verri sögur, frásagnir um vímuefnaneyslu, vinaleysi og sjálfsvíg en mig langar að segja ykkur frekar frá sögu móður sem ég hitti fyrir um einu og hálfu ári síðan en hún sagði mér að sonur hennar hefði verið lagður í einelti frá upphafi skólagöngu hér í Reykjavík og eitt af því sem hafði gerst var að syninum, sem þarna var í 5. bekk, hefði aldrei verið boðið í afmæli í bekknum. Mér reiknast til að þetta séu eitthvað um 50 afmæli bara stráka megin, ef ég miða við 10 stráka í bekknum, 50 afmæli sem honum var ekki boðið í….. Ég fæ eiginlega alltaf tár í augun þegar ég tala um þetta því þetta er svo hræðilegt og bara ekki hægt. Við fullorðna fólkið verðum að standa okkur betur!

Já afleiðingar eineltis eru hrikalegar en hvað er eiginlega hægt að gera? Það er margt og langar mig að nefna eitt sem er að skipta sér af.

Staðreyndin er að oftast gera þeir sem verða vitni af einelti ekki neitt, horfa bara á, hlægja jafnvel og skipta sér ekki af - en í þeim tilfellum sem áhorfendur sýna hugrekki og standa saman – og GERA eitthvað þá hættir eineltið í mjög mörgum tilfellum. Við öll höfum því vald bæði til að ýta undir einelti – með því að gera ekki neitt – en líka að stoppa það. Þeir sem lagðir hafa verið í einelti segja margir að það sem særi þá mest er að enginn hjálpi þeim. Mér finnst oft gott að setja mig í þessi spor og ímynda mér hvernig mér myndi líða ef verið væri að pína mig á einhvern hátt og mér liði hræðilega en svo væri bara fullt af fólki sem horfði á en gerði ekkert til að hjálpa mér. Edmund Burke sagði eitthvað á þá leið að það eina sem þarf til að illskan sigri er að góðar manneskjur geri ekki neitt. Og svona er það með einelti, það eina sem þarf svo að einelti blómstri er að góðar manneskjur geri ekki neitt. Þið eruð góðar manneskjur - ekki velja að gera ekki neitt.

Takk fyrir mig

Heimildir:
Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Sif Einarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir. (2007). „Hægist mein þá um er rætt“ – Birtingarmyndir eineltis í framhaldsskólum og líðan þolenda. Uppeldi og menntun, 16(1), 9 – 32.
Börn vilja ræða við fullorðna um einelti. Skýrsla um ráðstefnu umboðsmanns barna um einelti á Hótel Sögu, laugardaginn 17. október 1998. Sótt í nóvember 2013 á http://www.barn.is/barn/upload/files/utgefid_efni/adrar_skyrslur/einelti_kemur_ollum_vid_1999.pdf
Hawkins, D. L., Pepler, D. J. og Craig, W. M. (2001). Naturalistic Observations of Peer Interventions in Bullying. Social Development, 10(4), 512 – 527.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2130.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar